Æpir á mann eins og tyggjóklessa

aa #9BF7E2

Eitt af því leiðinlegasta sem ég sé á prenti er ofnotkun á þriðju persónufornafni í nefnifalli, eintölu. Orðið „það“ er oft einhvers konar yfirskilvitleg vera sem enginn þekkir, skilur né kann einhver deili á. Samt vofir „það“ yfir í alls kyns dulargerfum og þykist vera allt og ekkert.

Þeir sem eru lítið vanir skriftum eða hafa engan tilfinningu fyrir stíl nota þetta orð sem einhvers konar hækju sem þeir styðjast endalaust við.

Það er bannað að njóta listar í dag“, sagði í fyrirsögn á visir.is í dag. Hún æpti á mann eins og tyggjóklessa sem þykist vera listaverk svo dæmi sé tekið í samræmi við efni fréttarinnar. Ég spurði mig hvað þetta „það“ væri sem fyrirsögnin byrjar á. Svarið er borðliggjandi: Draugur sem birtist aðeins vakandi fólki í draumi.

Fyrirsagnir eiga skilið að vera betri en ljót klessa. Hefði nú ekki verið betra að umorða fyrirsögnina og segja: „Í dag er bannað að njóta listar“?

„Það mun örugglega rigna ofan í sjókomuna,“ sagði annar. „Það er nú það,“ sagði maðurinn íbygginn. „Það er ekkert að marka ykkur,“ sagði sá þriðji.

Þannig er talmálið og við því er ekkert að segja þó ákaflega auðvelt hefði verið að orða þessi ummæli á annan hátt.

Hins vegar er alveg ómögulegt að láta leti eða hugmyndaskort skemma góða sögu eða fína frétt með hækjuorðbragði í stað þess að gefa sér tíma til  að velja orðin og finna þeim réttan stað. 

Svo má endalaust deila um aðgerðir Bandalags íslenskra listamanna. Er listin aðeins listamanna eða erum við hinir ekki líka dálitlir listamenn. Í það minnsta finnst mér mikil list að nota aðeins tvisvar persónufornafn í hvorugkyni, nefnifalli eintölu utan tilvitnunarmerkja í stuttri grein - þó það sé ekkert markmið í sjálfu sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

ÞAÐ er fullseint að agnúast út í "það", sem er viðurkennt sem aukafrumlag (eða jafnvel aukaandlag) í íslensku máli, bæði rituðu og töluðu. Sambærilega ósvinnu má finna í öðrum tungumálum. :)

Kolbrún Hilmars, 1.11.2011 kl. 16:04

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Var ekki viðstaddur þegar aukafrumlagið var viðurkennt ... En í alvöru, ekki misskilja mig, Kolbrún. Í góðum texta má yfirleitt skýra tjáningu sem byggir hugsun en ekki hækju.

Eða: Það sem einkennir góðan texta er að það má finna þar skýra tjáningu ...

Ekki málfræði heldur stíll.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 1.11.2011 kl. 16:11

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Einmitt, Sigurður, ekki má gleyma fagurfræðinni.

En skáldin nota einmitt oft þennan ritstíl, sbr. Tómas:

"Það kvað vera fallegt í Kína..." sem upphafsorð í ljóðinu "Í vesturbænum", og var hann nú vel (skálda)máli farinn.

Samt held ég að fólk noti oft "það" sem aukafrumlag til þess að losna við hinn ennþá leiðinlegri stíl, sem er að ofnota eiginfornafnið "ég".

Kolbrún Hilmars, 1.11.2011 kl. 16:25

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Held að það sé mikið til í þessu hjá þér, Kolbrún. Eiginlega er ekkert að þessu orði, ofnotkunin veldur hins vegar gengisfalli í fagurfræðinni ...

Ef hann Sigurður Elíasson hefði nú ort svona:

Það tifar lækur létt um máða steina

lítil fjóla grær við skriðufót ...

Eða Davíð Stefánsson:

Það vildi ég að væri (Ég vildi að ég væri)

vín á þinni könnu ...

Skáldin kunna stílinn og gæta hófs ... (déskoti er þetta nú vel sagt).

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 1.11.2011 kl. 16:38

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Já, þetta var bara þó nokkuð vel sagt :)

Skáldin kunna yfirleitt bragfræðina sína og nota "það" aðeins þegar og ef þörf krefur formsins vegna.

Svolítið erfiðara að sniðganga "það" í daglegu lífi.

Kolbrún Hilmars, 1.11.2011 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband