Þriðja og síðasta umferð lauk og fólk sem læknast án læknis

Orðlof

Abbast

Orðasambandið abbast upp á e-n ´kássast upp á e-n´ kemur fyrir í Skipum heiðríkjunnar eftir Gunnar Gunnarsson í þýðingu HKL:

Þá má mikið vera, ef þeir þora að abbast upp á þig (GGRit I, 45).

Nánast sama orðasamband í svipaðri merkingu er að finna í Brennu-Njáls sögu (124. k.) sem lesbrigði úr öðru handriti (Reykjabók) frá svipuðum tíma:

Skarpheðinn hló að og spurði hví hún abbaðist upp á arfasátuna (ÍF XII, 320 (R) (1300–1325)).

Gunnlaugur Ingólfsson hefur bent mér á að Halldór Laxness hafi gefið út Njálu (1945) og notað þá útgáfu Finns Jónssonar (1908) þar sem Reykjabók er lögð til grundvallar. Enn fremur þýddi HKL Skip heiðríkjunnar (1941). Í ljósi þessa má telja líklegt að HKL hafi vísvitandi notað orðasambandið abbast upp á e-n í þýðingunni sem hann hafi þekkt það úr Njáluútgáfu sinni eða úr útgáfu Finns Jónssonar á Njálu (1908). 

Svipað orðafar er einnig kunnugt í fornu máli:

sumir abbast við það aðeins, er þeir verða ávítaðir of glæpi sína (f13 (Pst 202));

abbaðist mjög við svein hans (Mork 391).

Eins og sjá má er myndin hér abbast við e-n rétt eins og elstu myndir með amast voru amast við e-n, sbr. dæmin fremst í pistlinum.

Til gamans skal hér tilgreint dæmi úr Manni og konu sem gæti minnt á orðasambandið abbast upp á e-n en er þó trúlega óskylt:

ég kássast upp á einkis manns jússu, lagsi (JThSk II, 241).

Þess skal að lokum getið að breytingin á > upp á er kunn frá 14. öld (líta/sjá á > líta/sjá upp á) en á 16. öld hleypur mikill vöxtur í breytingar af þessum toga.

Málfarsbankinn, Jón G. Friðjónsson, 243. pistill., 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Þriðja og síðasta umferð í Íslandsmótinu í handbolta lauk í kvöld.“

Fréttir kl. 22 í Ríkisjónvarpinu 12.3.20.                

Athugasemd: Mikilvægt ert að fréttamenn kunni að beygja rétt. Hér hefur skrifarinn ekki áttað sig. Sagnorðið ræður fallinu á töluorðinu og lýsingarorðinu.

Tillaga: Þriðju og síðustu umferð í Íslandsmótinu í handbolta lauk í kvöld.

2.

150 til­felli kór­ónu­veiru hafa verið staðfest í Kan­ada og eitt dauðsfall.“

Fréttir á mbl.is.                

Athugasemd: Aldrei ætti að byrja setningu á töluorði. Þau eru allt annars eðlis heldur en bókstafir. Til að mynda kemur alltaf stór stafur á eftir punkti. Í þessu tilviki er sú regla brotin. Þar fyrir utan er þetta algjörlega stíllaust.

Tillaga: Í Kanada hafa 150 manns fengið kórónuveitu og einn látist.

3.

„Fólk hefur læknast.“

Þáttastjórnandi að morgni 13.3.2020 á Rás eitt.               

Athugasemd: Hér er ég ekki algjörlega viss, en tilfinning mín er sú að sá sem læknast hefur verið læknaður, það er með atbeina læknis. Sá sem fær kvef eða aðra kvilla og þarf ekki lækni til að komast aftur til heilsu hefur varla „læknast“, hann hefur einfaldlega náð heilsu, batnað. Batnar ekki öllum börnum sem njóta umönnunar móður og jafnvel föður. Þau læknast varla.

Í þættinum ræddi þáttastjórnandinn og viðmælandinn þannig um þá sem voru veikir af Covid-19 veiruna að allir hafi læknist. Er það ekki þannig er að flestir þola veikina rétt eins og hverja aðra flensu, og ná sér.

Tillaga: Fólk hefur aftur náð heilsu.

4.

Það fylgir því mikil áskorun að greina í hvaða fjárfestingar er ráðist og hver innspýtingin á að vera.“

Aðsend grein á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 13.3.20.              

Athugasemd: Fjöldi fólks skrifar greinar og fær þær birtar í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og víðar. Alltof margar þessara greina eru slakar, gætu verið betur upp settar og hnitmiðaðri. Í raun og veru er lítið út á það að setja að málfarsvillur finnist í slíkum greinum vegna þess að almennt er fólk ekki vant skrifum. Í ofangreindri tilvitnun fer betur að skrifa eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan.

Í flestum tölvum eru forrit sem leiðrétta stafsetningavillur en þau kunna ekki á málfar eða stíl. Ekkert forrit lagfærir nafnorðaáráttuna sem læðst hefur inn í bæði ritmál og talmál og vikið til hliðar hefðbundinni frásögn þar sem áhersla er lögð á sagnorð. Engum finnst lengur skrýtið að lesa fréttir og greinar þar sem í upphafi er sagan rakin næstum því frá landnámsöld og til dagsins í dag áður en lesandinn veit um hvað greinin er.

Reglan er þessi: Komdu þér strax að aðalatriðinu og láttu greinina snúast um það.

Í greininni sem ofangreind tilvitnun kemur höfundur að aðalatriði máls síns í lokin. Hann eyðir ótrúlega miklu plássi í tal um allt annað og fyrir vikið er greinin óaðlaðandi, leiðinleg og lesandinn gefst fljótlega upp. Meira að segja fyrirsögnin dregur ekki lesandann að.

Tillaga: Því fylgir mikil áskorun að greina í hvaða fjárfestingar er ráðist og hver innspýtingin á að vera.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband