Var við beiðni, fremja líkamsárás og sæta leyfi
29.8.2020 | 11:11
Orðlof
Ákveðni greinirinn
Þegar ekið er inn eftir Hvalfirði, sunnan megin, líður ekki á löngu þar til komið er að skilti sem á stendur: Velkomin í Kjósina. Þetta er hefðbundið skilti að flestu leyti, en það sem vekur athygli er ákveðni greinirinn. Umrætt svæði heitir á flestum kortum Kjós, en það hefur þótt hljóma kumpánlegra að samræma skiltið þeirri málvenju sem hefur skapast, að vera á leið i Kjósina.
Án efa hafa fleiri sömu sögu að segja úr sínu nærumhverfi, um ákveðinn greini sem hefur húkkað sig á opinber nöfn, og ég geri ráð fyrir að þeir hafi á því sterka skoðun í það minnsta ef haft er í huga uppistandið sem verður einatt þegar vinir tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu heyra aðra segjast hafa farið í Hörpuna. Þá fara þeir alveg á límingunum, hrylla sig og jesúsa, en þeir sem fóru í Hörpuna eru vísast ekki að gera annað en tjá væntumþykju sína með því að þúa húsið þeir eru vanir að fara í Perluna og Þjóðleikhúsið (þar sem greinirinn er reyndar hluti nafnsins, eins og hinir fyrri benda æstir á).
Morgunblaðið blaðsíðu 28, 29.8.20. Tungutak. Sigurbjörg Þrastardóttir.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Hefur sitjandi forseti aldrei staðið jafn illa á sambærilegum tímapunkti en tölur um slíkt eru til frá 1968.
Forystugrein Fréttablaðsins 25.8.20.
Athugasemd: Hver er munurinn á sitjandi forseta og forseta? Enginn, nema að annar kunni að sitja í stól. Sitjandi forseti en óhöndugleg þýðing á amerískunni sitting presedent.
Á íslensku er einn maður forseti lýðveldisins, hann er bara forseti, er ekki einu sinni núverandi forseti þó hægt sé að nota það orðalag.
Tímapunktur er orð sem á heima í ruslatunnu. Það bætir engu við málið, skýrir ekki neitt enda tilbúningur þeirra sem endilega vilja nota enska orðalagið point of time eða eitthvað álíka. Hægt er að segja núna, á þessari stundu eða álíka.
Ég er ekki mikið fyrir að byrja setningar á sagnorðum nema þá helst í spurningum. Engu að síður er þetta fjarri því rangt mál.
Takið eftir hvernig orðalagið breytist:
Hefur sitjandi forseti aldrei staðið jafn illa
Og í staðinn er notað óákveðna fornafnið enginn:
Enginn forseti hefur staðið jafn illa
Þá hverfur atviksorðið aldrei eins og dögg fyrir sólu. Næstum því á yfirnáttúrulegan hátt.
Tillaga: Enginn forseti hefur staðið jafn illa svo stuttu fyrir kjördag en tölur um slíkt eru til frá 1968.
2.
Engu að síður þurfti fagráð að ítreka beiðni sína í þrígang áður en Attentus var við beiðninni.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Líklega hefur höfundurinn ætlað að skrifa að fyrirtækið hafi orðið við beiðninni, varð við henni.
Skrifurum geta orðið á mistök. Í gamla daga var prentvillupúkanum kennt um en hann er dauður. Tölvur geta farið yfir texta og leiðrétt en maður verður að setja forritið í verkið. Hins vegar veit villuleitarforritið ekki hvort segja á var við beiðni eða verða við beiðni. Þá kemur að þekkingu og viti skrifarans.
Sá sem ekki hefur lesið bækur frá barnæsku hefur ekki getað safnað nægum orðaforða sem gagnast í skrifum. Ekki er nóg að haf alist upp við að semja texta í smáskilboðum snjallsíma eða að kunna ensku óaðfinnanlega til að geta skrifað.
Tillaga: Engu að síður þurfti fagráð að ítreka beiðni sína í þrígang áður en Attentus varð við henni.
3.
Síðastliðna nótt var framin alvarleg líkamsárás í Vestmannaeyjum en ráðist var á mann á fertugsaldri með einhverju áhaldi og hlaut hann alvarlega áverka í árásinni.
Frétt á frettabladid.is.
Athugasemd: Í sömu málsgreininni er tvisvar sagt að ráðist hafi verið á mann: fremja líkamsárás og ráðast á. Er það ekki of mikið?
Í fréttinni segir:
Sá er ráðist var á kannaðist ekki við árásarmanninn og sagði hann hafa verið með andlitið hulið, þannig að hann þekkti hann ekki.
Aftur eru málsatvik tvítekin.
Loks segir í fréttinni:
Árásin átti sér stað á götunni sunnan við vestustu raðhúsalengjuna í Áshamri
Enginn telst vera blaðamaður nema hann notið orðalagið að eiga sér stað. Þeim þykir það með eindæmum fagurt. Aðrir myndu segja þetta með endemum. Af hverju er ekki sagt eitthvað á þessa leið:
Árásin var í götunni sunnan við vestustu raðhúsalengjuna í Áshamri
Efni fréttarinnar er haft eftir löggunni í Vestmannaeyjum. Í sameiningu hefur löggan og blaðamaðurinn klúðrað framsetningu fréttarinnar.
Tillaga: Síðastliðna nótt var ráðist var á mann á fertugsaldri og hlaut hann alvarlega áverka í árásinni.
4.
Réttindalaus bæklunarskurðlæknir frá Kasakstan, sem starfaði í ellefu ár við Sørlandet-sjúkrahúsið í Flekkefjord og síðar Kristiansand í Noregi, og sætir rannsókn vegna tuga alvarlegra mistaka, sem sum hver leiddu til andláts alls þriggja sjúklinga hans, hefur sagt starfi sínu lausu, en honum var gert að sæta leyfi eftir að handvömm hans komst í hámæli snemma á árinu, en þar var meðal annars um að ræða aðgerð sem læknirinn hefði aldrei átt að fá að framkvæma einn síns liðs á úlnlið Margrétar Annie Guðbergsdóttur sem sagði mbl.is frá máli sínu í febrúar.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Stuttar setningar og málgreinar eru almennt skýrari og betri fyrir lesendur. Sárlega vantar punkta í ofangreindri frétt.
Mistök þurfa ekki alltaf að merkja það sama og handvömm. Hið fyrrnefnda þarf ekki að útskýra en um hið seinna segir orðabókin:
Glapræði, vanræksla, klaufadómur léleg smíði.
Hvað á blaðamaðurinn með orðalaginu honum var gert að sæta leyfi? Þetta er alveg óskiljanlegt. Er verið að tala um læknisleyfi eða var hann knúinn til að fara í leyfi, frí, frá vinnu? Sé hið seinna rétt mun hann hafa verið sendur í leyfi. Sögnin að sæta er illa valin hjá blaðamanninum í þessu sambandi.
Blaðamaðurinn nefnir aðgerð sem íslensk kona þurfti að gangast undir hjá lækninum. Hann segir:
þar var meðal annars um að ræða aðgerð sem læknirinn hefði aldrei átt að fá að framkvæma einn síns liðs
Er þetta fullyrðing blaðamannsins eða einhvers annars?
Hér er ágæt samantekt um leiðindin sem fylgja löngum málsgreinum. Höfundinn þekki ég lauslega.
Tillaga: Réttindalaus bæklunarskurðlæknir frá Kasakstan, sem starfaði í ellefu ár við Sørlandet-sjúkrahúsið í Flekkefjord og síðar Kristiansand í Noregi, sætir nú rannsókn vegna tuga alvarlegra mistaka. Þau leiddu til andláts þriggja sjúklinga. Hann hefur sagt starfi sínu lausu, eftir að hafa verið sendur í leyfi. Íslendingurinn Margrét Annie Guðbergsdóttur fór í aðgerð til læknisins og var sagt frá máli hennar á mbl.is í febrúar á þessu ári.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.