Grípa sendingar, mæta kröfum og taka smit

ALesaOrðlof

Hring, ring …

Hljóðkerfi tungumála eru mismunandi. Til dæmis eru sum hljóð til í einu máli en ekki öðru og sama gildir um hljóðasambönd. Við Íslendingar tökum oft eftir þessu þegar grannþjóðir okkar tala ensku og reyna að segja hljóðin sem við táknum með þ og ð og berum fram vandræðalaust. 

Þessi hljóð eru þessum þjóðum framandi og þurfa menn oft langa þjálfun til að geta sagt þau. Hið sama gildir um okkur, við eigum í vandræðum með mörg hljóð sem aðrar þjóðir tákna með bókstafnum r.

Munur á hljóðkerfum milli tungumála kemur einnig sérlega skýrt fram í hljóðinu sem við táknum með h.

Þetta hljóð er einfaldlega ekki til í sumum Evrópumálum svo sem frönsku. Í öðrum Norðurlandamálum hefur h á undan öðrum samhljóða fallið niður: 

Þegar við segjum ’hlýða’ segja þessar þjóðir ’lyde’, þær sleppa h-inu í ’hring’ og bera ekki fram h-ið í algengum orðum eins og ’hvað’, ’hver’.

Vísindavefurinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Magnús segir að meðal annars sé hægt að horfa til spænsku veikinnar hvað þetta varðar.“

Frétt á ruv.is.                       

Athugasemd: Svona orðalag er í tísku; „horfa til einhvers“ og „hvað þetta varðar“. Frekar ómerkilegt orðalag og stíllaust, eiginlega brúkað til uppfyllingar.

Mikilvægt er að orða hugsunina að fullu en ekki tæpa svona á. Miklu betra er að orða þetta eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan. 

Þess má geta að Magnús þessi er Gottfreðsson og prófessor og læknir í smitsjúkdómum. Viðtal við hann var á morgunrás Ríkisútvarpsins 7. apríl og var mjög fróðlegt sem og fréttin sem tilvitnunin er úr. Maganús er skýr og nokkuð vel máli farinn sérfræðingur.

Tillaga: Magnús segir að meðal annars sé hægt að skoða spænsku veikina og útbreiðslu hennar árið 2018.

2.

„FEMA, almannavarnastofnun Bandaríkjanna, hafa ekkert gefið upp um hvaða sendingar þeir séu að grípa …“

Frétt á visir.is.                        

Athugasemd: Við grípum það sem dettur, grípum bolta, grípum eitthvað til handargagns og svo framvegis. Á íslensku fer ekkert á milli mála þegar við notum sögnina að grípa. Sjá nánar um sögnina að grípa hér.

Í fréttinni á Vísi er sagt frá stofnun í Bandaríkjunum sem er að „grípa sendingar“ sem er algjörlega rangt þó á ensku sé notað orðið „seizing“.

Í heimildinni, vefsíðu Los Angeles Times, segir í fyrirsögn:

Hospitals say feds are seizing masks and other coronavirus supplies without a word.

Greinilegt er að blaðamaðurinn hefur ekki fullan skilning á íslensku máli en er ábyggilega góður í ensku. Það er hins vegar alls ekki nóg. 

TillagaFEMA, almannavarnastofnun Bandaríkjanna, hafa ekkert gefið upp um hvaða sendingar þeir séu að gera upptækar …

3.

„Grím­ur frá Kína mæta ekki kröf­um í Finn­landi“

Fyrirsögn á mbl.is.                         

Athugasemd: Lái mér hver sem vill en ég fullyrði að sá sem skrifaði þessa fyrirsögn er ekki góður í íslensku. Á íslensku merkir sögnin að mætahitta einhvern. 

Á ensku er þetta sagt svona og enginn gerir athugasemdir við orðalagið:

Masks from China do not meet the demands in Finland.

Að öllum líkindum hefur blaðamaðurinn lesið þetta á fréttamiðli sem ritaður er á ensku. Sögnina „to meet“ þýðir hann á sinn barnslega hátt sem að mæta, raunar tvisvar í stuttri frétt. 

Enginn les það yfir sem nýliðarnir skrifa. Öllum er sama um lesendur og svona heldur íslenskunni áfram að hnigna vegna þess að enginn gerir sér grein fyrir áhrifamætti fjölmiðla.

Tillaga: Grímur frá Kína uppfylla ekki finnskar kröfur.

4.

„Lítill hluti af þjóðinni hefur tekið smit, meirihlutinn enn móttækilegur.“

Fyrirsögn á visir.is.                         

Athugasemd: Þetta er eitt skýrasta dæmið um nafnorðatuðið sem tröllríður íslenskum fjölmiðlum. Er fínna að segja að einhver hafi„ tekið smit“ frekar en hann hafi smitastÞetta er svo viðvaningslega skrifað að engu lagi er líkt.

Í fréttinni er þetta haft eftir sóttvarnarlækni:

Eins og staðan er núna þá virðist toppnum vera náð á landsvísu. 

Hvað er þessi landsvísa og hver orti? Já, þetta er útúrsnúningur því auðveldlega hefði mátt orða þetta svona:

Núna virðist toppnum hafa verið náð á landinu.

Auðvitað þorir enginn að leiðrétta lækninn þó hann væri ábyggilega manna fúsastur til að lagfæra málfar sitt og því ættu engir að hræðast manninn nema veirur.

Ekkert rangt er við að nota orðin landsvísa og heimsvísa heldur er hér fyrst og fremst amast við ofnotkun þeirra. Þetta er svipað og sagt var hér áður fyrr að hitt eða þetta væri svona á „ársgrundvelli“. Í staðinn er einfaldlega hægt að nota orðin land og heimur. 

Tillaga: Lítill hluti þjóðarinnar hefur smitast en meirihlutinn er enn móttækilegur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mogganum fer stöðugt aftur í móðurmálinu. Í gær rakst ég á frétt um "aflamesta" skip okkar sem selt var til "Mexíkós".

Jón Steinar Ragnarsson, 9.4.2020 kl. 15:16

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þeir eru kannski að selja skip til Perús og Venesúelu líka. Nú eða Spáns. :D

Jón Steinar Ragnarsson, 9.4.2020 kl. 15:17

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Moldova eða Moldavía?

Guðmundur Ásgeirsson, 9.4.2020 kl. 22:05

4 Smámynd: Örn Einar Hansen

"H" er ekki hljóð, heldur er það "blástur".  Þú hefur annaðhvort "lokað", eða "opið" hljóð.  Táknið "r", er af sama tagi ... annaðhvort er það "lokað" eða "opið".  Í ensku og dönsku, er "r" lokað .. á Íslensku og mörgum Evrópu tungumálum er það "opið".  Þegar það er opið sleppur maður út "lofti" sem gerir það að verkum að tungan "dansar" um góminn.  Ef maður segir "lyde", í stað þess að segja "hlýða", þá er um rangmæli að ræða.  Það á að vera "blástur", með "h" án nokkurra undantekna.

Í dönsku finnst "ð" ... í ensku finnst "þ".  Aðeins í Íslensku finnst hvorutveggja.

Það er mikilvægt að halda tungumálinu, því tungumálið hefur sterka tengingu við vit.

Örn Einar Hansen, 10.4.2020 kl. 05:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband