Setja stopp (hold), tímabundnir sjálfboðaliðar og mönnun er hindrandi þáttur

Orðlof

Hlúa að sínu

Íslenska er fögur tunga og merkileg. Segjum það bara fullum fetum. Kinnroðalaust. Enda ekkert eðlilegra og sjálfsagðara en að Íslendingum þyki íslenska fegursta og merkilegasta tungumál í heimi. Við megum halda því fram hvar og hvenær sem er ef við viljum. …

En ber það ekki vott um svívirðilega málrembu að mæra svo móðurmál sitt? Nei, ekki er það málremba heldur ást. Remban hefst þá fyrst þegar við látum á okkur skilja um leið að öll önnur tungumál séu miklu ljótari og ómerkilegri. Þannig er reyndar mörgum Íslendingum tamt að tala um hin Norðurlandamálin.

Sönn og fölskvalaus ást birtist ekki með þessum hætti. Hún hlúir að sínu án þess að lasta um leið annað. Ef ég segist elska konu mína og börn og dá þau meira en aðra er ég að sjálfsögðu ekki með því að kasta rýrð á maka og afkomendur annarra. Ætti það ekki að vera ljóst?

Héddna, héddna, grein eftir Þórarinn Eldjárn í Morgunblaðinu 21.3.2020 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… fjár­málaráðherra þýska sambandslands­ins Hessen, sem hýs­ir meðal ann­ars fjár­mála­höfuðborg­ina Frankfurt.“

Frétt á mbl.is.                  

Athugasemd: Er hægt að orða þetta svona? Nei, auðvitað ekki. Suðurland hýsir ekki Selfoss né aðra bæi eða byggingar. Selfoss er á Suðurlandi rétt eins og Frankfurt er í Hessen. Hessen, Frankfurt eða Selfoss hýsa ekkert. Þar eru þó ótal hús.

Hýsa merkir að veita húsaskjól, jafnvel að byggja að nýju. Hýsi er dregið af hús. Þar af leiðandi eru til orð eins og hjólhýsi, hýsill, sögnin að úthýsa og álíka.

Blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina er líklega ungur, hefur ekki mikinn orðaforða vegna þess að hann hefur aldrei lesið neinar bækur að ráði og líklega er hann afburðamaður í útlensku máli. Það er ekki nóg.

Er Frankfurt „fjármálahöfuðborg“. Hef aldrei heyrt það þó alkunna sé að þar sé vélað með fé.

Tillaga: … fjármálaráðherra þýska sambandslandsins Hessen en þar er borgin Frankfurt.

2.

„Við slíkan atburð áskiljum við okkur rétt til að stöðva alla blæðingu svo sem að setja stopp (hold) á afskráningu áskrifta þar til ástandið er liðið hjá.“

Frétt á visi.is.                  

Athugasemd: Margir lögfræðingar eru óskrifandi enda kenna lagadeildir námsmönnum að nota nafnorð en síður sagnorð. Hér er vitnað í frétt á Vísi sem segir frá tilraunum líkamsræktarstöðvarinnar „Reebok Fitnes“ að breyta áskriftaskilmálum.

Í tilvitnuninni er talað um:

… stöðva alla blæðingu …

Fyrirtækjum blæðir ekki enda ekki af holdi og blóði. Hins vegar kann þetta að vera yfirfærð merking, á við peningagreiðslur úr sjóðum fyrirtækisins. Blóðugt er að höfundurinn skuli ekki þekkja sagnorðið greiða eða nafnorðið greiðslur. Þess vegna hefði farið betur á að skrifa einfaldlega svona:

… stöðva allar greiðslur

Eftirfarandi er furðulegt orðalag:

… setja stopp (hold) á afskráningu áskrifta …

Hvers vegna þarf að setja enska orðið „hold“ innan sviga? Er það til skýringar fyrir einhvern sem ekki skilur nafnorðið stopp? Í staðinn er einfaldast að tala um að hætta afskráningu áskrifta.

Svo er það þetta:

afskráningu áskrifta …

Er ekki átt við uppsagnir áskrifta? Áskrift sem sagt er upp þarf auðvitað að afskrá úr bókum fyrirtækisins og í sumum tilfellum endurgreiða. 

Tilvitnunin er afskaplega illa skrifuð og höfundinum bara til skammar.

TillagaVið áskiljum okkur rétt til að stöðva allar endurgreiðslur, meðal annars vegna uppsagna áskrifta, þar til staðan lagast.

3.

„Óskum eftir tímabundnum sjálfboðaliðum.“

Blaðamannafundur vegna Covid-19, 30.3.20                  

Athugasemd: Tímabundinn sjálfboðaliði hefur líklega eitthvað annað að gera en að vera í slíku starfi. Betra er að hafa sjálfboðaliða sem má vera að því að sinna verkefnum fyrir Rauða krossinn, vonlítið að ráða einhvern sem er tímabundinn.

„Ótímabundinn“ sjálfboðaliði er varla til, þannig orðalag er ekki þekkt. Þegar við lendum í svona klemmu vegna orðalags er einfaldast að umorða. Að öllum líkindum þarf Rauði krossinn á sjálfboðaliðum að halda til skamms tíma. 

Vafasamt er að óska eftir sjálfboðaliða til langs tíma. Það er dálítið gruggug aðferð.

Tillaga: Óskum eftir sjálfboðaliðum í skamman tíma.

4.

Mönnun gæti orðið hindrandi þáttur þegar tekist verður á við álag á gjörgæslu.“

Fyrirsögn á visir.is.                  

Athugasemd: Með góðu eða illu er reynt að koma fyrir nafnorðum í stuttri málsgrein í stað þess að láta sagnorðin stjórna. Tilvitnaða málsgreinin er ekki röng en hún er afar stirð og enginn talar svona nema fígúra í Spaugstofunni. Þó verður að segja að margir stjórnendur í heilbrigðisgeiranum og víðar tala svona mál sem er líklega ekkert annað en kansellístíll.

Mönnun merkir einfaldlega ráðning starfsfólks. Hindrandi þáttur er einfaldlega vandamál. Af hverju þarf að tala í flækju í stað þess að orða þetta eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan?

Stundum dettur mér í hug að ég sé að lesa enska íslensku þegar ég rekst á svona kansellístíl. Orðum mínum til sönnunar er ágætt að þýða ofangreint á ensku:

Personnel can become a hindrance when coping with intensive care.

Þar höfum við það, nákvæmlega eins, jafnvel orðaröðin.

Getur verið að enskan sé svo ráðandi tæknimál í heilbrigðisgeiranum og jafnvel víðar að það hreinlega vanti íslenskar fræðigreinar um sama efni?

Kenningin er þá þessi: Hámenntað fólk vantar þjálfun í skrifum á íslensku því það getur illa tjáð sig um fag sitt nema á nafnorðaskotnu máli sem líkist einna helst ensku.

Tillaga: Þegar álag verður á gjörgæslunni gæti orðið erfitt að fá starfsfólk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband