Fréttakviss, löggan sinnir þjófnaði og stíga á góðar fréttir

Orðlof

Ásmegin

Ásmegin er guðakraftur, goðaafl. Einhverjum vex ásmegin; eflast, styrkjast magnast.

Hún hefur aldrei gefist upp þótt á móti blási, henni hefur þvert á móti vaxið ásmegin við hverja raun.
Kröfunni um lýðræðislegar umbætur vex ásmegin dag frá degi.

Líkingin er dregin af megingjörðum Þórs en honum óx ásmegin hálfu (um helmingur) er hann spennti þær um sig.

Færast í ásmegin: Eflast magnast. 
Hann gafst ekki upp við andstreymið heldur færðist allur í ásmegin þegar á móti blés.

Orðatiltækið er kunnugur út fornu máli:

Harðar reis á kné
hafra dróttinn
færðisk allra
í ásmegin.

Mergur málsins, Örn og Örlygur 1993. Jón G. Friðjónsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Fréttakviss vikunnar.“

Fyrirsögn á visir.is.                                 

Athugasemd: Þetta orð „fréttakviss“ er óskiljanlegt enda að hálfu útlenska. 

Á ensku er forvitinn „inquisitive“. Af því er leitt orðið „quiz“ sem meðal annars þýðir spurningakeppni og er mikið notað:

  • a general knowledge quiz
  • a television quiz show
  • The magazine publishes a quiz once a month.

Maður nokkur sagði í viðtali: „Þetta er svona „ídíótprúf“, ef ég má sletta …“ Nei, þú mátt ekki sletta. Þú átt að tala íslensku. Ef þú getur ekki komi orðum að hugsun þinn á íslensku áttu að þegja. Þetta á ekki aðeins við í fjölmiðum heldur alltaf. Ekki vanvirða íslenskuna. Því fleiri sem gera það því meiri líkur á hnignun hennar.

Fjöldi fólks slettir erlendum orðum og þar á meðal ég. Þetta er mikill ósiður. Þórarinn Eldjárn segir í ljóði sínu:

Á íslensku má alltaf finna svar
og orða stórt og smátt sem er og var 

Því er það sorglegra en orð fá lýst að stjórnendur fréttamiðilsins Vísis skuli leyfa sér að tala um „fréttakviss“. Búa til blending á íslensku og ensku. 

Nei, þið megið ekki sletta.

Af hverju?

Ef þið þurfið að spyrja eigið þið að finna ykkur eitthvað annað til dundurs en að gefa út fjölmiðil á Íslandi. Skammist ykkar.

Tillaga: Fréttaspurningar vikunnar.

2.

„Heimir Hallgrímsson og hans menn í knattspyrnuliðinu Al-Arabi töpuðu sannfærandi fyrir Al-Sadd í bikarúrslitunum í Katar.“

Fyrirsögn á ruv.is.                                  

Athugasemd: Er hægt að tapa sannfærandi? Miklu betur fer á því að segja að liðið hafi átt skilið að tapa leiknum, tapað verðskuldað. Nei, þetta síðasta er ekki alveg nógu gott.

TillagaHeimir Hallgrímsson og hans menn í knattspyrnuliðinu Al-Arabi áttu skilið að tapa fyrir Al-Sadd í bikarúrslitunum í Katar.

3.

„Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu sinnti bæði eigna­spjöll­um og þjófnuðum á nokkr­um stöðum á höfuðborg­ar­svæðinu snemma í gær­kvöldi.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                  

Athugasemd: Varla getur verið að löggan hafi skemmt eignir og stunda þjófnað. Líklegra er að hún hafi sinnt tilkynningum um þetta. Af hverju skrifa blaðmenn í ófullgerðum setningum? 

Inn í málsgreinina vantar orð sem kemur í veg fyrir misskilning. Til dæmis útkall eða tilkynning.

Auðvitað skilst fyrirsögnin. Lykilorðin hér eru lögreglan og sögnin að sinna. Hefði þeim verið sleppt gæti þetta hafa hljóðað svona:

Hópur á höfuðborg­ar­svæðinu var tekinn fyrir bæði eigna­spjöll­ og þjófnað á nokkr­um stöðum á höfuðborg­ar­svæðinu snemma í gær­kvöldi.

Þá hefði enginn misskilið neitt.

Sögnin að sinna er áhugavert orð og merkir samkvæmt orðabókinni að sjá um eða annast eitthvað. 

Það er náskylt nafnorðinu sinna sem í kvenkyni og merkir hugur, áhugi, athygli. Einnig nafnorðinu sinni sem er hvorugkynsorð og merkir líka hugur, geð eða skoðun. 

Sá sem er sinnisveikur er veikur á sinni, með öðrum orðum sjúkur í huga sem áður var nefnt geðveiki. Liðsinni merkir liðveisla, hjálp.

Tillaga: Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu sinnti útköllum vegna eigna­spjalla og þjófnaða á nokkr­um stöðum á höfuðborg­ar­svæðinu snemma í gær­kvöldi.

4.

„Þegar Trump hefur fengið góðar fréttir, hefur honum tekist að stíga á þær.“

Frétt á visir.is.                                 

Athugasemd: Þetta er skrýtið. Hvers vegna þarf að „stíga á góðar fréttir“ þegar auðvelt er að virða þær að vettugi. Myndræn lýsing getur einfaldlega verið asnaleg og þessi er illskiljanleg og þar að auki óþekkt í íslensku máli. 

Heimildin er AP fréttaveitan. Þar segir:

It’s been a long time since Donald Trump has had any good news, and when he does have good news, he manages to step on it.

Þarna kom það. Ekki er allt gott sem er sagt á enskri tungu. Margt bendir til að orðalagið sé ekki algengt í ensku þó ég vilji nú ekki fullyrða um það. Líklegast á enski viðmælandinn við að Trump nýti sér ekki góðar fréttir, noti þær ekki sér til framdráttar.

TillagaÞegar Trump hefur fengið góðar fréttir nýtir hann sér þær ekki.

5.

102 af körl­un­um óttuðust ekki að þurfa að fara í sótt­kví eða ein­angr­un en 95 óttuðust það.“

Frétt á mbl.is.                                   

Athugasemd: Af fréttinni að dæma er ekki hægt að draga aðrar ályktanir en að Mogginn krefjist þess að blaðmenn byrji setningar á tölustöfum. Slíkt er hins vegar hvergi gert, allir með viti mæla gegn því. Jafnvel íslenskufræðingar og aðrir málfræðingar krossa sig og jesúsa þegar þessi ósiður sést eða hann ber á góma svo ekki sé talað um vel lesið fólk.

Í afar ruglingslegri íþróttafrétt á vef Moggans er tuttugu og ein sjálfstæð setning og málgrein. Af þeim byrja níu á tölustöfum. Þetta er nýtt Íslandsmet. Mér ekki kunnugt um aðra blaðamenn sem viljandi eða óviljandi hefur tekist að koma því svo fyrir að 43% setninga í einni frétt byrji á tölustöfum. 

Á einum stað byrjar setning á tölu sem skrifuð er með bókstöfum sem er óskiljanleg, svona samhengisins vegna. Hefði blaðamaðurinn skrifað töluna í tölustöfum hefði hlutfallið verið 48%.

Nástaðan í fréttinni er yfirþyrmandi. Sögnin að óttast er ofnotuð, finnst átta sinnum. Höfundurinn hefði getað notað önnur sambærileg orð til tilbreytingar. Nefna má orð eins og að hræðast, skelfast, vera skelkaður, hafa áhyggjur af, vera smeykur, hafa beyg af, hafa geig af, hrellast, æðrast, óa við og svo framvegis. Af nógu er að taka.

Sama er með nafnorðið leikmaður. Það er notað tuttugu sinnum. 

Orðið prósent er ellefu sinnum notað. Í svona frétt fer vel á því að nota prósentutáknið, %.

Gallinn er sá að í fréttinni eru hlutfallstölur ýmist ritaðar með engum aukastaf, einum og jafnvel tveimur. Samhengið er ekkert. Þar að auki gat höfundurinn ekki druslast til að setja upplýsingarnar fram myndrænt, til dæmis í súluriti. Það hefði verið mun þægilegra aflestrar en vitleysan sem hann býður upp á.

PúkaverðlauninVerst er að hann heldur það megi bjóða lesendum Moggans upp á hvað sem er. Það er hins vegar ekki svo. 

Því miður er höfundar ekki getið en hann getur vitjað skammarverðlaunanna hjá mér þegar vel liggur á honum.

Tillaga: Af körl­un­um voru 102 óhræddir að fara í sóttkví eða ein­angr­un en 95 óttuðust það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband