Þrír tónleikar, afar uppgefinn og rekstur yfir ferðalag
25.8.2020 | 09:38
Orðlof
Málfræðilegt kyn
Sem sagt, málfræðilegt kyn kemur líffræðilegu kyni ekki við í þessu sambandi. Málfræðilega karlkynið tekur til beggja kynja.
Regluna má orða svo: Þegar óákveðið fornafn (t.d. sumir, allir, margir, einhverjir) stendur án nafnorðs er notað málfræðilegt karlkyn, það tekur til bæði karla og kvenna. Hvorugkyn á því aðeins við að fornafnið við eða þið komi með.
Dæmi: Við verðum öll að vera meðvituð um þetta.
Það þarf einbeittan ásetning til að breyta venjulegu máli og segja: Ég ætla að biðja öll (hk. ft.) að fara með Faðirvorið, því venjan býður að segja: Ég ætla að biðja alla (kk.ft.) að fara með Faðirvorið. Hins vegar: Ég ætla að biðja ykkur öll að fara með Faðirvorið. Ég ætla að biðja öll börn í salnum að fara með Faðirvorið.
Morgunblaðið 24.8.20, blaðsíða 16. Ragnar Hauksson.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Síðar í haust ætlar hann svo að taka þátt í Boston-maraþoninu, sem eins og flestum viðburðum hefur verið frestað, en þeim sem hafa skráð sig verður gefinn kostur á að hlaupa maraþonið á eigin vegum
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Varla ætlar maðurinn að taka þátt í maraþoni sem hefur verið frestað. Þess vegna hefði verið betra að sögnin hefði verið í þátíð. Málgreinin er of löng, í hana vantar sárlega punkt.
Hlaupinu hefur verið aflýst en hægt að hlaupa á eigin vegum. Hér er vel að orði komist. Vonandi skrifaði fréttamaðurinn þetta að yfirlögðu ráði.
Tillaga: Hann ætlaði að taka þátt í Boston-maraþoninu í haust en því hefur verið frestað. Þeir sem hafa skráð sig verður gefinn kostur á að hlaupa maraþonið á eigin vegum
2.
Vísindamenn í Þýskalandi héldu þrjá tónleika á einum degi
Frétt á frettabladid.is.
Athugasemd: Orðið tónleikar er fleirtöluorð. Á málið.is segir:
Nafnorðið tónleikar er fleirtöluorð í karlkyni. Einir, tvennir, þrennir, fernir tónleikar.
Stundum veltir maður því fyrir sér hvernig standi á því að svo margir blaðamenn klikka á grundvallaratriðum í íslensku máli. Líklegasta skýringin er sú að þeir hafa ekki vanist bóklestri frá barnæsku og orðaforðinn er því rýr.
Tillaga: Vísindamenn í Þýskalandi héldu þrenna tónleika á einum degi.
3.
Hafna því að hermenn safnist saman við landamærin.
Fyrirsögn á ruv.is.
Athugasemd: Hér á betur við að segja að NATO neiti þessu. Nokkur munur er á að hafna og neita. Hið fyrrnefnd er meira í ætt við að synja en síðara er afdráttarlausara. Þar að auki eiga orðin ekki alltaf við um það sama.
Orðabókin nefnir að hafna bónorði og hafna umsókn. Í báðum tilvikum er auðvitað fólgin neitun og því er hægt að neita bónorði. Sé umsókn neitað má skilja það á þá leið að henni hafi verið neitað viðtöku frekar en að henni hafi efnislega verið hafnað.
Í stuttri frétt er tvisvar sagt að Atlantshafsbandalagi neiti. Þetta er nástaða og stingur í augun.
Tillaga: Neita því að hermenn safnist saman við landamærin.
4.
Skortur á klinki í umferð í Bandaríkjunum.
Fyrirsögn á ruv.is.
Athugasemd: Illt væri ef orðið mynt væri að týnast úr íslensku máli. Varla er það svo. Hægt er að ímynda sér að þeir sem tala um að dingla á bjöllu, bílar klessi og annað álíka þekki ekki orðið mynt. Má vera að það sé afleiðing af því að greiðslukort hafa komið í stað reiðufjár.
Mynt er samkvæmt orðabókinni peningur úr málmi. Á ensku er mynt coin. Á dönsku er það mønt, náskylt mynd. Á dönsku er líka talað um klink. Úbbs, þetta er sama orðið og við notum.
Stundum er talað um klink og þá átt við spápeninga, jafnvel skiptimynt: Áttu eitthvað klink. Enskumælandi spyrja á svipaðan hátt: Do you have some change.
Á vefsíðu Seðlabanka Íslands segir:
Seðlabanki Íslands hefur einkarétt til að láta slá og gefa út mynt. Alls eru fimm fjárhæðir í myntum í gildi sem lögeyrir á Íslandi.
Í lögunum er ekki talað um klink. Tökum eftir því að mynt er slegin. Hversu margir kannast við þetta orðalag?
Tillaga: Skortur á mynt í umferð í Bandaríkjunum.
5.
Forsætisráðherra Japans Shinzo Abe er sagður orðinn afar uppgefinn
Fyrirsögn á ruv.is.
Athugasemd: Er hægt að vera lítið eða mikið uppgefinn? Varla. Annað hvort er maður uppgefinn eða ekki. Samt er þetta lýsingarorð en þó segist enginn vera uppgefnari en einhver annar, hvað þá uppgefnasti maður í heimi.
Þreyta er allt annað orð. Í henni felst ekki uppgjöf og því er fólk misjafnlega þreytt eins og gengur í lífinu.
Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt er varla hægt að fullyrða að tilvitnunin sé rangt orðuð. Margir myndu þó orða þetta á annan veg.
Tillaga: Forsætisráðherra Japans Shinzo Abe er sagður orðinn uppgefinn
6.
En þá tók þáverandi varaforseti að síga á hann og vann loks með sannfærandi meirihluta.
Forystugrein Morgunblaðsins 25.8.20.
Athugasemd: Sögnin að síga er hér rangt notuð. Greinilega er átt við að maðurinn hafi unnið upp forskot andstæðings síns.
Eingöngu er sigið niður á við eins og segir á málið.is:
Ekki er hægt að tala um að eitthvað sígi upp á við, t.d. vextir. Sögnin síga á annaðhvort við hreyfingu niður á við eða áfram.
Engu að síður er talað um að sígandi lukka sé best. Hér er átt við að sígandi lukka þokist áfram, fari hægt.
Tillaga: Forsætisráðherra Japans Shinzo Abe er sagður orðinn uppgefinn
7.
Bragi Þór segir það hafa kostað um 11.000 krónur að reka bílinn yfir allt ferðalagið.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Nær hefði verið að segja á ferðalaginu í stað yfir ferðalagið. Eða segja að þetta hafi reksturinn kostað í ferðinni. Hvað um það yfir gengur varla.
Tillaga: Bragi Þór segir það hafa kostað um 11.000 krónur að reka bílinn í ferðinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.