Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011
Umboðsmaður aðhlátursefna
8.11.2011 | 15:49
Til álita að skipa talsmann þeirra sem sætt hafa hlerunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Allt í góðu en hvers vegna viljum við í ESB?
8.11.2011 | 15:19
Utanríkisráðherra er hinn vænsti maður og stendur vel í aðlögunarviðræðunum. Hann hefur áreiðanlega rétt fyrir sér:
- Aldrei hefur verið betri tími til samningaviðræna en núna.
- Samningatæknilega er gott að ástunda aðlögunarviðræður.
- Samningarnir eru pólitískt heilbrigðisvottorð fyrir ESB.
- Góður gangurinn í viðræðunum við ESB kaflaskiptur.
- Viðræðuferlið er lausnarmiðað.
- ESB sýnir Íslandi mikinn skilning meðan á viðræðunum stendur.
Ég skil þetta allt saman og fagna jákvæðu ferli, en mér er það enn hulin ráðgáta hvers vegna við höfum sótt um aðilda að ESB ...
Aldrei betra að semja við ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hávaði og læti í óróamælingum við Mýrdalsjökul
8.11.2011 | 11:22
Þó smáhögg verði í Kötluöskjunni telst það ekki til tíðinda - og þó. Til lengri tíma litið er þessi jarðskjálfti hluti af einhverju ferli sem jarðfræðingar skilja ekki enn til hlítar.
Í bloggi sínu bendir Ómar Ragnarsson á að óróamælingar á mæli Við Álftagróf, sunnan við Mýrdalsjökul, hafi verið stöðugri en oft áður og ekkert fallið niður úr efstu mörkum, eins og hann hefur verið gert líkt og í ölduhreyfingu síðan í sumar..
En Ómar segist ekki vera sérfræðingur og ég er það ekki heldur. En sá þarf ekki að vera sérfræðingur í bílaviðgerðum sem getur með því að hlusta á bílvélina ganga bent á að eitthvað sé að.
Jarðskjálftinn sem varð Kötlu í morgun rétt fyrir klukkan tíu var 3 á Richter og mældist skv. töflu Veðurstofunnar á 0,1 km dýpi. Sé mælingin rétt verða upptök skjálfta varla mikið grynnri.
Álftargrófarmælinguna má sjá hérna á annarri myndinni. Vandamálið er að kunna að lesa úr þessum hávaða. Best er að vísa á blogg Haraldar Sigurðssonar, jarðfræðings, sem óhikað tjáir sig á mannamáli um það sem almenningi er hulið í jarðfræði.
Allt í kringum Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul eru margvísleg mælitæki og sum þeirra mæla óróann.
Skammt vestan við Goðabungu í Mýrdalsjökli er mæling á óróanum og hér er mynd af henni.
Mælingin er eflaust talsvert nær Kötlu og þarna er gríðarlegu hávaði.
Sé farið norðan við Mýrdalsjökul verður fyrir okkur græjur á Slysaöldu, á norðanverðum Mýrdalssandi.
Þar er annað hljóð í strokknum en ýmislegt bendir þó til að hún mæli sömu óhljóð þó lengra sé í Kötluöskjuna.
Berum nú saman mælingu þar sem augljóst er að lítið er að gerast neðanjarðar. Neðst er mælingin frá Fagurhólsmýri. Þar virðist allt vera með ró og spekt. Það er hins vegar ekki raunin nokkru norðar því hávaðinn í Grímsvötnum er líkastur því sem er við Goðabungu.
Í sannleika sagt held ég að fólk geti verið rólegt. Ekki mun gjósa á næstunni í Kötlu, örugglega ekki fyrr en 18. nóvember. Eða eins og jarðfræðingarnir segja. Við skulum búa okkur undir tíðindi þegar ítrekað verða jarðskjálftar af stærðinni 3,5 til 4,5.
Harður jarðskjálfti í Kötlu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bjarn vantar eldmóð og andríki
8.11.2011 | 09:49
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er líklega ekki fæddur leiðtogi. Til þess vantar hann eldmóð og andríki. Hann heillar ekki marga nema nánasta samstarfsfólk og líklega er það nóg. Á móti kemur að hann er iðinn, skynsamur, á frekar auðvelt með að greina aðalatriðin í hverju máli. Þetta eru eiginleikar sem vissulega skipta máli.
Hann skrifar grein í Moggann í dag. Hefði ekki fylgt mynd og nafn hefði ég aðeins lesið upphafið, hætt svo. Greinin er einfaldlega leiðinleg - sorrí. Hún er rétt eins og allir stjórnmálamenn skrifa.
Bjarna þarf að geta sleppt fram af sér beislinu í greinaskrifum og ræðumennsku. Hann á að segja skoðun sína umbúðalaust, skrifa stuttar greinar, en skrifa oft. Í ljósi greinarinnar á Bjarni einfaldlega að segja þetta:
Ég ætla að leggja alla áherslu á þetta næstu tvö árin og ég uni mér ekki hvíldar fyrr en ég næ þessum baráttumálum fram:
- Bæta hag heimilanna
- Koma atvinnulífinu í gang
- Útrýma atvinnuleysi
- Leggja niður verðtryggingu lána
- Auka fjárfestingar
- Auka verðmætasköpun
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Svört atvinnustarfsemi er afleiðing ekki orsök
7.11.2011 | 09:24
Hvað er athugunarvert við svarta atvinnustarfsemi? Ekkert, segi ég. Alls ekkert miðað við ástandið í þjóðfélaginu. Ástæða er til að hvetja sem flesta sem hafa ekkert annað til að reyna að hafa framfæri sitt af tekjum sem ekki eru gefnar upp.
Gerum okkur grein fyrir þeirri staðreynd að um 12.000 manns eru atvinnulausir á landinu. Þessi tala á aðeins við um þá sem eru skráðir atvinnulausir. Fyrir fjölda fólks er tilgangslaust að skrá sig á atvinnuleysisskrá, það fengi aldrei neinar bætur.
Gerir fólk sér grein fyrir fyrir því hversu mikil kvöl það er að hafa ekki vinnu, geta ekki framfleytt sér og fjölskyldu sinni, greitt afborganir af húsnæðislánum, geta veitt sér smáræði eins og að fara í leikhús eða bíó eða jafnvel fara stöku sinnum út að borða, keypt afmælisgjafir ...
Áður en fólk fordæmir svarta atvinnustarfsemi þarf að skoða þær aðstæður sem skapa hana. Nefnum nokkrar sem sérstaklega takmarka fjárhagslegt sjálfstæði fólks:
- Atvinnuleysi, langtíma
- Háir skattar
- Vextir, verðtryggingin
- Verðbólga
Munum að ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að draga úr atvinuleysi en segir sífellt að fjöldi starfa sé í pípunum. Skattar hafa verið hækkaðir upp úr öllu valdi, stýrivextir hækka og verðbólgan eykst.
Veit enginn að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er röng og þess vegna hefur hún engin tök á aðstæðum. Sú stefna sem byggir á öðru en atvinnuuppbyggingu er gagnslaus. Þjóðin þarf á aukinni verðmæltasköpun að halda, erlendum fjárfestingum, fjárfestingum innlendra aðila, stórauknum útflutningi. Þannig verður hagvöxtur og hann er hverri sjálfstæðri þjóð nauðsynlegur.
Á meðan ástandið er svo slæmt sem raun ber vitni verður til svört atvinnustarfsemi. Fólk gerir allt til að bjarga sér og sínum. Svo grætur skattrannsóknastjóri og kvartar undar undanskotum frá skatti og fjármálaráðherra bætir við eftirlitsmönnum (sem líklega er atvinnuskapandi ef út í það er farið). Líklega finnst þessum herramönnum skárra að fólk svelti en hafi einhverjar svartar tekjur. Og svo hefst gamli sálmasöngurinn um samfélag, samneyslu og allt þetta. Munum bara að svört atvinnustarfsemi er afleiðing af efnahagsástandinu, hún olli því ekki.
Steve Jobs var stórundarlegur maður
2.11.2011 | 10:27
Steve Jobs, stofnandi Apple fyrirtækisins í Bandaríkjunum, var furðulegur náungi, eiginlega nálægt því að vera geðbilaður. Ég er að lesa ævisögu Jobs sem kom úr fyrir nokkrum vikum og er eftir Walter Isaakson. Frábær bók, afskaplega vel skrifuð og fróðleg þó ekki sé hún gallalaus.
Ég er nú ekki búinn með nema tæplega helminginn af um sex hundruð blaðsíðum. Líklega er það góð regla að tjá sig ekki um bækur fyrr en að lestri loknum. Mér er þó dálítið niðri fyrir enda upplýsir bókin margt um Apple fyrirtækið og Steve Jobs sem mér var að minnsta kosti hulið. Eiginlega er ég furðu lostinn yfir manninum.
Jobs óskaði eftir því að Isaakson skrifaði ævisögu sína. Hann fékk til þess frjálsar hendur, var ekki bundinn af neinni ritskoðun, skrifaði söguna eftir því sem honum sýndist réttast. Bókin byggist á viðtölum við fjölda fólks. Farið er í ofan í fjölmörg álitamál og sitt sýnist hverjum eins og gengur.
Eftir því sem liðið hefur á lesturinn hefur andúð mín á Steve Jobs farið vaxandi. Þetta á fyrst og fremst við árin fram að brottrekstri hans úr Apple árið 1985. Lengra er ég nú ekki kominn.
Steve Jobs er afskaplega snjall, er alinn upp í þeirri trú að hann sé einstakur. Hann var ættleiddur, vissi snemma af því, en uppeldisforeldrar hans veittu honum mikla umhyggju og reyndust honum afskaplega vel. Alla tíð bjó hann að sýn föður síns, sem hafði auga fyrir því listræna, gera hlutina vel og helst fullkomna.
Ásamt vini sínum, hinum feimna og hlédræga Stephen Wozniak stofnaði hann Apple fyrirtækið. Strax náði það flugi og var það ekki síst að þakka Wozniak sem var snillingur í raftækjum. Allt gengur svo vel. Þeir framleiða Apple I, Apple II, Apple Lisa og svo loks kom Macintosh. Þetta er allt kunnugt en hitt vita ekki allir hvernig stjórnandi Steve Jobs var.
Hann skipti fólki í tvo hópa, A fólk og B fólk. Hinir fyrrnefndu voru í lagi en hinir áttu ekkert gott skilið og hann sagði það fullum fetum. Kallaði þá sem hann líkaði ekki við ónefnum, átti það til að segja hugmyndir annara vera lélegar (shit). Gerði góðar hugmyndir að sínum og skipti engu máli þó starfsmenn hans hefðu átt þær upphaflega. Svo átti hann það til að flytja menn úr A flokki í B flokk og öfugt, allt eftir skaplyndi hans hverju sinni.
Svo var komið á árinu 1985 að vegna Steve Jobs var orðið óvinnandi í fyrirtækinu. Framkoma mannsins var slík að hún braut niður móral, hrakti gott fólk í burtu og salan datt niður úr öllu valdi.
Og þar er ég kominn í sögunni að 17. september 1985 sendir Steve Jobs kveðjubréf til stjórnar Apple og er í þann mund að stofna sitt eigi fyrirtæki. Þetta gerist eftir gríðarlegt uppgjör milli manna þar sem allir sem einn í stjórninni vísa honum á brott og taka afstöðu með John Scully, sem forstjóra.
Á þessum tíma var ég í markaðsnámi í Noregi. Þar, eins og í öllum háskólum í viðskiptafræðum, var lögð afskaplega mikil áhersla á uppbyggilega stjórnun. Stefan var og er raunar enn að flytja ábyrgð til starfsmanna í stað þess að skipa fyrir frá toppi og niður pýramítann. Raunar er gengið svo langt að þessi alþekkti pýramíti er flattur út, skipulagið gert lárétt og boðleiðir styttar.
Um þetta vissi Steve Jobs ekkert á þessum tíma heldur ógnaði fólk, kallaði það vitleysinga, niðurlægði það fyrir framan fjölda fólks, skipti sífellt um skoðun, hljóp úr einu í annað og olli ringulreið innan Apple. Líklegast á Steve Jobs stóran hluta í því hversu markaðshlutdeild Apple varð lítil og Microsoft tók yfir tölvumarkaðinn. Snilli mannsins fór fyrir lítið miðað við hegðun hans.
Æpir á mann eins og tyggjóklessa
1.11.2011 | 15:09
Eitt af því leiðinlegasta sem ég sé á prenti er ofnotkun á þriðju persónufornafni í nefnifalli, eintölu. Orðið það er oft einhvers konar yfirskilvitleg vera sem enginn þekkir, skilur né kann einhver deili á. Samt vofir það yfir í alls kyns dulargerfum og þykist vera allt og ekkert.
Þeir sem eru lítið vanir skriftum eða hafa engan tilfinningu fyrir stíl nota þetta orð sem einhvers konar hækju sem þeir styðjast endalaust við.
Það er bannað að njóta listar í dag, sagði í fyrirsögn á visir.is í dag. Hún æpti á mann eins og tyggjóklessa sem þykist vera listaverk svo dæmi sé tekið í samræmi við efni fréttarinnar. Ég spurði mig hvað þetta það væri sem fyrirsögnin byrjar á. Svarið er borðliggjandi: Draugur sem birtist aðeins vakandi fólki í draumi.
Fyrirsagnir eiga skilið að vera betri en ljót klessa. Hefði nú ekki verið betra að umorða fyrirsögnina og segja: Í dag er bannað að njóta listar?
Það mun örugglega rigna ofan í sjókomuna, sagði annar. Það er nú það, sagði maðurinn íbygginn. Það er ekkert að marka ykkur, sagði sá þriðji.
Þannig er talmálið og við því er ekkert að segja þó ákaflega auðvelt hefði verið að orða þessi ummæli á annan hátt.
Hins vegar er alveg ómögulegt að láta leti eða hugmyndaskort skemma góða sögu eða fína frétt með hækjuorðbragði í stað þess að gefa sér tíma til að velja orðin og finna þeim réttan stað.
Svo má endalaust deila um aðgerðir Bandalags íslenskra listamanna. Er listin aðeins listamanna eða erum við hinir ekki líka dálitlir listamenn. Í það minnsta finnst mér mikil list að nota aðeins tvisvar persónufornafn í hvorugkyni, nefnifalli eintölu utan tilvitnunarmerkja í stuttri grein - þó það sé ekkert markmið í sjálfu sér.