Breytti Ferðafélagið ljósmyndinni?

FÍMeðan Sovétríkin voru og hétu var logið að fólkinu sem þjáðist undir ofríki kommúnismans. Þeir sem féllu í ónáð voru miskunnarlaust afmáðir úr bókum og ljósmyndum, öllu var breytt til að lýðurinn fattaði ekki vitleysuna.

Þetta datt mér í hug þegar ég virti fyrir mér þessa fallega auglýsingu Ferðafélags Íslands sem er hér hægra megin.

Heilsíðumynd tekin úr hlíðum Valahnúks. Næst er  mynni Langadals og þar er Skagfjörðsskáli. Fjær eru Krossáraurar, hlíðar Réttarfells, Hattfell, Votupallar í fjarska og svo auðvitað Bólfellið og undir því er ... Nei, hvað haldi’ði? Eitthvað vantar þarna.

Undir Bólfelli eiga að vera skálar Útivistar en þeir eru ekki á myndinni. Voru þeir þurrkaðir út á sovéskan hátt? 

Hvers vegna er myndinni breytt? Jú, Ferðafélagið ætlar sko alls ekki að auglýsa Útivist, hvorki beint né óbeint, keppinautinn sjálfan. Staðreyndin er einfaldlega sú að margfalt fleiri ferðamenn fara í Bása en í Langadal. Veldur þar mestu Krossá sem getur verið mikið skaðræði og vilja fæstir hætta jeppum sínum í hana.

Þar að auki hafa ferðahættir breyst. Í gamla daga fór fólk í rútum í Bása á Goðalandi og í Langadal. Nú fara flestir á eigin bílum og leiðin í Bása er greið, síður sú í Langadal.FÍ breytt Vera má að þetta særi þá Ferðafélagsmenn og þess vegna hefi myndinni verið breytt.

Ákaflega auðvelt er að falsa ljósmyndir. Tæknin er svo mikil að hægt er að eyða út fólki og mannvirkjum, flytja til og svo framvegis. Jafnvel klaufi eins og ég get falsað myndir.

Fyrir neðan auglýsinguna er afrit af henni sem ég hef fiktað í. Ég hef tekið mér það bessaleyfi að þurrka út Skagfjörðsskála. Lítur ekki mynni Langadals betur út án hans?

Nei, auðvitað ekki. Skálinn hefur verið þarna í áratugi og er nánast orðinn hluti af landslaginu. 

Ég hef ekkert leyfi til að breyta auglýsingunni, hún er hugverk. Tilgangurinn er aðeins sá að sýna hversu fáránlegt er að þurrka út skála Útivistar til að þóknast viðskiptalegum hagsmunum. 

Svona gera menn ekki, sagði góður maður fyrir nokkrum árum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband