Ferðamannaiðnaður, Súgandisey sjálfstæð og fjárfesta í nýsköpum

Orðlof

Talað í gusum

Tungumál breytast og það er ugglaust eðli þeirra. Stundum er maður þó svolítið hvumsa og þurfa fræðingar að skoða orsakir. Þetta snýr að hljóðfalli tungunnar. 

Unglingar og jafnvel nokkuð fullorðið fólk talar orðið í gusum, ekki heilum setningum, slítur í sundur setningarnar og tekur sér málhlé við annað hvert orð. Yfirleitt rjátlast þetta af með aldri og þroska. 

Annað hefur vakið eftirtekt mína (og leikhúsfólks almennt, af því að við erum alltaf að vinna með tungumálið). Einkum virðast ungar konur eiga erfitt með að segja e. Þær beina hljóðinu upp í nefið og segja akki stað ekki og þatta í staðinn fyrir þetta. 

Morgunblaðið. Grein á blaðsíðu 18 eftir Svein Einarsson, 8.6.20.  

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… og segir þær munu valda ómældu tjóni á ferðamannaiðnaðinum í landinu.“

Frétt á visir.is.                              

Athugasemd: Ferðaþjónusta er ekki iðnaður í íslenskri merkingu orðsins. Enska orðið „industry“ er mun víðtækara en það íslenska. Á því máli er talað um framleiðslu af ýmsu tagi í verksmiðjum og jafnvel er talað um „the Shakespeare industry“ sem auðvitað er ekki iðnaður. Átt er við starfsemi sem er mjög um umfangsmikil. 

Heimild fréttarinnnar er vefur BBC en þar segir:

The travel industry has been vocal in its criticism of the government's quarantine rules …

Á íslensku er fjarri lagi að tala um „tónlistariðnað“ eða „leihúsiðnað“. Þess í stað hafa myndast falleg orð eins og tónlistarlíf og leikhúslíf en hvort tveggja er þjónusta sem almenningi stendur til boða, oftast gegn gjaldi.

Meira en þrjátíu ár eru síðan Birna Bjarnleifsdóttir, ferðamálafrömuður, lagði til að orðið ferðaþjónusta yrði tekið upp sem heiti yfir atvinnugrein sem þjónustar ferðamenn. Þessu var tekið fagnandi og nær engir tala lengur um „ferðaiðnað“ nema stöku blaðamenn sem eru afskaplega góðir í útlenskunni en með endemum slakir eða hroðvirkir í íslensku.

Tillaga: … og segir þær munu valda ómældu tjóni á ferðaþjónustunni í landinu.

2.

Dranginn er afskaplega þekkt kennileyti á leiðinni til Akureyrar …“

Frétt á visir.is.                              

Athugasemd: Fallbeyging eru eins og sundtökin, hún er flestum ósjálfráð. Drangur er hér í röngu falli, á að vera í nefnifalli, ekki þolfalli. Þetta á ekki að þurfa umhugsunar við.

Þeir sem efast ættu að skipta á drangur og setja til dæmis bær í staðinn. Þá er niðurstaðan þessi: Bærinn er afskaplega þekkt kennileiti á leiðinni til Akureyrar … Ekki bæinn er 

Blaðamaðurinn skrifar kennileyti rangt. Það er skrifað með ’y’. Villan er afar meinleg vegna þess að í tölvu blaðamannsins er forrit sem leitar að stafsetningarvillum. Það er engin afsökun að nenna ekki að nota villuleitarforritið og einber dónaskapur og virðingarleysi fyrir lesendum að birta greinar með villum.

Þar að auki er setningin illa orðuð vegna orðsins „afskaplega“ sem er óþarft. Kennileiti eru þess eðlis að þau eru einstök, allir sjá þau og þar af leiðandi eru þau þekkt. Í orðabókinni er sagt:

Einkenni í landslag þar sem hægt er að átta sig á staðháttum og leiðum.

Fréttin er um mikið afrek tveggja manna sem klifu Hraundranga, tindinn milli Öxnadals og Hörgárdals. 

Blaðamaðurinn gerir enga tilraun til að leiðrétta talmál viðmælanda í viðtali á Vísi.

Sagt er að Hraundrangi sé „toppur allra toppa“, orðalag sem er frekar illskiljanlegt og slakt. Góður blaðamaður hefði skrifað að hann væri „hrikalegastur allra tinda“ eða álíka.

Blaðamaðurinn segir að klifurmennirnir hafi:

skellt sér upp á Hraundranga

Þetta er ofnotuð klisja. Allir skella sér eitthvað, á ball, bíó, í bíltúr, á Hvannadalshnúk eða Hraundranga. Hafa blaðamenn enga tilfinningu fyrir stíl?  Af hverju mátti ekki segja að mennirnir hafi klifið Hraundranga? Það var nú það sem gerðist og tók langan tíma.

Blaðamaðurinn skrifar:

Fáum dettur þó í hug að brölta upp …

Flatneskjan í frásögninni er hræðileg. Enginn stíll engin tilfinning.

Fleira má nefna í þessari stuttu frétt sem er illa skrifuð frásögn af afreki tvímenninganna.

Tillaga: og segir þær munu valda ómældu tjóni á ferðaþjónustunni í landinu.

3.

„Eyjan var upphaflega sjálfstæð rétt utan Stykkishólms, en var á síðustu öld tengd landi með uppfyllingu …“

Frétt á blaðsíðu 10 í Morgunblaðinu 10.6.20.                             

Athugasemd: Í fréttinni er rætt um Súgandisey, fallega eyju við Stykkishólm. Sagt er að hún hafi áður verið sjálfstæð, þó hefur aldrei búið nokkur maður þar. Nú er hún líklega ósjálfstæð.

Þetta eru kjánaleg skrif og ónákvæm. Eyjan var ekki „tengd landi með uppfyllingu“ heldur var höfninni lokað til austurs með hafnargarði sem er akfær. Undir sunnanverðri Súgandisey var land búið til, þar gerð höfn fyrir ferjuna Baldur og önnur skip.

Tillaga: Eyjan er norðan við höfnina í Stykkishólmi. Á síðustu öld var höfninni lokað til austurs …

4.

„… að lífeyrissjóðir væru skikkaðir upp að ákveðju marki til þess að fjárfesta í nýsköpum.“

Frétt á blaðsíðu 10 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 10.6.20.                             

Athugasemd: Knýjandi þörf er að vita hvað „nýsköp“ eru. Líklega er þetta bara innsláttarvilla. Eða hvað? Þarna er líka önnur stafsetningarvilla.

Skortur á prófarkalestri og notkun á villuleitarforritum getur haft skoplegar afleiðingar. Hins vegar eiga ekki að vera stafsetningavillur í fjölmiðlum. Tæknin er fyrir hendi og blaðmenn eiga að nota hana.

Tillaga: … að lífeyrissjóðir væru skikkaðir upp að ákveðju marki til þess að fjárfesta í nýsköpun.

5.

„25 nýir sjúkrabílar munu sjást á götum landsins síðar í sumar.“

Frétt visir.is.                              

Athugasemd: Viðvaningar í blaðamennsku fá að skrifa hvað sem er og hvernig sem er á Vísi. Enginn góður skrifari byrjar setningu á tölustöfum. Eðli bókstafa og tölustafa er ólíkt. 

Eftir punkt eða í byrjun skrifa notum við stóran bókstaf, kallaður upphafsstafur. Hvernig er upphafsstafur tölustafs?

Annað hvort er talan skrifuð í bókstöfum eða skrifarinn umorðar setninguna.

Sjúkrabílar munu sjást á götum landsins, það segir sig sjálft. Skelfing er leiðinlegt þegar blaðmenn þurfa að nota klisjur í stað þess að skrifa hreint og beint.

Tillaga: Tuttugu og fimm nýir sjúkrabílar verða teknir í notkun í sumar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband