Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
Frekar fyndið en dómgreinarlaust ...
9.5.2009 | 17:04
Ætli þessir menn geri sér nokkra grein fyrir því hversu alvarlegt það er að plata fjölmiðla til að flytja rangar fréttir. Eflaust kann einhver að halda því fram að hér sé um græskulaust gaman og vissulega kann það að vera rétt. Uppstoppaður ísbjörn vekur næst mesta athygli úti í náttúrunni og af því má hafa gaman.
Hvar endar skemmtunin ef fleiri vilja taka þátt? Hvernig getum við verið viss um að allir skilji brandarann? Hvað er einhverjir taki fréttina alvarlega? Er það til dæmis fyndið að fullyrða Oddfellowar ferðist fullir á vorin?
Jú, í réttu samhengi má hafa gaman af flestu en það er hörmulegt ef fjölmiðill þarf að biðja lesendur sína afsökunar vegna þess að heimildamenn hans eru dómgreindarlausir eða jafnvel vitlausir.
Hins vegar verð ég að viðurkenna að hafa aðeins glott út í annað þegar ég las að fréttin hafi verið röng. Sérstaklega var vitleysan skemmtileg vegna bloggaranna sem réðu sér varla og kommenteruðu sumir tóma steypu eins og vant er.
Ísbjörninn blekking | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Úrtöluraddir þeirra sem ekki þekkja jöklanna
9.5.2009 | 00:42
Það væsir ekkert um þessa ferðamenn á Vatnajökli. Þeir eru að vísu á slæmum stað, hátt uppi og hvergi skjól fyrir hvassri norðaustanáttinni. Hópurinn er hins vegar afar vel búinn enda á vegum þrautreyndra ferðamanna Íslenskra fjallaleiðsögumanna. Vandinn er sá að þeir þurfa að bíða eftir hjálp eða þreyja þorrann og bíða eftir betra veðri. Það fyrrnefnda er skynsamlegra.
Vandinn er hins vegar úrtöluraddirnar. Lið sem aldrei hefur tekist á við náttúru landsins en lætur sér sæma að geipa um málið eins og telur sig vera sérfræðinga. Þannig er Ómar Ragnarsson á bloggsíðu sinni, hnýtir eins og vanalega í ferðamenn og þykist allt vita betur en þeir um veður og veðurspár.
Með fréttaflutningi sínum af ferðum fólks um hálendi Íslands hefur þessi maður verið til hins mesta ógagns sem hugsast getur fyrir ferðalög á hálendinu.
Leiða má að því líkum að eftirá vísdómur mannsins hafi nærri því kostað mannslíf og það fleiri en eitt.
Fréttaflutningur hans hefur verið þannig í gegnum tíðina að fjöldi manns hefur það fyrir reglu að láta ekki vita af sér þegar þeir eiga í vanda á fjöllum. Í augum þeirra er það hin mesta niðurlægin sem hugsast getur að láta björgunarsveitir sækja sig. Þannig er Ómar búinn að baktala ferðamenn sem hafa lent í vanda á fjöllum.
Stórum hluta lífs míns hef ég hef ég eytt meira eða minna í ferðalög á tveimur jafnfljótum, sumar og vetur. Af reynslu minni skil ég ekki þessa fullyrðingu á bloggsíðu Ómars Ísland er eitthvert mesta rokrassgat heims meiri hluta ársins.
Þetta er bara bull manns sem hefur það eitt sem mottó, að sé ekki hægt að aka á einhvern stað er hann ekki þess verður að skoða.
Á öllum mínum ferðum hefur það sárasjaldan gerst að ég og félagar mínir höfum þurft að láta fyrir berast í tjöldum meðan veður gengur yfir. Ég get kannski talið upp þrjú eða fjögur skipti á þrjátíu árum. Í eitt skipti kölluðum við á aðstoð hjálparsveita og þá vantaði ekki að Ómar var kominn upp á dekk með vandlætingar sínar.
Fólk á að reyna sig við fjöllin. Með góðum undirbúningi og skynsamlegum ferðaháttum getur ekkert orðið fólki að fjörtjóni.
Vélsleðum snúið við á Vatnajökli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Vindur leggst í ísbjarnaráttir
8.5.2009 | 09:17
Manni varð nú ekki um sel í gær þegar úr strangri norðaustanáttin fór að slydda. Fyrsta sem manni datt í hug var hið fornkveðna, að það haustaði snemma á þessu vori ...
En hvaða máli skiptir smá vorhret nútildags? Þau hafa ábyggilega verið alvarlegri fyrr á tímum.
Það er frekar kalt og hvass á Skagaströnd í dag. Held'ann sé á norðan eða norðvestan og þar með er'ann að hallast í ísbjarnaráttir. Þá má búast við ófögnuði frá Grænlandi, ísbjörnum og svoleiðis leiðindum. Hver veit nema ég þurfi að hafa byssu með mér þegar ég fer að hlaupa út Skaga. Eða kannski á maður að halda sig heima við ...?
En vorhretið er ekki vandamál fyrir neina nema kannski útlendu listamennina sem hér dveljast mánuð í senn hjá Nes listamiðstöð.
Manni dettur í hug að þeir sem koma frá suðlægari löndum sakni án ef vorsins í sinni heimabyggð. Svo þegar þetta ágæta fólk er tekið tali þá segjast svo margir njóta tilbreytingarinnar, sjá og skilja ótamin náttúruöflin og vilja vita hvernig stendur á því að við svona aðstæður búi fólk hér á hjara veraldar.
Og listamennirnir segjast njóta lífsins.
Fyrir vikið geng ég hnarreistur út í norðaustanáttina og húfan fýkur af mér ...
Fannhvít jörð í Eyjafirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skyldi páfinn skila marmaranum?
7.5.2009 | 21:00
Gaman væri nú að aðrir sem hnuplað hafa í gegnum aldirnar efni úr Colosseum myndu skila því. Til dæmis virðist enginn eftirsjá hjá kirkjunni kaþólsku sem á miðöldum lét greipar sópa um þetta fornfræga hringleikahús til þess eins að ná efni til að gera skreyta Rómarkirkjur.
Margar þeirra hef ég skoðað og þeirra á meðal sjálfa Péturskirkjuna. Vissulega er skrautið og íburðurinn gengdarlaust mikill, alveg yfirþyrmandi. Ég er hins vegar viss um að gvuði sjálfum hafi verið lítill greiði gerður með öllu gullinu og honum finnist kannski meira koma til litlu kirkjunnar á Núpi byggðri úr torfi, grjóti og timbri en andlausum glæsikirkjum í miðborg Rómar. Hygg að margir hafi hreinlega hrokkið af trúnni við að sjá þá ofgnótt sem þar má finna. Enda er sagt að ramminn skipti minna máli en myndefnið.
Þó er ég ekki viss um að æðsti presturinn í Vatikaninu muni stíga fram og gera eins og bandarísku ferðamennirnir. Biðjast afsökunar og skila öllum marmaranum sem einu sinni prýddi Colosseum. Líklega myndi það þýða að fjöldi kirkna í Rómarsókn yrðu ekki svipur hjá sjón. Benni þyrfti nú ekki að skila þýfinu, láta bara afsökunina duga.
Skiluðu flísinni 25 árum síðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ekki sjéns á „djarfri vaxtalækkun“
7.5.2009 | 09:32
Ríkisstjórnin hefur haft harða pólitíska pressu á stjórn Seðlabankans og meningamálanefnd hans og krafist djarfrar vaxtalækkunar eins og viðskiptaráðherrann orðaði það. En einhverra hluta vegna hefur Seðlabankinn aðra sýn á stöðu efnahagsmála. Hún lækkaði stýrivextina aðeins um 2,5%.
Já aumt var'ða, Gylfi Magnússon, hagfræðingur.
Maður hefði nú haldið að Gylfi hagfræðingur og viðskiptaráðherra hefði nú átt auðvelt með að breyta stýrivöxtunum alræmdu. Hann sem dreginn var inn í ríkisstjórnina fyrir dugnað við áslátt búsáhalda og djúpa visku.
Nei. Hann komst að því, blessaður maðurinn, að lífið er ekki eins einfalt og hann hélt. Seðlabankastjórnin hefur allt aðra sýn á efnahagsmálin en ríkisstjórnin. Bankinn er sjálfstæð stofnun og hún lét ekki undan pólitískum þrýstingi ríkisstjórnarinnar vegna þess að ekki er enn grunnur fyrir meiri lækkun stýrivaxta.
Svo er það allt annað mál að stýrivextirnir eru ennþá allt of háir. Við þurfum lífsnauðsynlega að lækka þá. Og hvernig er það gert.
Jú, ríkisstjórnin þarf að fara að vinna vinnuna sína.
Samfylkingin og Vinstri hreyfingin grænt framboð fengu meirihluta á Alþingi í síðustu kosningum með loforðum sem þessir flokkar hafa ekki enn efnt. Þó hafa þeir verið í ríkisstjórn í rúma þrjá mánuði.
Finnst Gylfa Magnússyni réttlætanlegt að bíða öllu lengur? Er ekki ljóst að ríkisstjórnin hefur ekki tök á atvinnuleysinu, verðbólgunni, vandamálum heimilanna og fyrirtækjanna?
Stýrivextir lækka í 13% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pólitískur pressa sett á Seðlabankann
5.5.2009 | 15:37
Greinilegt er að ríkisstjórnin með viðskiptaráðherra í fararbroddi hefur sett mikinn þrýsting á seðlabankastjóra og peningmálanefnd Seðlabankans. Almennt er það vilji almennings og allra stjórnmálaflokka að stýrivextir verði lækkaðir en þeir eru núna 15,5%, enginn efast um það.
Gylfi Magnússon, hagfræðingur, var einn af þeim sem hvað harðast gagnrýndu fyrrverandi bankastjórn Seðlabankans fyrir of háa stýrivexti. Eftir að hann varð viðskiptaráðherra, fyrir rúmum þremur mánuðum, gerðist það eitt að bankastjórn Seðlabankans var hrakin úr starfi. Síðan leið og beið og beið og beið og beið ... og loks tókst að lækka stýrivexti um 2,5%, sem var afar snautleg niðurstaða miðað við upphróp Gylfa í búsáhaldaræðum og annarra stjórnarliða.
Og nú álasar almenningur stjórnarherrunum fyrir slakan árangur þvert á fögur fyrirheit.
Vandinn er því sá að stjórnarliðar gera sér grein fyrir ástandinu og að loforð þeirra um breytingar hafa síður en svo verið efnd. Þess vegna er nú settur gríðarlegur pólitískur þrýstingur á Seðlabankann og hann er einfaldlega krafinn um efndir loforða núverandi ráðherra.
Skítt með þær málefnalegar ástæður sem Seðlabankinn kann að hafa fyrir stýrivaxtastiginu.
Og það sem meira er, núverandi Seðlabankastjórn og peningamálanefnd bankans virðast einfaldlega vera sammála stefnu Seðlabankans undir stjórn Davíðs Oddssonar.
Og það gengur nú ekki, kæru bræður og systur í búsáhaldabyltingunni ...
Nú tekur Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, mikið upp í sig og segist myndi fagna djarfri vaxtalækkun.
Dettur nokkrum manni í hug að hann segi si svona án þess að hafa einhverja fullvissu úr Seðlabankanum? Þvílíkur ómerkingur orða sinna verður ráðherrann ef Seðlabankinn fer ekki að ráðum hans. Pólitískt glapræði er þá að taka svona til orða.
Og nú bíðum við almenningur, rétt eins og við höfum beðið frá því þessi vonarstjórn tók við völdum og lofaði okkur öllu fögru. Við bíðum, bíðum bíðum, bíðum og bíðum ... og á fimmtudaginn kemur í ljós hvort ríkisstjórnin hefur náð að setja næga pressu á Seðlabankann svo hann lækki stýrivextina.
Ef ekki, þá getum við alltaf hent bankastjórninni. Það hefur verið gert áður, að vísu án árangurs, en fordæmið er fyrir hendi.
Myndi fagna djarfri vaxtalækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fyrirtækin hrynja en stjórnvöld gera ekki neitt!
3.5.2009 | 22:46
Kannski hef ég misskilið ástandið. Hugsanlega er maður bara að blaðra eitthvað út í loftið. Ef til vill er ég einn með þessar hugsanir. Enn og aftur hættir vænlegt fyrirtæki rekstri. Það var ekki á'ða bætandi.
Getur einhver sagt mér hvort ég hafi rangt fyrir mér:
- Meira en 18.000 manns eru án atvinnu
- Stýrivextir eru 15,5%
- Gengi íslensku krónunnar fer stöðugt lækkandi
- Ríkisbankarnir geta ekki sinnt lánaþörf fyrirtækja
- Verðbólga er 11% og fer hækkandi
- Fasteignamarkaðurinn hruninn
- Nýju bankarnir eru án fjármögnunar
- Atvinnulífið fær ekki þjónustu í bönkum
Fjandakornið. Á meðan eru sigurvegarar þingkosninganna í einhverjum orðaleik úti í Norrænahúsi. Og forsætisráðherra þarf að taka það fram sérstaklega að ráðherrar sinni þar að auki störfum sínum í ráðuneytunum. Þetta er sama konan og var í síðustu ríkisstjórn og eftir fall hennar kenndi hún Sjálfstæðisflokknum um hrunið.
Samt gerist ekki neitt. Samt hóta fjölmargir að hætta að greiða af húsnæðislánum sínum, aðrir ætla að flýja land. Viðskiptaráðherra talar síðan til fólks eins og einhver bjúrókrat og varar fólk við að grípa til örþrifaráða. Sami maður og nú varar við og stóð áður keikur á Austurvelli og hvatti til byltingar.
Fjármálaráðherra má ekki vera að því að setja reglugerð sem byggir á lögum um greiðsluaðlögum fólks í fjárhagsvanda. Hann er svo upptekinn við stjórnarmyndunarviðræður. Sami maður kenndi Sjálfstæðisflokknum um allt sem miður fór í veröldinni. Þegar hann fær að taka til hendinni gerist ekki neitt, alls ekkert.
Kannski er ég bara að misskilja allt. Ef til vill er allt í sóma hér á landi enda vorið komið og grundirnar gróa. Ætli það sé ekki nóg fyrir landann.
Öllum starfsmönnum sagt upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |