Hola í andliti, að henda í barn og safe travel dagurinn

Orðlof

Uppskafning

Þessi tegund „módernismanna“, sem orðið hefur höfundi Hornstrendingabókar að fótakefli, hef ég kallað uppskafningu. Það er kvenkynsorð og beygist eins og kerling.

Uppskafning getur birzt í ýmiskonar myndum. […]

En einkenni allrar uppskafningar í rithætti er hofróðulegt tildur og tilgerð, skrúf og skrumskælingur, í hugsun, orðavali og samtengingu orða.

Einum kennt - öðrum bent. Þórbergur Þórðarson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Fjórar einkasýningar opna samtímis.“

Fyrirsögn á ruv.is.                               

Athugasemd: Hvað skyldu sýningarnar hafa opnað? Ekki neitt enda er hér átt við að þær hafi verið opnaðar, fólk hafi opnað þær.

Þetta orðalag er landlægt í íslensku máli og sumir halda því fram að það sé eðlilegt. Engu að síður opna einkasýningar ekki neitt, ekki heldur verslanir eða fyrirtæki.

Auðvelt er að orða þetta á fallegra máli. Berum bara saman fyrirsögnina og tillöguna hér fyrir neðan.

Tillaga: Fjórar einkasýningar opnaðar samtímis.

2.

„Ragnar Bragi Sveinsson verður ekki með Fylki næstu vikurnar eftir að hann skall illa með höfuðið saman við Daníel Laxdal …“

Fyrirsögn á visir.is.                                

Athugasemd: Þetta er svolítið skrýtin málsgrein og skilst ekki fyrr en horft er á myndbandið sem fylgir fréttinni. Þá kemur í ljós að blaðmaðurinn lýsir ekki óhappinu alls kostar rétt. Mennirnir tveir rákust saman í fótboltleik, skölluðu hvorn annan, eins og sagt er.

Fyrirsögnin er svona:

Sjáðu þegar hola myndaðist í andliti Ragnars Braga …

Þvílíkur barnaskapur. Enginn segir að munnur, nasir og eyru séu „holur“ í höfði. Í barnæsku kom fyrir að einhver fékk högg á höfuð svo úr blæddi. Þá var og er jafnvel enn sagt að hann/eða hún hafi fengið „gat á hausinn“ en þó var þetta ekki gat heldur sár. Þó gátu glöggir krakkar séð næstum því inn í heila og þótti góð saga að segja frá.

Ekki myndaðist hola í andliti fótboltamannsins, hins vegar brotnaði kinnbeinið og dæld myndaðist. Kjánalegt að skrifa svona, verra er þó að gefa illa skrifandi blaðamanni lausan tauminn.

Tillaga: Ragnar Bragi Sveinsson verður ekki með Fylki næstu vikurnar eftir að hann og Daníel Laxdal skölluðu hvorn annan

 

3.

„926 sýni voru tek­in á Kefla­víkuflug­velli í gær.“

Fyrirsögn á mbl.is.                           

Athugasemd: Í örstuttri frétt á vef Moggans byrja fjórar málsgreinar á tölustöfum. Flestir blaðamenn vita betur og þess vegna stingur þetta í augun.

  • 926 sýni voru tek­in á Kefla­víkuflug­velli í gær. 
  • 14 sýni voru tekin á …
  • 953 sýni voru alls tekin …
  • 603 eru í sóttkví …

Þetta er ekki boðlegt. Munurinn á tölustöfum og bókstöfum er mikill. Eftir punkt kemur stór stafur. Hvernig er stór tölustafur? Hann er ekki til.

Tölustafir geta valdið ruglingi í upphafi setningar. Regla er regla og þeir sem vita betur eiga að áminna nýliða.

Staðfest smit eru 1.812 en 1.796 hafa náð bata. 

Þessi málsgrein er óþörf, er í raun tvítekning því tölurnar koma skýrt fram í vel gerðri skýringamynd sem fylgir fréttinni.

Tillaga: Í gær voru 926 sýni tekin á Keflavíkurflugvelli …

4.

„Líf hennar hafi verið sett á ís …“

Frétt á mbl.is.                          

Athugasemd: Hvernig er líf manns sett á ís? Auðvitað er það ekki hægt. Orðalag í frétt verður að eiga við frásögnina.

Lögreglukona smitaðist af kóvítis veirunni og þurfti að fara í sóttkví. Varla er viðeigandi að segja að „líf hennar hafi verið sett á ís“, hún var ekki kæld niður eða hlé gert á tilvist hennar. Lífið heldur áfram þó konan fái ekki að vera í vinnunni í tvær vikur og ekki að umgangast fjölskyldu sína.

Í fréttinni segir:

Niðurstaða sýnatöku leiddi í ljós að Íris væri smituð fyrir tveimur dögum síðan. 

Þetta er afar illa samin málsgrein, vanþekkingin er mikil. Betra hefði verið að orða þetta svona:

Niðurstaða sýnatöku leiddi í ljós að Íris hefði smitast fyrir tveimur dögum. 

Í fréttinni segir:

Hún hefur verið í einangrun síðan og segir hún það hafa tekið á, en hún ætli sér að takast á við þetta með jákvæðnina að vopni.

Þetta er afar illa skrifað. Að auki er nástaðan auðsjáanleg; húnhúnhún. Tekið á  takast á.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Ebba Katrín ætlar ekki að henda í barn strax.“

Fyrirsögn á frettabladid.is.                           

Athugasemd: Konan ætlar ekki að henda neinu í barn þó bókstaflega segi svo í fyrirsögninni. Af fréttinni má ráða að hún ætli ekki að eignast barn á næstunni. Það er kallað að „henda í barn“ rétt eins og aðrir henda í þvottavél eða henda hamrinum í smiðinn.

Aðalatriðið í fréttinni er ekki vangaveltur um barneignir Ebbu Katrínar heldur leiklistarferil hennar sem er rétt að byrja. Fyrirsögnin ætti að snúast um hið síðarnefnda.

Svona gerist nú hjá reyndum blaðamönnum að fyrirsögnin verður í engu samræmi við fréttina. Þar að auki er hún ákaflega óviðeigandi og beinir sjónum okkar lesenda að villingshættinum í skrifum fjölmargra blaðamanna sem kunna ekki nein skil á notkun málsins. Að vísu er blaðmaðurinn sem tekur viðtalið langreyndur og skrifar gott mál. Má vera að hann hafi ekki samið fyrirsögnina.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

„Save travel dagurinn er í dag.

Frétt í hádegisútvarpi Ríkisútvarpsins.                           

Athugasemd: Lágkúran er hrikaleg. Gengið sem stendur að þessu svokallaða „safe travel“ getur ekki talað íslensku. Sárafáir útlendingar eru í landinu og enskum skilaboðunum er því beint til heimamanna. 

Vikulega fæ ég tölvupóst frá „save travel“ liðinu. Í honum segir: 

Góðan dag!/Good afternoon!

Síðan kemur texti á íslensku og á ensku. Sá fyrrnefndi er frekar illa saminn eins og hér hefur stundum verið rakið. Sjálfsagðir hlutir eru þar endurteknir eins og að hrun í Valahnjúk á Reykjanesi falli niður í sjó, öldur séu óútreiknanlegar og stórhættulegt að detta ofan í Jökulsárlón. Frábært.

Í lok tölvupóstsins segir:

Með kveðju frá Safetravel teyminu.

Enn held ég að íslenskan skiljist ágætlega. Fararheill er ágætt orð, heillaför og jafnvel mætti nota góða ferð eða velferð.

TillagaEngin tillaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Allt of miklar smellubeitur komnar í fyrirsagnirnar.

En ég velti einu fyrir mér:

Niðurstaða sýnatöku leiddi í ljós að Íris væri smituð fyrir tveimur dögum síðan.

Getur verið að hún hafi ekki smitast fyrir tveimur dögum síðan heldur fengið niðurstöðurnar fyrir tveimur sögum síðan.

Ef svo er þá ætti setningin kannski frekar að orðast svona:

Fyrir tveimur dögum síðan leiddi niðurstaða sýnatöku í ljós að Íris væri smituð.

-

Hér er hins vegar stutt spurningakeppni. Spurt er um íslenskt heiti eftirfarandi landa eftir þarlendu heiti þeirra:

1. Suomi.

2. Nippon.

3. Kalaallit Nunaat.

4. Belarus.

5. Moldova.

Aukastig fæst fyrir að benda á hver af þessum fimm liðum er sá sem hér er raunveruleg ástæða til að spyrja sérstaklega um.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.6.2020 kl. 01:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband