Þvílík vitleysa að hætta sér í 54 km hlaupi um óbyggðir!

DSC00028Hvað fær miðaldra kall til að fórna líkamlegri heilsu sinni í 54 km hlaupi um óbyggðir? Sumir segja það einfaldlega vera sú tilvistarkrísa sem ofsækir menn á þessum aldri og þeir þurfi að sanna það að þeir séu enn ungir og geti gert allt það sem ungir takast á við.

Jæja, hver sem skýringin er, þá tókum við tveir félagar þá ákvörðun í maí að hlaupa milli Landmannalauga og Þórsmerkur í hlaupi sem nefnt er upp á erlendar tungur „Ultra Marathon“. 

Hlaupið fór fram laugardaginn 14. júlí og voru 133 skráðir til leiks og komust allir í mark og þar á meðal sá sem þetta ritar og félaginn og jafnaldrinn Guðbergur Davíð Davíðsson. Tímar okkar voru nú ekkert sérstakir, við vorum sitt hvorum megin við átta klukkustundir á leiðinni og hefðum án efa verið mun fljótari ef hné skrifara hefðu nú ekki svikið á síðustu þrettán kílómetrunum. Skildu þá leiðir, Guðbergur hvarf í rykmekki eins og Speedy Gonsales forðum daga, en sá sem eftir hökti, át nokkrar íbófentöflur og linaðist þá sársaukinn og gat dregist í markið nokkuð virðulega.

Eftir að hafa byrjað að stunda aftur skokk í byrjun janúar á þessu ári má fullyrða að það sé ágætur árangur fyrir þungan, sköllóttan, miðaldra kall að geta hlaupið þessa 54 km á milli Landmannalauga og Þórsmerkur og lenda í 116 sæti af 133.

Við félagarnir töldum okkur í upphafi geta farið þetta á tólf klukkustundum. Svo var viðmiðið hækkað í tíu klukkustundir. Þá kom í ljós að tímatakmörk voru sett við komu í Botna í Emstrum. Þeir sem ekki næðu þangað á innan við sex klukkustundum voru hreinlega úr leik. Ljóst var að við þurftum að leggja mun harðar að okkur og eftir langar og strembnar æfingar komumst við að því að tíminn í Botna yrði um það bil fimm og hálf klukkustund og það stóðst. Hins vegar tók það rúma tvo tíma að komast niður í Húsadal á biluðum hnjám, meira en hálftíma lengur en þörf var á.

Heilsan er bara góð eftir hlaupið. Mórallinn er enn betri og hnén eru óðum að lagast. Þar sem að ég skildi dómgreindina eftir á Fjallabaki er ég búinn að skrá mig í hálft Reykjavíkurmaraþon þann 18. ágúst. Hvers konar vitleysa er þetta nú?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband