Orðlof
Mold
Mold: þgf. mold eða moldu. Orðmyndin moldu í þágufalli eintölu er angi af eldra máli sem hefur lifað lengst í föstum orðasamböndum og skáldamáli. Ofar moldu.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Leikmaður FH gefur eftir laun það sem eftir er tímabils.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Miðað við efni fréttarinnar fer hér betur á því að segja að maðurinn hafi afsalað sér laununum.
Talað er um að gefa eftir laun sem ég las í fljótfærni minni sem eftirlaun og misskilningurinn vakti athygli mína.
Í fréttinni segir:
Arnar segist ekki vita hvort aðrir leikmenn FH eða aðrir leikmenn í Olís-deildinni hafi farið sömu leið og hann.
Hér færi betur að segja að hann viti ekki hvort aðrir hafi farið að dæmi hans eða gert eins og hann.
Svo kemur leiðinlegt orðalag, að eiga samtal sem tröllríðum fjölmiðlum jafnvel þó flestir viti að betra er að orða það þannig að tala saman. Íslenskan byggist á sagnorðum en enskan styðst við nafnorðin. Við stefnum því miður hraðbyri í nafnorðaáttina.
Tillaga: Leikmaður FH afsalar sér launum sínum það sem eftir er tímabils.
2.
Settin sem fundust á Landspítalanum, dugi eitthvað.
Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 27.3.2020.
Athugasemd: Þetta er óljóst. Fréttin er um sýnatökupinna, settið er pinni ásamt glasi fyrir sýnið. Er hér átt við að settin séu tæknilega í lagi eða að þau klárist einhvern tímann?
Fornafnið eitthvað segir hér sáralítið enda frekar talmál en ritmál:
Settin duga eitthvað.
Þetta er skýrara:
Settin duga (endast) í einhvern tíma (lengi, stutt, í viku og álíka).
Fornafnið eitthvað er hér kæruleysislegt talmál í ofangreindri merkingu. Í ritmáli þarf tjáningin að vera hnitmiðaðri, flestir eru gagnrýnari á það sem þeir lesa en heyra.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
500 manns mæta til sýnatöku hjá fyrirtækinu í dag og jafn margir á laugardag og sunnudag.
Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 27.3.2020.
Athugasemd: Mogginn er búinn að ráða nýliða sem víar ekki fyrir sér að byrja setningar á töluorðum, veit líklega ekki betur og enginn leiðbeinir þeim.
Svona er hvergi gert vegna þess að töluorð eru allt annars eðlis en bókstafir. Enginn leiðbeinir nýliðunum. Og enginn gerir svona oftar en Mogginn.
Reglan er að byrja setningu á bókstöfum. Annað hvort má rita töluorðin í bókstöfum eða umorða setninguna.
Tillaga: Fimm hundruð manns mæta til sýnatöku hjá fyrirtækinu í dag og jafn margir á laugardag og sunnudag.
4.
Vísbendingar eru um að íþróttafólk hafi verið uppvíst að því að æfa saman í litlum hópum þvert á tilmæli yfirvalda.
Fyrirsögn á ruv.is.
Athugasemd: Þetta fer nú ekki alveg saman, svona rökfræðilega. Vísbending um brot er ekki það sama og eitthvað sé uppvíst.
Sé lýsingarorðinu uppvís sleppt og orðalagið lagað eftir því skilst málsgreinin.
Tillaga: Vísbendingar eru um að íþróttafólk hafi verið að æfa saman í litlum hópum, þvert á tilmæli yfirvalda.
5.
Tilvist þeirra verði að tryggja með öllum ráðum meðan moldir og menn lifa.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Ekki veit ég hvort meðan moldir og menn lifa er almennt orðtak eða heimatilbúið rugl úr höfði blaðamannsins. Að minnsta kosti finn ég ekki neitt álíka í orðabókunum mínum.
Mold er jarðvegur. Moldir er til og getur á merkingin verið jarðneskar leifar. Orðið er aðeins til í fleirtölu.
Heimildin er vefsíða norska blaðsins Aftenposten. Þar fann ég ekkert á norsku sem gæti verið í líkingu við orðtakið. Eftirfarandi kemst einna næst því :
Ut fra et samfunns- og demokratiperspektiv er det særlig viktig at denne delen av bransjen blir ivaretatt raskt med tiltak som sikrer likviditet.
Í fréttinni segir:
Greinarhöfundar segja norska fjölmiðla um árabil hafa sætt blóðtöku sem eigi sér engan líka svo sem fjöldi uppsagna á ritstjórnum einkamiðla beri skýran vott um. Það blóð renni til ógnarstórra alþjóðlegra samfélagsmiðla og efnisveita.
Hvergi í fréttinni í Aftenposten er orðalagið á þennan hátt. Blóð er ekki nefnt. Blaðamaðurinn fer rangt með sem er ámælisvert. Orðalagið í fréttinni er sums staðar skrýtið þó ekki beinlínis rangt. Vera má að hann sé vanari að skrifa á norsku.
Tillaga: Engin tillaga.
6.
Leave no one behind.
Texti í auglýsingu á blaðsíðu níu í Morgunblaðinu 28.3.20.
Athugasemd: Öryrkjabandalagði telur vissara að láta fylgja þýðingu á fyrirsögn auglýsingarinnar sem er svona:
Skiljið engan eftir.
Var nauðsynlegt að hnykkja á þessum orðum með enskri þýðingu? Nei, auðvitað ekki. Auglýsingunni er greinilega aðeins beint til íslenskumælandi fólks.
Hvaða tilgangi þjónar þá útlenskan? Er bara verið að sletta til að sýnast eða er svo komið fyrir íslensku máli að fólk skilji ekki íslensku fullkomlega nema ensk þýðing fylgi með?
Tillaga: Engin tillaga.
7.
Útsending frá úrslitum NBA rofin fyrir handtöku OJ Simpson.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Ég er ekki viss. Var útsending rofin áður en O.J. Simpson var handtekinn eða hvað? Fyrirsögnin er þá afspyrnu léleg. Hef frekar trú á því að blaðamaðurinn sé hagvanur í ensku en snöggtum lakari í íslensku.
Þýðum fyrirsögnina á ensku og þá blasir þetta við:
Broadcast from the NBA finals interrupted for the arrest og OJ Simpson.
Blaðamaðurinn segir ekki að útsendingin hafi verið rofin vegna handtökunnar. Hefði hann gert það væri þýðingin á ensku due to the arrest.
Þetta er ansi skýrt dæmi á því hvernig enskan er farin að stjórna orðalagi í fréttum. Enginn les yfir fréttir nýliða, þeir fá að dreifa vitleysunni óárreittir og það sem verra er þeir eru óafvitandi um villu sína. Enginn leiðbeinir.
Tillaga: Engin tillaga.
8.
Rannsóknin í Skotlandi var nauðsynlegt skref í þá átt að fræðast um afleiðingar þess að skalla knöttinn ítrekað um margra ára skeið.
Frétt á blaðsíðu 41 í Morgunblaðinu 28.3.20.
Athugasemd: Blaðamaðurinn skilur ekki orðið atviksorðið ítrekað. Það er ranglega notað hér og í staðinn ætti að vera oft.
Tökum nokkur dæmi sem ættu að skýra muninn á oft og ítrekað:
- Fer Jón oft til útlanda eða ítrekað?
- Hoppar barnið oft í leik sínum eða ítrekað?
- Skallar fótboltamaður boltann oft eða ítrekað?
- Hefur malbik verið lagt oft á Miklubraut eða ítrekað?
- Fer blaðamaðurinn oft til rakarans eða ítrekað?
- Kemur Mogginn oft út í hverjum mánuði eða ítrekað?
- Notar blaðamaðurinn síma sinn oft eða ítrekað?
- Les fólk Njálssögu oft eða ítrekað?
- Fer maður oft út að ganga eða ítrekað?
Svari nú hver fyrir sig en hafi þó þetta til samanburðar, höfum samt í huga að sögnin að endurtaka getur oft dugað:
- Stundum þarf blaðamaður að ítreka spurningu sína til að fá svar.
- Blaðamenn spyrja oft sömu spurningar en þurfa að ítreka sumar.
- Skuldari sem ekki borgar fær ítrekun á kröfunni.
- Enginn veikist ítrekað af Covid-19 vírusnum, aðeins einu sinni.
- Farðu nú að læra, krakki, ítrekaði mamman.
Ofangrein málsgrein er ekki vel samin:
afleiðingar þess að
Þetta er vinsælt orðalag, ekki rangt en skelfilega vitlaust.
var nauðsynlegt skref í þá átt að
Þetta er bara langloka. Betra hefði verið:
nauðsynleg til að fræðast
Í fréttinni segir einnig:
Eftir umfangsmiklar krufningar snemma á þessari öld kom í ljós að heilinn í þeim var álíka illa farinn og í hnefaleikurum sem hafa verið krufnir.
Þetta síðasta er algjör óþarfi: sem hafa verið krufnir. Lesandinn skilur að þeir hafi verið krufðir (krufnir/krufðir, hvort tveggja rétt), og allir átta sig á því að það hafi verið gert eftir andlátið.
Einnig segir í fréttinni:
Ljóst má vera að vangaveltur um heilsufar knattspyrnufólks þegar ferlinum sleppir munu verða áfram í umræðunni á Bretlandseyjum.
Hægt er að sleppa ýmsu en skýrara er að tala um
heilsufar knattspyrnufólk eftir ferilinn.
Þessi málsgrein er bölvað hnoð:
Fleiri rannsóknir verða vafalaust gerðar sem ættu að færa fólk nær einhverri vitneskju um hvort hættulegt sé að skalla knöttinn ítrekað og hversu hættulegt.
Gera má athugasemdir við fjölmargt annað í fréttinni. Hún er viðvaningslega skrifuð. Af hverju fær blaðamaðurinn enga leiðsögn?
Tillaga: Rannsóknin í Skotlandi var gerð til að skilja hvaða afleiðingar það getur haft að skalla bolta.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.