Einstök óheilindi skýra fylgishrun ríkisstjórnarinnar

Það eru hin einstöku óheilindi, frá fyrsta degi, sem skýra hið mikla fall.
 
Í leiðara Morgunblaðsins í morgun er fjallað um fylgishrun ríkisstjórnarflokkanna. Óhætt er að flestir geta tekið undir það sem segir í leiðaranum, ekki aðeins andstæðingar ríkisstjórnarinnar heldur líka fjöldi fyrrum stuðningsmanna hennar. Eftir hrunið hlaut það að vera markmið nýrrar ríkisstjórnar að byggja upp og sætta þjóðina. Það gerðist hins vegar ekki eins og leiðarahöfundur segir svo skýrlega:
 
Öllu, stóru sem smáu, var stefnt í átök. Stærsta sameiginlega mál þessarar ríkisstjórnar var, frá fyrsta degi, aðild að Evrópusambandinu. Á því bera þau tvö jafna ábyrgð, þótt ábyrgð Steingríms sé sýnu ógeðfelldari. Það mál er í eðli sínu átakamál. Það hefur verið meira rætt en flest öll önnur í rúma tvo áratugi. Það má og á að vera í umræðu og á dagskrá þjóðmála. Það fer hvergi. En að setja það sem heitasta mál á oddinn í formi aðildarumsóknar án þess að spyrja þjóðina, þegar allt annað er í uppnámi, er ekki aðeins pólitísk glæframennska, það er ótrúleg heimska. 
 
Þegar litið er yfir farinn veg blöskrar líklega flestum. Það er ekki eins og að stjórn landsins krefjist einhvers annars en almennrar skynsemi, við erum aðeins rétt rúmlega þrjúhundruð þúsund. Nei, látið er eins og þetta séu geimvísindi sem einungis séu á færi örfárra að skilja, annarra að meðtaka í lotningu. Það er nú öðru nær. Kunnáttuleysi, þekkingarleysi og þröngsýni eru einkunnarorð ríkisstjórnarinnar. Í leiðararanum segir um þetta:
 
Það dylst fáum lengur að Jóhanna Sigurðardóttir rís ekki undir því að gegna embætti forsætisráðherra í landi. Ekki einu sinni á venjulegum tímum. Og þótt töluvert sé til í því hjá Birni Vali að Steingrímur J. hafi verið hinn raunverulegi forsætisráðherra á tímabilinu bætti það lítið úr skák. Hann hefur vissulega meiri burði en Jóhanna og nokkurt inngrip í allra helstu málaflokka sem ríkisstjórn vélar um, öfugt við Jóhönnu. En hann á það sameiginlegt með Jóhönnu að gangast upp í illindum og gera lítt með þau orð sem hann hefur haft uppi, jafnvel beinhörð loforð og samninga.
 
Og þegar á allt er litið eru það óheilindin sem standa uppúr. Látum vera illindi og yfirdrepskap meirihluta þingsins gagnvart minnihlutunum. Öllu verra er hvernig þessi meirihluti hefur farið með þjóðina. Hún man vonandi eftir skjaldborginni, norrænu velferðinni, störfunum sem voru alveg að koma, öllu því sem lofað var að væri „í pípunum“. Þetta voru bara orð, innantóm og merkingarlaus og hjálpuðu ekkert. Um það getur hver og einn Íslendingur borið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband