Fjárfundur, hááættusvæði, lyfin sen teim og knúsa tré

Orðlof

Tunga þín má dæma þig

Ég las það í blaði í morgun (Mbl 1.6.18, 19) að Trump Bandaríkjaforseti hefði í sjónvarpsávarpi kallað starfsbróður sinn al-Assad Sýrlandsforseta skepnu. Er Assad var spurður um álit sitt á orðavali Trumps svaraði hann:

„Þú ert það sem þú segir.“

Ég læt mér reyndar orðaskipti þeirra kumpána í léttu rúmi liggja en leyfi mér að benda á að í svari Assads felast ævaforn sannindi sem rekja má til Biblíunnar (Matt 12, 37):

Gæt þú vandlega tungu þinnar og vit að það er virktaráð, því að tunga þín má sæma þig [getur aflað þér sóma] og tunga þín má dæma þig (Kgs 5, (130)).

Svipaða hugsun er víða að finna, t.d. í Íslensku hómilíubókinni:

Af orðum þínum skaltu réttlátur verða og af orðum þínum muntu meiddur verða (Íslhóm 98v4).

Ég býst við að flestum sé farið að fyrnast yfir upprunann en efnið eða boðskapurinn á enn fullt erindi til okkar.

Málfarsbankinn, Jón G. Friðjónsson, 240. pistill. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Sjáðu hvar Bjarni Ben var á fjárfundi í dag.“

Fyrirsögn á dv.is.                 

Athugasemd: Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, var á fjarfundi og allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins og líklega fleiri til.

Þetta kallar blaðamaðurinn „fjárfund“. Mikið fjári ... Fjárfundur og fjárhundur er hvorugt fjarfundur.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Vill sjá þolinmæði á Old Trafford.“

Fyrirsögn á dv.is.                 

Athugasemd: Enginn hefur „séð þolinmæði“. Hún er ekki hlutur heldur hugtak. Hins vegar kannast flestir við ábendinguna um að sýna þolinmæði og þá er átt við að sá sem orðunum er beint að verði þolinmóður, stilli sig, ekki að birta mynd af þolinmæði.

Blaðamaðurinn á líklega við að fótboltaliðið og stjórnendur þess gæti sín, séu ekki fljótfærir, sýni þolinmæði. 

Blaðamaðurinn hefur ekki góð tök á íslensku.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Halldór Armand Ásgeirsson, rithöfundur og útvarpsmaður, kom nýverið heim frá hááhættusvæði og þurfti því að fara í sóttkví.“

Fyrirsögn á dv.is.                 

Athugasemd: Hvað er „hááættusvæði“? Sé það til er væntanlega hægt að tala um „lágáhættusvæði“ og þá líklega „óáhættusvæði“. Stundum er talað um „gengisfellingu“ orða þegar þau þeim er ekki beitt samkvæmt hefð eða merkingu.

Nei, þetta er bara bull í DV. Sumir blaðamenn þar hafa alls ekki nógu góð tök á íslensku máli og enginn leiðbeinir þeim.

Annað hvort er staður áhættusvæði eða ekki. Vilji skrifari leggja enn meiri áherslu á áhættuna getur hann sagt að til dæmis sagt að Lombardi á Ítalíu sé hættulegur staður eða landsvæði eða bætt við einstaklega, sérstaklega, ákaflega, mjög, afar … .

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Í upp­hafi þessa árs bár­ust upp­lýs­ing­ar frá WHO þess efn­is að vart hefði orðið við hóp­sýk­ingu al­var­legr­ar lungna­bólgu í Wu­h­an-borg í Suður-Kína en staðfest smit milli manna ekki verið staðfest.“

Frétt á mbl.is.                  

Athugasemd: Þarna segir að staðfest smit hafi ekki verið staðfest. Staðfest … staðfest. Þetta kallast nástaða og í ofanálag ekki rökrétt.

Réttara er því að segja:

… en smit milli manna ekki verið staðfest.

Tóm vitleysa er að segja að „staðfest smit“ séu „ekki staðfest smit“.

Í fréttinni segir á einum stað:

Í upp­hafi þess­ar­ar ald­ar …

Og á öðrum segir:

Í upp­hafi þessa árs …

Blaðamaðurinn virðist ekki gera sér grein fyrir nástöðunni. Einhæf orðanotkun getur bent til rýrs orðaforða.

Margir freistast til að ofnota ábendingafornafnið þessi og er ég einn af þeim. Oft er notkunin algjörlega þarflaus og hjálpar ekkert eins og hér: 

Í upphafi þessa árs.

Hér er greinilegt að verið er að tala um yfirstandandi ár og þannig er það oft að lesandinn myndi skilja samhengið þó svo að þarna stæði:

Í upphafi ársins.

Gott er að sleppa ábendingarfornafninu og setja ákveðinn greini á nafnorðið.

Í skrifum mínum hef ég hef stundum reynt að sleppa ábendingarfornöfnum og held að í mörgum tilfellum bæti það stílinn. Blaðamenn og aðrir skrifarar ættu að prófa þetta. 

Fréttin hefði orðið betri ef einhver góðviljaður á ritstjórninni hefði lesið hana yfir fyrir birtingu. Margt er að orðalagi og stíllinn slakur.

Tillaga: Í byrjun ársins bár­ust upp­lýs­ing­ar frá WHO þess efn­is að vart hefði orðið við hóp­sýk­ingu al­var­legr­ar lungna­bólgu í Wu­h­an-borg í Suður-Kína en smit milli manna ekki verið staðfest.

5.

„Fólk virðist mjög mikið vera að nota sótthreinsiklúta …“

Frétt á blaðsíðu átta í Morgunblaðinu 26.3.20.                 

Athugasemd: Blaðamaðurinn hefur þetta eftir viðmælanda sínum sem ábyggilega ætlaði að segja að fólk noti klútanna mikið. Auðvitað átti blaðamaðurinn að lagfæra orðalagið. Viðmælendur orða stundum hugsun sína illa og þá eiga blaðamenn að hjálpa til.

Tillaga: Fólk virðist nota sótthreinsiklúta mjög mikið …

6.

„Fáðu lyfin sen teim.“

Þulur les auglýsingu í morgunþætti Ríkisútvarpsins kl. 07:57.                 

Athugasemd: Ég gat ekki almennilega heyrt hvað við var átt, skildi ekki „lyfin sen teim“. Eitt augnablik flögraði að mér að „Sen Teim“ eða „SenTeim“ væri kínverskt lyf til varnar kórónuveirunni. Svo áttaði ég mig á að apótek býður fólki að fá lyfin sín send heim.

Stuttu áður var borgarstjóri í viðtali í morgunþættinum. Dagskrárgerðarmaðurinn kvaddi Dag og sagði svo (ritað eftir minni): 

Borgarstjóri gengur nú út í daginn …

Þá hló ég upphátt.

Tillaga: Fáðu lyfin send heim.

6.

„Leitið huggunar gegn veirunni og knúsið tré.“

Fyrirsögn á blaðsíðu 23 í Morgunblaðinu 26.3.20.                 

Athugasemd: Hvað varð um sögnina að faðma? Var hún felld niður í íslensku máli. Enginn er lengur sagður faðma, allir knúsa sem er svona „dúddí“ orðalag eins og einn vinur minn orðaði það.

Knús er svo sem ekki slæmt orð. Það er vel þekkt og mikið notað, en öllu má nú ofgera.

Börn eru knúsuð í æsku en þegar þau eru orðin fullorðin og tekin til við ritstjórn á vef Skógræktarinnar (sem er heimild fréttarinnar) er þeim tamara að knúsa tré en faðma. Hið síðara mun þó vera réttara því eftir myndunum að dæma umfaðmar fólk tré.

Á malid.is segir: 

knúsa s. (17. öld) knosa, mylja, þjarma að …

Þetta er hin upprunalega merking og hana má greinilega sjá í til dæmis í danskri orðabók sem segir um orðið „knuse“, sjá hér:

Knuse nogens hjerte. OVERFØRT gøre nogen ulykkelig, især i forbindelse med kærlighed.

Svo má leita að danska nafnorðinu „knus“ og þá er merkingin allt önnur, athyglisverð eru orðin „omfavnelse“ og „favntag“. Hvað skyldu þau nú þýða?:

omfavnelse; kram
SYNONYM uformelt knuser
ORD I NÆRHEDEN: knus og kram, stort kram, favntag, kæmpeknus, knusetur, krammer ... vis mere
EKSEMPLER: et ordentligt/varmt knus, et stort korpussøgning, give/få et knus, kys og knus, knus og kram.

Hvernig er það annars, leitum við ekki huggunar vegna einhvers en ekki gegn?

Skógrækt er göfug, um það verður varla deilt. Ég geng oft um Heiðmörk en á varla eftir að faðma birkitrén, þessar rýru en þó fallegu hríslur. Læt grenitrén algjörlega vera. 

Tillaga: Leitið huggunar vegna veirunnar og faðmið tré.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og ef við viljum skrifa á íslenzku er ágætt að tala um Langbarðaland en ekki enskt heiti á ítölsku héraði.

Haukur Eggertsson (IP-tala skráð) 26.3.2020 kl. 16:58

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir athugasemdina, Haukur. Hún er réttmæt.

Á Wikipediu segir:

Langbarðaland (Lyngbarði eða Lumbarðaland) (ítalska: Regione Lombardia) er hérað á Norður-Ítalíu á milli Alpafjalla og Pódalsins. Höfuðstaður héraðsins er Mílanó. Íbúafjöldi er yfir níu milljónir.

Héraðið heitir eftir Langbörðum, germönskum ættflokki sem lagði undir sig Ítalíu eftir fall Rómaveldis.

Þetta er afar forvitnilegt. Í einstaklega áhugverðri grein eftir Björn Jakobsson í Lesbók Morgunblaðsins 17. desember 1990 segir:

Hin sögulega staðreynd er sú: — Langbarðar gjörsigra Herúlaríkið í Ungverjalandi sem verður til þess að stór hluti Herúla flytur til Norðurlanda og það voru afkomendur þessa aðkomufólks sem Haraldur hárfagri gerir brottræka úr Noregi eftir orrustuna í Hafursfirði.

Eins og Dr. Barði hefur réttilega bent á var hann ekki að hrekja burtu norskættaða bændur frá óðulum sínum sem hefði verið bæði óskiljanlegt og óviturleg ráðstöfun enda hefði Haraldur ekki haldið konungstign sinni lengi hefði hann snúist þannig gegn eigin fólki.

Herólakenning Barða Guðmundssonar sagnfræðings er ákaflega athyglisverð en um leið umdeild. Áhugasamir ættu að fletta upp á grein Björns í Lesbókinni.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.3.2020 kl. 17:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband