Samstuð, sóttkvísaðgerðir og grípa til ýmsa ráðstafanna

Orðlof

Fornafn eða lýsingarorð

Ég geri ráð fyrir að allir lesendur hafi lært það á sínum tíma að orðið ýmisóákveðið fornafn – um það ber öllum nýrri orðabókum og kennslubókum saman. Hegðun orðsins bendir þó ekki ótvírætt til þess og í Málfarsbankanum þykir ástæða til að vara við fjöllyndi orðsins: 

Orðið ýmis er að uppruna fornafn og því er ekki talið æskilegt að segja „hinir ýmsu menn“ eða „hinir ýmsustu aðilar“ enda er ýmis þá sett í stöðu lýsingarorðs.

Það er rétt að sé laus greinir stendur venjulega aðeins með lýsingarorðum en ekki fornöfnum – við segjum hinir góðu menn, hinir sterku menn o.s.frv., en önnur óákveðin fornöfn en ýmis geta ekki staðið í þessari stöðu – ekki er hægt að segja *hinir öllu menn, *hinir sumu menn, *hinir nokkru menn og svo framvegis …

Ástæðan fyrir því að ýmis er sett í stöðu lýsingarorðs á þennan átt er sennilega tilfinning fólks fyrir merkingarlegum skyldleika orðsins við lýsingarorð – vandséðar eru t.d. merkingarlegar ástæður fyrir því að greina ýmis öðruvísi en margur sem alltaf er talið lýsingarorð. 

Ekki er ólíklegt að ástæðan fyrir mismunandi greiningu þessara orða sé sú að margur er venjulega talið stigbreytast, þótt óreglulega sé, en ýmis stigbreytist ekki – eða hvað?

Eiríkur Rögnvaldsson. Sjá nána á vefsíðu Eiríks.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Sjáðu skurðina sem Martial fékk á lappirnar eftir samstuð við stöngina.“

Fyrirsögn á dv.is.                

Athugasemd: Gera má athugsemdir við þrennt í þessari fyrirsögn. Blaðamaðurinn ávarpar einhvern, líklega lesandann, og hvetur hann til að skoða myndir. Þetta er árátta sumra miðla sem ekki eru vandir að virðingu sinni og kallast „smelluveiði“ á ensku „click bait“ og felst í því að fá lesandann til að smella (klikka) á frétt, veiða hann til að lesa hana. Þekkt er að margir fréttamiðlar greiða blaðamönnum sínum laun eftir fjölda „smella“. Þetta er síst af öllu til fyrirmyndar enda hvetur það blaðamenn til að búa til fyrirsagnir sem ekki eru fyllilega sannleikanum samkvæmar. Frétt sem tengd er svona fyrirsögnum er yfirleitt harla rýr og þannig er það í þessu tilviki.

Oft er sagt að menn hafi fætur en dýr lappir. Þetta er þó alls ekki einhlítt, menn hafa lappir og oft er talað um fætur dýra. Hins vegar færi betur á því í fyrirsögninni að tala um fætur fótboltamannsins.

Hann meiddist við „samstuð við stöngina“ segir í fyrirsögninni en engar sögur fara af meiðslum stangarinnar.

Gæti verið að hann hafi rekist á markstöngina? Jú, og það er eðlilegra orðalag. Árekstur tveggja bíla er líklega samstuð en hið fyrra er almennt notað. Lendir sá í samstuði við bolta sem skallar hann? Rekist ég á skáphurð lendi ég í samstuði við hana? Hlaupi tveir menn í fang hvors annars lenda þeir í samstuði?

Eftir myndinni að dæma eru áverkarnir á fótum mannsins fleiður, ekki skurðir. Líklega þekkir blaðamaðurinn ekki það orð.

Í fréttinni segir:

Martial er illa farinn eftir leikinn en hann birti myndir á samfélagsmiðlum, þar eru lappir hanns illa farnar.

Að hvaða leiti er fótboltamaðurinn „illa farinn“ ef frá eru dregin fleiðrin á fótum hans? Til hvers er leiðréttingaforritið í tölvu blaðamannsins? Nennir hann ekki að láta það leita að stafsetningavillum 

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Enginn leikmaður Everton fékk lægri einkunn en Gylfi.“

Fyrirsögn á visir.is.                 

Athugasemd: Blaðamaðurinn á eflaust við það eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan.

Tillaga: Gylfi og tveir aðrir í Everton fengu lægstu einkunn fyrir leik sinn.

3.

„Starfsmenn Landspítala fóru til Austurríkis eftir tilmæli landlæknis um að heilbrigðisstarfsfólk færi ekki til útlanda.“

Fyrirsögn á visir.is.                 

Athugasemd: Við fyrstu sýn mætti halda að tilmæli landlæknis hefðu hvatt fólkið til að fara til útlanda.

Fyrirsagnir þurfa að vera skýrar eigi þær að ná tilgangi sínum. Þessi er léleg, of löng og flókin.

Tillaga: Starfsmenn Landspítala fóru til Austurríkis í trássi við tilmæli landlæknis.

4.

„Gripið hefur verið til ýmsa ráðstafanna til að bregðast við útbreiðslunni, til að mynda er einangrunar- og sóttkvísaðgerðum beitt …“

Frétt á frettabladid.is.                

Athugasemd: Nafnorðið kví er í kvenkyni og beygist svona í eintölu: Kví, kví, kví, kvíar. Þar af leiðir að við tölum um sóttkvíaraðgerðir. Þetta orð er afar stirðbusalegt sérstaklega ef það er tengt eins og gert er í fréttinni.

Leitt er að blaðamaðurinn kunni ekki þessa beygingu á orðinu kví, verra er þó að óákveðna fornafnið ýmis er í röngu falli. Rétt er að segja:

Gripið hefur verið til ýmissa ráðstafanna …

Vont er þegar blaðamenn dreifa vitleysum, það er ekki verkefni þeirra. Þess vegna skiptir máli að þeir sem ráðnir eru til starfans búi yfir þekkingu á íslensku máli.

Tillaga: Gripið hefur verið til ýmissa ráðstafanna til að bregðast við útbreiðslunni meðal annars einangrun eða sóttkví.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband