Ótrúlega tilraun til að ræna heimili landsins

Ofangreindar tölur sýna, ef rétt er reiknað, að Fjármálaeftirlit, Seðlabanki Íslands og tveir efnahags- og viðskiptaráðherrar stóðu fyrir ótrúlegri tilraun til að ræna heimili landsins (og fyrirtæki líka).  

Vissulega lækkuðu dómar Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 höfuðstóla lána með gengistryggingu lánin mikið, en hvers vegna þurfti að hækka vexti fyrir 1.1.2008 um 83,2 ma.kr. og aðra 67,6 ma.kr. til viðbótar til 30.9.2008?  

Þetta eru 151,8 ma.kr. umfram það sem lántakar höfðu greitt í samræmi við heimsendar tilkynningar. Hver var tilgangurinn? Að færa "erlendum" kröfuhöfum peninga á silfurfati? 

Marinó G. Njálsson er ekki einhver maður úti í bæ. Hann er einn af helstu sérfræðingum almennings í skuldamálum heimila og eftir nákvæma skoðun skrifaði hann ofangreint á bloggsíðu sína í gær. Þing og ríkisstjórn þurfa að gaumgæfa þessi orð Marinós mjög vel enda kominn tími til að líta á eitthvað annað en stöðu fjármagnsfyrirtækja.

Þó orð Marinós séu hrikalega mætti fólk skoða það sem sagt er í athugasemdunum við pistilinn. Þar tjá margir góðir menn sig og þeirra á meðal er Vilhjálmur Bjarnason. Eftir að hafa rakið hvernig 26 mkr. gengistryggða íbúðalánið hans frá 2005 hefur breyst segir hann:

Núna sjö árum seinna er sami bankinn og lánaði mér umrætt lán orðinn uppvís af því að hafa vitað allan tímann að það var óheimilt að lána með gengisbindingu. Einnig að nokkrum árum eftir að ég tók lánið þá fór bankinn að vinna gegn krónunni sem olli falli hennar og hækkunar verðbólgu sem jók virði lána þeirra sem að sama skapi varð þess valdandi að lánið mitt hækkaði um allt að 150%.

Og þetta:

Þessi sami banki, sem að vísu er búinn að fá að skipta um kennitölu og nafn ásamt því að fá að yfirtaka skuldina mína með allt að 60% afföllum að því skýrslur AGS segja til um, átti svo að fá að rukka mig um lægstu óverðtryggðu vexti seðlabankans alveg frá tökudegi lánsins um mitt ár 2005 þó ég hafi greitt þá gjalddaga samviskusamlega og sé með kvittanir fyrir því.  

Saga Vilhjálms er ekki neitt einsdæmi. Tugþúsundir landsmanna eru staddir í sömu sporum og geta sig ekki hreyft vegna þess að ríkisstjórninn og fjármálastofnanirnar stóla á að almenningur viti ekkert og geri ekkert. Þessar stofnanir tóku hins vegar ekki með í reikninginn að fólki ofbýður og sumir leita til dómstólanna og þá fá þeir skellinn sem eiga hann skilinn.

Hæstiréttur er margsinnis búinn að hirta ríkisstjórn og Alþingi, þjóðin hefur sagt skoðun sína á t.d. Icesave og skoðanakannanir eru allar á einn veg, ríkisstjórnin er fallinn. Engu að síður heldur hún og naumur meirihluti hennar að einhver önnur mál sem mikilvægari en skuldastaða heimilanna. Ríkisstjórnin má reyna að breyta um umræðugrundvöll og taka upp á því allt í einu að spjalla um stjórnarskránna þegar skuldastaða heimilanna og atvinnuleysið er að drepa almenning. 

En rétt eins og og Vilhjálmur Bjarnason segir er fólk búið að fá nóg. Nú þurfa stjórnmálamenn að fara að vinna fyrir kaupinu sínu annars er hætt við að búsáhaldabyltingin verði bara barnaleikur til móts við það sem framundan er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hreinn Sigurðsson

Skjaldborgin lætur ekki að sér hæða. Það var líklega misskilningur hjá almenningi að þegar Jóhanna sagðist vilja slá skjaldborg um heimililin þá héldu allir að hún ætti við að það ætti að verja heimilin. En skjaldborgin byggist á því að aðstoða bankana við að kreista alla peninga útúr heimilunum í landinu, sem mögulegt er að ná af þeim. Þannig að skjaldborgin var til að króa heimilin af en ekki til að verja þau.

Hreinn Sigurðsson, 20.2.2012 kl. 08:23

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir hlýorð í minn garð, Sigurður.

Eitt er í viðbót sem lítið hefur farið fyrir, en ég vakti athygli á í þættinum Í bítið á Bylgjunni:

Frjálsi fjárfestingabankinn var með þrautavarakröfu í máli nr. 604/2010 (þ.e. fyrir ári), þar sem fjallað var um gildi fullnaðarkvittunar, en um það snerist málið núna.  Þeir drógu hana til baka í málflutningi fyrir Hæstarétta og komu þannig veg fyrir þá, að Hæstiréttur fjallaði um málið!  Við hefðum getað fengið þessa niðurstöðu fyrir einu ári eða gagnstæða, en a.m.k. hefði þessum hluta málsins geta lokið þá.

Hann nafni þinn, Sigurður Hr. Sigurðsson, vakti athygli mína á þessu í gær.

Marinó G. Njálsson, 20.2.2012 kl. 08:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband