Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Þingmenn sem fara huldu höfði

Athygli vekur að á meðan nokkrir félagar í VG ræða málin þegja aðrir þunnu hljóði. Hinn róttæki flokkur þegir þunnu hljóði meðan meirihluti Alþingis hyggst samþykkja Icesave. Þeir fela sig, hinir sjálfskipuðu riddarar réttlætisins sem stuðluðu að sigri VG í síðustu kosningum, þingmenn eins og Lilja Mósesdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Svadís Svavarsdóttir og fleiri. Þeir eru orðnir hluti af kerfinu rétt eins og fomaðurinn.

Þingmenn Samfylkingarinnar fara að dæmi formannsins, fela sig eins og hræddar hænur og taka ekki þátt í þjóðfélagsumræðunni. Hvar fela þessi þingmenn sig, Skúli Helgason, Ólína Þorvarðardóttir, Magnús Orri Schram, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Helgi Hjörvar og Þórunn Sveinbjarnardóttir? Þeir eru orðnir hluti af kerfinu rétt eins og formaðurinn og varaformaðurinn.

Það er ekki nóg að komast á Alþingi. Þar tekur alvaran við. Margir þar hafa ekkert fram að færa umfram það sem sagt var í froðukenndri kosningabaráttu fyrir prófkjör. Meðalmennskan virðist vera algjör og birtist einna skærast í því að þetta lið virðist ekkert hafa fram að færa en að ætla að kjósa  Icesave samningana yfir þjóðina.


mbl.is Mikill hiti í grasrót VG vegna Icesave-málsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússar sendi spurningar til íslenskra stjórnvalda

Líklega er ekki hægt að fara þess á leit við Rússana að þeir hætti njósnaflugi meðan á kreppunni stendur. Það væri hins vegar stórgóð hugmynd, allir spara.

Það mætti hugsa sér að í staðinn myndu Rússar senda spurningalista til íslenskra stjórnvalda sem reynt væri að svara eftir bestu getu á einni viku.

Væri þetta ekki þjóðráð á viðsjárverðum tímum. 

 


mbl.is Birnir yfir Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byltingar er þörf svo við glötum ekki sjálfstæðinu

Skilningur Jóhönnu forsætisráðherra er flestum hulin ráðgáta. Ég held að flestir geti verið sáttir við kyrrsetningar á eignum auðmanna sem tengst hafa bankahruninu. Hins vegar þarf að fara varlega svo ekki verði til skaðabótaábyrgð ríkisskattstjóra, þá er verr af stað farið en heima setið.

Forsætisráðherra þyrftir að beina sjónum sínum að skuldamálum landsmanna. Tugir þúsunda sitja uppi með sívaxandi höfðustól skulda vegna glæpsamlegra skilmála í skuldabréfum. Fyrir vikið er fasteignamarkaðurinn gjörsamlega hruninn, markaður með bíla og vélar er varla til.

Ótaldar þúsundir sitja svo uppi með fasteignir og lausafé sem ekki er hægt að losna við því höfuðstóll skuldarinnar er orðinn mikilu hærri en upphaflega lánið og andvirði eignarinnar.

Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta alvarlegasta meinið sem steðjar að þjóðinni, miklu alvarlegra en Icesave og einhverjir fyrrverandi auðmenn.

Hver er sjálfum sér næstur. Tilvist hvers einstaklings byggist á því að geta fætt og klætt sig og fjölskyldu sína og eiga þak yfir höfuðið.

Það er langt í frá að nóg hafi verið gert í þessum málum. Skilningur er góður út af fyrir sig en ríkisstjórnin þarf að lága verkin tala ef hún getur. Því miður hafa ráðherrarnir gengið í hamra skrifræðisins og sitja þar lamaðir. Þannig fór um hinn hugumprúða riddara búsáhaldabyltingarinnar, viðskiptaráðherrann. Utanríkisráðherra sinnir kokteilboðum og snittuáti í boði ESB og er hættur að blogga á nóttunni, fjármálaráðherrann er orðinn varðhundur kerfisins og forsætisráðherrann felur sig.

Við þurfum byltingu svo þjóðin eigi einhverja von um að halda sjálfstæði sínu.


mbl.is Skatturinn fær að kyrrsetja eignir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldþrot er einfaldari og sársaukaminni en greiðsluaðlögun

Icesave málið á eftir að valda þjóðinni gríðarlegum búsifjum á næstu árum en það er þó aðeins smámál miðað við það sem þúsundir Íslendinga standa frammi fyrir. Þrátt fyrir góðan vilja gerir ríkisstjórnin sér enga grein fyrir því að þegar fólk missir húsnæði sitt þá verður gerð bylting í landinu.

Fólk sætti sig ekki við að húsnæðislánin, bílálánin og önnur lán hafi margfaldast. Beðið er um réttlæti en það er ekki til. Af miskunsemi sinni lætur ríkisstjórnin svo lítið að bjóða upp á „greiðsluaðlögun“ sem getur ekki flokkast undir annað en aðgerð sem gerir ekkert annað en að brjóta niður fólk sem þó á fyrir í nægum vanda. Það er einfaldara og sársaukaminna að fara fram á gjaldþrot.

Það er ekki nokkurt réttlæti í því að skuldarinn sitji uppi með alla hækkunina á höfuðstól skulda.

Hugsanlega má fullyrða að íbúðaeigendur þurfi að sætta sig við hrunið á fasteignamarkaðnum - en aldrei hækkunina á skuldinni.

Fasteignamarkaðurinn er hruninn.

Markaður með lausafé, t.d. bíl og vinnuvélar er líka hruninn. Enginn getur losað sig við bíl eða vinnuvél sem á hvílir einhvers konar myntkörfulán.

Eina niðurstaðan í þessu öllu svartnætti er sú aðferð sem oft hefur verið rætt um og hún er að fella niður hluta eða allan þann hluta skulda sem myndaðist eftir hrunið.

Þegar gjaldþrotaleiðin er orðið betri og einfaldari en allar aðrar leiðir þá eru óeirðir eða  bylting á næsta leiti.

Staðreyndin er sú að fjölmargir í þjóðfélaginu eiga varla til hnífs og skeiðar. Eigum við að sætta okkur við það?


mbl.is Þúsundir vilja greiðsluaðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki þörf á bankaleynd?

Hér á landi halda fljótfærnir að bankaleynd snúist um að fela staðreyndir fyrir fróðleiksfúsum almenningi. Um það snýst ekki málið.

Aðalatriðið er að þeir sem standa í viðskiptum við banka geti treyst því að ekki sé fjallað um þau í fjölmiðlum eða á almannafæri. Fjölmargar ástæður geta verið fyrir því.

Viðskipti með peninga eru  eins og hver eins og hver önnur kaup á vöru og þjónustu. Hins vegar eru bankaviðskipti í eðli sínu viðkvæm og þau má misskilja.

Skuldsett fyrirtæki þarf ekki að vera illa rekið, skortur á rekstrarfé þarf ekki heldur að þýða að reksturinn sé eitthvað varasamur. Stðreyndin er einfaldlega sú að margar ástæður geta verið fyrir því að rekstur gangi illa. Þar af leiðandi er afar varasamt að draga einhverjar fljótfærnislegar ályktanir af þeirri staðreynd að reglur eru um leynd hvíli yfir viðskiptum fyrirtækja og einstaklinga í bönkum.

Þó aðstæður séu þannig hér á landi að brýn þörf sé á að upplýsa um viðskipti ákveðinna einstaklinga og fyrirtækja við gömlu bankana þá er ótækt að aflétta bankaleynd bara til að þóknast óljósum hagsmunum einstakra fjölmiðla.

Óánægja Dana yfir lekanum á lánabók Kaupþings er þess vegna skiljanlegur.

Það er hins vegar illskiljanlegt að ráðherrar í ríkisstjórn landsins skuli með yfirlýsingum hvetja til þess að bankaleynd sé aflétt á þann hátt að eiðsvarnir starfsmenn gömlu og nýju bankanna geti tekið það upp hjá sjálfum sér að senda trúnaðargögn út um móa og mela. 


mbl.is Danir æfir yfir lekanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir hverju á að bólusetja?

Fyrir hverju er verið að bólusetja? Á að bólusetja fyrir svínaflensu sem er aðeins eins og venjuleg flensa og þegar komin út um allar koppagrundir í veröldinni? Eða er ætlunin að bólusetja fyrir hinni stökkbreyttu svínaflensu sem talið er að muni verða til í haust og herja á heimsbyggðina í haust og vetur?

Líklegast er ég að misskilja eitthvað. Ekki trúi ég því að verið sé að verja 380 milljónum króna í gagnslausar varnir og ég neita að trúa því að þetta sé einhvers konar sýndarmennska.

Hið eina sem mér dettur í hug eru svívirðileg samsæri lyfjaframleiðenda og heilbrigðisstétta til að hafa eitthvað þarflegt að gera. og nú sé ég að þessi kenning er ekki heldur sannfærandi.

Fyrir hverju er þá verið að bólusetja? Er ekki alveg eins gáfulegt að leita til spámiðla og biðja þá um að reyna að komast að því hvort þessi flensa verði að vandamáli yfirleitt?

Í þessu sambandi má líka spyrja sig hvort einhver munur sé á læknum og spámiðlum. Báðar stéttirnar eru rýna í framtíðina með mismunandi árangri.


mbl.is Bóluefni fyrir 380 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband