Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Málstaður Þráins er alls enginn friðarboðskapur

Hvernig í ósköpunum eiga aðilar að hætta deilum um mál sem ekki er komin nein viðunandi niðurstaða í. Um hvað á sá friður að snúast? Verði málið ekki leyst halda deilurnar auðvitað áfram. 

Ég er ekki sammála ríkisstjórninni varðandi Icesave samninginn og hvet Sjálfstæðisflokkinn og raunar Framsóknarflokkinn til að halda áfram andstöðu sinni. Líklegast þýðir það að menn halda áfram að „rífast“, deila um málið.

Þráin Bertelson getur ekki vaðið svona fram á sviðið hafandi ekkert annað fram að færa en að hvetja fólk til að þegja. Kaus hann kannski með ríkisstjórninni af því að hann nennti ekki að „rífast“ lengur?

Icesave málið verður ekki leyst nema með þjóðaratkvæðagreiðslu eða að óvænt tilslökun verði á kröfum Breta og Hollendinga. Hið síðarnefnda er mjög ólíklegt. Á meðan deila andstæðar fylkingar og þjóðin skiptist í tvo ójafna hópa. Svo virðist sem að Þráinn muni verða í minnihlutanum. 

 


mbl.is Flokkarnir hætti að rífast um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihluti er minnihluti nema ...

Auðvitað er þetta alveg hárrétt hjá Gunnari Helga Kristinssyni., stjórnmálafræðingi. Ekki kemur til mála að leyfa hverjum sem er að taka afstöðu til mála sem eru svona flókin. Fólk bara skilur ekki svoleiðis. Er víst til að misskilja hlutina og kjósa einhverja bölvaða vitleysu.

Stjórnmálafræðingurinn hefur glöggan skilning. Meirihlutinn sem verður til úr þjóðaratkvæðagreiðslu verður líklega ekki meirihluti heldur bara skoðun einhverja sem ekki vilja neitt með það sem þeir kjósa. Þetta liggur í augum uppi.

Flókin spurning vefst áreiðanlega fyrir fólki, sérstaklega meirihlutanum, kjósi hann gegn því sem minnihlutinn vill enda mun koma í ljós að minnihlutinn er meirihluti þegar skoðun meirihlutans er nánar skilgreind. Skýrara getur það ekki orðið.

Svo er það þetta með hina þversagnakenndu niðurstöðu að einfalt já eða einfalt nei segir ekkert til um hvað fólk í raun og veru vill. Varla þarf að hafa orð á svona sannindum.

Staðreyndin er bara sú að þegar fólk fer út í búð til að kaupa skyrtu þá er litur skyrtunnar einfaldlega það sem klýfur meirihluta þeirra sem kjósa að klæðast skyrtu og þar af leiðandi er liturinn klofningsvaldur skyrtuhóps þjóðarinnar en ekki sameiningavaldur. Þetta litla dæmi bendir eindregið til þess vitleysingar eigi ekki að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu. Bara ég og Gunnar Helgi Kristinsson, ekki hinir.

Guði sé lof fyrir að við höfum stjórnmálafræðinga til að leiða í ljós sannindin í pólitíkinni. Því miður höfum við ekki álíka ráðgjafa í samræmdum skyrtukaupum. Það er nú nokkuð sem fjármálaráðherrann ætti nú að athuga, vitleysingunum til bjargar. 


mbl.is Icesave hentar ekki vel til þjóðaratkvæðis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjár ríkisstjórnir gegn Íslendingum

Ljóst er að þeir sem gerst þekkja hafa þá skoðun að Íslendingum beri ekki nein lagaleg skylda til að bæta innistæðueigendum Icesave umfram lágmarkið. Ríkisstjórnir Hollands og Bretlands gripu hins vegar í einhverju fáti til þess úrræðis að greiða innistæðurnar að fullu.

Fyrir rúmu ári fullyrti maður nokkur að Íslendingum bæri ekki nokkur skylda til að greiða erlendar skuldir íslenskra  óreiðumanna í útlöndum. Líkur benda til þess að maðurinn hafi haft rétt fyrir sér. Að minnsta kosti eru margir erlendir fræðimenn sömu skoðunar og hafa þó enga vitneskju um ummæli hans né heldur þekkja þeir til hans. Nær daglega koma fram nýjar upplýsingar um málið og fjölmargir erlendir fræðimenn fullyrða að bótaskylda Íslendinga sé mun lægri en andsæðingar þjóðarinnar halda fram, þ.e. ríkisstjórnir Bretlands, Hollands og Íslands.

Sú íslenska hefur hingað til ekki fátt gert annað en að taka undir skoðanir Breta og Hollendinga og sér ekki annað í stöðunni en að verða við öllum kröfum. Svo langt hefur hún gengið að fullyrða að hið makalausa Icesave samkomulag sé fullrætt á Alþingi og í þjóðfélaginu. Fáir aðrir eru þeirrar skoðunar? 

Hins vegar er það sorglegt að Íslendinga skuli þurfa að berjast fyrir rétti sínum gegn ríkisstjórnum þriggja landa. 

 


mbl.is Hollendingar segjast ekki gefa eftir vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórninni verður ekki kjaftað úr keldunni

Verði ríkisstjórnin gerð afturreka með eitt mikilvægasta mál lýðveldisins Íslands fyrr og síðar á hún tvímælalaust að segja af sér.

Ekkert er einfaldara.Ríkisstjórnin á að segja af sér og efna til kosninga.

Af hverju? Þjóðaratkvæðagreiðsla er ígildi þingkosninga. Í þeim lætur þjóðin álit sitt í ljós á verklagi ríkisstjórnar og það er endanlegur dómur. Ekki getur ríkisstjórnin haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Engu skiptir hvort ríkisstjórnin hafi verið mynduð í kringum lausn á Icesave málinu eða ekki. Öllu skiptir hins vegar að hún virðist hafa rekið það í þrot. Að því leytinu hefur stjórnin ekki traust þjóðarinnar. Pólitískir orðfimleikamenn mega ekki komast upp með að kjafta ríkisstjórnina út úr svona keldu.

Hins vegar er það er svo allt annað mál hvort ríkisstjórnarflokkarnir nái aftur meirihluta eftir næstu kosningar.

Icesave máli er kannski ópólitískt mál en því miður hefur ríkisstjórnin fyrir löngu misst tökin á því. Kaldhæðnin er í því fólgin að svo virðist sem þrælpólitísk ríkisstjórn hrökklist frá vegna ópólitísks vanda.

Þessu getur jafnvel orðaflaumurinn úr Ögmundi ekki breytt. 


mbl.is Bjarni: Snýst um líf ríkisstjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olli jarðskjálfti hlaupinu 1967?

steinsholt_951299.jpg

Afar forvitnilegt er að sjá að upptök flestra skjálftanna eru í norðanverðum Eyjafjallajökli á því svæði sem nefnist Steinsholt.

Þann 15. janúar 1967 hrundi þar niður mikið bjarg mikið og niður á jökulinn og lónið fyrir framan hann og olli miklu framhlaupi. Bárust þar fram um 15 milljónir rúmetrar af aur, grjóti og björgum. Þetta svæði þekkja allir sem hafa farið inn í Þórsmörk eða Goðaland enda liggur vegurinn í gegnum skriðuna.

Ástæðan fyrir hruninu var alltaf sögð vera sprunga sem myndaðist fyrir tilverknað vatns og frosts og smám saman gliðnaði hún uns bergið hrundi.

Í ljósi síðustu atburða er ekki ólíklegt að jarðskjálftar hafi þarna komið eitthvað við sögu. Má þá ekki búast við fleiri slíkum hamförum þar sem víða eru þverhnípt björg með endilangri norðurhlið þess fjalls sem ber Eyjafjallajökul?

Innan við tíu ár eru síðan lítið berg hrundi úr hlíðum Gjaltar og ofan í Tungnakvísl og áreiðanlega hafa ýmis smærri viðburðir orðið á þessu svæði án þess að fólk hafi tekið eftir þeim. Landið þarna er lifandi og breytist stöðugt.


mbl.is Merkilegt samband við Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bull að tala um sigur eða ósigur

Icesave málið er orðið svo stórt og fyrirferðamikið að það er fyrir löngu hætt að vera flokkspólitískt. Hins vegar leyfa óvandaðir stjórnmálamenn sér að halda því fram að málið standi og velti með framgöngu þeirra og staðan sé sigur fyrir einhverja og ósigur fyrir aðra. Þetta er auðvitað tómt bull.

Vandamálið sem skyggir raunar á allt Icesave málið eru afskifti forseta Íslands af starfsemi og ákvörðun þingsins. Forsetinn er ekki hluti löggjafarvaldsins og ætti ekki að hafa nokkra heimild til að stöðva lýðræðislegar ákvarðanir þess og koma þarf í veg fyrir endurtekningu á slíku með breytingu á stjórnarskrá. Þetta breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að Icesave samkomulagið er verra en það þyrfti að vera. 

Nú skiptir mestu að þjóðin sameinist um að hafna skilmálum samkomulagsins við Breta og Hollendinga og krefjast þannig nýrra samninga. 

Staðan í dag er ekki slæm þó svo að ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar reyni að telja landsmönnum trú um annað.

Bretar og Hollendingar skilja þá einföldu staðreynd að gjaldþrota Ísland greiðir engum neitt. Þjóðin verður að fá tækifæri til að vinna sig út úr vandanum og það gerir hún ekki með núverandi Icesave klöfum og enn síður með ríkisstjórn sem telur einu lausnina vera þá að skattleggja þjóðina og hrekja fólk úr landi.

Og enn kennir ríkisstjórnin Icesave um allar ófarir sínar.  


mbl.is Segir ákvörðun forsetans sigur fyrir framsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband