Þessi 22 ára gamli framherji, ítrekað og heimsvísan
24.3.2020 | 11:13
Orðlof
Samskiptafjarlægð
Í tengslum við COVID-19-sjúkdóminn hefur mikið verið rætt um það sem á ensku nefnist social distancing, þ.e. það að minnka sem mest samneyti við aðra til að reyna að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar.
Ekki hefur fundist gott orð yfir þetta en Jóhann Heiðar Jóhannsson, formaður Orðanefndar Læknafélags Íslands, leggur til (í samtali) að þetta hugtak verði kallað samskiptafjarlægð.
Dæmi um notkun þess í setningu: Landlæknir leggur til að allir hlíti reglum um samskiptafjarlægð.
Árnastofnun, pistill eftir Jóhannes Bjarna Sigtryggsson rannsóknalektor.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Þessi 22 ára gamli framherji flaug til Belgrade í síðustu viku
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Fleiri en íþróttablaðamenn hafa tekið upp á því að geta um aldur fólk í fréttum. Þetta er mjög algengt í flestum löndum og í sjálfu sér ekkert að því. Ofangreind tilvitnun er í þessu samhengi á vefsíðu Moggans:
Luka Jovic, framherji spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, er í slæmum málum eftir að hann yfirgaf sóttkví vegna kórónuveirunnar í heimalandi sínu Serbíu í leyfisleysi. Þessi 22 ára gamli framherji flaug til Belgrade í síðustu viku
Frásögnin er ekki góð, endurtekningar gera hana stíllausa. Betur hefði farið á því að orða þetta svona:
Luka Jovic, tuttugu og tveggja ára gamall framherji spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, flaug til Belgrad í síðustu viku. Hann yfirgaf sóttkví ...
Greinilegt er að blaðamaðurinn þýddi úr ensku. Hann veit ekki að hér á landi er almennt talað um Belgrad, jafnvel Belgrað, en á ensku Belgrade. Á vef Wikipedia segir:
Belgrad eða Beograd á serbnesku
Villur eru í fréttinni. Þar segir mikillar varúðarráðstafana. Einnig segir:
Þar sem að Jovic var að koma frá Madrid á Spáni þar sem veiran hefur
Þar sem þar sem. Blaðamaðurinn hlýtur að sjá nástöðuna við yfirlestur. Þetta er skárra:
Jovic var að koma frá Madrid á Spáni en þar hefur veiran
Í fréttinni segir:
Nebojsa Stefanovic, innanríkisráðherra Serbíu, ítrekaði að Jovic gæti fengið fangelsisdóm fyrir að rjúfa sóttkví.
Ítrekaði hvað? Hvergi kemur fram að ráðherrann hafi sagt þetta áður. Hvers vegna notar þá blaðamaðurinn ítrekaði? Hefði ekki verið nóg að skrifa að hann hafi sagt að Jovic gæti fengið fangelsisdóm?
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Charlie Austin, leikmaður QPR, varar ungt fólk við því að það sé ekkert grín að fá kórónaveiruna þó að það sé á besta aldri.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvað á blaðamaðurinn við fyrir hönd fótboltamannsins? Hann varar við því að það sé ekkert grín á fá veiruna.
Berum þetta tvennt saman:
Hann varar við því að það sé ekkert grín að fá veiruna.
Og
Hann varar við því að það sé grín að fá veiruna.
Hvort af þessu skyldi nú maðurinn eiga við?
Hann er í raun og veru að segja að það sé alvarlegt mál að fá veiruna. Ekki að það sé grín.
Tillaga: Charlie Austin, leikmaður QPR, aðvarar ungt fólk. Hann fullyrðir að það sé ekkert grín að fá kórónaveiruna þó fólk sé á besta aldri.
3.
Lögregla ítrekað kölluð út vegna heimasamkvæma.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Þetta er ekki góð notkun á lýsingarorðinu ítrekaður. Betra er að nota atviksorð eins og oft, tíðum, aftur og aftur og álíka.
Þegar sögnin að ítreka eða lýsingarorðið ítrekað er notað þá erum við að tala um sama verknaðinn. Krafa um greiðslu reiknings þarf stundum að senda oft til skuldarans, skuldin er þá ítrekuð. Eftirfarandi er bara della:
- Varla er hægt að segja að sá sem fer daglega í sundlaugar fari ítrekað í sund.
- Þó svo að skíðamaður detti oft í brekku er varla hægt að segja að hann detti ítrekað.
- Ekki getur verið rétt að segja að maður stami ítrekað.
- Margir veikjast oft um ævina, varla fá menn ítrekað kvef.
- Sá sem hnerrar nokkrum sinnum í röð hefur varla hnerrað ítrekað.
- Ómögulegt er að segja að sá sem kaupi mjólk fjórum sinnum í viku kaupi ítrekað mjólk.
Engu að síður er þetta sagt á svipaðan hátt af því að ítrekað er svo vinsælt orð um þessar mundir og ítrekað notað. Af þessum dæmum má sjá að orðið á alls ekki alltaf við.
Tillaga: Lögregla oft kölluð út vegna heimasamkvæma.
4.
Skortur á sýnatökupinnum á heimsvísu.
Undirfyrirsögn á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 23.3.20.
Athugasemd: Sum orð verða afar vinsæl hjá blaðamönnum og er klifað á þeim út í hið óendanlega. Í nokkurn tíma hefur oft (ítrekað) verið talað um heimsvísu og landsvísu sem þó er alls ekki rangt en öllu má nú ofgera. Hér áður fyrr var einfaldlega talað um það sem gerst hefur í heiminum eða á landinu.
Og af þessu tilefni er hér vísa. Nei, ekki vísa heldur limra út Vísnahorni Morgunblaðsins sem Halldór Blöndal fyrrum þingmaður sér um. Eitt af því skemmtilegasta sem maður les:
Það er almenningsálit í sveitinni,
að ást séra Marteins á geitinni
megi hreint ekki lá
þegar litið er á
hve lík hún er Jórunni heitinni.
Höfundurinn er Jóhann S. Hannesson.
Tillaga: Skortur á sýnatökupinnum í heiminum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.