Þróaður eldur, mæta stöðlum og sitjandi forseti

Orðlof

Ítur

Orðið íturvaxinn merkir: íturskapaður, fagurvaxinn (síður: feitur, mikill um sig). 

Orðið ítur merkir: fagur.

Málfarsbankinn

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Kom á óvart hversu hratt eld­ur­inn þróaðist.“

Fyrirsögn á mbl.is.                               

Athugasemd: Fer ekki betur á því að segja hversu hratt eldurinn breiddist út? Flest allt þróast með tíð og tíma. 

Í fréttinni segir:

Það kom okk­ur í opna skjöldu hvað eld­ur­inn var orðinn þróaður …

Hér er líklega átt við hvað eldurinn var orðinn mikill.

Eldur breiðist út, Covid-19 faraldurinn breiðist út, reykur breiðist út og svo framvegis.

Ekki er hægt að segja að skriða þróist, hún fellur. Vatn þróast ekki, það lekur, rennur.

Hins vegar er ákaflega gáfulegt að tala ekki eins og óbreyttur almúginn. Hefja sig upp yfir hann og nota torskilið orðalag sem hæfir menntun og stöðu. Þannig er þetta dæmi úr fréttinni:

Núna eru menn að end­ur­heimta sig eft­ir þetta verk­efni því það þurfti að fara í marg­ar reykkafan­ir og það er erfitt starf og tek­ur á …

Eftir erfiða vinnu, fjallgöngu, hlaup eða álíka þarf ég stundum tíma til ná mér og þá hvílist ég. Ég kann hins vegar ekki að „endurheimta mig“, en líklega veldur bara reynsluleysi eða gáfnaskortur.

Tillaga: Kom á óvart hversu hratt eld­ur­inn breiddist út.

2.

„mbl.is hef­ur það eft­ir áreiðan­leg­um heim­ild­um að …“

Frétt á mbl.is.                                

Athugasemd: Reglan er sú að á eftir punkti kemur stór upphafsstafur. Hefur svo verið afar lengi og er upphafið löngu áður en upplýsingatæknin breyttist og netið kom til sögunnar.

Spurningin er þá sú hvað á að gera ef setning byrjar á netfangi eða veffangi eins og er í fréttinni sem vitnað er til. Litlir bókstafir eru í vefföngum og það er óumbreytanlegt, tæknilega séð og fer ákaflega illa sé því breytt svona:

Mbl.is hefur það eftir 

Og þó. Farsælast er samt að umorða, færa netfangið eða veffangið innar í setninguna.

Tillaga: Samkvæmt áreiðanlegum heimildum mbl.is …

3.

„Guðlaugur sá rautt …“

Fyrirsögn á ruv.is.                                

Athugasemd: Sá sem sér rautt er mjög reiður, alveg bandbrjálaður. Ekki fara sögur af því hvort fótboltamaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson hafi misst stjórn á skapi sínu í síðasta leik sínum á tímabilinu í Þýskalandi og því fengið rautt spjald.

Hitt er vitað að þeir sem segja frá íþróttum í fjölmiðlum eru gjarnir á að skreyta mál sitt og oft á kostnað hefðbundinnar merkingar orða og orðalags. Væru þeir betur að sér í íslensku myndu þeir ekki gera þetta frekar en annað upplýst fólk sem skrifar.

Fréttamaður Ríkisútvarpsins segir þó í meginmáli að Guðlaugur hafi fengið tvö gul spjöld fyrir brot og þýddi það síðara að hann fékk rautt spjald. En auðvitað er miklu flottara að segja að boltamaðurinn hafi séð rautt. Eða hvað?

Tillaga: Guðlaugi vísað af velli …

4.

„Í öll skiptin var hjúkrunarheimilið talið mæta stöðlum.“

Frétt á ruv.is.                                

Athugasemd: Á íslensku er ekki talað um að „mæta stöðlum“. Betra er að uppfylla staðla eða kröfur. Sögnin að mæta merkir að hitta, koma til móts við, koma til einhvers og er átt við fólk.

Á ensku er sagt; „meet conditions“ sem þýðir að uppfylla skilyrði, ekki „mæta skilyrðum“.

Heimildin er vefsíða Los Angeles Times. Í henni segir:

Nevertheless, on April 13 a pair of nurses representing the state health department concluded Kingston had “implemented recommended practices to prepare for COVID-19.”

Í ensku fréttinni er ekki talað um staðla aðeins „viðurkenndar starfsaðferðir“.

Tillaga: Í öll skiptin var hjúkrunarheimilið talið hafa uppfyllt kröfur.

5.

„Hleðslu­stöð við hót­el svar­ar kröf­um gesta.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                

Athugasemd: Hleðslustöð við hótel er ekki svar við einu eða neinu. Hún er þjónusta, rétt eins og bekkur undir suðurveggnum, stóll og borð í veitingasalnum, rúm og rúmföt í herbergjum og svo framvegis. Þjónustan sem er í boði er ekki svar heldur það sem er boðið upp á. 

Ekki þurfa allir á hleðslustöð að halda og ekki setjast allir á bekkinn undir suðurveggnum eða fá sér bjór með matnum. Þetta og fleira er þjónusta sem gestum býðst.

Á ensku er sagt:

Respond to the visitor’s requirements.

Oft er tóm della að þýða beint úr ensku. Íslenskri tungu stafar hins vegar mikil hætta af ensku orðalagi heldur en slettum. 

Tillaga: Hleðslustöð við hótel er þjónusta við gesti.

6.

„… lóð eða hús­næði fyr­ir sam­eig­in­lega aðstöðu lög­gæslu- og viðbragðsaðila á höfuðborg­ar­svæðinu.“

Frétt á mbl.is.                                

Athugasemd: Hér er talað um löggæsluaðila og viðbragðsaðila, ritað svona: „löggæslu- og viðbragðsaðila“. Ekki hægt að skilja þetta öðru vísi.

Aðili er ekki gott orð, ómarkvisst og loðið. Oft er talað um björgunarsveitir og hjálparsveitir. Þetta eru góð og gild orð. Sá sem finnur hjá sér knýjandi þörf að tala um þá sem bregðast hratt við hættuástandi ætti miklu rekar að nota orðið viðbragðssveitir.

Hvaðan kemur þetta orð, „viðbragðsaðili“? 

Framkvæmdasýsla ríkisins auglýsir eftir lóð fyrir lögreglu og „viðbragðsaðila“. Má vera að stjórnvöld og blaðamenn þekki enska orðalagið „response team“ og þýði það sem „viðbragðsaðili“ sem er lélegur kostur eins og komið er að hér á eftir.

Á vef Wikipediu segir:

An incident response team or emergency response team (ERT) is a group of people who prepare for and respond to any emergency incident …

Algjör óþarfi að kalla björgunarsveit annað er því nafni sem það heitir. Sama er með lögreglu, slökkvilið, landhelgisgæslu og sjúkraflutningamenn. En, eins og áður sagði er skárri kostur að tala um viðbragðssveitir.

Á málið.is segir um orðið aðili:

Oft eru til góð og gegn orð í málinu sem fara mun betur en ýmsar samsetningar með orðinu aðili.

T.d. fer mun betur á að segja ábyrgðarmaður, dreifandi, eigandi, hönnuður, innheimtumaður, seljandi, útgefandi en „ábyrgðaraðili“, „dreifingaraðili“, „eignaraðili“, „hönnunaraðili“, „innheimtuaðili“, „söluaðili“, „útgáfuaðili“.

Í upptalninguna vantar letiorðið „viðbragðsaðili“ sem má alveg hverfa úr málinu vegna þess að auðvelt er að nefna þá sem koma að óhöppum, slysum eða náttúruhamförum sínum réttu nöfnum. Þar að auki er arfaslæmt að nota orðið „aðili“, betra að tala um viðbragðssveitir.

Tillaga: … lóð eða hús­næði fyr­ir sam­eig­in­lega aðstöðu lög­gæslu- og viðbragðssveita á höfuðborg­ar­svæðinu. 

7.

Sitj­andi ávallt náð end­ur­kjöri.“

Frétt á mbl.is.                                

Athugasemd: Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær, segir í málshættinum. Á ensku er talað um „sitting president“, sitting MP“ og svo framvegis. Orðalagið hefur náð inn í íslensku en það er óþarfi enda enginn munur á forseta og sitjandi forseta. 

Aðeins einn er forseti hverju sinni, aðrir kunna að vera frambjóðendur til embættis forseta. Engin ruglast á forsetanum og frambjóðendunum jafnvel þó sá fyrrnefndi sé líka í framboði.

Þetta orðalag er einkum einkennandi í skrifum yngri blaðamanna. Þeir tala líka um „ríkjandi“ Íslandsmeistara í fótbolta eða öðrum íþróttagreinum. 

Enginn meistari „ríkir“, hann er meistari og enginn getur verið Íslandsmeistari á meðan. Orðið er því óþarft rétt eins og „sitjandi“.

Tillaga: Forsetar hafa alltaf verið endurkjörnir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband