Er ekki þörf á bankaleynd?

Hér á landi halda fljótfærnir að bankaleynd snúist um að fela staðreyndir fyrir fróðleiksfúsum almenningi. Um það snýst ekki málið.

Aðalatriðið er að þeir sem standa í viðskiptum við banka geti treyst því að ekki sé fjallað um þau í fjölmiðlum eða á almannafæri. Fjölmargar ástæður geta verið fyrir því.

Viðskipti með peninga eru  eins og hver eins og hver önnur kaup á vöru og þjónustu. Hins vegar eru bankaviðskipti í eðli sínu viðkvæm og þau má misskilja.

Skuldsett fyrirtæki þarf ekki að vera illa rekið, skortur á rekstrarfé þarf ekki heldur að þýða að reksturinn sé eitthvað varasamur. Stðreyndin er einfaldlega sú að margar ástæður geta verið fyrir því að rekstur gangi illa. Þar af leiðandi er afar varasamt að draga einhverjar fljótfærnislegar ályktanir af þeirri staðreynd að reglur eru um leynd hvíli yfir viðskiptum fyrirtækja og einstaklinga í bönkum.

Þó aðstæður séu þannig hér á landi að brýn þörf sé á að upplýsa um viðskipti ákveðinna einstaklinga og fyrirtækja við gömlu bankana þá er ótækt að aflétta bankaleynd bara til að þóknast óljósum hagsmunum einstakra fjölmiðla.

Óánægja Dana yfir lekanum á lánabók Kaupþings er þess vegna skiljanlegur.

Það er hins vegar illskiljanlegt að ráðherrar í ríkisstjórn landsins skuli með yfirlýsingum hvetja til þess að bankaleynd sé aflétt á þann hátt að eiðsvarnir starfsmenn gömlu og nýju bankanna geti tekið það upp hjá sjálfum sér að senda trúnaðargögn út um móa og mela. 


mbl.is Danir æfir yfir lekanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Björnsson

Hmm.... ég (og þú) mun eyða næstu árum í að borga eitthvað sem mér kemur eiginlega ekkert við. Ég hef nú svona pínu áhuga á að fá að vita eitthvað um það hvað ég er að borga fyrir. Eins ef ég er að borga eitthvað sem í raun var stolið/svikið þá vill ég gjarnan fá að vita hvað það er.

Það bendir ýmislegt til þess að þessi lán hafi mörg hver verið gruggug og hef ég einhverja ástæðu til þess að ætla að það hafi bara verið lán til íslendinga? Miðað við fréttir þá hafa aðilar í Bretlandi og Mið-Austurlöndum fengið "góð" lán og af hverju ættu Danir ekki líka að hafa fengið "góð" lán?

Og hver borgar síðan?

Magnús Björnsson, 4.8.2009 kl. 16:48

2 identicon

Það er ekki til neitt sem heitir bankaleynd um gjaldþrota banka.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 16:51

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Fyllilega sammála, Magnús en þetta var nú ekki beinlínis það sem ég var að pæla í.

Hvaðan fékkstu þær upplýsingar, Gísli minn kæri? Á ekki saklaus maður eða fyrirtæki sinn rétt þó svo að bankinn hafi farið á hausinn?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.8.2009 kl. 16:53

4 Smámynd: AK-72

Það getur svo sem vel veirð en hér á landi hefur bankaleynd verið fyrst og fremst notuð til að hylma yfir fjármálamisferli, svikamyllum, allskonar óeðlilegum viðskiptaháttum og misgjörðum manna sem leiddi að lokum til gjaldþrots þjóðarinnar. Þegar misnotkunin á leynd er svo gríðarleg í hag fárra á kostnað almannahagsmuna, þá er kominn tími til að endurskoða og endurhugsa um hvað bankaleynd nær yfir og bankaviðskipti almennt eiga að vera.

Allavega í núverandi mynd þá er bankaleynd og bankaviðskipti eitthvað svo ógeðfellt í hugum flestra, að orð Ásmunds Stefánssonar um fangavörslu í Auschwitz er eitthvað sem lýsir betur íslenskri bankastarfsemi fremur en innnantómt hjal um að banki sé að vernda hagsmuni viðskiptavina sinna sem flestir voru hlunnfarnir af bönkunum í fjársvikumyllum.

AK-72, 4.8.2009 kl. 17:24

5 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Sigurður,

Ég er sammála að bankaleynd að einhverju leiti er nauðsynleg til að eðlileg bankastarfsemi geti farið fram.  Hinsvegar er mjög hart sótt að bankaleynd allstaðar þessa daga og sérstaklega í löndum eins og Sviss til þess að reyna að gera mögulegt að rannsaka meint undanskot í skattaskjól.  Bandaríkin hafa þrýst mjög á Sviss að liðka fyrir um það og mér skilst að Sviss hafi að nokkru orðið við þeim kröfum.

Hvað varðar Kaupþingsbókina þá virðist það alveg ljóst að íslendku bankarnir og eigendur þeirra voru í hreint svívirðilegum viðskiptum.  Mér finnst að birtingin sé réttlætanleg eins og ástandið er núna, sem er langt frá því að vera eðlilegt ástand hvernig sem á það er litið.  Það þarf að komast til botns í þessum viðskiptum gömlu bankanna og það þarf að gera það sem fyrst og þar þarf allt að vera uppi á borðinu.  Feluleikurinn undanfarið tæpt ár með þessa hluti verður að enda svo hægt sé að koma þessum málum á hreint og almenningur, fyrirtæki og ríkið geti farið að horfa fram á vegin og vinna úr vandamálunum.  Enn sem komið er er eingöngu verið að grafa upp hræin sem bankarnir hafa skilið eftir.  Það er eftir að taka til og það þarf að gera og það með föstum tökum.  Ef ekki þá verður aldrei borið traust til Íslands og íslendinga, hvorki heima fyrir né erlendis.

Kveðja frá Port Angeles,

Arnór Baldvinsson, 4.8.2009 kl. 21:03

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir góðar undirtektir. ég get tekið undir flest af því sem hér hefur verið sagt. Markmiðið með blogginu var hins vegar annað og þá fyrst og fremst að þjóðin kastaði ekki frá sér traustum og góðum gildum. Slíkt gæti leitt til mikilla vandræða.

Þúsundir einstaklinga og fyrirtækja eiga engan þátt í bankahruninu. Af fjölmörgum ástæðum þurfa þessir aðilar sem og aðrir sem vonandi bætast við á næstu árum á bankaleynd að halda.

Bankaleynd er ekki óeðlileg. Auðvitað hafa einstaklingar og fyrirtæki ýmislegt að „fela“. Upplýsingar eru afar mikilvægar í samkeppnisumhverfi.

Þegar saman koma upplýsingar t.d. úr ársreikningaskrá, skattskrá og lánabók banka er auðveldasta mál í heimi að kortleggja hvern og einn sem þýðir að sá sem hefur þessar upplýsingar í höndum getur haft yfirburðastöðu, ekki aðeins í samkeppni heldur á miklu fleiri sviðum.

Hélt að flestir áttuðu sig á þessu. Þó svo að þjóðin eigi í vanda er engin ástæða til þess að kasta fyrir róða eðlilegum reglum og gildum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.8.2009 kl. 09:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband