Mest hataðasti, ryðja sér rúms og Prósjopp

Orðlof

Lýsingarorð

Besta aðferðin til að greina á milli lýsingarorða og atviksorða er að skipta um tölu eða kyn í setningunni. 

Ef vafaorðið lagar sig eftir fallorðinu þá er það lýsingarorð en annars atviksorð. 

Hann málaði húsið rautt, hann málaði húsin rauð.

Málfarsbankinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Múla­þing bar sigur úr býtum.“

Fyrirsögn á frettabladid.is.                               

Athugasemd: Múlaþing er ekki keppandi. Múlaþing er nafn sem flestir kusu í kosningum um heiti á nýju sveitarfélagi á Austurlandi. Heitið var valið.

Býti er samkvæmt orðabókinni skipti, kjör, fengur sem er skipt. Óhætt er að segja að einhver hafi borið sigur úr býtum. Sá hefur því unnið. 

Einnig er til orðalagið að bera mikið eða bera lítið úr býtum og merkir það að hagnast, græða mikið eða lítið.

Blaðamaður Fréttablaðsins áttar sig ekki á eðli orðalagsins og notar það rangt.

Tillaga: Flestir kusu nafnið Múlaþing.

2.

„Ég var mest hataðasti maður Íslands.“

Frétt á baksíðu viðskiptablað Morgunblaðsins 1.7.20.                               

Athugasemd: Vera má að viðmælandanum hafi orðið á að segja þetta en sjálfsagt er að gera þá kröfu að blaðamaðurinn lagi bull en dreifi því ekki. 

Lýsingarorð stigbreytast: 

Mikið, meira, mest
Hataður, hataðri, hataðastur

Ofrausn er að nota tvö lýsingarorð í efsta stigi. Nóg er að segja að maðurinn hafi verið sá hataðasti á Íslandi.

Allir sjá að mest gengur ekki með öðru lýsingarorði, gerir ekkert gagn, styrkir ekki frásögnina í þessum tilvikum sem öðrum: Mest sprettharðastur, mest stökkhæstur eða annað álíka bull.

Tillaga: Ég var hataðasti maður Íslands.

3.

„Hlaðvarpið heldur áfram að ryðja sér rúms hér á landi.“

Frétt á ruv.is.                               

Athugasemd: Hér er ekki alveg rétt með farið. Orðtakið er svona: ryðja sér til rúms. Það merkir breiðast út, hljóta almenna viðurkenningu og um fólk; láta til sín taka.

Í bókinni Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson segir:

Líkingin er hugsanlega dregin af skipsrúmi, sbr. orðatiltækið ryðja sér til rausnar og ríkis, sigurs og sæmar. […] 

Líklegra er þó að líkingin vísi til þess er menn urðu að sanna hreysti sína með því að ryðja eða kippa öðrum manni úr ’sæti’ til að hljóta viðurkenningu (til dæmis við hirð) en því er einna best lýst í Flateyjarbók: 

Hann bað mig þar sitja sem ég gæta rutt mér til rúms og kippt manni úr sæti.

og einnig

… og spurði eg þá, hvar eg skyldi sitja, með því að eg gæti hvergi rutt mér til rúms.

Tillaga: Hlaðvarpið heldur áfram að ryðja sér til rúms hér á landi

4.

„Kylfingar eru mjög sáttir og ég hef fengið mikið hrós fyrir nafnið.“

Frétt á ruv.is.                               

Athugasemd: Nafnið sem kylfingar hæla er „Prósjopp“. Ég er kylfingur og lýsi furðu minni á þessari nafngift. Hún er heimskuleg og óvirðing við íslenskt mál. 

Langbest fer á því að íslenskt nöfn séu notuð á íslenskum markaði. Annað er tóm vitleysa. Sé miðað við ferðamenn ætti íslenskt heiti að vera ráðandi en enskt gæti verið undirliggjandi.

Hér eru nokkur fyrirtækjaheiti:

  1. Air Iceland Connect, hét áður Flugfélag Íslands og þótti öllum gott nafn
  2. Attentus mannauður og ráðgjöf ehf. ráðgjafafyrirtæki
  3. AutoCenter, bílahreinsun.
  4. Barion, sport- og veitingastaður í Reykjavík
  5. Brothers Brewerey, bruggfyrirtæki í Vestmannaeyjum
  6. Culican, veitingastaður í Reykjavík
  7. Domavia, fyrirtæki í eigu Ísavia, hefur umsjón með flugvöllum innanlands.
  8. Donky republic bike, rafmagnsreiðhjólaleiga í Reykjavík.
  9. Dr. Football, hljóðvarpsþáttur fyrir íslenska hlustendur. Einnig Dr. Football-pubquiz
  10. Eyesland, gleraugnaverslun
  11. Fontana, baðstaður við Laugarvatn.
  12. Glacier Goodies, söluvagn í Skaftafelli
  13. Grand Brasserie, veitingahús í Reykjavík
  14. Hengill Ultra, hlaupakeppni umhverfis Hengil, fjall á Íslandi
  15. Home and you (borið fram: hómendjú), húsgagnaverslun í Reykjavík
  16. Kompaní, viðskiptaklúbbur Morgunblaðsins
  17. Möst C íslensk fataverslun fyrir konur
  18. Prósjopp. Golfverslun
  19. Sky Lagoon, nýtt baðlón í Kópavogi.
  20. Sofestive, fyrirtæki í viðburðar- og verkefnastjórnun
  21. Strúktúr, húsainnflutningsfyrirtæki
  22. Sumac grill, veitingahús í Reykjavík
  23. Terra, fyrirtæki sem hét fjórum ágætum íslenskum nöfnum
  24. The Garage, gisting í Varmahlíð undir Eyjafjöllum
  25. The Rift, malarhjólreiðakeppni við Heklu, fjall á Íslandi
  26. Thor´s Power Gym, líkamsræktarstöð á Íslandi
  27. Townhouse Hotel, í miðborg Reykjavíkur
  28. Train station, íslensk líkamsræktarstöð í Reykjavík.
  29. Treemember, félag um trjárækt
  30. Two birds, „fjártæknifyrirtæki“ á íslenskum markaði,keypti Auðbjörg ehf. og sameinaði undir enska heitinu
  31. Vök baths, laugar skammt frá Egilsstöðum

Þetta er grátlegur listi jafnvel þó sum nöfnin séu nokkuð skondin, svona einnota brandari ef svo má segja. Hér hefur aðeins verið stiklað á örfáum nöfnum sem ég hef skrifað hjá mér á undanförnum misserum.

Tillaga: Engin tillaga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Barion er bar sem var opnaður í húsnæði sem áður hýsti útibú Arion banka. Arion var ódauðlegur hestur í grískri goðafræði.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.7.2020 kl. 18:17

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Fróðleiksmoli. Hélt í fávisku minni að bankinn héti eftir Ara og Jóni.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.7.2020 kl. 18:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband