Bloggfærslur mánaðarins, október 2010
Er ekki nær að ræða uppsagnirnar frekar en Kjartan?
19.10.2010 | 18:43
Forvitnilegt er að fylgjast með vandræðagangi meirihlutans í borgarstjórn vegna uppsagna Orkuveitunnar á 80 manns. Yfirborgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, stígur nú loksins fram, ekki til þess að draga í land vegna uppsagnanna, ekki til að réttlæta þær, heldur til að atyrða Kjartan Magnússon, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins fyrir að vera á móti uppsögnunum.
Og þar sem Baldur er finnst Konni. Jón aðstoðarborgarstjóri Regínu, stígur líka í ræðustól, ekki til þess að draga í land vegna uppsagnanna, ekki til að réttlæta þær, heldur til að atyrða Kjartan Magnússon, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins fyrir að vera á móti uppsögnunum.
Þeir borgarstjórarnir, Baldur og Konni, tala einum rómi, hvernig má annað vera. Þeir berja á Sjálfstæðismönnum fyrir að vera á móti uppsögnum.
Hvað er hægt að gera við borgarstjórnarmeirihluta sem elur ekki önn fyrir starfsmönnum borgarinnar og fyrirtækja hennar? Er hann á vetur setjandi?
Hörð umræða um uppsagnir hjá OR | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Gjaldþrot er smámál miðað við vanskilaskrárnar
19.10.2010 | 14:25
Frumvarp til laga um að skuldir fyrnist tveimur árum eftir gjaldþrot er svo sem góðra gjalda vert. Í það vantar þó tvö mikilvæg atriði svo slagkrafturinn verði sem mestur.
- Með gjaldþroti fer viðkomandi á vanskilaskrá sem í raun hefur miklu alvarlegri afleiðingar fyrir fólk en sjálft gjaldþrotið. Svo lengi sem það er á slíkri skrá er lífið afar erfitt og nær ómögulegt að taka lán og byrja upp á nýtt þó borðið eigi að heita nýtt. Allt verður að vera staðgreitt og jafnvel kreditkort fæst ekki útgefið þeim sem í gjaldþroti hafa lent.
- Fílsminni bankanna er stórkostlegt vandamál. Þeir hafa komið sér upp afar þróuðum hugbúnaði og í þeim er að finna þeirra eigin vanskilaskrá. Hafi banki, hvaða nafni sem hann nefnist, hvort sem tilvera þeirra hófst fyrir eða eftir hrun, á þessari eða síðusu öld, þá man hann allt. Bankarnir samþykkja aldrei aftur þann sem eitt sinn hefur farið í gjaldþrot. Viðkomandi er sí og æ snýtt upp úr þessari lífsreynslu sem fólki verður um alla framtíð meinað að gleyma.
Til að lög um tveggja ára fyrningu skulda þurfi að ná árangri verður að jafnframt að þurrka út skráningu á vanskilaskrá og krefjast þess að bankarnir láti af mannvonsku sinni og ruddamennsku.
Skuldir fyrnist á tveimur árum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Furðulegir stjórnunarhættir Orkuveitunnar
18.10.2010 | 23:33
Meirihlutinn í borgarstjórn er gagnslaus. Hann er eins og ríkisstjórnin. Engar hugmyndir um framkvæmdir eða niðurskurð, ekkert samráð, aðeins gömlu úreltu ráðin; segja fólki upp.
Orkuveitan Reykjavíkur þarfnast vissulega aðhalds. Ljóst er að starfsmenn hennar hafa skoðun á málunum og vilja aðstoða. Þeir eru á móti uppsögnum, þessu dæmalausa uppsagnaferli sem var tilkynnt um einum og hálfum mánuði áður en þær eiga að taka gildi.
Á meðan var ætlast til að allir starfsmenn fyrirtækisins séu í óvissu, grillaðir, og í lokin verður 80 manns sagt formlega upp.
Þetta er eins og að standa fyrir framan aftökusveit sem síðan þyrmir sumum.
Er þetta sú aðferð sem nýji borgarstjórnarmeirihlutinn vill? Er það þannig sem Jón borgarstjóri vill láta minnast sín?
Er þetta aðferðin sem fyrrverandi forstjóri Orkuveitunnar, Hjörleifur Kvaran, vildi ekki beita og var rekinn fyrir?
Og hver segir að fulltrúar starfsmanna hafi ekki málfrelsi og fundarfrelsi að vild? Mega þeir ekki hitta þá sem þeim sýnist án þess að forstjóri og stjórnarformaður ráðist inn á þann fund?
Þetta tekur nú yfir allan þjófabálk?
Hversu lengi þarf borgin að hanga með þennan nýja borgarstjórnarmeirihluta? Jú, þrjú og hálft ár til viðbótar, en brandaranum er lokið og á honum fannst enginn hnykkur (punch line).
Hugmyndir ekki ræddar í stjórn OR | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ríkisstjórnin hafnar Hagsmunasamtökunum
18.10.2010 | 08:18
Ríkisstjórnin ætlar ekki að fara að tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna. Fundarhöldin eru tómt sýndarspil, það vita Hagsmunasamtökin enda hefur fjármálaráðherra skotið tillögur þeirra út af borðinu sem og sérlegur sendiherra hennar, Þórólfur Matthíasson, prófessor við viðskiptadeild Háskóla Íslands.
Þórólfur þykir mjög fær en einhverra hluta vegna er honum afar uppsigað við Hagsmunasamtökin og talar afar niðrandi til þeirra. Með loðnum röksemdum hefur hann hafnað röksemdum þeirra rétt eins og ríkisstjórnin, enda gengur hann erinda hennar.
Það sem Þórólfur og ríkisstjórnin gera sér hins vegar ekki grein fyrir er sú hrikalega aðstaða sem fjölmörg heimili eru í. Fyrir þeim eru þau aðeins tölur á Excelskjali svo kaldranalegt sem það nú hljómar. Sama á við fjölda atvinnulausra, þeir eru aðeins tölur í sama tölvureikni.
Ríkisstjórnin hefur nú haft tæp tvö ár til að koma lagi á lánamál heimilanna. Þá ætlaði forsætisráðherra og fjármálaráðherra að láta hendur standa fram úr ermum og það segjast þau hafa gert sem vel getur verið. Niðurstöðurnar benda þó til þess að verkefni þeirra hafi verið önnur og ekki eins knýjandi.
Uppboð á heimilum landsmanna fjölgar og atvinnuleysið er viðvarandi og fólki er vísað af atvinnuleysisskrá. Þar af leiðandi er ljóst að erindi þessarar rikisstjórnar hefur mistekist.
Eða hvernig á annars að leggja dóm á hana ef ekki í gegnum þau mál sem mikilvægust eru í þjóðfélaginu?
Engar ákvarðanir enn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Forsetinn myndar engan vettvang
14.10.2010 | 16:34
Embætti forseta Íslands er ekki vettvangur til að ræða getu eða getuleysi ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin er þingbundin og meðan hún hefur meirhlutafylgi meðal þingmanna þá getur hún farið sínu fram án tillits til þess sem þjóðin krefst hvað þá heldur þingmenn Hreyfingarinnar.
Það er hins vegar rétt hjá Hreyfinginni að ekki virðist vera nokkur vilji hjá ríkisstjórninni til að taka á skuldavanda heimilanna. Hún berst hins vegar hatrammlega gegn öllum tillögum um að snúa hlutunum í betri átt og sá grunur læðist að fólki að það sé einkum vegna þess að frumkvæðið er fyrir löngu hrokkið frá henni.
Hreyfingin vill að mynduð verði neyðarstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sólstafir og skýjafar
14.10.2010 | 10:41
Vinir og kunningjar hafa oft skammað mig fyrir að birta ekki fleiri myndir á blogginu mínu. Sumir þeirra, sérstaklega þeir sem eru á andstæðri skoðun við mig í stjórnmálum, hafa haldið því fram að ég eigi ekkert með að vera að fabúlera um stjórnmál og skamma ríkisstjórnina, ætti frekar að einbeita mér að því að birta myndir.
Til að gera öllum til hæfis birti ég hér þrjár myndir sem ég tók fyrir nokkru á ferð um Snæfellsnes. Við gengum frá Kambi í Breiðuvík og yfir að Fróðá við Ólafsvík. Nokkru eftir gönguna ókum við fyrir Búlandshöfða og þá kom ég auga á sólstafi í baksýnisspeglinum. Við stoppuðum og tókum þessar aldeilis fallegu myndir.
Þarna dró skýjabakka upp í suðvestri og færðist hann yfir landið. Hann var nokkuð gisinn og sólargeilsarnir náðu að skína í gegnum hann og mynduðust við það sólstafirnir. Og þarna sást víða upp í bláan himinn. Allt var þetta með þvílíkum eindæmum að manni féllust hendur yfir fegurðinni. Kannski féll ég í sólstafi ...
Á myndinni er horft frá Búlandshöfða til Ólafsvíkur og þar er Ólafsvíkurenni og byggðin þar við.
Er Jón borgarstjóri ekki hæfur í djobbinu
13.10.2010 | 17:05
Tilfærsla á verkefnum frá borgarstjóra til skrifstofustjóra borgarstjóra eru án efa vegna þess að Jón borgarstjóri getur ekki sinnt verkefnum sínum. Þess vegna vakna þær spurningar hvort hann sé hæfur í starfi sínu og/eða hann hafi einhverra hluta ekki tök á því að gegna þeim.
Það er einsdæmi að æðsti embættismaður borgarinnar afsali sér verkefnum. Þetta er hins vegar ekki gert til að deila ábyrgð, minnka miðstjórnarvald. Fyrir því eru engin rök. Allir málavextir benda á Jón borgarstjóra og því er ekki furða þótt fólk spyrji.
Nú bíður almenningur eftir því að fjölmiðlar gangi í málið og krefjist svara því þetta virðist allt vera hið undarlegasta mál. Jóni er ekki einu sinni treyst til að vera málsvari meirihlutans í borgarstjórn, honum er ætlað að skarta sparifötunum á tyllidögum en þess á milli er hann geymdur í skápnum með sömu fötum.
Ný staða eða aukin verkefni? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Á að leggja landsbyggðina í auðn?
12.10.2010 | 19:52
Heilbrigðistráðherra segist ekkert vita um niðurskurð ríkisstjórnar vinstri manna á fjárlögum ríkisins til heilbirgðismála á landsbyggðinni. Fjármálaráðherra heldur neyðarfundi og forsætisráðherra segir ríkisstjórnina ekki hafa mistekist ætlunarverk sitt.
Fjölmargar ríkisstjórnir hafa haft það á stefnuskrá sinni að styrkja landsbyggðina, en engin ríkisstjórn frá stofnun lýðveldisins hefur haft það á stefnuskrá sinni að fækka fólki úti á landi.
Engin ríkisstjórn hefur haft það á stefnu sinni að mismuna fólki eftir búsetu.
Engin hefur talið það vandamál að heilbrigðismál á landsbyggðinni væru svo góð að hægt væri að n draga úr þeim.
Engin með nokkru viti heldur því fram að samgöngumálin séu í svo góðu standi að íbúar á landsbyggðinni hljóti að geta druslast nokkur hundruð kílómetra eftir læknisaðstoð.
Þrátt fyrir bankahrun og efnahagskreppu þarf íslensk þjóð að gera það upp við sig hvort hún sé sammála ríkisstjórn vinstri manna að leggja landsbyggðina í auðn. Það er nákvæmlega það sem ríkisstjórnin er að gera vitandi vits eða óvitandi. Hvort tveggja segir nú ýmislegt um þessa ríkisstjórn.
Einhugur á Blönduósi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Nýr meirihluti á þingi
11.10.2010 | 07:50
Nýr meirihluti hefur myndast á Alþingi og virðist hann ætla sér að taka á atvinnumálum þjóðarinnar, taka höndum saman við bæjarstjórn Reykjanesbæjar og koma hafnarmálum í eðlilegt standa. Á hliðarlínunni stendur svo Ögmundur Jónasson, dómsmála- og samgöngumálaráðherra og tvístígur. Hann má ekki horfa til álvers, það er ekki í anda VG, og af ógurlegu málæði, eins og hann er vanur, malbikar hann um önnur not sem hægt væri að hafa af höfninni.
Svo mun Steingrímur fjármálaráðherra segja eins og hann er vanur, þetta mun engin áhrif hafa á stjórnarsamstarfið. VG með öll sín prinsíp lætur að venju Samfylkinguna valta yfir sig.
Með því að greiða úr fjármálum Helguvíkurhafnar verður bæjarstjórn gert kleyft að halda áfram með undirbúning álversframkvæmda. Hins vegar þarf miklu meira til og það dýrasta er viðhorfsbreyting VG en hið einfalda er ný ríkisstjórn. Best væri auðvitað nýjar þingkosningar.
Ríkið borgi 700 milljónir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hobbýþingmennirnir eru til óþurftar
8.10.2010 | 08:22
Fræg er sagan af Neró sem lék á fiðlu meðan Róm brann. Menn finna sér margt til dundurs þegar erfiðleikarnir steðja að og má segja að fiðlan sé þá gripin enda eru tónar hennar víst átakanlegur undirleikur þegar efnahagslífið logar. Þetta á sérstaklega vel við á Alþingi þar sem menn hafa margt annað við tímann að gera en að vinna gegn efnahagshruninu, atvinnuleysi, manngerðum náttúruhamförum gegn landsbyggðinni, stöðu atvinnulífsins, gengistryggingu lána, skuldastöðu unga fólksins, ráni fjármagnsstofnana á eiginfé heimilanna og svo framvegis.
Á Alþingi kenna nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar kvótakerfinu um alla óáran. Þeir leggja til að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótakerfið í sjávarútvegi sem verið hefur við lýði í þrjá áratugi.
Annar hópur sem er í Vinstri grænum á þingi kennir Nató um allt sem miður hefur farið og vill þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina. Um leið vill sami hópur banna notkun kjarnorkuvopna á Íslandi ... Eða var það geymslu slíkra vopna? Man'etta aldrei.
Örugglega er hægt að finna þriðja hópinn úr hópi þingmanna ríkisstjórnarinar sem vill þjóðaratkvæðagreiðslu um Gamla sáttmála.
Er ekki nóg komið að vitleysisgangi á Alþingi. Full ástæða er að krefjast þess nú, í ljósi aðstæðna, að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu um þá sem sitja á þingi. Fyrir þá sem ekki vita er átt við þingkosningar. Þörf er á því að losa þjóðina við hobbýþingmenn, þá sem ekkert geta lagt til þeirra mála sem brenna á skinni þjóðarinnar og eru að fara með hana til andskotans ...
Þessir svokölluðu hobbýþingmenn hafa það að markmiði að sitja, sennilegir á svip, leggja ekkert til nema einhvert bulltal sem skiptir engu máli, hafa ekkert stefnumið en tala svo ákaflega sennilega um allt og ekkert að halda mætti að þeir meintu það sem þeir segja um ekkert.
Um mann nokkurn var þetta sagt: Hann var elskaður og dáður af öllum þeim sem ekki þekkk'ann. Þetta á við þessa hobbýþingmenn.
Þjóðaratkvæði um fiskveiðistjórnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |