Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

17 reglur við val á fólki á stjórnlagaþing

Mörgum óbreyttum kjósandanum fallast hendur þegar velja þarf á milli 523 ágætlegra hæfra manna sem vilja inn á stjórnlagaþing. Þetta er þó minna vandamál en virðist. Hér er pottþétt aðferð til að velja á milli manna.

Gott er að afrita listann, líma hann inn á Excelskjal og þá er hægt að raða honum eftir þeim dálkum sem í boði er. 

Svona ætla ég að gera:

  1. Velj þann sem ég þekki persónulega og treysti
  2. Velja einn af hverri stétt
  3. Raða öllum frambjóðendum eftir starfsheiti
  4. Ekki velja fólk eftir útliti og alls ekki eftir því hveru vel þeir eru máli farnir.
  5. Sleppa öllum þrasstéttum, t.d. blaðamönnum, ritstjórum, stjórnmálafræðingum, fjölmiðlamönnum og -fræðingum og prestum. Að öðrum kosti endum við með lið sem hefur óskaplega mikla æfingu í að segja frá engu í löngu máli.
  6. Sleppa öllum sem titla sig forstjóra.
  7. Sleppa öllum sem eru háttsettir embættismenn, t.d. forstjóra Vinnumálstofnunar, talsmanni neytenda, þeir hafa nóg að gera, ef ekki þá eiga þeir að fá sér annað starf.
  8. Sleppa þeim sem eru með mörg starfsheiti. Þeir eru líklega að reyna að fleyta sér áfram á vafasömum forsendum
  9. Sleppa þeim sem eru með löng starfsheiti, þau eru bara til vandræða. Eitt starfsheiti er meira en nóg sama á við menntun. Sá sem er með mikla menntun er bara til óþurftar, veit ekkert hvað hann vill.
  10. Sleppa öllum nemendum, þeir hafa ekki næga reynslu eða þekking, þess vegna eru þeir í námi.
  11. Sleppum leikurum eða leikstjórum, hinir fyrrnefndu hafa aðeins reynslu af því að segja það sem aðrir hugsa og þeir síðarnefndu hafa aðeins reynslu af því að segja öðrum að haga eins og allt aðrir.
  12. Engir nafnar mega vera í úrvalinu, velja þarf á milli þeirra sem bera sama fornafn. Allt annað veldur ruglingi.
  13. Velja alla sem eru með fyrrverandi (fv.) í starfsheiti. Þetta eru yfirleitt fólk sem hefur mikla og góða reynslu. Þessi regla upphefur reglu nr. 3 til 8.
  14. Velja flesta af landsbyggðinni, við þurfum að hlusta á venjulegt fólk.
  15. Ekki velja neinn sem hefur auðkennistölu sem endar á þremur og sjö, 3 og 7. Af hverju? Jú, það fækkar þeim sem þarf að velja ...
  16. Velja þá sem eru atvinnulausir. Það þarf kjark til að titla sig þannig og slíkir lofa góðu.
  17. Sleppa öllum þeim sem era ættarnafnið Wium, annars er hætta á að fyrrverandi forsetaframbjóðandi setjist á stjórnlagaþing.

Nú, þegar þarna er komið sögu ætti ég að vera kominn með ca. 40 manna lista. Þá er kominn tími til að fara yfir kynninguna á þessu liði og strika þá miskurnarlaust út sem eru mannkynsfrelsarar, ætla sér að gjörbreyta og bylta og ekki síst strika þá út sem eru einfaldlega leiðinlegir. Það er nóg af slíkum á háttvirtu Alþingi.

Hafi einhver athugasemdir við þessar reglur eða telji mig vera persónulegan andstæðing sinn þá er það líklega alveg rétt. Ég er tilbúinn til að laga og breyta ofangreindum reglum fái ég góðar ábendingar.


mbl.is Nafnalisti frambjóðenda birtur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óbirt fréttatilkynning ríkistjórnarinnar

Spunameistarar forstætisráðuneytisins og PR (þe. pólitískt ráðnir) starfsmenn sjávarútvegsráðuneytisins eru að vinna að þessari fréttatilkynningu sem ég fékk fyrir misskilning upp í hendurnar:

Forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra tóku sameiginlega þá ákvörðun í sumar að leggja sérstaka rækt við loðnustofninn í því skyni að efla hann og styrkja á myrkustu stundum íslenskrar þjóðar er efnahagur hennar er í molum og atvinnulífið á í næstmestu erfiðleikum sínum frá því þjóðin fékk fullveldi sitt frá Danakonungi sem þó kemur ekki frekar við sögu í þessari fréttatilkynningu nema að því leiti að ráðherrarnir eru báðir á þeirri skoðun að loðnukvótinn sé séreign þjóðarinnar meðan hún er utan ESB en síðar sameign Evrópu og þar með Dana og í ljósi þess eigi að halda áfram aðlögum þjóðarinnar að ESB án þess að ganga í það fyrr en vaffgé eru komnir úr ríkisstjórn sem verður á næstunni en þó ber þess að geta að loðnustofninn er í afskaplega góðu standi margir fiskar í honum, bæði hængar og hrygnur og sundgetan yfir meðallagi og því má búast við að kvótinn verði aukinn til að styrkja skjaldborgina og fjármagnseigendur og þetta er allt ríkisstjórninni að þakka enda hefur hún unnið rosalega mikið og er alltaf á fundum og hittir fullt af sérfræðingum sem kunna sitt fag enda er þetta ekki verkefni sem við báðum um heldur sem þurfti að vinna og þess vegna gengur þjóðinni núna svo vel eftir allar þær hremmingar sem ljóti Sjálfstæðisflokkurinn bjó henni til og eldri loðnan er auðvitað merki um skemmdarverk ljóta flokksins sem lét ekki veiða alla þá loðnu sem í boði var fyrir hrun svo er gott að magn „un-gloðnu“ og miðaldra loðnu er gott

Þessum lestri fylgja síðan 14 punktar og 28 kommur og segir þar: Nennumssuekki, notið punktana eftir þörfum.

Persónulega sel ég ekki þetta dýrar en ég keypti. Þó er ljóst að ríkisstjórnin er ekki sannfærandi.


mbl.is Gott ástand loðnustofns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Túlkun utanríkisráðherra á engu skilar engu

Ég hlustaði með athygli á viðtalið við Össur í morgun. Mér fanst það hvorki fugl né fiskur. Hann sló úr og í. Hélt því fram að samtöl hefðu fari á milli bandarískra og íslenskra embættismanna vorið 2003. Ekki gat hann sagt neitt um efni þessara samtala eða i hverju þrýstingur Bandaríkjamanna hefði verið falinn.

Svo gerist það að fréttastofur hinna ýmsu fjölmiðla vekja athygli á viðtalinu rétt eins og í því hafi verið uplýst um eitthvað sem ekki hafði frést áður.

Nú bíður maður eftir því að utanríkisráðherrann kroppi eitthvað meira í þetta og haldi áfram túlkunum sínum á einhverju sem enginn veit hvað er. Niðurstaðan er auðvitað ekki neitt.

Hvað gengur honum þá til? Er kallinn bara að reyna að draga athyglina frá hrakförum sínum í ESB málinu?


mbl.is Lögðu áherslu á að Ísland styddi hernað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei séð annan eins fjölda á Hornströndum

dsc_0400.jpg

Fyrir nokkrum árum virtist sem áhugi fólks fyrir Hornströndum hefði mikið minkað. Það var þó aðeins tímabundið. Nú eru Hornstrandir eins og Laugavegurinn, allir þurfa að fara þangað, rétt eins og engir aðrir staðir séu til útivistar á landinu en Landmannalaugar, Þórsmök, Laugvegurinn og Hornstrandir.

Ég kom fyrst á Hornstrandir 1977 og ferðuðumst við þrír vinir þar víða. Síðan hef ég komið oft þangað, sem fararstjóri með litla og stóra hópa og einnig í litlum vinahópum. Yfirleitt var fátt um manninn, sjaldgæft að hitta hópa og þeir sem maður sá voru yfirleitt á ferðum ferðafélaga eða „skrýtnir“ útlendingar.

Í sumar fór ég í Hornvík og Reykjafjörð (sem raunar er utan friðlandsins). Í Hornvik voru hundruð manna, tjald við tjald, jafnvel stórt samkomutjald sem mér fannst nú algjör óþarfi. Ferjumenn segja mér að miklar breytingar hafi orðið í farangri fólks. Nú er ekki nógu gott að sitja á rassinum á jörðinni heldur verða nýmóðins ferðamenn að hafa með sér stóla og borð. Sumir koma jafnvel með sér rúm. Það er af sem áður var er maður ferðaðist með um 17 kg og bar allt á bakinu.

dsc_0154_1036636.jpg

Auðvitað er ekki við öðru að búast en að fólk ferðist um landið sitt. Það er bara gott og nauðsynlegt. Hins vegar hefur maður miklar áhyggjur af átroðningi. Nú sjást víða göngustígar þar sem varla fór nokkur lifandi maður fór (af liðnum segir fátt).

Ég spái því að innan nokkurra ára verði göngustígar á Hornströndum rétt eins og á Fimmvörðuhálsi og Þórsmörk, í orðsins fyllstu merkingu úr sér gengnir og jafnvel verði komnir tvö eða þrefaldir göngustígar, því enginn gengur ofan í hnédjúpum stíg.

Jafnvel refunum hefur fjölgað þessi lifandis ósköp á Hornströndum og þeir plata ferðamenn upp úr skónum og fá þá til að gefa sér að éta. Flestir ferðamenn halda að refirnir séu gæludýr og reyna að hæna þá að sér sem er mikill misskilningur. Best af öllu er að láta þá algjörlega eiga sig, skipta sér sem minnst af dýra- og fuglalífi. 

Vandamálið með stefnumörkun eins og landvörðurinn Jón Björnsson er að tala um, er að orð eru marklaus ef ekki fylgja efndir. Ég hef enga trú á því að fjármagn fáist til að laga og bæta göngustíga á Hornströndum, hvorki frá Ísafjarðarbæ né ríkinu. Hið eina sem hægt er að gera er að fá ferðumenn með í áróðri og hvetja góðrar umgengni. Útbúa til dæmis snyrtilegan bækling þar sem lögð er áhersla á góða siði og snyrtimennsku. Annað er eiginlega vonlaust nema myndarlegt fjárframlag finnist á einhverju tré fyrir sunnan.

Þess má geta að með þessari frétt mbl.is er falleg mynd af Drangaskörðum. Þau eru langt frá friðlandi Hornstranda, það vita nú allir ... 


mbl.is Sex þúsund á Hornstrandir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fetað um flækjustigu

 „HVERS vegna í ósköpunum skyldum við hafa hlutina einfalda ef við getum mögulega gert þá flókna?“ 
 
Fleyg orð og örugglega höfð eftir einhverjum virðulegum embættismanni. Þegar nánar er að gáð virðist svo óskaplega margt flækja málin að aumur meðalmaðurinn getur varla fylgst með. Svo fylgir þessu bölvað misrétti, ég á við að skilningur minn nægir ekki til að ég átti mig á því sem aðrir fatta „omgående“ eins og útlendingar segja.
 
Ég verð að viðurkenna það, svo mikill fjallakall sem ég er, að ég hef alltaf átt í bölvuðum vandræðum með fjöllin. Til dæmis þegar einhver hrúgan þykist vera 6.952 fet en ekki 2119 m þá hika ég. Það segir sig sjálft að sálfræðilega er auðveldara er að ganga á metravæn fjöll en þau fetlegu og það er skýringin á því að ég klíf ekki amerísk fjöll!
 
Hvað er „marktækt?
„Jú, sonurinn var sextán merkur, hvorki meira né minna,“ og allir fögnuðu nema ég, því ég veit ekki hversu þungur strákurinn var. Venjulegar vigtir sýna þyng í grömmum og kílóum, nema við fæðingu. Þá er þyngdin mæld í „mörkum“, nehei … ekki fótboltamörkum, … ekki í gömlum vestur-þýskum mörkum .. og alls ekki því marki sem er við endann á hlaupabraut. Nei, fæðing einstaklings er svo göfugur og fallegur atburður að barnið skal mæla í göfugri og fallegri einingu sem kallast „mark“ eða „mörk“.
 
Lax eða ýsa?
Á bakka Þingvallavatns stend ég hróðugur og horfi á er mér fremri menn vigta silunginn. „Ja, sko kallinn,“ er sagt. „Þetta er bara átta pundari!“ Ég passa mig á því að hvá ekki, rigsa bara um án þess að hafa hugmynd um hvað fiskurinn var þungur og svo hrekkur upp úr mér; „Já, ansi þungur miðað við stærð“ og aðrir líta undrandi á mig og skilja ekki frekar en ég hvað ég á við.
 
„Pundið“ er ekkert venjuleg mælieining, hún er líklega fundin upp vegna þessa göfugu aðferðar að brúka prik til að krækja í lax eða silung. Engum sem veiðir þorsk með priki dettur í hug að halda því fram að fiskurinn hafi verið tíu eða tuttugu pund. Nei, svoleiðis fiskar eru kílóverur, fjögur og hálft eða tíu kíló.
Þeir sem brúka togara til að veiða fiska mæla veiðina í tonnum, en eitt tonn er nákvæmlega eitt þúsund kíló. Enginn með viti myndi segja að Engeyin hafi komið með fjögur hundruð og fimmtíu þúsund pund að landi. Nema auðvitað að andvirðið væri mælt í Sterlingspundum.
 
Að hætti sjómanna!
Landhelgin er í eigu þjóðarinnar rétt eins og það sem er fyrir ofan sjávarmál. Við teygjum hana út í tvö hundruð mílur og fiskurinn sem þar svamlar er líka eign þjóðarinnar. Sumir segja að hann sé bara eign þeirra einstaklinga sem samkvæmt lögum eiga skip til útgerðar, en um það mætti nú rökræða lengi. Hitt hefur þó alltaf „böggað“ mig og enn er mér það hulin ráðgáta hvers vegna landhelgin var ekki færð út í 7,8 kílómetra, 92,6 kílómetra eða 370,4 eins og hún mun vera í dag.
 
Sjómennskan er göfug og falleg atvinnugrein og sjómenn tala tungu sem leikmönnum kann að reynast örðugt að skilja. Togari nefnist skipið enda þótt botnvörpungur væri fullboðlegt íslenskt orð. Hann dregur troll sem er einfaldlega botnvarpa og jafnvel þó einhverjir halda að bobbingar séu annað orð yfir stór brjóst kvenna er það algjör misskilningur ... en samlíkingin er engu að síður brosleg.
 
Í sumar sigldi ég í forláta fleyi frá Aðalvík til Ísafjarðar og sá sem stjórnaði sagði bátinn ganga fjórtán mílur. Ég kinkaði kolli og reyndi að vera gáfulegur á svipinn, en hann misskildi mig, hélt kannski að mér fyndist gangurinn ekki mikill. „Sko, hann getur gengið sautján mílur, en þá heggur hann meira sem er ekki gott fyrir farþegana,“ sagði hann hróðugur.
 
Hin stórhættulega míla
Ég varpaði öndinni léttar og með sjálfum mér reyndi ég að rifja það upp hvort ökutæki á óravegum hafsins hafi nokkurn tímann verið mæld undir annarri mælieingingu en mílum. Nei, varla. Þessi náungi yrði örugglega rekinn ef hann segði bátinn ná tuttugu og tveggja kílómetra hraða á klukkustund.
Auðvitað er meðalhraða á sjó miklu minni en ökutækja á fjórum hjólum á landi og til að breiða yfir þessa vandræðalegu frammistöðu brúka menn mílur og svo þykir það líka flottara núorðið, ekki eins landkrabbalegt eins og að tala um kílómetra á klukkustund.
 
Menn átta sig þó ekki á því hversu hættuleg mælieiningin „mílur“ eru og þess vegna ætti bara að banna hana. Í versta falli gefa einhverjum einum einkaleyfi á henni. Þetta er eins og ef orðið „halló“ merkti ekki bara halló heldur margt annað; „góðan daginn“, „blessuð blíðan“, „gott í sjóinn“, „kaffitími“ og svo framvegis. Bandaríkjamenn brúka mílu, Englendingar líka, Norðmenn, Svíar og miklu fleiri. Vandinn er að til eru sjómílur og líka landmílur. Norska mílan er mælir svo annað en sú sænska, sú enska er allt annað en þessi bandaríska. Og allir standa fast á sinni einu og sönnu mílu.
 
Tugakerfinu tapað
Ég kenndi ungum sonum mínum að telja upp í tíu. Börn eru fljót að átta sig á tugakerfinu og allt í einu kunna þau að telja upp í eitt hundrað, svo eitt þúsund og þau gætu talið upp í milljón ef þau nenntu þessum stöðugu endurtekningum. Allt gott og blessað með það. Svo kom að því að læra að reima skóna, en það hefur ekkert með aðrar tölur að gera en áttuna.
 
„Klukkan átta fara menn að hátta,“ segir í úreltri reglu. Flest börn eiga í stökustu erfiðleikum með að læra á klukkuna og það er engin furða svo órökrétt sem hún er. Jú, hún er tólf og langt gengin í þrettán eða kannski er hún orðin tuttugu og fjögur og langt gengin í eitt eða tólf og langt gengin í eitt. Hvað veit ég?
 
Jólasveinarnir einn og átta þóttu ekki stíga í vitið. Kannski voru þeir sjö, átta eða níu. Svo flókið sem það er, virðast tímaeiningarnar ekkert einfaldari.
 
Eitt ár eru tólf mánuðir, einn mánuður er í kringum þrjátíu dagar, hver vika er sjö dagar. Hálfur sólarhringur er tólf klukkustundir. Ein klukkustund er sextíu mínútur, og ein mínúta sextíu sekúndur. Hvers konar bull er þetta? Af hverju gat einn sólarhringur ekki verið til dæmis tuttugu klukkustundir, ein klukkustund, eitt hundrað mínútur og ein mínúta eitt hundrað sekúndur?
 
„Sko, það er vegna þess að þetta byggir allt á fornri hefð,“ segja þeir sem eru mér fremri að vitu og þekkingu.
 
„Bölvað bull,“ segir þá fúll á móti. Í gamla daga voru dagaheitin allt önnur en þau eru núna en samt var þeim breytt. Er tugakerfið ekki brúklegt við tímamælingu?
 
Tommarinn
„Réttu mér tútommara,“ sagði vinur minn við mig og ég snérist í kringum sjálfan mig, sá ekkert svoleiðis. Hann átti bara við tveggja tommu nagla. Af hverju gat hann ekki beðið mig um fimm cm langan nagla. „Réttu mér fimmarann.“ Nei, annars, ég hefði ekkert betur fattað það.
 
Ég skil samt ekki hvers vegna smiðir geta ekki talað mannamál. Allar teikningar gefa upp lengdir, breiddir og hæðir í sentimetrum eða metrum en samt dregur smiðurinn upp tommustokk. Hann hefur líklega týnt „sentimetrastokkinum“ sínum.
 
Hvernig er hægt að byggja hús svo nákvæmlega að hvergi skeikar millimetra og nota til þess nagla og skrúfur sem mældir eru í tommum og einhverju öðru sem ég man ekki hvað er.
 
Og hún mamma líka
Og ekki batnaði það þegar barnið þarf að fara út í búð og kaupa tvo desilítra af rjóma. „Og þú líka, Brútus, sonur minn,“ sagði hinn svikni Sesar forðum. Meira að segja hún mamma, sem ég á svo mikið að þakka, kenndi mér að telja og læra á klukkuna, hún vildi fá tvo desilítra. Hefði hún beðið mig um að kaupa sex desilítra af kóki. Af hverju er ekki hægt að mæla rjómann í lítrum, heilum eða hálfum, rétt eins og kókið?
 
Aflið
„Rosalegur kraftur í því,“ sagði vinur minn. Við góndum á mótorhjól við gangstéttarbrún og hann sagði að hjólið væri hvorki meira eða minna en ... eitthvað ... kúbikk. „Vá!“ sagði ég og lyfti augabrúnum til sannindamerkis um aðdáun mína en með sjálfum mér reyndi ég að finna út hvort þetta kúbikk væri meira eða minna en hestafl sem ég þó hafði náð að skilja.
 
Nei, lífið er ekki einfalt 
Flækjustigið hefur verið langvarandi og erfitt til skilnings. Mig langaði bara til að vekja athygli á þessu.
Kannski er finnst einhver hjálpsamur jafnaðarmaður á þingi sem væri til í að einfalda málið og setja lög þar sem merkur, pund, mílur, kúbikk, desilítrar, tommur, merkur og álíka orðskrípi væru bannaðar sem mælieiningar. Þetta mætti svo sem gera um leið og hinn hjálpsami og alltumgreiðasami jafnaðarmaður leggur fram frumvarp til laga um að engin laun á Íslandi megi vera hærri en þau sem forsetanum eru skömmtuð.
 
Mér finnst svo óskaplega mikil ástæða til að allt sem viðkemur lífi okkar sé eins, allt sé slétt og fellt, enginn fái að skara frammúr, því þá er svo mikil hætta á því að misrétti komist á í þjóðfélaginu. Getur nokkur verið verra en einfalt misrétti?
 
Burt með öll þessi misrétti. Niður með fjöllin, upp með dalina!
 
[Rakst á þenan pistil um daginn þegar ég var að rúlla í gegnum heimasíðuna mína http://web.mac.com/sigurdursig. Fannst hún bara nokkuð góð með öllum sínum kveinstöfum. Finnst voða sniðugt að birta hana hérna.] 

Ráð skáldsins sem þekkti ekki auðinn í gufunni

Það vekur athygli mína hversu enn er stólað mikið á fallvatnsvirkjanir. Þegar útvega orku fyrir stóra notendur kemur í ljós uggvænleg staðreynd. Framsýni þeirra sem ráðskast með orkumál hér á landi er ekki meiri en svo að enn var gripið til sama ráðs og Einar Benediktsson vissi best er hann hvatti til uppbygginu íslensks atvinnulífs fyrir um eitt hundrað árum. Skáldið skynjaði skiljanlega ekki auðinn í afli í háhitasvæða, en á þeirri öld sem liðið hefur höfum við aðeins uppgötvað og virkjað fallvötnin og eiginlega látið reka á reiðanum með allt annað.

Hversu framsýnir og tæknilega sinnaðir erum vér Íslendingar? Hvernig hefur verið staðið að stefnumótun í orkumálum?

Hefði ekki verið hægt að verja tímanum betur en einblína um of á vatnsaflsvirkjanir og vera hreinlega lens þegar spurt var um gufuaflið?

Gallinn við vatnsaflið er hið óhemju mikla pláss sem þarf undir virkjun, lón og miðlun. Þessu fylgir gríðarlegt jarðrask og landi er sökkt. Þetta vill svo rekast á við skynsamlega náttúruvernd og ferðaþjónustu.
 
Er til of mikils mælst að ráðamenn hlutist til um hraðari rannsóknir á gufuafli á þeim svæðum sem við höfum efni á að nýta til raforkuvinnslu? 


mbl.is Samið við Ístak um Búðarhálsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Línan lögð fyrir fjöldauppsagnir hjá Reykjavíkurborg

Án efa hefði allt orðið brjálað ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði staðið fyrir svona hreinsunum innan Orkuveitunnar. Nú bara þegja fjölmiðlar, álitsgjafar og stjórnendur síðdegisþátta láta ekkert á sér bæra.

Engum dettur í hug að gagnrýna hinn óreynda stjórnarformann OR þegar hann segir að lækkað starfshlutfall hafi ekki hlotið hljómgrunn í stjórninni þar sem þær séu í eðli sínu tímabundnar. Verið sé að leita varanlegrar hagræðingar ...

Hvers konar bölvuð vitleysa er í manninum? Hver skyldi nú starfsmannaveltan vera hjá OR? Ætli hún leyfi ekki að bjóða upp á lækkað starfshlutfall í t.d. eitt ár og að því loknu gæti fjölmargir verið hættir störfum, t.d. vegna aldurs eða breyttra aðstæðna að öðru leyti. Fjölmörg fyrirtæki hafa vert þetta með góðum árangri, t.d. Morgunblaði, Toyota, RARIK, Fréttablaðið, Verkís o.fl. Er OR eitthvað öðruvísi en önnur fyrirtæki?

Það má vel vera að OR sé ofmannað en góðir stjórnendur reyna allt annað en að segja fólki upp, senda það út á kaldan klakann þar sem ekkert annað en atvinnuleysi bíður þeirra.

Ber þetta vott um stjórnvisku stjórnarformanns eða hins nýja forstjóra? Nei, þetta bendir bara til þess að þessir kallar ætli nú aldeilis að sýna hvað í þeim býr. Í ljós kemur að þeir eru bara stjórnendur á borð við útrásarvíkingana sem höfðu engan áhuga á fólki aðeins beinhörðum peningum hvernig svo sem þeirra var aflað. 

Víkur þá sögunni að Besta flokknum og Samfylkingunni í Reykjavík. Þeir bera alla ábyrgð á þessum uppsögnum. Í ljósi úrræðisins hjá OR má búast við fjöldauppsögnum í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar en þar eru gjöldin 4,5 milljarði yfir tekjum.


mbl.is 65 sagt upp hjá Orkuveitunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangt að vetrarfærð sé á Norðurlandi

Enn og aftur er mbl.is með ónákvæmar fréttir byggðar á vef Vegagerðarinnar. Myndbirting af ruðningi fjallvegar síðla vetrar er líka afar villandi.

Ein staðreyndin er sú að í Húnavatnssýslum og Skagafirði eru allir vegir færir. Þó gránað hafi í fjöll er samt sem áður staðan eins og að hausti, ekki vetri. Til dæmis arka menn enn út á Blönduósi og Skagaströnd með golfkerrurnar sínar og njóta útiverunnar. Fyrir þá sem ekki þekka leikinn er útilokað að stunda hann þegar snjór er yfir.

Hin staðreyndin er sú að Norðurland er víðfeðmur landshluti. Veðurfar á Norðurlandi vestra er oftast óháð því á Norðurlandi eystra. Þar af leiðandi er ekki hægt að segja að „á Norðurlandi er víða vetrarfærð“. Það er afar ónákvæmt og alls ekki réttmætt. Á vesturhlutanum er engin vetrarfærð þrátt fyrir meinta hálkubletti.

Fjölmargt fólk ferðast um landið að hausti og vetri. Fjölmiðlar verða því að vera nákvæmir þegar fjallað er um veður og færð. Annað er ekki þeim bjóðandi né heldur landsbyggðarfólki.

Og fyrir alla muni, ágætu blaðamenn mbl.is, ekki brúka vef Vegagerðarinnar sem heimild, hún er ekki traust. Sýnið meira sjálfstæði en svo að endursegja upplýsingar af heimasíðu sem öllum er opin. Hringið frekar í fréttaritara blaðsins um landið og aflið upplýsinga hjá þeim eða öðrum áður en fréttin er skrifuð.


mbl.is Víða vetrarfærð á Norðurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vill ASÍ vinna bug á atvinnuleysi og skuldavanda?

Hagfræðingur ASÍ hefur rétt fyrir sér þegar hann segir að ekki sé hægt að svelta sig út úr þeim efnahagsvanda sem við erum stödd í. Hér þorir enginn neinu en samt er það þannig að verðmætasköpunin er það sem bjargað getur þjóðinni.

Mittisólin verður vart þrengd meira. Langt er síðan skattastefna ríkisstjórnarinnar fór að hafa þveröfug áhrif.  

Stærsta vandamál þjóðarinnar er atvinnuleysið. Til að hægt sé að vinna bug á því þarf erlenda fjárfestingu. Persónulega er ég ekkert spenntur fyrir álverum en enginn hefur getað bent á aðrar lausnir hvað þá að eitthvað annað sé í farvatninu. Stjórnvöld guma sig af því að fækkað hefur á atvinnuleysisskrá. Þeim er greinilega sama um þá sem voru hér atvinnulausir en hafa farið til annarra landa. Af sjálfu sér leiðir að þá fækkar á skránni alræmdu.

Hitt stóra vandamálið sem þjóðin stendur frammi fyrir er skuldastaða heimilanna. Hver er stefna ASÍ í því máli. Jú, samtökin vilja ekkert gera og jafnvel berjast hatramlega gegn góðum hugmyndum Hagsmunasamtaka heimilanna til lausnar. Staðreyndin verður sú eftir nokkur misseri að landsmönnum mun fækka og enn færri greiða í þá sameiginlegu sjóði sem ætlað er að standa undir lífeyri þeirra sem nú eru á besta aldri. 


mbl.is Erum að ná botninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðferðileg skylda borgarinnar er að segja ekki upp fólki

Að sjálfsögu ber Reykjavíkurborg og fyrirtækjum hennar siðferðileg skylda til að segja ekki upp starfsfólki sínu, sérstaklega þegar atvinnumarkaðurinn er eins erfiður og nú er. Þetta hafði fyrrverandi borgarstjóri, Hanna Birna Kristjánsdóttir, að markmiði.

Nú eru breyttir tímar. Nú má ekki vera að því að setja sig inn í málin, hann er svo upptekinn að taka á móti fólki. Ekki er vitað hver sé skoðun yfirborgarstjórans á málinu eða væntanlegs borgarstjóra.

Starfsmannafélag Orkuveitunnar sem og Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, hafa fullyrt að hægt sé að komast hjá uppsögnum með því að draga úr starfshlutfalli allra starfsmanna fyrirtækisins.

Þetta þolir hvorki stjórnarformaður og forstjóri OR og hengja sig í smáatriði eins og hvort eðlilegt sé að borgarfulltrúi og trúnaðarmaður starfsmanna fundi.

Meirihlutinn í stjórn OR ætlar sér að reka 80 manns. Hverjir það eru veit enginn. Allir starfsmenn eiga því uppsögn á hættu. Hvernig skyldi móralinn vera í fyrirtækinu? Getur verið að allir vinni að kappi og sálfræðilega hafi hótanir um uppsagnir engin áhrif? 


mbl.is Starfsmannafélag Reykjavíkur ósátt við OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband