Land snýr í suður, banka á heimili og vera milli tannanna á fólki

Orðlof

Hreintunga og yfirstétt

Tilslökun í málrækt leiðir smám saman ævinlega til þess að tunga fámennrar þjóðar verður einungis til heimabrúks og þó ekki nema um stundarsakir. 

Í rauninni eru sjónarmiðin í fyrrnefndu samtali í takt við þá heimsvaldastefnu í menningarmálum eða öllu heldur menningarfasisma sem engilsaxnesk yfirstétt hefur lengi ástundað og telur öll önnur mál en ensku til óþurftar.

Morgunblaðið. Tungan eftir Árna Björnsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Allar umsagnir höfnuðu frumvarpinu.“

Undirfyrirsögn á blaðsíðu fjögur í Morgunblaðinu 28.5.2020.                             

Athugasemd: Er ekki réttara að segja að með umsögnunum hafi þeir sem þær rituðu verið gegn frumvarpinu, lagst gegn því?

Umsögn merkir álit eða ummæli.

Tillaga: Allar umsagnir voru gegn frumvarpinu

2.

„Land snýr í hásuður.“

Undirfyrirsögn á blaðsíðu fjögur í Morgunblaðinu 28.5.2020.                             

Athugasemd: Hvernig snýr landslag? Ætli flestir séu ekki á þeirri skoðun að það snúi í allar áttir. Sama er með hús, það snýr í allar áttir, en hugsanlega snýr götuhliðin í suður. Hvert snýr Vífilsfell, Langjökull, Mývatn, Búlandstindur eða Skeiðarársandur?

Landeyjar eru marflatt land milli Hólsár í vestri og Markarfljóts í austri. Áin Affall skiptir þeim í tvennt, Vestur- og Austur-Landeyjar.

Stundum er sagt að land liggi vel við sól og þannig er með Landeyjar og því tekur gróður þar fyrr við sér á vorin en víða annars staðar.

Tillaga: Landið horfir móti sólu.

3.

„Ókunnugur maður bankaði á heimili Rúriks.“

Yfirfyrirsögn á dv.is.                              

Athugasemd: Yfirleitt er bankað á hurð eða eitthvað áþreifanlegt. Forðum var bankað á glugga og það hét að guða á glugga (hér sé guð, var sagt). Margir hafa banka á borð og talið upp að þremur. Halló, er einhver heima, er sagt og bankað í höfuð þess sem er viðutan eða annars hugar. 

Á heimili er varla bankað. Er það ekki hugtak?

Sögnin að knýja er fallegt orð. Hún getur þýtt margt; berja, banka, reka, þrýsta áfram, þvinga, neyða. Knýja dyra er þekkt orðasamband. Sumir hafa verið knúðir til einhvers, til dæmis uppsagnar.

Heimili fólks eru í húsum og þar er knúið dyra.

Mér finnst tjaldið vera heimili mitt þegar ég er á fjöllum. „Home is where the heart is,“ söng Elvis Prestley.

Heimili er heimkynni, lögmætur bústaður eins og segir á málið.is

Tillaga: Ókunnur maður knúði dyra á heimili Rúriks.

4.

„Rekstrarvandræði Capacent á Íslandi hafa verið á milli tannanna á fólki undanfarnar vikur en fá svör fengust frá stjórnendum ráðgjafafyrirtækisins.“

Frétt á visir.is.                              

Athugasemd: Blaðamaðurinn skilur ekki orðasambandið að vera á milli tannanna. Það merkir ekki umræða heldur er beinlínis verið að baktala þann sem fyrir verður. Tók blaðamaðurinn ekki eftir í skóla?

Í bókinni Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson segir um orðalagið:

Verða fyrir rógi, slæmu umtali eða slúðri; vera umtalaður.

Líklega hefur blaðamaðurinn ætlað að segja að rekstrarvandræðin hafi verið umrædd, umtöluð, mikið talað um þau. Gott væri að blaðamenn noti sem minnst af málsháttum, orðtökum, orðum og orðalagi sem þeir skilja ekki. Til vara er gott að fletta þeim upp.

Tillaga: Rekstrarvandræði Capacent á Íslandi hafa verið umtöluð undanfarnar vikur en fá svör fengust frá stjórnendum ráðgjafafyrirtækisins.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband