Draugabær án drauga, öll stjórn á bíl og mikið starfsfólk

Orðlof

Fjársjóður

Í fornbókmenntum okkar er fólginn mikill fjársjóður og er nánast með ólíkindum að unnt sé að tefla fram liðlega 800 ára gömlum textum, aðeins þarf að færa stafsetningu til nútímahorfs og þá eru þeir öllum aðgengilegir, einkum ef bætt er við óverulegum skýringum til hægðarauka. 

Eftirfarandi dæmi er úr Spakmælum Prospers, þýðingu frá því um 1200:

Er enn og ógóðgjarnlegt [´ber vott um illan hug´] að vilja heyra illa kvittu [´sögusagnir, orðróm´] en óskaplegt [´óhæfa´] að trúa, allra helst ef þeygi [´ekki, eigi´] er skylt að vita þótt satt væri (Leif 7).

[Án skýringa: Er enn og ógóðgjarnlegt að vilja heyra illa kvittu en óskaplegt að trúa, allra helst ef þeygi er skylt að vita þótt satt væri (Leif 7).]

Skyldi þessi boðskapur ekki eiga fullt erindi við nútímann?

Málfarsbankinn, pistill 164. Jón G. Friðjónsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Heimsfaraldurinn sem nú geisar um veröld víða er mesta ógn sem …“

Frétt á ruv.is.                   

Athugasemd: Annað hvort er óþarfi: „Heimsfaraldurinn“ eða „um víða veröld“. Þó má nota orðið faraldur um veröld víða. Varla þarf að geta þess að heimsfaraldur varla undir nafni nema hann geisi um víða veröld.

Tillaga: Heimsfaraldurinn sem nú geisar er mesta ógn sem …

2.

„Einn möguleiki er að það eigi rætur að rekja í mismunandi raðir í erfðamengi veirunnar og það búi til mismunandi svar fólks sem sýkist.“

Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 1.4.2020.                   

Athugasemd: Ég skil ekki allt, verð að viðurkenna það þó mér sé meinilla við opinbera slíkt. Ofangreinda málsgrein skil ég til dæmis ekki. Held að það sé seinni hlutinn sem ruglar mig, sérstaklega feitletraða orðið.

Mér finnst Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, vera óskaplega gáfaður maður enda hef ég þá trú að þeir sem ég skil ekki hljóti að vera ofurgreindir, - og þeir eru of margir. Í Moggafréttinni er viðtal við Kára og hann á ofangreinda tilvitnun.

Ekki veit ég hvað „raðgreining“ þýðir en það virðist óskaplega mikilvægt í tali Kára. Veit þó var raðmorðingi merkir og fleiri orð sem byrja á „rað“, fer ekki nánar út í þaaaaað, eins og Spaugstofukallinn sagði.

Í Moggafréttinni stendur líka eftirfarandi og er haft eftir Víði hlýðanda:

Veruleg hætta væri á umferðarslysum þegar margir væru á ferðinni. Þá gætu þúsundir safnast saman á tiltölulega litlum svæðum.

Mér finnst þetta gáfulegt enda ekki allir sem átta sig á tengslunum milli fjölda fólks og umferðaslysa. Jón vinur minn ók einu sinni á jóladag yfir Holtvörðuheiði og lenti í árekstri. Menn eiga auðvitað ekki að aka vinstra megin við skilti á blindhæð jafnvel þó þeir séu þess fullvissir um að enginn annar sé á heiðinni. Umferðaslys geta sem sagt orðið þó fáir séu á ferðinni. Tveir er nóg fyrir árekstur, jafnvel einn ef ljósastaur er ekki kyrrstæður.

Ekki hafði mér dottið í hug að þúsundir geti safnast saman á litlu svæði en þá mundi ég eftir Lækjartorgi á kvennafrídaginn og Austurvelli í hruninu. Ekki má gleyma Woodstock og Herjólfsdal. Líklega leggja ekki allir sama skilning í „lítið svæði“. Sko, Austurvöllur kann að vera lítill og það er stofan heima hjá mér líka. Á báðum stöðum væri hægt að troða einum til tveimur á hvern fermetra en fjölmennið fer auðvitað eftir fermetrafjöldanum.

Hér er ég kominn langt út fyrir umræðuefnið en ástæðan er bara sú að mér finnst afar hjálplegt þegar gáfumenni upplýsa um sannindi tilverunnar, sérstaklega okkur ógreindum á tímum kóvítis.

Hér áður fyrr sagði ég stundum við sex ára gamlan son minn í fjallgöngum: Ef þú dettur, dettu þá varlega. Þetta þótti ekki gáfulega sagt og ég var oft atyrtur fyrir vikið. Samt segja margir: Farðu varlega.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

Drauga­bær við ræt­ur Ev­erest.“

Frétt á mbl.is.                    

Athugasemd: Mannlausir bæir, mannlausar götur og annað sem er mannlaust er oftar en ekki í fjölmiðlum kennt við drauga. Engir eru þó draugarnir en árátta blaðamanna breytist ekki, draugar skulu kallaðir til. 

Á ruv.is segir:

Á síðustu vikum hefur nokkuð verið slakað á reglum um samkomur og mannaferðir í borginni, sem til skamms tíma var nánast ein risavaxin, ellefu milljón manna sóttkví og hálfgerð draugaborg vegna farsóttarinnar …

Á dv.is er sagt að endurreisa eigi draugabæ en en það hlýtur að vera einsdæmi í gjörvallri byggingasögu heimsins:

Hyggjast endurreisa draugabæ á þekktum sumarleyfisstað.

Mannlaus skip kallar dv.is draugaskip:

Draugaskip rak á strendur Írlands.

Ekkert bendir til þess að þar sem fólk er ekki á ferli vafri draugar um. Blaðamenn eru margir gefnir fyrir klisjur.

Tillaga: Mannlaus bær við rætur Everest.

4.

„Slapp ómeiddur eftir að hafa misst alla stjórn á bílnum.“

Yfirfyrirsögn á dv.is.                    

Athugasemd: Hver er munurinn á því að „missa alla stjórn á bíl“ og missa stjórn á bíl? Því er fljótsvarað. Enginn. Bíll er ekki geimflaug sem geimfarar hafa misst stjórn á og kvarta til Houston í Texas.

Óákveðna fornafnið „allur“ í fyrrnefnda orðalaginu er ónauðsynlegt, hjálpar ekkert til við skilninginn. Hvort ökumaðurinn hafi misst „alla“ stjórn eða bara að hluta skiptir engu máli.

Allt bendir til að blaðamaðurinn sé óvanur skrifum.

Tillaga: Slapp ómeiddur eftir að hafa misst stjórn á bílnum.

5.

Það er mikið starfsfólk sem að sinnir þessu eins og hérna hjá okkur í Fossvogi, þetta er svona undir þrjátíu manns á hverri vakt.

Fyrirsögn á visir.is.                   

Athugasemd: Auðvitað á þetta að vera margt starfsfólk. Vera má að viðmælandinn hafi orðað þetta svon en auðvitað á blaðamaðurinn að laga. Verkefni hans er að koma upplýsingum á framfæri á eðlilegu mál, ekki dreifa málvillum og ambögum.

Í fréttinni kemur þetta fram:

Þetta er gríðarlega mikið starf af því það þurfa allir að klæðast í mikinn hlífðarbúnað

Orðalagið að „klæðast í hlífðarbúning“ skrýtið. Fólk fer einfaldlega í hlífðarbúning, fer í föt. Fólk klæðist og þá fer það í föt, afklæðist þegar það fer úr þeim. Klæði merkir föt.

Fréttin er afar viðvaningslega skrifuð. Blaðamaðurinn hefur tekið upp orð viðmælandans og skrifað þau samviskusamlega niður eins og um gullaldarmál væri að ræða. Því miður er það ekki svo. Þegar þannig er reynir á þekkingu blaðamannsins.

Hér eru dæmi úr fréttinni:

  • En í sjálfu sér vorum við í svipuðum svona aðstöðu þá …
  • … og prestarnir með okkur í því að veita fólki sem sagt hjálp og …

Þetta er greinilega óvandað talmál.Blaðamaðurinn átti að færa orðalagið til betri vegar. Svona skrif eru ekki boðleg, lesendur eiga allt annað og betra skilið.

Tillaga: Hér í Fossvogi starfa með okkur um þrjátíu manns á hverri vakt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband