Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011
Lyginni líkast hvað hægt er að gera
30.6.2011 | 11:44
Ríkisendurskoðun tekur fram í skýrslu sinni að hún hafi ekki ástæðu til að ætla að upplýsingum hafi vísvitandi verið leynt í svari forsætisráðherra. Skýringarnar liggi að hluta í mistökum forsætisráðuneytisins og að svörin hafi ekki verið nægilega samræmd. [mbl.is]
Að sjálfsögðu verður Ríkisendurskoðun að taka þetta fram enda líklegast ekkert sem bendir til annars en að þetta séu saklaus mistök.
Þá ber að hafa í huga einbeittur vilji forsætisráðherra og ríkisstjórnar í fjölmörgum málum þar sem reynt er að fela upplýsingar. Enginn ber brigður á þekkingu forsætisráðherrans á stjórnkerfinu. Þar hefur hún verið ein af aðal silkihúfunum síðustu áratugi, með hléum, að vísu. Hún og meðreiðarsveinar hennar kunna sitt fag. Svo vel er hún að sér í því að hún hélt að hún kæmist upp með að ráða alfarið skipun í skrifstofustjóraembætti eigin ráðuneytis. Hún komst upp með að fela hluta launagreiðslna Seðlabankastjóra svo hægt væri að segja að hann væri með lægri laun en hún sjálf.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur langa reynslu í stjórnkerfinu og veit hvað getur truflaðþingið og þjóðina. Það er sko lyginni líkast hvað hægt er að gera.
Vinnubrögð gagnrýnd harkalega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er skipið skakkt eða hallast það?
29.6.2011 | 07:23
Við meðfylgjandi mynd í Morgunblaðinu í morgun er þessi texti: Eflaust hafa margir sem áttu leið hjá Reykjavíkurhöfn í gær velt fyrir sér hví eitt skipanna var svona skakkt!
Og ég spyr, hvernig á að lýsa atvikinu?
Svo ég svari nú sjálfur þá sýnist mér nú skipið frekar hallast en að það sé skakkt. Þó má líklega um það deila. Ef til vill er það skakkt miðað við bryggjuna, sjóinn eða húsin. Þá kemur upp sú spurning hver er rétti mælikvarðin. Má ver að skipið sé í eðlilegri stöðu en allt annað sé skakkt eða hallist ...
Myndin getur þó hæglega verið af skökku skipi og eitthvað annað í höfninni sé hreinlega skakkt, í orðsins fyllstu merkingu.
Tryggvi brást rétt eins og ríkisstjórnin
29.6.2011 | 06:11
Mér er eiginlega orðið fyrirmundað að skilja hvers vegna samflokksmaður minn, Tryggvi Þór Herbertsson, situr á Alþingi. Þetta er maðurinn sem lætur sér sæma að ráðast á önnur sveitarfélög og krefjast breytinga á þeim til að sitt eigið kjördæmi gæti hugsanlega notið góðs af. Þar á ég við þingsályktunartillögu hans og Sigmundar Ernis, Samfylkingarmanns, um færslu á legu þjóðvegar frá Blönduósi. Þeim Bakkabræðrum skiptir engu þó það hafi í för með sér gríðarlegt tekjutap og skaða fyrir Austur-Húnvetninga, hvernig sem á málið er litið.
Og meðvitundarleysi hans er slíkt að hann vaknar upp við spurningu blaðamanns Morgunblaðsins og kennir ríkisstjórninni um að gleymst hafi að framlengja með lögum frest til að taka út séreignasparnað.
Hafi Tryggi hafti einhverja glætu um að við, hinir almennu borgarar, kynnum að geta nýtt okkur áframhaldandi úttekt séreignasparnað lengur en til aprílloka, þá var honum í lófa lagið að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum þar um.
En, nei, hann gleymdi því rétt eins og ríkisstjórnin sem hann kennir svo um og vaknar nú með fjölmiðlakvaki.
Þurfum við á þingmönnum að halda sem eru jafnslakir og ríkisstjórnin sem þeir gagnrýna?
Gleymdu að framlengja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Erfiðleikar Grikkja eru illviðráðanlegir
28.6.2011 | 07:47
Margt hefur verið skrifað, skrafað og fundað um vandamál Grikkja. Bent hefur verið á að mikill munur sé á menningu og viðhorfum þeirra og þjóða norðar í álfiunni. Oftar en ekki eru Þjóðverjar dregnir til samanburðar og bent á hversu skipulagðir og agaðir þeir séu, ekki síst í fjármálum.
Þannig má eflaust stunda mannjöfnuð að reyna að gera lítið úr einum á kostnað annars. Ég dvaldi um tíma á Grikklandi fyrir nokkrum árum og varð dálítið hugsa yfir þjóðarbragnum. Margt heillaði mig en yfir öðru varð ég forviða. Síðan hef ég aflað talsverðra upplýsinga um þjóðina og þjóðarbúskapinn og margt af því er ekki til eftirbreytni. Ég vil þó taka það fram að Grikkir eru stórkostleg þjóð og óvíða hef ég kynnst meiri manngæsku og hlýju en þar í landi.
Ég man sérstaklega eftir umferðarmenningu Grikkja. Mér fannst eins og umferðarreglur væru svona í besta falli einhvers konar viðmiðun en ekki óbreytanlegur fasti eins og við flest álítum. Ef til vill er þetta viðhorf skýringin á hrakförum grísku þjóðarskútunnar.
Þetta leiðir hugann að því hvers vegna Grikkjum veitist erfitt að komast úr efnahagslegum þrengingum og hvers vegna skuldastaðan er svona mikil. Mér skilst um áratugi hafi tíðkast að falsa ríkisreikningana svo þeir líti betur út fyrir Evrópusambandið. Lítið hafi verið gert úr skuldastöðu ríkisins fyrr en allt var komið í bál og brand.
Nú er þess krafist að Grikkir vendi um og taki á sínum málum. Rætt hefur verið um skattahækkanir, hækkanir á virðisaukaskatti, vaxtahækkun og fleira.
Borin von er að þetta skili sama árangri og í norðurhluta Evrópu. Staðreyndin er sú að það tíðkast almennt ekki að greiða skatta á Grikklandi. Aðeins lítill hluti þjóðararinnar greiðir skatta. Virðisaukaskattkerfið er vanþróað, gríðarlegur fjöldi fyrirtækja greiðir ekki skatt.
Það vantar þó ekki að Grikkir eru duglegir. Út um allt eru litlar verslanir, hótel og veitingastaðir, flest allt lítil fjölskyldufyrirtæki, sem greiða engan virðisaukaskatt af starfseminni og komast auðveldlega upp með það.
Einna helst er að vaxtahækkanir muni skila árangri en það þýðir einfaldlega hið sama og hér á landi. Markaðsverð eigna, ekki síst íbúða, hefur hrunið í Grikklandi eins og víða annars staðar og vaxtahækkun eykur aðeins á þann klafa sem hinn almenni húseigandi á við að etja.
Þegar upp er staðið og litið framhjá staðbundnum aðstæðum í hverju landi kemur í ljós að ástæðan fyrir erfiðleikum er óráðsía banka og fjármálastofnana, ótrúleg fjárráð þeirra hafa valdið offjárfestingu í húsbyggingingum af ýmsu tagi og við það hafa markaðir hrunið.
Sama er með framúrkeyrslu ríkissjóðs Grikklands sem og fjölmargra landa. Skuldastaða þeirra er afar slæm og vermæltasköpunin lítil sem engin og hagvöxtur hefur stöðvast.
Og nú er ætlunin hjá ESB að láta skattheimtuna draga vagninn, koma í veg fyrir tap fjármálastofnana sem voru fyrir hrun óhræddar að lána til fjölmargra ríkja sem raunar átti fyrir í miklum erfiðleikum.
Ekki aðeins eiga Grikkland, Ítalía, Spánn, Portúgal, Írland og Belgía í vanda. Bandaríki Norður Ameríku hafa lengi átt í sama vanda en hafa getað rúllað honum á undan sér vegna stærðar sinnar.
Margir sérfræðingar eru á þeirri skoðun að annað hrun sé yfirvofandi. Evrusvæðið eigi t.d. ekki neinn möguleika til framtíðar vegna þess hversu ólík ríki ESB eru innbyrðis og samræmdar kröfur til innri fjármála veikar. Svo bætist þar ofaná vandi ESB sem ríkjasambands, en það er önnur saga.
Grikkland stöðvast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fór fjármálaráðherra með ósannindi um samgöngumál?
28.6.2011 | 07:03
Hinir mörkuðu tekjustofnar Vegagerðarinnar duga ekki til að standa undir þeim samgönguframkvæmdum sem hér hafa verið undanfarin ár. Við höfum þurft að millifæra peninga úr almennum skatttekjum ríkisins yfir í samgöngumálin vegna þess að mörkuðu tekjustofnarnir hrökkva ekki til.
FÍB bendir á að hið rétta sé að ríkissjóður muni hafa hátt í 50 milljarða króna í tekjur af umferð á þessu ári en aðeins 16 milljarðar fari til Vegagerðarinnar og þar af aðeins 6 milljarðar til nýframkvæmda. Afgangurinn fari í almenn útgjöld ríkissjóðs.FÍB bendir einnig á að þvert á fullyrðingar fjármálaráðherra hafi tekjur ríkisins af samgöngum ekkert hækkað þrátt fyrir hækkun skatta. Afleiðingarnar hafi verið minnkandi umferð og þar með minnkandi tekjur.Þeir sem hafa slæman málstað að verja grípa einatt til ósannindanna. Þetta er vafalítið helsta ástæða þess að ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru svo oft staðnir að ósannindum.Getur nokkuð annað en slæmur málstaður skýrt það að fjármálaráðherra reynir ítrekað að afvegaleiða umræðuna um skatta á bifreiðaeigendur?
- Fjármálaráðherra hefur tileinkað sér stofnanamál og gerist loðinn í málflutningi sínum og illskiljanlegur, líklega til að afvegaleiða umræðuna eins og segir í Staksteinum.
- Ekki er hægt að ráða öðru vísi í orð fjármálaráðherra en að tekjur af sköttum og tollum af eldsneyti og bílum séu svo litlar að grípa hafi þurft til að millifæra skatttekjur af öðrum stofnum, s.s. virðisaukaskatti til Vegagerðar.
Sögulegt að þjóðin er á móti inngöngu í ESB
27.6.2011 | 14:20
Upphaf formlegra aðildarviðræðna um inngöngu þjóðarinnar í Evrópusambandið er vissulega söguleg, ekki skal dregið úr því. Margt annað telst vera sögulegt. Nefna má eftirfarandi:
- Mikill meirihluti þjóðarinnar er á móti inngöngu í sambandi.
- Mikill meirihluti Alþingis er á móti inngöngu í sambandið.
- Evrópusambandið mun veita þjóðinni tímabundna aðlögun að sjávarútvegsstefnu sinni, ath. aðeins tímabundna.
- Framtíðarvanda íslensks sjávarútvegs verður reynt að laga með styrkjum frá sambandinu. Sjálfbær útgerð og fiskvinnsla á landinu mun leggjast af.
- Sambandið mun gera kröfu til afnáms tolla á landbúnaðarafurðum fra ESB sem mun gera útaf við landbúnað þjóðarinnar.
- Sambandi mun reyna að laga stöðu islensks landbúnaðar með styrkjum, sem einfaldlega þýðir að fæðuöryggi þjóðarinnar verður stefnt í voða.
Söguleg stund er þetta vissulega. Hitt hefðu þó verið skynsamlegra að þjóðin hefði í upphafi fengið að taka afstöðu til umsóknarinnar. Hefði hún hafnað henni hefði mátt spara mikið fé. Hefði hún samþykkt hana ætti hún eftir að taka afstöðu til niðurstöðva aðildarviðræðnanna. Þessa tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðslu lagði Sjálfstæðisflokkurinn mikla áherslu á en ríkisstjórnarflokkarnir höfnuðu. Þeir bera því ábyrgð á stöðu mála í dag.
Hafði þjóðin ekki nóg að gera við það fé sem lagt hefur verið í undirbúning aðildarviðræðnanna síðustu tvö árin?
Söguleg stund fyrir Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sparkað í Hannes Hólmstein
25.6.2011 | 07:55
Það er þekkt trikk úr gömlu bíómyndunum að þegar hetjan mætir á svæðið þá klappar hún hundinum en þegar skúrkurinn mætir á svæðið þá sparkar hann í hundinn. Þá veit áhorfandinn strax hver er góði maðurinn. Sú tilhneiging hefur skapast á Íslandi að listamenn þurfi að byrja á því að sparka í hundinn Hannes Hólmstein Gissurarson til að hægt sé að hlusta á þá. Einar Már gerir það samviskusamlega áður en hann fer af stað með skemmtilega orðræðu sína.Bók hans er skemmtileg aflestrar, þegar verst lætur verður þetta hálfgert röfl og blaður en þegar best lætur er þetta leiftrandi skemmtilegt.
Tómas, ég er viss um, að þú yrðir ekki í neinum vandræðum með að þrauka án söngs, en hvað myndirðu gera, ef þú þyrftir að velja á milli víns og kvenna? Tómas læddi þá svari út úr sér: Ég hygg, að um hvort tveggja færi það nokkuð eftir árgöngum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frábær árangur Boltafélagsins og Bolvíkinga
24.6.2011 | 07:29
Góður árangur íþróttaliða á landsbyggðinni hefur gríðarleg áhrif fyrir viðkomandi byggðarlag. Ekki aðeins að hann er bein hvatning til ungmenna að stunda íþróttir heldur eykst samheldni og samkennd meðal íbúanna. Að auki er árangurinn gríðarleg auglýsing fyrir byggðarlagið.
Alkunna er að Vestfirðingar hafa átt í margvíslegum vanda. Það hefur ekki beinlínis verið þeim góð auglýsing að vegakerfið var slæmt, kvótinn fluttist í burtu, íbúum fækkaði og svo má lengi telja. Þetta er það sem birtist öðrum landsmönnum og gefur slæma mynd af Vestfjörðum, vont PR ef svo má orða það. Þessi mynd er þó skökk og skæld og alls ekki raunveruleikinn. Hann er allt annar.
Rétt eins og víðast á landinu býr gott og duglegt fólk á Vestfjörðum, það sinni sínum störfum af alúð og dugnaði, börnin ganga í skóla, heilbrigðisþjónustan er góð, verslanir fínar og menningin er í raun miklu meiri en íbúar á suðvesturhorninu geta ímyndað sér. Og það sem meira er þátttaka almennings er miklu meiri.
Skellur sá sem knattspyrnulið Breiðabliks varð fyrir á Ísafirði er engin tilviljun. Knattspyrnulið BÍ/Bolungarvíkur er skipað hörkunöglum sem gefa ekkert eftir. Og leikgleðin er í fyrirrúmi. Þessi sigur á Íslandsmeisturunum er miklu meiri en einfladur sigur í knattspyrnu. Hann er miklu meiri og ber þess vitni að mannlíf og menning á Ísafirði og Bolungarvík blómstrar og mikil ástæða til að óska íþróttamönnum og íbúum til hamingju með árangurinn.
Erum frekar hátt uppi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Borgarstjórnarmeirihlutinn enn í rusli
24.6.2011 | 07:17
Bestiflokkurinn og Samfylkingin í borgarstjórn Reykjavíkur hafa hrakist með hvert málið á fætur öðru út í horn þar sem þeir hafa ýmist orðið að aðhlátursefni eða veri harkalega gagnrýndir fyrir slæma stjórn. Sorpreglurnar eru eitt dæmið. Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur enn ekki komið þeim í framkvæmd og núna síðast telur borgarlögmaður kostnaðarútreiknnga ekki uppfylla kröfur sem gera verður til rökstuðnings fyrir þjónustugjaldi.
Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur bent á að borginni sé skylt að sækja heimilissúrgang og það sé brot á jafnréttisreglu að krefjast hærra gjalds fyrir það. Að vísu er lögmaður borgarinnar ekki sammála. Má þá örugglega búast við því að einhver borgarbúi stefni borginni fyrir dóm vegna málsins.
Marta hefur lagt fram nokkra athyglisverð rök í málinu. Í frétt Morgunblaðsins í morgun segir:
Það eru vankantar á þessum verklagsreglum og það hefur verið mikill vandræðagangur í kringum þetta mál. Gildistöku reglnanna hefur verið frestað nokkrum sinnum, segir Marta Guðjónsdóttir. Reglurnar séu illa ígrundaðar og óvíst sé hvaða hagræðing náist. Marta segist ítekað hafa beðið um kostnaðartölur við breytingarnar. Hvað kosti til dæmis að mæla vegalengdina að öllum sorptunnum í Reykjavík. Engin svör hafi þó borist þess efnis.
Illa ígrundaðar sorpreglur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Óskiljanlegur forstjóri og Bestiflokkur
23.6.2011 | 15:21
Ótrúlegt er hversu borgarfulltrúar og embættismenn sem ráðnir eru af Bestaflokknum og meðreiðarliði þeirra úr svokallaðri Samfylkingu geta verið undarlegir í orðavali. Skilur einhver hvað forstjóri OR er að fara með þessum orðum:
Vel rekið fyrirtæki nýti vissulega hátæknilausnir, en það sé ekki sami hlutur. OR sé ekki fjárfestingarfélag í verkefnum erlendis, ekki háskóli, ráðgjafarstofa í verkfræði og jarðvísindum og ekki valdastofnun. Sagði hann að höfuðstöðvar Orkuveitunnar að Bæjarhálsi 1 andi frá sér völdum og gæti allt eins verið húsnæði ráðherranefndarinnar í Brussel.
Gæti verið að tveir áðurnefndir stjórnmálaflokkar hafi misskilið verkefni Orkuveitunnar og forstjórinn sé núna að leiðétta stefnuna? Ef ekki þá er þetta óskiljanlegur orðavaðall.
Í morgun birtist á mbl.is yfirlýsing vegna hörmulegs gengis Bestaflokksins í skoðanakönnunum. Í henni segir:
Þá verður að segjast að stundum líður Besta flokknum eins og foreldri sem var að fá unglinginn sinn heim eftir langa dvöl hjá ömmu og afa. Þótt amma og afi séu ágætis fólk hafa þau leyft unglingnum að ráða dálítið ferðinni og lítið verið um boð og bönn. Á eftir þannig dvöl tekur því við tímabil þar sem foreldrið þarf að setja skorður og taka óvinsælar ákvarðanir. En það er allt í lagi, enda veit ábyrgt foreldri að uppeldið snýst ekki bara um vinsældir.
Ekki er nú þessi skáldskapur skiljanlegri en sá frá forstjóra OR. Eiginlega er bara kominn tími til að venjulegt fólk taki við forystu borgarinnar, fólk sem tali skiljanlegt mál og láti efndir fylgja loforðum. Bestiflokkurinn er greinilega í einhvers konar vímu og þyrfti því að komast í meðferð annars staðar en hjá Reykjavíkurborg. Tilraunastarfsemi hans ætti að vera lokið og borgarfulltrúar flokksins að koma sér þangað aftur sem þeir voru fyrir síðustu kosningar.
Húsið andar frá sér völdum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |