Var við beiðni, fremja líkamsárás og sæta leyfi

Orðlof

Ákveðni greinirinn

Þegar ekið er inn eftir Hvalfirði, sunnan megin, líður ekki á löngu þar til komið er að skilti sem á stendur: Velkomin í Kjósina. Þetta er hefðbundið skilti að flestu leyti, en það sem vekur athygli er ákveðni greinirinn. Umrætt svæði heitir á flestum kortum Kjós, en það hefur þótt hljóma kumpánlegra að samræma skiltið þeirri málvenju sem hefur skapast, að vera á leið „i“ Kjósina“.

Án efa hafa fleiri sömu sögu að segja úr sínu nærumhverfi, um ákveðinn greini sem hefur húkkað sig á opinber nöfn, og ég geri ráð fyrir að þeir hafi á því sterka skoðun – í það minnsta ef haft er í huga uppistandið sem verður einatt þegar vinir tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu heyra aðra segjast hafa farið „í Hörpuna“. Þá fara þeir alveg á límingunum, hrylla sig og jesúsa, en þeir sem fóru „í Hörpuna“ eru vísast ekki að gera annað en tjá væntumþykju sína með því að „þúa“ húsið – þeir eru vanir að fara í Perluna og Þjóðleikhúsið (þar sem greinirinn er reyndar hluti nafnsins, eins og hinir fyrri benda æstir á).

Morgunblaðið blaðsíðu 28, 29.8.20. Tungutak. Sigurbjörg Þrastardóttir.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Hefur sitjandi forseti aldrei staðið jafn illa á sambærilegum tímapunkti en tölur um slíkt eru til frá 1968.“

Forystugrein Fréttablaðsins 25.8.20.                                  

Athugasemd: Hver er munurinn á „sitjandi forseta“ og forseta? Enginn, nema að annar kunni að sitja í stól. „Sitjandi forseti“ en óhöndugleg þýðing á amerískunni „sitting presedent“. 

Á íslensku er einn maður forseti lýðveldisins, hann er bara forseti, er ekki einu sinni núverandi forseti þó hægt sé að nota það orðalag.

„Tímapunktur“ er orð sem á heima í ruslatunnu. Það bætir engu við málið, skýrir ekki neitt enda tilbúningur þeirra sem endilega vilja nota enska orðalagið „point of time“ eða eitthvað álíka. Hægt er að segja núna, á þessari stundu eða álíka.

Ég er ekki mikið fyrir að byrja setningar á sagnorðum nema þá helst í spurningum. Engu að síður er þetta fjarri því rangt mál. 

Takið eftir hvernig orðalagið breytist:

Hefur sitjandi forseti aldrei staðið jafn illa 

Og í staðinn er notað óákveðna fornafnið enginn:

Enginn forseti hefur staðið jafn illa 

Þá hverfur atviksorðið ’aldrei’ eins og dögg fyrir sólu. Næstum því á yfirnáttúrulegan hátt.

Tillaga: Enginn forseti hefur staðið jafn illa svo stuttu fyrir kjördag en tölur um slíkt eru til frá 1968.

2.

„Engu að síður þurfti fagráð að ítreka beiðni sína í þrígang áður en Attentus var við beiðninni.“

Frétt á dv.is.                                   

Athugasemd: Líklega hefur höfundurinn ætlað að skrifa að fyrirtækið hafi orðið við beiðninni, varð við henni. 

Skrifurum geta orðið á mistök. Í gamla daga var prentvillupúkanum kennt um en hann er dauður. Tölvur geta farið yfir texta og leiðrétt en maður verður að setja forritið í verkið. Hins vegar veit villuleitarforritið ekki hvort segja á var við beiðni eða verða við beiðni. Þá kemur að þekkingu og viti skrifarans.

Sá sem ekki hefur lesið bækur frá barnæsku hefur ekki getað safnað nægum orðaforða sem gagnast í skrifum. Ekki er nóg að haf alist upp við að semja texta í smáskilboðum snjallsíma eða að kunna ensku óaðfinnanlega til að geta skrifað.

Tillaga: Engu að síður þurfti fagráð að ítreka beiðni sína í þrígang áður en Attentus varð við henni.

3.

„Síðast­liðna nótt var framin al­var­leg líkams­á­rás í Vest­manna­eyjum en ráðist var á mann á fer­tugs­aldri með einhverju á­haldi og hlaut hann al­var­lega á­verka í á­rásinni.“

Frétt á frettabladid.is.                                   

Athugasemd: Í sömu málsgreininni er tvisvar sagt að ráðist hafi verið á mann: „fremja líkamsárás“ og „ráðast á“. Er það ekki of mikið? 

Í fréttinni segir:

Sá er ráðist var á kannaðist ekki við á­rásar­manninn og sagði hann hafa verið með and­litið hulið, þannig að hann þekkti hann ekki.

Aftur eru málsatvik tvítekin. 

Loks segir í fréttinni:

Á­rásin átti sér stað á götunni sunnan við vestustu rað­húsa­lengjuna í Ás­hamri …

Enginn telst vera blaðamaður nema hann notið orðalagið að eiga sér stað. Þeim þykir það með eindæmum fagurt. Aðrir myndu segja þetta með endemum. Af hverju er ekki sagt eitthvað á þessa leið:

Árásin var í götunni sunnan við vestustu raðhúsalengjuna í Áshamri …

Efni fréttarinnar er haft eftir löggunni í Vestmannaeyjum. Í sameiningu hefur löggan og blaðamaðurinn klúðrað framsetningu fréttarinnar.

Tillaga: Síðast­liðna nótt var ráðist var á mann á fer­tugs­aldri og hlaut hann al­var­lega á­verka í á­rásinni.

4.

„Rétt­inda­laus bæklun­ar­sk­urðlækn­ir frá Kasakst­an, sem starfaði í ell­efu ár við Sør­land­et-sjúkra­húsið í Flekkefjord og síðar Kristiansand í Noregi, og sæt­ir rann­sókn vegna tuga alvar­legra mistaka, sem sum hver leiddu til and­láts alls þriggja sjúklinga hans, hef­ur sagt starfi sínu lausu, en hon­um var gert að sæta leyfi eft­ir að hand­vömm hans komst í há­mæli snemma á ár­inu, en þar var meðal ann­ars um að ræða aðgerð sem lækn­ir­inn hefði aldrei átt að fá að fram­kvæma einn síns liðs á úlnlið Mar­grét­ar Annie Guðbergs­dótt­ur sem sagði mbl.is frá máli sínu í febrúar.

Frétt á mbl.is.                                    

Athugasemd: Stuttar setningar og málgreinar eru almennt skýrari og betri fyrir lesendur. Sárlega vantar punkta í ofangreindri frétt.

Mistök þurfa ekki alltaf að merkja það sama og handvömm. Hið fyrrnefnda þarf ekki að útskýra en um hið seinna segir orðabókin:

Glapræði, vanræksla, klaufadómur … léleg smíði.

Hvað á blaðamaðurinn með orðalaginu „honum var gert að sæta leyfi“? Þetta er alveg óskiljanlegt. Er verið að tala um læknisleyfi eða var hann knúinn til að fara í leyfi, frí, frá vinnu? Sé hið seinna rétt mun hann hafa verið sendur í leyfi. Sögnin að sæta er illa valin hjá blaðamanninum í þessu sambandi.

Blaðamaðurinn nefnir aðgerð sem íslensk kona þurfti að gangast undir hjá lækninum. Hann segir:

… þar var meðal ann­ars um að ræða aðgerð sem lækn­ir­inn hefði aldrei átt að fá að fram­kvæma einn síns liðs …

Er þetta fullyrðing blaðamannsins eða einhvers annars?

Hér er ágæt samantekt um leiðindin sem fylgja löngum málsgreinum. Höfundinn þekki ég lauslega.

Tillaga: Rétt­inda­laus bæklun­ar­sk­urðlækn­ir frá Kasakst­an, sem starfaði í ell­efu ár við Sør­land­et-sjúkra­húsið í Flekkefjord og síðar Kristiansand í Noregi, sæt­ir nú rann­sókn vegna tuga alvar­legra mistaka. Þau leiddu til and­láts þriggja sjúklinga. Hann hef­ur sagt starfi sínu lausu, eftir að hafa verið sendur í leyfi. Íslendingurinn Margrét­ Annie Guðbergs­dótt­ur fór í aðgerð til læknisins og var sagt frá máli hennar á mbl.is í febrúar á þessu ári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband