Tví-svala-jóla-kveðjur mínar eru jólalegri en síbylja Ríkisútvarpsins
23.12.2023 | 13:47
Í morgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann, og hrópaði síðan af öllum kröftum:
Sendi ættingjum og vinum hugheilar óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.
Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust:
Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.
Haltu kjafti, helv... þitt. Fólk er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.
Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.
Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði. Nagladekk skröltu á íslausu malbiki.
Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, jafnvel þótt fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju.
Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda jólakort eða tölvupóst. Hrópin á svölunum hef ég hins vegar stundað á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum. Og allir gleðjast yfir gleðilegjólaogfarsæltnýttárhrópum mínum (nema þessi rámi).
Jólakveðjur útvarpsins
Nú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna rúmlega hálfra aldar gamlan sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins. Skil ekki hvernig hægt er að finna það út.
Úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín á gufunni eða einhvers sem ég þekki og aldrei hef ég kannast við nöfn þeirra sem senda kveðjur. Sendendur eru alltaf einhverjir sem enginn þekkir, til dæmis „Stína, Barði, börnin“ og fleiri sem ég man ekki hvað heita enda enn fleiri kveðjur þetta árið en í fyrra. Það bendir eindregið til þess að fleiri og fleiri láta Rúvið plata sig.
Sko, ég held því síst af öllu fram að kveðjurnar séu ómarkviss vitleysa fyrir kaupendur (og hlustendur).
Á kaffistofunni er því haldið fram að kveðjurnar séu að mestu leyti skáldaðar af starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Óneitanlega er það grunsamlegt hversu kveðjurnar eru allar keimlíkar.
Í þeim koma fyrir fyrir orðin óskir, jól, gleðilegt, þakka, ár, nýtt, líða og svo kryddað með innihaldsríkum samtekningum og forsetningum af ýmsu tagi. Nokkuð til í þessu.
Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt er þó jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á yfir fjögur þúsund jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu. Hreint útilokað. Vonlaust. Óraunhæft.
Ríkisútvarpið græðir
Aðferðafræðin er doldið kjánaleg, svona markaðslega séð. Og enn vitlausari eru þeir sem punga út fullt af peningum til að senda kveðjur sem aldrei rata til móttakenda.
Margir nenna ekki lengur að hlusta á jólakveðjurnar sem er synd, illa farið með góða sorg sem óhjákvæmilega til verður þegar ekki næst að grípa kveðju sem maður vonar að hafi verið send en fór aldrei í loftið. Þó eru margir með gufuna opna og hlusta á kveðjurnar sem í síbylju hverfa út í algleymið meðan verið er að baka, pakka inn jólagjöfum, berja krakkanna eða eitthvað annað þarflegt. Það er nú svo agalega jólalegt. Ha? Ekki satt?
Hitt er ku vera dagsatt að Ríkisútvarpið græðir tæplega tuttugu milljónir króna á tiltækinu og kostar engu til nema þulunum sem þylja sig hása. Útvarpsstjórinn las í fyrra í tvær mínútur meðan teknar voru hreyfimyndir og ljósmyndir af honum við þessa iðju og svo fór hann heim. Allir hinir eru þegar á launaskrá svo kostnaðurinn er enginn. Bara tekjur. Stórbissniss.
En bíddu nú aldeilis við, kæri lesandi.
Í anda samkeppni og þjóðþrifa mun ég frá og með deginum í dag og fram yfir áramót bjóða landsmönnum að hrópa hjartnæmar jóla-, annaníjóla-, þriðjaíjóla-, fjórðaíjóla ... (og svo framvegis) og nýjárskveðjur af svölunum heima.
Rafræna tómið
Svo vel hefur tekist til á undanförnum árum að þetta er að verða siður, svo óskaplega jólalegur jólasiður um jólin. Spyrjið bara alla þá sem sendu og fengu kveðjur í fyrra, hitteðfyrr, þarhitteðfyrra, þarogþarogþarhitteðfyrra. Heimtur á kveðjum eru margfalt betri hjá mér en Ríkisútvarpinu, hjá því hverfur allt út í rafrænt tómið á bak við hringi Satúrnusar.
Verðið er miklu betra en hjá Ríkisútvarpinu, heilum 17,523% lægra. Og það sem meira er: Komist kveðja sannanlega ekki til skila fær kaupandinn 33,9% endurgreiðslu. Keppinauturinn getur sko ekki toppað þetta og mun ekki einu sinni reyna það.
Fyrst nú er verið að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna þá staðreynd í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu og aðdáun fyrir hefðum fólks að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í rafræna tómið sem áður var nefnt og er að auki umhverfislega stórhættulegt og um síðir getur valdið ólæknandi veirusjúkdómum eins og dæmi síðustu ára sanna.
Eða heldur þú, lesandi góður, að Kóvid veiran hafi bara orðið til úr engu? Í Kína? Ó nei. Ekki aldeilis. „Á skal á endanum vaða“, eins og kellingin sagði. Eða hvers vegna mun yfirborð sjávar hækka um fimm sentímetra á næstu þrem árum og veiran stökkbreytast? Ég bara sper.
Gasalega jólalegt
Já, það má vel vera að Ríkisútvarpið reyni að klekkja á mér, samkeppnisaðilanum (aðili er svooo fallegt orð), með því að láta útvarpsstjóra bregðast við (og verða þá „viðbragðsaðili“) lesa jólakveðjur í tíu mínútur. Kemur nú krókur á móti þessu bragði og mun ég breyta um rödd í tíu mínútur og þykjast vera forsetinn (landsins, Trump eða kóngurinn í Lúxúmbúrg eða einhver annar).
Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:
En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.
Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obbbbb-ooooðs-leeeeeg-aaaa-a jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölunum mínum á Þorláksmessu-, aðfangadags- og jóladagsmorgni. Þar að auki hef ég tvennar svalir, í austur og suður. Toppaðu það, þú þarna útvarpsstjóri!
(Vilji svo til að einhver óglöggur lesandi telji sig hafa lesið ofangreindan pistil á Þorláksmessu á síðasta ári skal það fyrirfram dregið í efa vegna þess að fólk man ekkert stundinni lengur.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.