Glefs og gelt Helgu þingmanns Samfylkingarinnar

Ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi Seðlabankastjóri ryðst fram á ritvöllinn í leiðara blaðsins og skýrir fyrir lesendum sínum hvað að hans mati varð Silicon Valley-bankanum að falli á dögunum.

Þetta segir þingmaður Samfylkingarinnar, Helga V. Helgadóttir. Henni er uppsigað við ritstjóra Morgunblaðsins og hnýtir í hann á ómálefnalegan hátt. 

Hvað sagði eiginlega ritstjórinn í leiðaranum sem þingmaðurinn vitnaði til? Um það er ekki stafkrókur í greininni. Þetta er engu líkara en þegar hundur eltist við bíla, reynir að glefsa í dekkin og geltir um leið ákaft en veit ekkert hvers vegna. Hann gerir þetta vegna þess að hann er ræfilshundur. Hann glefsar og geltir því eðlið býður honum að gera svo.

Látum nú vera að þingmaður fylgi eðli sínu en það sætir samt nokkurri furðu að hann, sem er lögfræðingur, ásakar ritstjórann ekki, leggur ekki fram neina kæru. Einna næst því kemst Helga þingmaður með þessum orðum:

Einhver hefði talið að fyrrverandi seðlabankastjóri, sem hefur góða reynslu af því að fara illa að ráði sínu við stjórn banka, hefði lært sitt af hverju á löngum ferli sínum en nei, leita skyldi sökudólga þar sem síst skyldi.

Trú eðli sínu lætur hún duga að sveifla brandi þó enginn viti hvert ákæruefnið er. Hún lætur í það skína að aumingja ritstjórinn hafi gerst sekur um stóralvarlegan glæp auk þess sem hann hafi verið seðlabankastjóri og stýrt honum illa. Það snertir Silicon Valley bankann ekki hætis hót.

Aðferðafræði margra sem sem vilja sverta meintan andstæðing sinn er þessi:

  1. Segja frá glæpnum án þess að hafa neitt orðrétt eftir andstæðingnum.
  2. Túlka glæpinn og draga ekki af sér í fordæmingunni.
  3. Draga sem flesta inn í málið, helst vinnustað og þá sem þekkja sökudólginn.

Þetta kann hún Helga þingmaður Samfylkingarinnar enda hefur hún gert þetta áður, sjá hér. Hún virðist ekki fylgja sannleikanum að málum, miklu frekar er hún svokallaður „trumpisti“, segir það sem ætti að vera satt og rétt, býr til „hliðarsannleika“.

Ritstjórinn er óalandi og óferjandi, vinnustaður hans, Morgunblaðið, „naut eitt sinn virðingar“ og:

Hér á landi hafa menn eins og ritstjórinn fengið stjórnlausa útrás fyrir andúð sína á nútímanum, á síðum Morgunblaðsins, sem eitt sinn þótti sómakær fjölmiðill.

Tökum eftir þessu orðalagi „andúð á nútímanum“ því þingmaðurinn leyfir sér að leita aftur í tímann til að koma höggi á ritstjórann. Það er gerir hann á þennan hátt:

Eitt sinn bjó fólk í felum árum saman fyrir það eitt að fella hug til annarra en þeirra sem samfélaginu þótti við hæfi. Einu sinni var það svo að konum sem áttu börn utan hjúskapar var drekkt á Þingvöllum fyrir hórdóm. Einu sinni var það svo að hinsegin fólk á Íslandi flúði land vegna ofsókna þeirra sem töldu það á einhvern hátt skaðlegt samfélaginu en ekki lengur.

Já, mikil er sök Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins. Það er honum að kenna að á öldum áður var konum „drekkt á Þingvöllum fyrir hórdóm“. Það er honum að kenna að „hinsegin fólk á Íslandi flúði land vegna ofsókna“.

Annað eins sakarefni hefur ekki verið birt nokkrum nútímamanni og er því knýjandi nauðsyn að draga bófann fyrir dóm og til viðbótar nánustu ættingja, vini og kunningja og jafnvel þá sem greiddu honum atkvæði í borgarstjórnar- og alþingiskosningum. Minna má það ekki vera. 

Svona eru nú vinnubrögð heiftarinnar, aðall Helgu þingmanns.  

Röksemdafærslan er engin. Framkoman minnir óneitanlega á ræfilshundinn sem glefsar og geltir en veit ekki hvers vegna.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband