Tikka í réttu boxin, lausafé sem þornar upp og þyrla sækir slasaðan á Landspítalann

Orðlof

Hlutur

Venjan er að segja gera á hlut einhvers. Eldra afbrigðið gera á hluta einhvers er líka til þó að hitt sé algengara í nútímamáli.

Málfarsbankinn.  

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Aðspurður varðandi út­litið framund­an seg­ir Daní­el að stjórn­völd séu að tikka í öll réttu box­in.“

Frétt á mbl.is.                 

Athugasemd: Þó svo að viðmælandinn hafi sagt svona ber blaðamanninum ekki skylda til að hafa þetta nákvæmlega eftir honum.

Orðalagið er mjög enskt. Í orðabók Longman á netinu segir:

If something ticks all the right boxes, it does everything that you wanted it to do or is everything you wanted it to be.

Enskt orðalag þarf ekki að vera slæmt. Miðum samt við venju og hefð í íslensku máli. Í krossaprófum í gamla daga „tikkaði“ enginn ekki í box heldur hakaði, „exaði“, við rétt svör sem stundum voru í ferhyrndum reit. Síðar fóru sigldir að kalla þessa reiti „box“, hugsanlega til að sýni hversu forframaðir í útlenskunni þeir eru. Enskar slettur er öðrum þræði ekkert annað en mont.

Á íslensku merkir box kassi eða dós ef ekki er átt við hnefaleika. Box er áþreifanlegt, með fjórum hliðum, botni og loki. Makkintos sælgæti er yfirleitt selt í boxi sem má endurnýta fyrir kökur og annað gott, jafnvel verkfæri og svo framvegis. Þess vegna er varla hægt að nota „box“ um það sem teiknað á blað. Rammi eða reitur eru góð orð.

Þá getum við sagt:

Aðspurður varðandi út­litið framund­an seg­ir Daní­el að stjórn­völd hafi hakað í alla réttu reitina.

Hér verður að viðurkennast að málsgreinin er dálítið kjánaleg, ekki eins góð og enska orðalagið. Hins vegar er einfaldleikinn alltaf bestur og því eru stjórnvöld líklega að gera allt rétt. Ferlega hallærislegt að segja „varðandi útlitið framundan“.

Í fréttinni segir:

Það vita all­ir að þetta er tíma­bundið en maður veit bara ekki hversu tíma­bundið.

Æ, ekki er þetta gott. Viðmælandinn lítur hér illa út og það er blaðamanninum að kenna. Þetta er snöggtum skárra:

Allir vita að ástandið er tímabundið en hversu lengi veit enginn.

Með því að hugsa sig um, hætta að flýta sér, gefst tími til að vanda sig.

Tillaga: Spurður um framtíðarhorfur seg­ir Daní­el að stjórn­völd séu að gera allt rétt.

2.

„Lausa­féð er mjög fljótt að þorna upp.“

Fyrirsögn á mbl.is.                

Athugasemd: Orðtök eru föst orðasambönd sem hljóta að vera lýsandi fyrir umræðuefnið. Varla er hægt að segja að lausafé „þorni“ eða „þorni upp“. Peningar eru varla blautir og síst af öllu í rafrænni veröld. Þetta er þó líkingamál og fullkomlega eðlilegt að nýta sér það í frásögn. Fólk getur vissulega orðið uppiskroppa með peninga.

Lausafé er stundum nefnt handbært fé, það er þeir fjármunir sem auðveldlega er hægt að grípa til eða koma í verð. Á erfiðum tímum kann að vera erfitt að fá peninga, til dæmis gjaldeyri. Þar að auki er vandi að selja hluti og fá fyrir þá rétt verð. 

Tillaga: Margur verður uppiskroppa með lausafé.

3.

„Sóttu slasaðan skipverja á Landspítalann.“

Fyrirsögn á visir.is.                 

Athugasemd: Einu sinni gerðist maður nokkur pólitískur flóttamaður og bað um hæli í Sovétríkjunum og þótti það einstaklega merkileg frétt. Nú heyrir það til tíðinda að þyrla Landhelgisgæslunnar hafi „sótt slasaðan skipverja á Landspítalann“. Líklega hefur verið gáfulegra að lækna hann annars staðar eða bara skila honum á sama stað og hann fannst.

Þess ber að geta að hinn fljótfæri blaðamaður lagaði þessa kolvitlausu fyrirsögn löngu, löngu, löngu eftir birtingu fréttarinnar. Svona bull á ekki að viðgangast á Vísi eða öðrum fjölmiðlum.

Tillaga: Þyrla Gæslunnar flutti slasaðan skipverja á Landspítalann.

4.

Framlegð til íþróttahreyfingarinnar gæti minnkað.“

Fyrirsögn á frettabladid.is.                 

Athugasemd: Framlegð er hugtak sem notað er í rekstri fyrirtækja. Á Vísindavefnum skýrir Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði, það svo:

Framlegð er notuð yfir tekjur að frádregnum breytilegum kostnaði. Með breytilegum kostnaði er átt við kostnað sem breytist með framleiddu magni (ef um framleiðslufyrirtæki er að ræða) eða seldu magni (ef um dreifingaraðila er að ræða). 

Framlag er allt annað og merkir það sem lagt er af mörkum, skerfur.

Blaðamaðurinn er líklega að rugla þessum orðum saman þegar hann semur frétt um skerf, hlut, íþróttahreyfingarinnar úr potti Íslenskrar getspár, lottó og getrauna.

Fréttin er annars frekar illa skrifuð. Í henni eru stafsetninga- og málfarsvillur.

Tillaga: Framlag til íþróttahreyfingarinnar gæti minnkað.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband