Sérafnotareitur, framvinda sem rúllar og forystufólk Englands

Orðlof

Glatkista

Ímynduð kista þar sem týnda hluti er að finna. Eitthvað fer í glatkistuna; eitthvað er komið í glatkistuna.

Eitthvað tapast, týnist; eitthvað er týnt, eitthvað gleymist eða leggst af. Bókin er komin í glatkistuna - Húslesturinn vakti minningar um góðan sið sem lent hafði í glatkistunni.

Danska: „Gå í glemmebogen“

Úr bókinni Mergur málsins (stytt), Jón G. Friðjónsson.  

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Landamærum Danmerkur verður lokað frá og með hádegi í dag og verður öllum aðvífandi vísað frá landinu …“

Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 14.3.20.                

Athugasemd: Aðvífandi merkir samkvæmt orðabókinni sá sem kemur af tilviljun, ekki sá sem kemur í heimsókn. Af þessu má ráða að orðið er ekki notað í réttri merkingu í fréttinni.

Þegar blaðamenn lenda í vanda um orð eða orðalag er skynsamlegast að fara inn á malid.is. Þeir sem aldrei eru í vafa um orðaval sitt eiga ekkert erindi í blaðamennsku.

Tillaga: Landamærum Danmerkur verður lokað frá og með hádegi í dag og öllu aðkomufólki verður vísað frá landinu …

2.

„Íbúðum á jarðhæð og kjallara fylgir sérafnotareitur.“

Auglýsing á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 14.3.20.                

Athugasemd: Hvað er sérafnotareitur? Miðað við samhengið er hér líklega átt við lítinn garð eða blett fyrir utan íbúð sem lokaður er fyrir aðra. Þó má vera að hann sé í sameign innandyra eða gróðurreitur uppi á Hólmsheiði. Hver veit? Fylgdi bíll íbúðinni væri hann samkvæmt þessu nefndur sérafnotabíll. Svona orð er út í hött.

Orðið er asnalega saman sett og sé heimatilbúna skýringin mín rétt á orðið alls ekki við.

Tillaga: Íbúðum á jarðhæð og í kjallara fylgir lokaður reitur í garðinum fyrir utan íbúðina. 

3.

„Ferðabann til Bandaríkjanna nú í gildi.“

Fyrirsögn á frettabladid.is.                

Athugasemd: Ég hnaut um í fyrirsögninni og það fékk mig til að hugsa. Sé bannað að ferðast til Bandaríkjanna þá gildir það núna. Þar af leiðir að orðinu er algjörlega ofaukið, hjálpar ekkert. Raunar er að skaðlausu hægt að sleppa „í gildi“, það hjálpar ekki heildur neitt, bætir engu um skilning.

Eftir snyrtinguna stendur stendur einfaldlega:

Ferðabann til Bandaríkjanna.

Þetta er samt ansi snubbótt og ljótt. Hvers vegna? Jú vegna nafnorðanna, hér vantar sagnorð til að létta stílinn. Niðurstaða mín er því eins og segir í tillögunni.

Ég hélt í fáfræði minni að nú væri atviksorð og hugsaði það ekki til enda. Nei,  er nafnorð í hvorugkyni og aðeins til í eintölu? Það beygist svona:

Nú, nú, núi, nús.

Fyrirsögnin er klúðursleg og því ónothæf. Af hverju finna blaðamenn ekki þörf hjá sér til að skoða orðalag og stíl?

Tillaga: Bannað að ferðast til Bandaríkjanna.

4.

„Brandararnir eru oftar en ekki í fyrirsjáanlegri kantinum, en lykilatriðið er að framsetningin heldur flottu flugi, dýnamík leikaranna gefur frá sér gott stuð og rúllar framvindan frá A til B án nokkurrar fitu, tilgerðar eða rembings.“

Kvikmyndagagnrýni á dv.is.                 

Athugasemd: Margt í þessari gagnrýni á íslensku bíómyndina Veiðiferðin skilst ekki, þar með tilvitnunin hér að ofan.

Með góðum vilja má skilja að brandararnir séu „í fyrirsjáanlegri kantinum“. Þetta er hins vegar illa skrifað. Af hverju segir höfundurinn ekki að brandararnir hafi verið fyrirsjáanlegir? Þarna hefði farið vel á því að setja punkt, en höfundurinn áttar sig ekki á því og lengir málsgreinina úr öllu hófi.

Eftirfarandi er óskiljanlegt:

Framsetning heldur flottu flugi.

Má vera að höfundurinn sé að hæla kvikmyndagerðarmönnunum. Sé svo hefði hann að ósekju mátt vera skýrari, það er að segja geti hann það.

Svo kemur þetta:

Dýnamík leikaranna gefur frá sér gott stuð og rúllar framvindan frá A til B án nokkurrar fitu“.

Ég hef ekki hugmynd um hvað þetta þýðir. Hefði einhver sagt svona við mig hefði ég ábyggilega jánkað án nokkurs skilnings, þannig er oft talmálið. En hér er þetta ritmál og þá þarf að vanda sig.

Í gagnrýninni stendur:

Sex einstaklingar leggja af stað í hina árlegu veiðiferð með það að markmiði að sinni að eiga sér hófstillt glens.

Þetta skilst illa vegna þess að höfundur er hugsanlega of orðmargur. Einna helst mætti hann sleppa „að sinni“ þá skýrist málsgreinin örlítið. Betur hefði þó farið á því að segja:

Sex karlar leggja af stað í hina árlegu veiðiferð til að skemmta sér.

Í framhaldinu segir:

Eins og gerist þó, þegar fáeinir vínkassar eru opnaðir og dólgurinn farinn að gefa frá sér gleðismit í pylsupartíinu, siglir allt í ansi óútreiknanlega ferð framundan.

Hvaða dólgur? Þetta skilst ekki.

Sannast sagna á maður ekki að eyða mörgum orðum í viðvaningsleg skrif eins og þessi gagnrýni er frá upphafi til enda. Höfundurinn hefði þurft að fá einhvern til að lesa þau yfir, svo óskaplega margt þarfnast lagfæringar. Staðreyndin er einfaldlega sú að óbreytt hefðu skrifin ekki átt að birtast.

Ég ætla samt að sjá þessa kvikmynd en ekki vegna þessarar gagnrýni. Skilst að hún sé bráðskemtileg, þó brandararnir kunni að vera fyrirsjáanlegir. 

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Wayne Rooney, leikmaður Derby, er ekki sáttur hvernig forystufólk Englands hefur tekið á kórónuveirunni og knattspyrnunni. “

Frétt á visir.is.                 

Athugasemd: Hvað er „forystufólk Englands“ …? Þvílíkt orðalag. Blaðamaðurinn virðist ekki skrifa af mikilli þekkingu. Hann ætti framvegis að bera skrif sín undir alvörublaðamenn á Vísi? Þeir eru nokkrir afburðagóðir þar innandyra.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

„Þegar klukk­an sló eina mín­útu yfir miðnætti gekk sam­komu­bann í gildi á Íslandi …“

Frétt á mbl.is.                 

Athugasemd: Klukkan slær ekki nema á heilum og hálfum tíma. Má vera að börn sem aldrei hafa heyrt í eða séð stórar standklukkur eða borðklukkur af gömlu gerðinni viti þetta ekki. Svona orðalag er bara út í hött.

Mér finnst líklegast að samgöngubann hafi gengið í gildi klukkan 24, á miðnætti, sem þýðir að eftir það er samgöngubann. Í fréttinni segir að samgöngubannið gildi „til 13. apríl kl. 00:01“. Ég velti því fyrir mér hvort síðasti dagur bannsins sé 12. eða 13. apríl. 

Í fréttinni er þetta haft eftir viðmælanda:

… standa vörð um þá sem eru út­sett­ast­ir fyr­ir þess­ari sýk­ingu …

Hver kenndi þér að segja svona, blaðamaður? Mikið er þetta ljótt orðalag, stíllaust og kjánalegt. Er ekki átt við þá sem eru viðkvæmastir?

Tillaga: Frá miðnætti er samkomubann á Íslandi.

7.

Glataður giftingarhringur fannst fínpússaður og hreinn í fjósinu.“

Fyrirsögn á visir.is.                  

Athugasemd: Hringurinn var ekki glataðri en svo að hann fannst. Vissulega getur sögnin að glata þýtt að týna.

Glataður er lýsingarorð sem getur merkt týndur. Hins vegar er orðinu ofaukið í þessari málsgrein. Hann fannst, það sem finnst var týnt. Þarf að ræða það eitthvað frekar, eins og leikarinn sagði. Giftingahringurinn hefði ekki „fundist“ nema vegna þess að hann var týndur.

Tillaga: Giftingarhringur fannst fínpússaður og hreinn í fjósinu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband