Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Aðstöðu-, viðdvalar-, þjónustu- eða góngjöld?

Afsakið, þetta gón kostar 200 kr.Verði hafin gjaldtaka á svokölluðum þjónustugjöldum í þjóðgörðum landins má gera ráð fyrir því að einkaaðilar taki víða upp svipuð gjöld á vinsælum ferðamannastöðum. Vandinn sem slíkur fylgir getur verið gríðarlegur, jafnvel svo að ágangur rukkara verði meira og alvarlegra vandamál heldur en ferðir göngufólks.

Ýmsir hafa orðið til að hvetja til gjaldtöku í þjóðgörðum. Nefna má Ástu Möller, alþingismann, Siv Friðleifsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra, og þessi skoðun hefur birst í leiðara Morgunblaðsins.

Við fyrstu sýn kann gjaldtaka að vera fýsilegur kostur ekki síst fyrir þá sök þjóðgarðarnir hafa yfirleitt verið afgangsstærð og hvorki Alþingi né framkvæmdavaldið skipt sér mikið af þeim. Að mörgu leiti hafa þeir því glatað því aðdráttarafli sem í upphafi var áhugi að byggja upp. Fjármagn hefur sárlega vantað inn í íslenska þjóðgarða til að byggja upp og viðhalda göngustígakerfi og ýmiskonar annari þjónustu. Þess ber þó að geta að nú þegar er tekið hóflegt gjald af gestum í þjóðgörðunum og víðar, þ.e. gistigjald og jafnvel viðdvalargjald enda eru það slíkir gestir sem ferðast mest. Ekki má rugla gjaldi fyrir afnot af þeirri aðstöðu sem byggð hefur verið upp og þarfnast viðhald við svokallað góngjaldi, þ.e. þegar ferðamaðurinn sé einfaldlega rukkaður fyrir það eitt að standa við Hvítá og horfa á Gullfoss svo dæmi sé tekið.

Eftir því sem ferðamönnum hefur fjölgað hér á landi, íslenskum sem erlendum, hafa gönguleiðir látið stórlega á sjá. Þeim mun fleiri sem nýta sér merktar gönguleiðir þeim mun meira slitna gönguleiðirnar. Þær grafast niður og í rigningartíð sækir í þær vatn og við það grafast þær enn meira niður og verða göngumönnum erfiðar. Þeir færa sig þá til og annar göngustígur myndast við hlið þess gamla og sagan endurtekur sig.

Nú er svo komið að alvarlegar skemmdir hafa orðið á ýmsum náttúruperlum víða um land vegna ágangs ferðamanna og viðhaldsleysi á göngustígum. Nefna má fjölmarga staði utan þjóðgarða: Gönguleiðir í Goðalandi og Þórsmörk, gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls, göngustígana upp á Esju, göngustíginn á Vífilsfell, gönguleiðir í Lakagígum, nokkrir gönguleggir á Hornströndum, gönguleiðir í kringum Landmannalaugar, gönguleiðir við Veiðivötn og leggir á hinni vinsælu gönguleið milli Landmannalauga og Þórsmerkur liggja undir stórskemmdum. Fleiri svæði mætti nefna.

Þegar ríkisvaldið gefur grænt ljós til gjaldtöku á ferðamannastöðum undir því markmiði að nú eigi að „standa myndarlega að aðgerðum til að hindra náttúruspjöll" eins og Morgunblaðið hefur orðaði það má búast við því að aðrir hugsi sér til hreyfings og sjái sér leik á borði til fjáröflunar. Ekki er eins víst að ferðamenn hagnist á slíkri gjaldtöku. Verður þá vart stigið niður fæti fyrir rukkurum af ýmsu tagi. Hugmyndaríkir landeigendur eða umsjónarmenn landa geta þá séð auð sinn vaxa af almennum viðdvalargjöldum, myndatökugjaldi, akvegagjaldi og ýmsum fleiri gjöldum. Á eftir fylgir að landsvæðum verður lokað fyrir umferð "óviðkomandi" hverjir sem það kunna að verða.

Svo er það algjörlega óklárt hvernig eigi að bæta  skaða þar sem skemmdir hafa orðið utan hefbundinna ferðamannastaða. Hvernig er til dæmis ætlunin að lagfæra skaðann á Fimmvörðuhálsi eða Þverfellshorni í Esju? Senda rukkara á svæðið?

Ríkissjóður hefur gríðarlegar tekjur af innlendum og erlendum ferðamönnum í formi aukins virðisaukaskatts, tekjuskatts af ferðaþjónustufyrirtækjum, afgjalds af eldsneyti svo dæmi sé tekið. Það er því sanngirnismál að ríkissjóður kosti viðhald og viðgerðir á slóðum ferðamanna þar sem þess er þörf rétt eins og ríkissjóður kostar viðhald á þjóðvegum landsins.

Hins vegar ber að vara við upptöku á einhvers konar góngjaldi, hvort sem það er ríkissjóður sem krefst auranna eða einkaaðilar. Náttúruspjöll vegna umferðar ferðamanna eru miklar og þær eiga eftir að aukast. Mikilvægasta verkefnið er að finna hagkvæmar leiðir til að bæta skaðann og koma í veg fyrir áframhaldandi skemmdir án þess að gera ferðamenn að frekari „féþúfu“.

 


mbl.is Gjald inn á ferðamannastaði raunhæft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir kunna ekki að skammast sín

Væntanlega hefur Alexander Karsner þótt mikið til um gufuöflunn til raforkuvinnslu hér á landi en áreiðanlega hefur hann lítið tjáð sig um umhverfið. Skoðun hans skiptir litlu máli, hitt er mikilvægara að þeir sem standa að framkvæmdum hér á landi geri það af smekkvísi og leitist við að fella mannvirkin að landslaginu eftir því sem kostur er.

Ef fylgikvillar gufuaflsvirkjunar eru háþrýstipípur sem liggja út um allar jarðir eins og hráviði, vegagerð sem engu eirir og byggingar sem líta út eins og illkynja sjúkdómur þá er líklegast best að sleppa því að virkja gufuna.

Illu heilli var virkjunin á Kolviðarhóli undanþegin mati á umhverfisáhrifum og hvorki sveitartjórn Ölfushrepps né stjórn Orkuveitunnar báru tilfinningar í brjósti gagnvart náttúrunni eða umhverfinu. Því fór sem fór. 

Og nú er haldin sýning á herlegheitunum. Menn kunna bersýnilega ekki að skammast sín.


mbl.is Aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna á Hellisheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin langa bið eftir iPhone

iphonehero20070702Þetta er bara sími, en hugsunin um hann fær þúsundir til að fyllast tilhlökkun. Óteljandi heimasíður og bloggsíður eru tileinkaðar honum. Flestir lofa hönnunina, tæknina og hversu vænn hann er í notkun. iPhone er einn stór snertiskjár sem virkar sem sími, tónlistargeymsla, myndageymsla, myndavél, sms hnappaborð, internetvafri, tölvupóstur og margt fleira.

Apple kann að gleðja okkur. Ég er til dæmis steinhættur að spila geisladiska, hleð þeim frekar inn í hið frábæra iTunes forrit og geymi lögin þar og á iPod. Þannig er öll sú tónlist sem mér líkar í snertifæri , hvar sem er og hvernær sem er. Sem áhugaljósmyndari finnst mér stórkostlegt að geta notað iPhoto eða Arperture fyrir myndirnar mínar, jafnvel þó að ég sé mest spenntur fyrir litlu og einföldu Makkaforriti sem heitir GraphicConverter sem er þýskt að uppruna. Svo er ég líka með heimasíðu sem ég hannaði á Apple forrit sem nefnist iWeb. Verkefnið tók mig eina helgi, kann ég þó ekkert í heimasíðugerð en svo virðist sem útlit síðunnar falli mörgum vel í geð, sjá hér.

Nú bíð ég spenntur eftir iPhone eins og þúsundir annarra Íslendinga. Hann kom á markaðinn í Bandaríkjunum í lok júní og á fyrsta sólarhringnum seldust um 270 þúsund símar. Gert er ráð fyrir að ein milljón síma verði seld fyrir lok september og tíu milljónir fyrir lok árs 2008. Auðvitað heyrast úrtöluraddir um að síminn sé algjört flopp. Það var líka sagt um Makkann og iPod. Reglulega hefur verið fullyrt að fyrirtækið væri á leiðinni á hausinn, en dómsdagsspásagnirnar hafa aldrei ræst, þvert á móti hefur Apple hingað til stöðugt komið á óvart og jafnvel farið fram úr björtustu vonum áhangenda sinna. Fyrir nokkrum dögum kynnti fyrirtækið rekstur sinn fyrri hluta ársins og kemur þar í ljós að hagnaðurinn hefur aldrei verið meiri, sala á Mökkum jókstil dæmis um 33% frá síðasta ári og sala á iPod um 21%.

Ég brá mér niður í Apple búina um daginn og fékk að handleika iPhone. Auðvitað er ég jafnundarlegur og aðrir því það fór ekki fram hjá mér að síminn er stórkostlegur og ég get varla beðið eftir að hann komi á markaðinn hér á landi.

Hellisheiðarvirkjun er OR til skammar

DSCN0611Orkuveitan varð sér til ævarandi skammar með Hellisheiðarvirkjun. Gríðarlegar skemmdir hafa verið gerðar á landslagi við Kolviðarhól, í Hellisskarði, á Skarðsmýrarfjalli og víðar. Þarna hlykkjast risastórar gufuleiðslur í óskiljanlegum hlykkjum út um allar jarðir.

Eitt fallegasta útivistarsvæði á landinu hefur verið eyðilagt. Þannig hefði ekki þurft að fara ef stjórnendur Orkuveitunnar hefðu haft einhvern skilning eða tilfinningar fyrir landinu. Þetta er ömuleg sjón.

Eflaust var vonlaust að koma í veg fyrir virkjunina sem slíka. Hins vegar átti þau stjórnvöld sem að þessum málum komu að gera þær kröfur að gufuleiðslan væri lögð í jörðu og vegaframkvæmdum haldið í algjöru lágmarki. Tæknin er slík að ekki hefði þurft að vaða með vegi og tæki upp á fjöll.

Ég hef heimildir fyrir því að Orkuveitan ætlar sér næst að fara inn í Innstadal í Hengli og bora þar að minnsta kosti eina holu. Þegar það gerist er ég alveg tilbúinn til þess að mótmæla harðlega á vettvangi. Innstidalur á að vera lokaður fyrir umferð vélknúinna farartækja. DSCN0601


mbl.is Mótmælendur loka fyrir umferð að Hellisheiðarvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjöraðstæður til mótmæla

Kjöraðstæður eru til mótmæla, veðrið er gott, undirtektir lögreglunnar hinar bestu, viðbrögð fjölmiðla enn betri og málefnið aldeilis stórfínt og göfugt. Þess vegna er svo gaman.

Verstur fjandinn væri ef maður færi að brölta uppi í krana og engin lögga kæmi á vettvangi, fréttamenn og myndatökumenn víðs fjarri og jafnvel sá sem vinnur á krananum myndi fara kaffi. Slíkar eru ekki kjöraðstæður fyrir neinn sómakæran mótmælanda.

Á morgun ætla ég að klifra upp á höfuðstöðvar Kaupþings og mótmæla heimsvaldastefnu bankans ...


mbl.is Tveir mótmælendur handteknir í Straumsvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dies Caniculares

Nú eru hundadagar og hafa þeir fengið aðra merkingu en tilvísun í Jörgen hundadagakonung og stjarnfræðileg tákn á morgunhimni.

Þar sem Lúkas er nú kominn heim má geta þess að hugsanlega er meirihluti landsmanna orðlaus. Væri nú ekki ráð að kanna hvort svoleiðis hafi ekki einhver gróðurhúsaáhrif í för með sér ...

Og svo mun kona hafa hnotið í gönguferð á Þingvöllum en hún varðist falli og hélt ferðinni áfram eins og ekkert hefði í skorist.  Ekkert las maður um þetta í fjölmiðlunum.

 

 


mbl.is Lúkas kominn heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölgun göngufólks mun valda enn frekari landskemmdum

DSC00068Það stórsér á Esjunni vegna átroðnings ferðamanna. Fimmvörðuháls liggur undir skemmdum, gönguleiðin milli Landmannalauga og Þórsmerkur, fjöldi gönguleiða í Þórsmörk og á svæðin sunnan Krossár eru skemmd og svona má lengi telja.

Ritstjórnargrein Morgunblaðsins í dag, 17. júlí 2007 fjalla um landið og ferðamennsku. Þar er fjallað um átroðning ferðamanna og bent á að vinsælir ferðamannastaðir séu takmarkaðar auðlindir og hvatt til umræðu um vandamálið.

Er ástæða til að taka það fram sem liggur í augum uppi? Jú, ekki gera sér allir grein fyrir þeirri staðreyns að það eyðist sem af er tekið. Sama er með gönguleiðir á hálendinu. Svo „óvistvæn“ er ferðamennska göngufólks að hún slítur landinu, göngustígar myndast, þeir grafast niður, vatn tekur að renna í þeim, þeir verða ófærir, göngumenn færa sig til hliðar og þar byrjar sama vandamálið aftur. Allt þetta getur síðan valdið uppblæstri og frekari gróðureyðingu.

Efri myndin var tekin nýlega og er frá Foldum sem tilheyrir gönguleiðinni yfir Fimmvörðuháls. Hin var tekin í vor á gönguleiðinni upp á Þverfellshorn í Esju.

DSCN1448Er hér verið að vara við ferðalögum göngufólks um landið? Nei, ég er sjálfur göngumaður en mér svíður hins vegar sárt að sjá hverjar eru afleiðingar átroðnings okkar göngumanna.

Hvað er þá til ráða? Því er til að svara að akvegir eru allflestir undirbúnir, enginn fær lengur að aka að vild utan vega. Vegum er viðhaldið, stöðugt er reynt að bæta fyrir það slit sem verður. Sama hugsun þarf að verða á gönguleiðum landsins.

Til að koma í veg fyrir að gönguleiðir slíti landinu og skemmi út frá sér þarf að fyrst og fremst að undirbyggja göngustíga sem standa í halla. Þar er hættan á skemmdum gríðarlega mikil eins og sjá má t.d. undir Þverfellshorni í Esju og á Foldum í Goðalandi á gönguleiðinni yfir Fimmvörðuháls.

Þetta nefnir Morgunblaðið því miður ekki í forystugrein sinni í dag. Blaðið hefur mikil áhrif og tekur afstöðu til þjóðþrifamála og hvetur til umræðu. Þessi grein mín og aðrar eru til að vekja upp umræðuna. Sjá nánar fleiri greinar á þessari bloggsíðu, t.d. greinarnar „Esjan er stórskemmd“, „Hvernig á að bæta skemmdir vegna ferðamanna?“, „Er Esjan ónýt?“ og „Landskemmdir vegna umferðar“.

 

Hér hefur ekki verið rætt neitt um þá ábyrgð þeirra sem taka að sér að leggja nýja gönguleiðir. Hún er mikil og víst að sumir þeirra eru ekkert skárri en sauðféð sem á „sök“ á mörgum stígum hér og þar. Það er einfaldlega háttur göngumanna að reyna að fara sem skemmsta leið á milli staða. Allir krókar verða þannig til vandræða eins og sést t.d. á gönguleiðinni á Þverfellshorn. Þar var reynt að fá fólk til að ganga eftir fínum stíg að tröppum, en fáir létu sér segjast heldur styttu sér leið og skemmdu fallega græna brekku og þar er nú fjöldi göngustíga eins og neðri myndin ber með sér.

Spáð er um sex hundruð þúsund ferðamönnum hér á landi eftir nokkur ár. Verði ekkert að gert spái ég stórkostlegum landskemmdum vegna göngufólks, íslenskra sem útlendra. 



Þvílík vitleysa að hætta sér í 54 km hlaupi um óbyggðir!

DSC00028Hvað fær miðaldra kall til að fórna líkamlegri heilsu sinni í 54 km hlaupi um óbyggðir? Sumir segja það einfaldlega vera sú tilvistarkrísa sem ofsækir menn á þessum aldri og þeir þurfi að sanna það að þeir séu enn ungir og geti gert allt það sem ungir takast á við.

Jæja, hver sem skýringin er, þá tókum við tveir félagar þá ákvörðun í maí að hlaupa milli Landmannalauga og Þórsmerkur í hlaupi sem nefnt er upp á erlendar tungur „Ultra Marathon“. 

Hlaupið fór fram laugardaginn 14. júlí og voru 133 skráðir til leiks og komust allir í mark og þar á meðal sá sem þetta ritar og félaginn og jafnaldrinn Guðbergur Davíð Davíðsson. Tímar okkar voru nú ekkert sérstakir, við vorum sitt hvorum megin við átta klukkustundir á leiðinni og hefðum án efa verið mun fljótari ef hné skrifara hefðu nú ekki svikið á síðustu þrettán kílómetrunum. Skildu þá leiðir, Guðbergur hvarf í rykmekki eins og Speedy Gonsales forðum daga, en sá sem eftir hökti, át nokkrar íbófentöflur og linaðist þá sársaukinn og gat dregist í markið nokkuð virðulega.

Eftir að hafa byrjað að stunda aftur skokk í byrjun janúar á þessu ári má fullyrða að það sé ágætur árangur fyrir þungan, sköllóttan, miðaldra kall að geta hlaupið þessa 54 km á milli Landmannalauga og Þórsmerkur og lenda í 116 sæti af 133.

Við félagarnir töldum okkur í upphafi geta farið þetta á tólf klukkustundum. Svo var viðmiðið hækkað í tíu klukkustundir. Þá kom í ljós að tímatakmörk voru sett við komu í Botna í Emstrum. Þeir sem ekki næðu þangað á innan við sex klukkustundum voru hreinlega úr leik. Ljóst var að við þurftum að leggja mun harðar að okkur og eftir langar og strembnar æfingar komumst við að því að tíminn í Botna yrði um það bil fimm og hálf klukkustund og það stóðst. Hins vegar tók það rúma tvo tíma að komast niður í Húsadal á biluðum hnjám, meira en hálftíma lengur en þörf var á.

Heilsan er bara góð eftir hlaupið. Mórallinn er enn betri og hnén eru óðum að lagast. Þar sem að ég skildi dómgreindina eftir á Fjallabaki er ég búinn að skrá mig í hálft Reykjavíkurmaraþon þann 18. ágúst. Hvers konar vitleysa er þetta nú?


Enginn barlómur í Bolungarvík!

Ber nú eitthvað nýrra við á Vestfjörðum. Bæjarráð Bolungarvíkur kemur með málefnalega og skynsama ályktun um niðurskurð á aflaheimildum fyrir næsta fiskveiðiár.

Síðan ríkisstjórnin ákvað niðurskurðinn hafa fjölmargir Vestfirðingar komið fram í fjölmiðlum bölvandi og ragnandi og margir gengið svo langt að hafa í hótunum við sjávarútvegsráðherra og jafnvel hvatt til þess að lög og reglur verði brotnar. Þó mönnum sé heitt í hamsi er svona framkoma engum til sóma.

Vandi Vestfjarða er margvíslegur og vart neitt eitt sem lagar stöðu þeirra í þjóðfélaginu. Nú er brýnt að þeir skoði sinn gang og láti af stöðugum barlómi og harmagráti. Í sannleika sagt hafa eilífar vandamálafréttir af Vestfjörðum eyðilagt meira fyrir landshlutanum en flest annað.

Hvaða skilaboð eru það til þjóðarinnar að allt sé í kaldakoli á Vestfjörðum? Jú, nákvæmlega það að fólk mun hugsa sig tvisvar um áður en hugar að því að flytjast þangað búferlum.

Og hvað hugsa þeir sem hafa áhuga á að stofnsetja fyrirtæki? Þeir hugsa sig án efa tvisvar um - ef ekki oftar. Til hvers að stofna til atvinnurekstrar þar sem allir eru síkveinandi og kvartandi, íbúarnir á harðahlaupum í burtu, atvinnureksturinn í stökustu vandræðum og ekkert ljós í svartnættinu?

Má þá eiginlega ekkert segja? kann einhver Vestfirðingurinn að hrópa. Að sjálfsögðu er ég ekki að mælast til þess að málfrelsið sé takmarkað. Hins vegar er vert að huga svolítið að þeirri mynd sem Vestfirðingar hafa skapað sér í augum annarra landsmanna síðustu misserin, huga að almannatengslum og markaðsmálum.

Ég met Vestfirði og íbúa landshlutans mikils og vona að þessi orð mín verði ekki misskilin enda er sá vinur sem til vamms segir. Það er uppbyggilegt að fara að ráðum bæjarstjórnar Bolungarvíkur, ræða málin af skynsemi og framar öllu óska eftir samráði við ríkisstjórn um viðbrögð til að minnka eða koma í veg fyrir áföll vegna skerðingar á þorskkvóta. Hávaði og læti leysa engan vanda.
mbl.is Bæjarráð Bolungarvíkur virðir ákvörðun sjávarútvegsráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Teljast öll útköll björgunarsveita fréttir?

Í fyrsta lagi er Útigönguhöfði, Morinsheiði eða Hvannárgil ekki í Þórsmörk. Í öðru lagi liggur merkt gönguleið af bæði Heljarkambi og Morinsheiði ofan í Hvannárgil. Í þriðja lagi hafa þúsundir manna gengið yfir Fimmvörðuháls á þessu sumri og gönguleiðin er orðin afar vel troðin og greinileg. Í fjórða lagi er erfitt að átta sig á því hvað sá sem skrifar fréttina á við með því að segja að fólkið hafi verið komið í sjálfheldu sunnarlega í Útigönguhöfða.

Ég þekki mig afar vel á þessum slóðum en skil ekkert í þessari frétt. Ferðafélagið Útivist hefur gefið út mjög skilmerkilegt kort af gönguleiðum í Goðalandi, Básum, Stakkholti og fleiri svæðum þarna. Að auki hefur félagið stikað gönguleiðir og sett víða upp vegpresta. 

Af öllu samanlögðu verður hreinlega að segjast eins og er að fréttin er meingölluð, illa skrifuð. Þó má greinilega ráða að ekkert hafi komið fyrir annað en að fólk hafi farið villur vegar sem líklega er ekki fréttnæmt fyrir annað en það að björgunarsveitir voru kallaðar út og þyrla.

Hafa stjórnstöðvar leita hjálparsveita ekki önnur forgangsverkefni en að tilkynna fjölmiðlum um útköll? Teljast öll útköll björgunarsveitar fréttir? Svona fjölmiðlaárátta á eftir að koma einhverjum í slæm vandræði. Fjöldi fólks er svo einþykkt og þrjóskt að að það vill heldur berjast í ómögulegum aðstæðum á fjöllum frekar en að kalla á hjálp. Oftast er svo innlegg fjölmiðla að velta sér upp úr kostnaði við leitir og gera lítið úr þeim sem „bjargað“ er, til dæmis með kommentum um veðurspár og jafnvel glæfraskap.

Ég og félagar mínir höfum einu sinni átt þátt í að kalla á björgunarsveit til aðstoðar vini sem við töldum vera í vanda staddur. Það var samdóma álit okkar að við myndum aldrei gera það aftur nema eftir langa og ítarlega íhugun. Allir hljóta að sjá hvaða afleiðingar slíkt viðhorf kann að hafa í för með sér.


mbl.is Ferðafólki bjargað heilu á höldnu í Þórsmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband