Lappa upp á, ræna stúlku og fremja rán
18.9.2020 | 22:50
Orðlof
Frekara, frekari
Í frekara mæli og í frekari mæli. Fyrri beygingin er fornleg, hin síðari í samræmi við beygingar í nútímamáli.
Eldri beygingin veldur því e.t.v. að sumir telja að í orðasambandinu komi fyrir hvorugkynsorðið mæli (rödd, rómur, málfar; orðspor, eitthvað sem sagt er). Svo er ekki heldur er þetta karlkynsorðið mælir.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Raunsæi verður að ráða för og ljóst er að á liðnum árum hefur, þrátt fyrir Dyflinnarreglugerð og vegna þeirra lausataka sem fjölmiðlanálgunin hefur haft í för með sér, gríðarlegur fjöldi fólks komið hingað til lands á þeirri forsendu að það sé á flótta undan slæmum aðstæðum af einhverju tagi.
Forystugrein Morgunblaðsins 18.9.20.
Athugasemd: Sá sem skrifar langar málsgreinar á það á hættu að ruglast og misst þráðinn. Lesi hann ekki vel yfir að loknum skrifum er hann í vanda. Flestir lesendur eiga erfitt með að halda þræðinum við lestur langra málsgreina. Þess vegna er skynsamlegt að vera hnitmiðaður í skrifum, vera óspar á punkt og lesa vel yfir.
Ekki veit ég hvað er að gerast á Morgunblaðinu. Fyrir nokkru fór að bera á afar löngum og flóknum málsgreinum í leiðurum blaðsins og jafnvel málvillum. Yfirleitt eru þeir skrifaðir af mikilli list og pólitískri glöggskyggni og síðustu árin leiftrandi húmor.
Leiðari dagsins er slæmur aflestrar. Gott dæmi er tilvitnunin hér að ofan sem er afar löng. Höfundurinn missti þráðinn á eftir innskotssetningunum tveim. Þar vantar sögnina að hafa, það er á milli tveggja orða sem hér eru feitletruð.
Höfundurinn skilur ekki nástöðu, upptugguna. Hann gleymir því sem hann hefur skrifar og telur í lagi að hnoðast með sömu orð eða orðalag. Hér er dæmi:
Hins síðari ár hefur hrikt í stoðum reglugerðarinnar
Strax í næstu málsgrein á eftir stendur:
Hin síðari ár hafa því heyrst háværar raddir
Nástaða í skrifum er merki um stílleysi en stafsetningavillur eru um leti, jafnvel hroðvirkni. Blaðamaður þarf að virkja leiðréttingaforritið í tölvu sinni sem bendir þá samstundis á villur í stafsetningu orða. Forritið hefur hins vegar ekkert vit, enga greind eða ályktunarhæfni. Það gerir ekki greinarmun á skó og skóg svo dæmi sé tekið. Þar af leiðandi þarf blaðamaðurinn að lesa skrif sín vandlega yfir fyrir birtingu svo hann orðið það ekki svo að einhver hafi klætt sig í skóg.
Í leiðaranum segir:
Og þó að reglugerðinni hafi ekki verið beitt af þeirri festu sem skyldi hefur hún hjálpað og án hennar dytti varla nokkrum manni í hug að verja þátttöku okkar í Schengen-samstarfinu, sem er í meira lagi vafasamt, jafnvel með reglugerðinni.
Þetta er illskiljanleg málsgrein vegna þeirra orða sem eru feitletruð.
Fleira mætti gagnrýna í skrifunum.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Það er um 800 milljónum króna dýrara að reisa þjóðarleikvang fyrir innanhússíþróttir sem tæki 8.600 áhorfendur en fyrir 5.000 áhorfendur.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Óvanir skrifarar falla oft í gildruna sem kennd er við nástöðu. Hér er óþarfi að skrifa tvisvar sinnum orðið áhorfendur, einu sinni dugar. Lesandinn skilur.
Aukafrumlagið það getur stundum verið hvimleitt enda oft kallað leppur, stendur fyrir eitthvað óskilgreint. Yfirleitt er það merkingarlaust, hægt að sleppa því án þess að merking setningar eða málsgreinar breytist rétt eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan.
Ofnotkun á aukafrumlaginu er sóðaskapur í rituðu máli, stílleysa. Góðir skrifarar reyna að komast hjá því, aðrir eru blindir á þetta en svo virðist að sumum sé alveg sama. Þeir síðastnefndu ættu ekki að vera í blaðamennsku.
Ég hafði ekki hugmynd um hvað aukafrumlag væri fyrr en ég rakst á grein eftir Eirík Rögnvaldsson prófessor í íslensku. Hér er dálítil umfjöllun um það. Aðalatriðið er að nota aukafrumlagið það í hófi. Samt er óþarft að sleppa því alveg. Margvíslegt orðalag hefur fest í málinu: Það er blessuð blíðan, það rignir, það mætti segja mér það og svo framvegis.
Stílleysi háir mér mikið og er mér raun að því. Ég á það til að ofnota sum orð. Nefna má ábendingarfornafnið þessi og lausa greininn. Mér finnst skrif mín lagast ef ég gæti hófs í notkun þeirra. Auðvitað kostar það dálitla áreynslu að umorða setningar og málsgreinar, en ég græði á því - held ég.
Hvernig má orða á annan hátt eftirfarandi úr fréttinni með því að sleppa þetta?
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu starfshóps sem var ætlað að gera tillögur um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir.
Eða:
Bent er á í skýrslunni að það yrði mikil lyftistöng fyrir menningarstarf að hafa möguleika á slíku tónleikahaldi
Læt lesendum eftir að brjóta heilann.
Margir halda að svo framarlega sem efnislegt innihald fréttar skiljist skipti orðalagið engu máli. Ég er ósammála. Deila má um hvað sér rangt mál en stíll skiptir jafnvel meira máli því í honum felst skýr hugsun. Aftur á móti er hvorki til réttur né rangur stíll, ekki frekar en röng eða rétt skoðun.
Tillaga: Um 800 milljónum króna dýrara að reisa þjóðarleikvang fyrir innanhússíþróttir sem tæki 8.600 áhorfendur en fyrir 5.000.
3.
Þrátt fyrir að vonskuveður hafi gengið yfir höfuðborgarsvæðið í gær með rigningu og slagviðri létu starfsmenn Kópavogsbæjar það ekki á sig fá. Þeir löppuðu upp á brekkuna við Arnarnesveg með því að leggja af kostgæfni grasþökur á moldarflagið sem þar var.
Myndatexti á blaðsíðu tvö í Fréttablaðinu 18.9.20.
Athugasemd: Hér er ekkert beinlínis rangt en samsetningin er hnoð. Orðalagið að lappa upp á eitthvað merkir að tjasla einhverju saman, gera lauslega við. Höfundur textans veit þetta ekki.
Hvað ertu að fara að gera? spurði móðir mín mig einhverju sinni er ég var á níunda ári. Ég ætla að lappa upp á hjólið mitt, sagði ég. Þá hvein í mömmu. Enginn lappar upp á nýtt hjól, sagði hún. Og ég skildi. Þannig læra börnin það sem fyrir þeim er haft.
Ekki fer saman að lappa upp á eitthvað og gera eitthvað af kostgæfni. Miklar líkur eru á því að moldarflagið sé engin tilviljun, unnið hafi verið gott undirlag fyrir grasþökurnar. Og hvað er þá betra en mold?
Blaðamaður í heita pottinum hvíslaði því að mér um daginn að blaðamenn skrifi ekki alltaf fyrirsagnir og myndatexta. Útlitshönnuðir, ritstjórnarfulltrúar og aðrir sem þykjast kunna að valda penna taki iðulega fram fyrir hendurnar á þeim. Texti þarf að passa í plássið og þar af leiðir að fjöldi stafa eða orða skiptir meiru en innihaldið. Þannig verður til hnoð.
Tillaga: Þrátt fyrir vonskuveður í gær lögðu starfsmenn Kópavogsbæjar af kostgæfni grasþökur á mönina.
4.
Á fyrsta flótta sínum, árið 1987, myrti hann lögreglumann, rændi stúlku og framdi nokkur rán.
Frétt á blaðsíðu 8 í Fréttablaðinu 18.9.20.
Athugasemd: Já, það er einmitt það. Bófinn rændi stúlku og framdi síðan rán. Blaðamaðurinn hefði getað orðað fréttina svona:
Á fyrsta flótta sínum, árið 1987, framdi hann morð á lögreglumann, framdi rán á stúlku og framdi síðan fleiri rán.
Orðalagið að fremja eitthvað er núorðið oftast tengt óhæfuverkum: Fremja rán, fremja morð, fremja óhæfuverk. Sjaldnast fremur einhver góðverk, en það er vissulega til en minna notað (prófið samt að gúggla orðið).
Sögnin að fremja er náskyld orðinu framur sem merkir framgjarn, frekur eða hraustur. Af því er leitt orðið fremd sem merki efling, vegsauki eða frægð.
Líkast til er best að sleppa nafnorðahnoðinu og orða þetta einhvern veginn á þann máta sem segir í tillögunni.
Tillaga: Á fyrsta flótta sínum, árið 1987, myrti hann lögreglumann, og rændi fólk.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.