Lína sem opnaði, þjóna sem dómari og annasamir dagar
24.9.2020 | 10:50
Orðlof
Aukafrumlag
- Það voru margir Íslendingar á fundinum.
- Varst þetta þú?
- Það erum við sem borgum launin.
Eins og sést á þessum setningum hafa orðin það og þetta (nokkurs konar aukafrumlög) engin áhrif á beygingu sagnarinnar í setningunni heldur er það aðalfrumlagið (þ.e. margir Íslendingar, þú, við) sem ræður beygingu hennar.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Ég hef enga afsökun; það eru tvö ár síðan þessi lína opnaði, og ég meira að segja vígði hana. Þetta eru stór mistök.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þarna er verið að tala um járnbrautateina og lest sem tafðist vegna þess að þingmaður lagði bíl sínum á þær.
Í heimildinni sem er vefur BBC segir:
"I have no excuse: its been two years since the line [opened] and I even inaugurated it its a big mistake."
Blaðamenn þurfa að vita að stundum ætti ekki að þýða beint úr ensku. Since the line opened þýðir ekki síðan línan opnaði. Í fyrsta lagi opnaði línan ekki neitt og í öðru lagi er lína á íslensku aðeins lína, strik, færi, band og álíka nema um sé að ræða konunafn sem jafnvel hefur viðurnefnið langsokkur.
Sögnin að vígja merkir að lýsa trúarlega helgi yfir (e-ð) með vígsluathöfn samkvæmt orðabókinni. Hér fer betur á því að segja að þingmaðurinn hafi opnað járnbrautaleiðina, líklega með viðhöfn, klippti á borða.
Svokölluð Demantsleið (ekki lína) var formlega opnuð fyrir stuttu og er ferðamannaleið milli Húsavíkur, Goðafoss, Mývatns, Dettifoss og Ásbyrgis. Þrír ráðherrar opnuðu hana, klipptu á borða. Ofmælt væri að segja að þeir hefðu vígt hana.
Tillaga: Ég hef enga afsökun; það eru tvö ár síðan þessi leið var opnuð, og ég opnaði hana hana meira að segja. Þetta eru stór mistök.
2.
Stunga í kvið með hnífi er ávallt lífsógnandi.
Frétt á blaðsíðu 6 í Fréttablaðinu 22-9-20.
Athugasemd: Áður en einhverjir spakir menn fundu upp orðið lífsógnandi var notast við lífshættulegt og dugði það ágætlega í langan tíma. Hvað breyttist er ekki alveg vitað en hugsanlega má kenna kóvítinu um, vanda ferðaþjónustunnar eða rýrnun jökla.
Hér skal viðurkennt að lífsógandi er alveg fantagott orð og miklu skemmtilegra en flest önnur en það er verulega skrifógnandi.
Hér fer orðið í stjörnuflokk en þar geymast skrýtnu orðin og þau sem eru ofnotuð í fjölmiðlum:
- Um að ræða
- Til staðar
- Það er
- Valkostur
- Ítreka
- Kalla eftir
- Hvað varðar
- Biðla til
- Horfa til
- Ákvarðanataka
- Viðbragðsaðilar
- Kynna til leiks
- Leggja hald á
- Haldleggja
- Þessi efnis
- Með puttann á púlsinum
- Punkturinn yfir i-ið
- Sannkallað
- Lífsógnandi
- Ferðamannaiðnaður
- Vista í fangaklefa
- Vegna rannsóknar málsins
- Vettvangur
- Labba
- Fjöldi sem telur (til dæmis tíu manns)
- Hópur sem samanstendur af (til dæmis tíu manns)
- Handan auglýsinga
- Framkvæma
- Léttast um (til dæmis tíu kg)
- Aðilar (framkvæmdaaðilar, viðbragðsaðilar, rekstraraðilar, skoðunaraðilar )
Höldum áfram að vera hátíðleg og skrifum í óumbreytanlegum stofnanastíl og þá er lítil hætta á að almenningur skilji.
Tillaga: Hnífstunga í kvið er ávallt lífshættuleg.
3.
Ruth hafði þjónað sem dómari við réttinn í 27 ár
Leiðari Fréttablaðsins 22.9-20
Athugasemd: Þetta orðalag er ekki samkvæmt íslenskri málhefð. Höfundurinn skrifar um einn af dómurum Hæstaréttar Bandaríkjanna sem lést nýlega.
Í orðabókinni Lexico segir um ensku sögnina to serve:
Perform duties or services for (another person or an organization)
Og gefin eru mörg dæmi, til dæmis þessi:
Recently a priest who had served for years as an official in the chancery office was ordained an auxiliary bishop.
He served these organizations for some 23 years till his retirement in March 1996.
Á íslensku segjum við að konan sem lést hafi verið dómari. Sá sem er í hernum er hermaður. Annar er embættismaður, er þingmaður, er ráðherra og svo framvegis. Við hin getum þjónað öðrum til borðs, verði þjónar og svo framvegis.
Sögnin að þjóna merkir að gegna þjónustustarfi, vera þjónn, sinna þjónustustörfum. Prestur þjónar að vísu fyrir altari en það er annað en hér um ræðir. Benedikt Bogason þjónar ekki í hæstarétti, hann er hæstaréttardómari. Halldór Benóný Nellet þjónaði ekki sem skipherra á varðskipi Landhelgisgæslunnar, hann var skipherra. Í gamla daga var ég í sumarlöggunni en fjarri því að ég hafi þjónað sem lögga.
Þegar verið er að ráða blaðamann á fjölmiðil er spurt: Ertu góður í ensku? Allir þykjast góðir í ensku og sumir eru það. Já, þá ertu ráðinn. Aldrei virðist spurt hvort umsækjandinn kunni að koma þýða ensku yfir á íslensku. Það er gefið.
Tillaga: Ruth hafði verið dómari við réttinn í 27 ár
4.
10% fjölskyldna á Íslandi eiga samanlagt um 3.200 milljarða í eignir.
Frétt á frettabladid.is.
Athugasemd: Fallbeyging orðsins eignir er röng, á að vera í þágufalli, eignum.
Tillaga: 10% fjölskyldna á Íslandi eiga samanlagt um 3.200 milljarða í eignum.
5.
eykur enn á styrk sinn og orku með náttúrulegum og hreinum vítamínum frá Solaray. Með þeim fullnýtir hann annasama daga.
Kynningarblað Fréttablaðsins 23.9.20.
Athugasemd: Líklega á sá sem skrifaði auglýsinguna við að maðurinn geti með þessum vítamínum tekist á við annir dagsins. Dagar eru ekki annasamir.
Svo veltir maður því fyrir sér hvað séu hrein vítamín. Líklega eitthvað annað en þau menguðu eða óhreinu sem við alþýðufólkið látum okkur nægja að gleypa á hverjum morgni.
Í auglýsingunni segir:
Solary-vítamín eru náttúrleg og án allra aukaefna
Við hinir tökum þá ónáttúrleg vítamín. Þetta er nú meiri vitleysan.
Tillaga: Í krafti þeirra vinnst honum betur á hverjum degi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.