Undirritunaraðilar, biðla til og sigra mót

Orðlof

Högg

Góður félagi benti mér á fyrirbæri sem einnig snertir íslenskt málfar nútímans: Nú táknar það „að fá högg“ ekki heimilisofbeldi, heldur faðmlag (e. hug):

„Viltu fá högg?“

„Gefðu mér högg“.

Annað málfræðitengt atriði læt ég fylgja. Ég fékk það í hendur næstum milliliðalaust frá norðlenska kórmanninum: Það kom eistneskur kór til að syngja með söngfélögum hans á Akureyri. Þegar hann lýsti uppákomunni eftir á sagði hann:

„Fyrst sungu þeir, svo sungum við. Og svo sungum við með eistunum, og þá ætlaði þakið af húsinu.“

Morgunblaðið, 19.9.20. Tungutak, blaðsíðu 28. Baldur Hafstað.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Sem upphaflegir undirritunaraðilar Atlantshafsbandalagsins hafa Bandaríkin og Ísland verið viðbúin að koma hvort öðru til varnar í yfir 70 ár.“

Morgunblaðið, grein á blaðsíðu 29, 19.9.90.                               

Athugasemd: Sendiherra erlends ríkis fær birta grein í Morgunblaðinu. Einhver hefur fengið það verkefni að þýða hana, líklega Google-Translate. 

Þarna er talað um „undirritunaraðila“ sem gæti verið þýðing á enska orðalaginu „original signatories“ eða „signatory party“. Hins vegar er þetta ekki óalgengt orðalag en ekkert meira aðlaðandi fyrir því. Prófið að gúgla.

Á málið.is segir:

Oft eru til góð og gegn orð í málinu sem fara mun betur en ýmsar samsetningar með orðinu aðili. T.d. fer mun betur á að segja ábyrgðarmaður, dreifandi, eigandi, hönnuður, innheimtumaður, seljandi, útgefandi en „ábyrgðaraðili“, „dreifingaraðili“, „eignaraðili“, „hönnunaraðili“, „innheimtuaðili“, „söluaðili“, „útgáfuaðili“.

Margt er líkt í íslensku og ensku en þar með er ekki sagt að bein þýðing sé viðeigandi. Oft fer miklu betur á því að nota fleiri orð í þýðingu úr ensku, þá umorðum við. 

Tillaga: Bandaríkin og Ísland voru meðal þeirra ríkja sem stofnuðu Atlantshafsbandalagið fyrir sjötíu árum og hafa síðan verið viðbúin að koma hvoru öðru til varnar.

2.

„Biden biðlar til þingmanna Repúblikana.“

Fyrirsögn á ruv.is.                               

Athugasemd: Notkun sagnarinnar að biðla er orðin dálítið skrýtin í fjölmiðlum og ekki alltaf vitað við hvað blaðamenn eiga. Samkvæmt orðabókinni merkir orðið að biðja sér konu, samanber nafnorðið biðill. Það getur líka merkt að biðja. Í fjölmiðlum virðist hafa dregið úr notkun biðja en biðla komið í staðinn.

Fyrirsögnin hér fyrir ofan óljós. Hins vegar er skýrt hvað átt er við þegar lesin er fyrsta málsgreinin í fréttinni sjálfra. Þar stendur:

Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata, hvatti þingmenn í dag til að koma í veg fyrir að nýr hæstaréttardómari yrði skipaður fyrir kosningar. 

Ljóst er því að hann hvatti þingmenn en biðlaði ekki. Talsverður munur er á merkingu orðanna.

Tillaga: Biden hvetur þingmenn Repúblikana að tilnefna ekki dómara.

3.

„Snjór í hlíðum Esjunnar.“

Fyrirsögn á visir.is.                               

Athugasemd: Fyrirsögnin er alveg rétt, ekkert að henni. Þó má benda á að þegar snjóar lítilsháttar þannig að greina má jörð er talað um að það gráni, gráni í fjöll. Í morgun gránaði í Esjuna og líka í Hengli, Bláfjöllum og örugglega víðar á suðvesturhorninu.

Orðalagið að grána í fjöll er skemmtilega gegnsætt og jafnvel notalegt, fer vel með myndinni sem fylgir fréttinni.

Litríkar lýsingar geta verið skemmtilegar. Hér eru dæmi:

    1. Gránar í fjöll
    2. Bæta gráu ofan á svart
    3. Nú er’ða svart maður
    4. Eins og svart og hvítt
    5. Svartur blettur á einhverjum
    6. Svartur blettur á tungunni
    7. Hef séð það svartara
    8. Fram í rauðan dauðann
    9. Rauð rómantík
    10. Rauð jól
    11. Algjör græningi
    12. Undir grænni torfu
    13. Í einum grænum
    14. Ekki grænan grun
    15. Út í bláinn
    16. Bláa höndin
    17. Hvít jól
    18. Hvítur fyrir hærum
    19. Fjallið tjaldar hvítu
    20. Brenna til hvítra kola

Upp í hugann koma örfá orðatiltæki með litum en þegar leitað er heimilda í orðabókum finnast margir tugir ef ekki hundruð.

TillagaGránaði í Esjuhlíðar í nótt.

4.

„Kylfingurinn Bryson DeChambeau sigraði Opna bandaríska meistaramótið í golfi í gærkvöld.“

Frétt á ruv.is.                                

Athugasemd: Fréttamaðurinn á örugglega við að kylfingurinn hafi sigrað Í mótinu. Enginn getur „sigrað mót“ en hægt er að vinna aðra keppendur, hafa betur, sigra í keppni eða móti.

Orðalagið hefur dreifst víða enda átta ekki allir sig á þversögninni. Önnur álíka þversögn er að „opna hurð“ sem er algjörlega vonlaust verkefni, rétt eins og að „standa með sjálfum sér“, „elta drauma sína“ og annað skemmtilegt.

Tillaga: Kylfingurinn Bryson DeChambeau sigraði á Opna bandaríska meistaramótið í golfi í gærkvöld.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband