Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

„Laxveiðar í Jemen“ - frábær bók.

9979329521

Ég las fína bók um daginn. Hún ber hið þversagnakennda nafn Laxveiðar í Jemen eftir Paul Torday og er þetta fyrsta skáldsagan hans.

Mæli hiklaust með henni.

Bókin er furðuleg - veit ekki hvort ég heillaðist meira af stílnum eða frásögninni. Höfundurinn er afar góður, sagan er sprellandi fjörug og kemur lesandanum stöðugt á óvart.

Hugsjónamaður frá Jemen, forríkur fursti, fær þá hugmynd að koma upp laxveiðiá í heimalandi sínu. Sjálfur hafði hann heillast af íþróttinni og telur hana vel fallna til að stuðla að samlyndi og friði. Aðal söguhetjan er fiskifræðingur, þurrprumpulegur náungi, gifur bankastarfsmanni sem er jafnvel enn undarlegri en undarlegast er hjónabandið. Jæja, en það sem bjargar fiskifræðingnum er að hann er stangveiðimaður, rétt eins og fursti og þeir ná vel saman.

Inní söguna blandast vilji, viljaleysi og aftur vilji breskra stjórnvalda eða öllu heldur stjórnmálamanna til að koma sjálfum sér á framfæri og nýta áhuga furstans til að búa til laxveiðiá í Jemen sér til framdráttar. Stórkostleg lýsing á hégómagirni stjórnmálamanna og raunar heimsku.

Frásögnin fer fram í dagbókrabrotum, viðtölum yfirheyrslum og síðast en ekki síst tölvusamskiptum. Eins og skrattinn úr sauðleggnum kemur þessi tölvupóstur til bróður Essad, Al-Qeada félaga í Jemen:

Abu Abdulla fyrirskipar ykkur að hefja aðgerð gegn Muhammad ibn Zaidi fursta. Þið þurfið að leita til eins að bræðrum okkar í Finchley í London. Hann þarf þegar í stað að hrinda í framkvæmd aðgerð gegn furstanum til að útrýma honum og stöðva komu laxanna til Jemens. Við höfum millifært það fé sem er til ráðstöfunnar, 27.805 dollara á venjubundinn reikning. Við biðjum guð að leiða ykkur rétta vegu bæði í þessu lífi og framhaldslífinu.
Friður sé með ykkur og miskun Guðs og blessun,
Tariq Anwar. 

En Essad al-Queda félaginn er ekki til í að drepa furstann því sá er vinsæll og ekki síður vegna þess að upphæðin er of lítil. Þeir prútta sem sagt og málið endar með því að bróðir Essad tekur verkefnið að sér var fjárhæðin til verkefnisins hækkuð upp í 31.725 dollara. Og bróðir Essad segir:

Bróðir Anwar, friður sé með þér.
Við höfum fundi bróður hér í Hadramawr sem talar dálitla ensku. Geiturnar hans þrjátíu drápust allar nýlega úr gin- og klaufaveiki. Nú á hann engan mat, enga penginga og engar geitur. Hann gerir þetta. Vinsamlegast sendu peningana og þá hefjum við aðgerðina.
Í Guðs nafni,
Essad.

Þetta er alveg stórkostlegt innlegg í söguna og færir hana í nýja vídd.

Fleira mætti nefna eins og hinn hégómlega og grunnhyggna Meter Maxwell fjölmiðlafulltrúa forsætisráðherra Bretlands, David Sugden, framkvæmdastjóra Þjóðarmiðstöðvar um fiskveiðihlunnindi, sem er ekki skárri persóna.

Varla er skynsamlegt að rekja nánar söguþráðinn. Ég vona bara að þeir sem rekast á þessi skrif mín taki mig trúarlega og verði sér út um bókina. Hún kom út síðasta haust hjá Máli og Menningu. Þýðandi er Sölvi Björn Sigurðsson og skilar textanum með mikilli prýði á íslensku. 

  


Tveir ráðuneytisstjórar á fullum launum

Er það traustvekjandi þegar stjórnmálamaður sem skyndilega verður ráðherra noti fyrsta tækifæri til að hreinsa út úr ráðuneytinu „óæskilega“ starfsmenn?

Maiðað við þann skamma tíma sem er til kosninga má fullyrða að þessi gerningur fjármálaráðherra er tómt rugl. Til viðbótar greiðir ráðuneytið tveimur ráðuneytisstjórum laun.

Ástæðan er örugglega sú að fráfarandi ráðuneytisstjóri er sagður Sjálfstæðismaður. Sama er með ráðuneytisstjórann í lanbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu. Verður hann þvingaður til að taka pokann sinn? Verður kannski starfsmönnum ráðuneyta gert að lýsa yfir stuðningi við Vinstri grænna eða hætta ella störfum?


mbl.is Indriði verður ráðuneytisstjóri tímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veit Ögmundur nokkuð um efni fyrirspurnarinnar?

Hvers konar undanfærslur eru þetta hjá nýja heilbrigðisráðherranum? Af hverju getur hann ekki svarrað Ástu Möller hreint út? Það er hreint átakanlegt að hlusta á Ögmund Jónasson reyna að komast undan því að svara.

Spurningin er einföld: Ætlar ráðherran að sjá til þess að greiðsluþátttökukerfið verði tekið í notkun þann 1. apríl næstkomandi eða ekki? Hann getur svarað með jái eða nei.

Þess í stað blaðrar hann um einhverja frjálshyggju sem finnst þó ekki í stefnuskrá minnihlutastjórnarinnar í heilbrigðismálum né annars staðar.

Gæti kannski verið að Ögmundur Jónasson viti bara ekki út á hvað greiðsluþátttökukerfið gengur út á? Kannski þarf hann bara að skreppa afsíðis og fletta laumulega upp í „leiðbeiningabók fyrir nýja ráðherra í minnihlutastjórn“.

250 þúsund kall á ári er gríðarlegur peningur og ljóst að það er ekki nema fyrir vel stæða að þurfa á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda hér á landi.


mbl.is 500 greiða háan lækniskostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framkvæmdavaldið stýrir löggjafarvaldinu

Áður en atkvæðagreiðslan var haldin deildu þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu hart um þá ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar, að skipt væri um þingforseta.     
 
Ég veiti ekki hvort hér hafi blaðamaður farið rétt með. Sé svo er ekki framkvæmdavaldið að skipta sér af löggjafarvaldinu? Ég man ekki betur en að minnihlutastjórnarþingmennirnir hafi haldið því fram að efla þyrfti veg löggjafarvaldsins sem lengi hafi staðið og setið eins og framkvæmdavaldið krefst.
 
Svona geta nú hlutirnir snúist. Ekki er sama að vera í stjórn og stjórnarandstöðu. Nefna má bara mál eins og ESB, hvalveiðar, álver ... Man einhver eftir fleirum ágreiningsmálum á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar? 

mbl.is Guðbjartur kjörinn þingforseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er skjól fyrst Hans-Gert vill okkur ekki?

Er ESB að verða eins og minnihlutaríkisstjórnin? Fjöldi talsmanna og jafnmargar skoðanir eða álit. Han-Gert segir eitt og Olli vinur vor segir annað.

Ég er enn tvístígandi varðandi ESB. Þarf líklega að gera upp huga minn fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins í mars. Hins vegar líst mér ekkert á að fara inn í ESB ef hann Hans-Gert vill ekkert fá okkur ... Hvar egum við þá skjól? Í Noregi? Það reyndist okkur frekar illa. Kóngurinn þar sveik þjóðina um skip sem hann hafði þó lofað.


mbl.is Segir ekki tímabært að Ísland fái inngöngu í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki tvö Laugavegshlaup?

Alveg stórundarlegt að skipuleggjendur Laugavegsmaraþons kunni ekki bregðast við svona mikilli þátttöku með því að fjölga hlaupunum.

Af þeirri einföldu ástæðu að ég fylgist grant með fréttum þá rakst ég á tilkynningu um að opnað hefði verið fyrir skráningu á Laugaveginn og mér tókst að skrá mig. Aðrir voru ekki eins heppnir.

Furðulegt að menn þurfi að vera heppnir til að geta skráð sig í maraþon. Skipuleggjendur hafa ekki fyrir því að tilkynna þeim sem tóku þátt í fyrra um að skráning hafi verið opnuð. Hafa þeir þó öll tækifæri til þess, kennitölu, heimilisfang, símanúmer og netfang.

Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að bæta við eins og einu hlaupi? Það getur varla verið mikið mál. Þátttakendur greiða 19.900 krónur fyrir að fá að vera með. Tekjurnar af einu hlaupi eru því nærri átta milljónir króna.

Setjum sem svo að skipuleggjendur Maraþonsins telji þetta hlaup of erfitt og nenni ekki að standa í því. Af hverju eru þá Útivist eða Ferðafélagið ekki beðin um að sjá um það, sem verktakar eða eiginlegir skipuleggjendur. Ég þekki nægilega til í þessum félögum að ég geti fullyrt að þau geti tekið þetta að sér. Félögin hafa yfir þúsundum reyndra ferðamenna að ráða og geta reitt fram hundruð sjálfboðaliða auk þess að eiga björgunarsveitirnar að. Þetta gæti kannski komið í veg fyrir meinlegar villur í leiðarlýsingum sem manni eru afhentar fyrir hlaup og eru vönum ferðamönnum á þessum slóðum aðhlátursefni.

Með tveimur hlaupum væri án efa hægt að fullnægja eftirspurn. Því til viðbótar má skipuleggja hlaupin þannig að þau fari eftir getu. Í fyrra hlaupi hlaupi til dæmis sá helmingur sem ætlar sér að hlaupa undir 6,5 klst en í því síðara verðum við sem erum slappari, jafnvel þau okkar sem þurfa nærri því dagatal til tímatöku.

Væri nú þannig hlaup ekki skemmtilegri heldur en þar sem starfsmenn eru taugastrektir og komnir á þá skoðun að þeir séu að gera hlaupurunum greiða með því að standa í þessum ósköpum ...

Af þessu má nú skila að ég er ekkert sérstaklega hrifinn af skipuleggjendum þó svo að ég hafi hlaupið tvisvar. Hef ótal dæmi um óliðlegheit og vitleysur sem félög eins og Útivist og Ferðafélag Íslands myndu aldrei láta henda sig.

En batnandi fólki er best að lifa. Það má þó hrósa skipuleggjendum Maraþonsins fyrir að láta það yfir sig ganga að samþykkja 400 þátttakendur, sem er met. Óskaplega sem maður er þeim þakklátur fyrir ómakið - og fá að borga 19.900 krónur.


mbl.is 400 hlaupa Laugaveginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt gáfulegra hægt að gera fyrir 200 millur

Væri það nú ekki þjóðráð að minnihlutastjórnin reyndi nú að sættast við embættismenn ríkisins og stofnana og reyndi að vinna með þeim í staðin fyrir að efna til kostnaðarsamra breytinga, breytinganna vegna.

Í Seðlabankanum er fjöldi hæfra starfsmanna og þeir hafa unnið sem ein heild og standa sig almennt vel. Auðvitað má setja út á störf Seðlabankans, bankastjóranna eða aðra. Enginn er hafinn yfir gagnrýni. En að ætla sér að greiða 200 milljónir króna til þess eins að losa sig við þrjá menn sem ekki nokkur málaefnaleg gagnrýni hefur komið fram á eru það vitlausasta sem hægt er að gera.

Mitt ráð er því þetta. Látum þessa bankastjóra vinna út ráðningatímann. Það er það eina rétta í stöðunni, þjóðin hefur ekki efni á öðru.

Hvað skyldi nú vera hægt að gera við 200 milljónir króna? Nefnum bara það sem skilar sér strax til baka: Setja þá í nýsköpunarstarf, auka við eigið fé banka og þar með styrkja útlán, viðhaldsverkefni á vegum ríkisins, lagfæring á ssamgöngumannvirkjum og fleira og fleira.

Ég skora á lesendur þessa pistils að koma með fleiri hugmyndir um nýtingu á 200.000.000 króna en að eyða þeim í starfslokasamninga fullfrískra og hæfra Seðlabankastjóra.


mbl.is Jóhanna og Davíð ræddu saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er kuldinn Davíð Oddsyni að kenna?

Eftir er að ákveða hvort kuldakastið sé ekki bara Davíð Oddssyni að kenna. Líklegast er að hinir háværustu muni benda á Davíð enda má rekja sjálfskipaðir álitsgjafar og spekingar þjóðarinnar flest allt sem miður hefur farið í efnhagasmálum, stjórnmálum og veðri til vanhæfni hans. Heilög Jóhanna situr þess vegna ekki með hendur í skauti heldur ætlar að reka manninn í dag í nafni þjóðarinnar.


mbl.is Kalt á landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dugar eitt stykki frumvarp?

Jóhanna ætlar að reka bankastjóranna. Engin ástæða til að kalla þetta öðru nafni. Þjóðin krefst ekki þessa, aðeins hluti af henni, meiri- eða minnihlutinn, ekki þjóðin.

Forvitnilegt verður að sjá hvernig ætlunin er að standa að málum. Dugar að leggja fram frumvarp um endurskipulagningu sem innifelur í sér að hluti starfsmanna verði rekinn? Jafnvel bótalaust.


mbl.is Seðlabankastjórar víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ætlar minnihlutastjórnin að gera

Nú bíður maður bara spenntur eftir að heyra hvað minnihlutastjórnin ætlar að vega í atvinnumálum. Kannski hún finni einhvern tíma milli þess sem hún ræðir um mikilsverðari mál eins og að reka Davíð Oddsson.

Í stjórnarsáttmálanum segir um atvinnumál: 

Framkvæmdaáform opinberra aðila verða endurskoðuð og lögð áhersla á þjóðhagslega arðbær verkefni sem krefjast mikillar vinnuaflsþátttöku. Þá verða engin ný áform um álver kynnt fram að kosningum. Heimildir Íbúðalánasjóðs til lánveitinga vegna viðhaldsverkefna á íbúðarhúsnæði verða rýmkaðar og tekin upp full endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna vinnu við slík verkefni. 

Orð eru til alls fyrst en hvenær er von á framkvæmdum. Varla þarf lengi að bíða miðað við að það var fullyrt að síðasta ríkisstjórn væri sein til verka.

 


mbl.is 13.280 á atvinnuleysisskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband