Bloggfærslur mánaðarins, október 2012
Landafræðinni ábótavant
31.10.2012 | 23:59
Þorljótsstaðafjall er lengst uppi í Vesturdal í Skagafirði. Hann er afar langur og nær að hálendisbrún. Um hann rennur Jökulsá vestari. Annar dalur er austar og nefnist einfaldlega Austurdalur. Um hann rennur Jökulsá austari. Eftir að þessar tvær jökulsár sameinast heitir vatnsfallið eftir það Héraðsvötn.
Það er því rangt að segja að maður sé týndur vestan Héraðsvatna hafi hann farið til rjúpna á Þorljótsstaðafjalli. Nær er að segja að hann sé einhvers staðar á þeim slóðum, jafnvel á milli Eystri- og Vestari-Jökulsáa. Líklega eru um fimmtíu kílómetrar frá Varmahlíð að Þorljótsstöðum.
Mikilvægt er að staðhættir séu réttir í fréttum og engin ástæða til að taka fréttina upp orðrétt frá Landsbjörgu. Oft er landafræðiþekkingunni ábótavant á þeim bænum.
Fjöldi er í viðbragðsstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enn svíkur VG stefnu sína ...
31.10.2012 | 16:02
Stjórnmálin á Íslandi taka á sig æ skemmtilegri mynd eftir því sem á kjörtímabil norrænu velferðarstjórnarinnar líður. Eiginlega er það fyndnasta hvernig Vinstri grænir láta tuska sig til í stjórnarsamstarfinu.
Fyrr voru þeir búnir að svíkja stefnuna í ESB málinu. VG er á kafi í aðlögunarviðræðum og Steingrímur bugtar sig og beygir fyrir kommisörunum í Brussel.
Vinstri grænir, þessi friðarsamtök, samþykktu loftárásir NATÓ á Líbýu. Og Steingrímur kyngir því eins og ekkert sé.
Jú, Vinstri grænir eru á móti Nató, en fyrst málin snúa svona að Vinstri grænum þá er ekkert annað en að samþykkja svokallað loftrýmiseftirlit Finna og Svía hér við land. Og Steingrímur bætir því við að málið sé alls ekki óumdeilt á Íslandi, hann blikkaði norrænu utanríkisráðherrana svo þeir skildu nú ábyggilega tvíræðnina í orðunum.
Og dettur einhverjum í hug að Össur hafi verið lasinn. Nei, hann bjó til gildru og Steingrímur féll umsvifalaust í hana.
Þörf á loftrýmiseftirliti umdeild | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Styðjum áfram starf Landsbjargar
31.10.2012 | 11:35
Landsbjörg stendur fyrir afar mikilvægri starfsemi hér á landi. Innan vébanda hennar eru þúsundir sjálfboðaliða sem hafa byggt upp björgunarsveitirnar í tugi ára og gert þær að því afli sem þær eru. Þetta starf er heildin, miklu mikilvægara en einn einstaklingur.
Þjóðsfélagið hagnast af starfi Landsbjargar og björgunarsveitanna. Án þeirra væri tilveran afar óöruggur, ekki fyrir okkur sem njótum þess að ferðast um landið, heldur allan almenning.
Við eigum að styðja Landsbjörg. Hún er miklu stærri og mikilvægari en einn maður. Látum það ekki bitna á henni þó eitt einstakt mál varpi örlitlum skugga á hana eitt augnablik.
Ábyrg afstaða að slíta á milli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ég styð Óla Björn í suðvesturkjördæmi
31.10.2012 | 10:43
Nú þegar innan við eitt ár er í alþingiskosningar verður Sjálfstæðisflokkurinn að taka upp hanskann fyrir atvinnulífið - ekki fyrir stóru öflugu fyrirtækin - heldur fyrir þau litlu og meðalstóru. Ætli Sjálfstæðisflokkurinn að ná árangri í komandi kosningum og fá umboð til að leiða næstu ríkisstjórn, verður flokkurinn að endurnýja trúnaðarsambandið við þá sem eiga það sameiginlegt að veita þúsundum atvinnu með því að leggja allt sitt undir og hafa rekið fyrirtæki sín af skynsemi. Allt annað gengur gegn hugsjónum Sjálfstæðisflokksins.
Rafmagn til heimabrúks eða útflutnings
31.10.2012 | 10:04
Fyrir Steingrím J. Sigfússon, formann VG og atvinnuvegaráðherra, er það algjörlega hættulaust að skrifa undir einhvern greiðviknissamning við Færeyinga um rafmangsstreng milli landanna. Hann veit sem er að verði af því að Íslendingar geti séð af raforku þá verður hann fyrir löngu kominn úr ríkisstjórn. Og þá getur hann með kjafti og klóm gagnrýna virkjanir og rafmagnssölu út úr landinu enda allir búnir að gleyma þessari undirskrift.
Hins vegar má eflaust skoða þau rök sem eru gegn svona sæstreng og rafmagnssölu til Færeyja. Framar öllu eru orkulindir landsins ekki ótæmandi. Þó nú sé aðeins lítill hluti þeirrar orku virkjaður sem möguleikar eru á þá er ljóst að þjóðin mun aldrei samþykkja fulla nýtingu vegna náttúru- og umhverfisverndarsjónarmiða.
Þó tekjur af rafmagnssölu til Færeyja eða annarra Evrópulanda kunni að vera einhverjar verður að skoða hvort nýting raforkunnar hér innanlands skapi ekki meiri atvinnu og sé í heildina ábatasamari. Raforkuframleiðsla sem slík er ekki mannaflsfrekur iðnaður og ekki heldur sú þjónusta að selja raforku í gegnum sæstreng.
Þjóðin þarf hins vegar að gera það upp við sig hvort raforkan eigi að vera atvinnuskapandi á sama hátt og aðrar auðlindir. Svo geta menn endalaust rökrætt hvort sé gáfulegra að nýta tekur af strengnum til atvinnuuppbyggingar eða lækkunar skatta eða hvort tekjur af rafmagnssölu innanlands geri sama gagn.
Eftir stendur að miðað við núverandi stefnu í orkumálum er vafasamt að næg orka sé til úrflutnings miðað við óbreyttar aðstæður. En það skiptir Steingrím engu máli, hann verður löngu hættur á þingi þegar sæstrengsmálið kemur til álita.
Mikill áhugi á sæstreng milli Íslands og Færeyja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Einstök óheilindi skýra fylgishrun ríkisstjórnarinnar
31.10.2012 | 09:16
Það eru hin einstöku óheilindi, frá fyrsta degi, sem skýra hið mikla fall.
Öllu, stóru sem smáu, var stefnt í átök. Stærsta sameiginlega mál þessarar ríkisstjórnar var, frá fyrsta degi, aðild að Evrópusambandinu. Á því bera þau tvö jafna ábyrgð, þótt ábyrgð Steingríms sé sýnu ógeðfelldari. Það mál er í eðli sínu átakamál. Það hefur verið meira rætt en flest öll önnur í rúma tvo áratugi. Það má og á að vera í umræðu og á dagskrá þjóðmála. Það fer hvergi. En að setja það sem heitasta mál á oddinn í formi aðildarumsóknar án þess að spyrja þjóðina, þegar allt annað er í uppnámi, er ekki aðeins pólitísk glæframennska, það er ótrúleg heimska.
Það dylst fáum lengur að Jóhanna Sigurðardóttir rís ekki undir því að gegna embætti forsætisráðherra í landi. Ekki einu sinni á venjulegum tímum. Og þótt töluvert sé til í því hjá Birni Vali að Steingrímur J. hafi verið hinn raunverulegi forsætisráðherra á tímabilinu bætti það lítið úr skák. Hann hefur vissulega meiri burði en Jóhanna og nokkurt inngrip í allra helstu málaflokka sem ríkisstjórn vélar um, öfugt við Jóhönnu. En hann á það sameiginlegt með Jóhönnu að gangast upp í illindum og gera lítt með þau orð sem hann hefur haft uppi, jafnvel beinhörð loforð og samninga.
Prentun dagblaða er á undanhaldi
30.10.2012 | 15:13
Pappír er á undanhaldi og verður innan nokkurra ára úreltur fyrir dagblöð og tímarit. Netáskrfitir eru það sem koma skal og því fyrr sem útgefendur taka til við að undirbúa lesendur sína undir pappírsleysið þeim mun betra.
Ég er lengi búinn að vera áskrifandi að Morgunblaðinu en hefur í nær tíu ár lesið það eingöngu á netinu. Gæti ekki hugsað mér annað. Fyrir vikið get ég alltaf nálgast blaðið, afhending þess tefst aldrei vegna veðurs og ætti varla að tefjast vegna bilunar í prentsmiðju eða pappírsleysis.
Mér finnst stórkostlegt að lesa um New York Times í frétt Morgunblaðsins, að fleiri áskrifendur séu að netútgáfunni en þeirri prentuðu. Ég veit að þetta er með vilja gert hjá NYT, það er stórblað sem býður upp á vandaðar fréttir. USA Today er hins vegar skyndibiti, fólk kaupir það á hraðferð, les á leiðinni og hendir svo á áfangastað. Þar af leiðandi er ekki markaður fyrir netútgáfuna.
Ég spáði því fyrir nokkrum árum að Morgunblaðið myndi feta sig inn á braut netútgáfuna. Spáin hefur gengið eftir. Nú býður blaðið áskrifendum sínum upp á kjarakaup í iPad og eftir nokkur ár verður meirihluti áskrifendanna kominn á netið nema því aðeins að Mogginn vilji hraða þróuninni og leggja hreinlega niður prentútgáfuna.
Held að innan tíu ára verði prentun á dagblöðum orðin úrelt og tæknin til aflestrar á netúgáfum gjörbreytt frá því sem nú er - auðvitað til hins betra.
Sífellt fleiri lesa blöð á netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtíu þúsund Sjálfstæðismenn
30.10.2012 | 12:34
Ég er einn af fimmtíu þúsund Íslendingum sem skráðir eru í Sjálfstæðisflokkinn og í dag fékk ég bréf frá formanni flokksins. Bjarna Benediktssyni, alþingismanni, mælist vel í bréfi sínu og ég er honum fyllilega sammála. Sérstaklega vil ég benda lesendum mínu á eftirfarandi orð. Þau skýra sig sjálf (feitletranir eru mínar):
Við erum ekki nema rúmlega þrjúhundruð þúsund sem búum í þessu landi og þess vegna eigum við sennilega meira sameiginlegt en flestar þjóðir heims. Hvernig leiðtogar vinstrimanna og sum fylgitungl þeirra hafa fengið það út að sjálfstæðismenn séu öðruvísi en aðrir landsmenn, eigi annarra hagsmuna að gæta og séu best geymdir sem fjærst öllum stjórnunar- og ábyrgðarstöðum er undarlegt, ekki síst í ljósi þess að skráðir flokksmenn eru um fimmtíu þúsund og skoðanakannanir sýna að enn fleiri styðja Sjálfstæðisflokkinn.
Þessir tugir þúsunda sjálfstæðismanna eru tilbúnir að vinna að framfaramálum fyrir íslenskt samfélag. Málum sem treysta lífskjör okkar á ný og tryggja að Ísland sé sá staður þar sem við viljum helst búa börnum okkar heimili. Við fögnum öllum þeim sem vilja vinna að því verkefni með okkur.
Nauðsynleg uppbygging við Skógafoss
30.10.2012 | 08:48
Vel er staðið að uppbygginu við Skógafoss. Tröppurnar upp með fossinum eru til fyrirmyndar og hafa breytt leiðinlegum moldar stígum í góðar og öruggar gönguleiðir. Raskið við uppsetningu á tröppunum var svo til ekkert.
Útsýnispallurinn uppi við fossberann mun koma til með að leysa úr brýnni þörf. Engin þörf verður fyrir flesta ferðamenn að fara lengra. Þessar framkvæmdir eru sveitarfélaginu til mikil sóma.
Hins vegar versnar í málinu þegar ferðamenn ætla að ganga upp á Fimmvörðuháls. Fossaleiðin er stórkostlegt náttúruundur. Þar eru göngustígarnir hins vegar eins og þeir hafa orðið til frá fyrstu tíð, traðkaðir niður í viðkvæman svörðin. Nauðsynlegt er að byggja þá upp víða rétt eins og gert hefur verið upp með Skógafossi. Þar er viðbúið að skemmdir haldi áfram, af ferðamönnum og síðan náttúruöflunum.
Ég er harður andstæðingur glápgjaldsins. Innlendir sem erlendir ferðamenn leggja til gríðarlegt fé í ríkissjóð. Nefnum bara eldsneytisgjald og virðisaukaskatts af vöru og þjónustu. Eflaust eru einhvers staðar til tölur yfir framlegð 560 þúsund erlenda ferðamanna í formi virðisaukaskatts og hið sama vegna ferða innlendra ferðamanna um landið. Þetta skiptir tugum milljaðra.
Það á því ekki að vera neitt tiltökumál fyrir ríkið að leggja til fé úr ríkissjóði til uppbyggingu ferðamannastaða. Stjórnvöld hafa hins vegar aldrei litið á ferðaþjónustuna réttum augum, aðeins einhvers konar hobbíatvinnugrein og um leið litið framhjá skemmdum á landi.
Ég vil vara eindregið við gjaldtöku á ferðamannastöðum. Það mun einfaldlega leiða til þess að ekki verður mögulegt að ferðast um landið, gjösamlega eyðileggja ferðaþjónustu landsmanna. Gjaldtakan verður einfaldlega tekjulind einstakra landeigenda og hætta er á því að uppbygging verði lítil auk þess sem fjölmargir þekktir staðir þurfa einfaldlega ekki á neinni.
Útsýnispallur rís við Skógafoss | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sakramenti ríkisstjórnar og bannfæringin
29.10.2012 | 11:07
Ég held að það sé sjónarsviptir af Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, alþingismanni Samfylkingarinnar og forseta Alþingis, sem hefur ákveðið að bjóða sig ekki aftur fram til þings. Hún hefur vaxið mikið sem forseti þingsins. Virðist vera réttsýn og umhugað um að halda virðingu Alþingis gagnvart frekju ríkisstjórnarinnar.
Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að flokkseigendafélag Samfylkingarinnar, vinstra liðið sem þar hefur ráðið ríkjum frá síðustu kosningum, sé algjörlega á móti Ástu Ragnheiði af því að hún hefur ekki makkað með. Framar öllu er hún forseti þingsins og það fer gríðarlega í taugarnar á þeim telja sig eiga að ráða hvort tveggja, framkvæmdavaldinu og löggjafarvaldinu.
Þetta sást berlega þegar Ólafur Ragnar Gímsson hætti að vera vinstri maður og hóf að vera forseti þjóðarinnar allrar. Um leið og hann tók undir áskoranir um þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave var hann settur út af sakramenti ríkisstjórnarinnar. Ásta Ragnheiður hefur ekki farið að vilja ríkisstjóranarinn og þess vegna er hún líka komin út af sakramentinu þó enn sé hún ekki bannfærð eins og forsetinn.
Hún hefur eflaust fengið tilboð sem hún gat ekki hafnað. Hættu annars verður þú felld.
Ásta ekki í prófkjör í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |