Gera tónlist, koma upp úr gólfinu og ítrekaðar vegalokanir

Orðlof

Hinn

Hægt er að nota ábendingarfornafnið hinn á undan dagsetningu en það er ekki nauðsynlegt: hinn fimmta júní fóru fram kosningar, fimmta júní var haldin veisla.

Enn fremur þann: þann fimmta júní var haldin veisla en sumir hafa þó amast við þeirri málnotkun.

Málfarsbankinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… og að lík­ind­um fer val á nýj­um for­manni fram fyrst í sum­ar.“

Frétt á mbl.is.               

Athugasemd: Óvíst er við hvað er átt í tilvitnaðri málsgrein. Verður valið snemma sumars eða  í fyrsta lagi í sumar?

Fréttin einkennist af ofnotkun á orðtökum og orðatiltækjum sem stundum eiga ekki við. Raunar er góð regla að forðast orðtök, máltæki og klisjur, skrifa hreint mál.

Fréttin er mjög illa fram sett og skilst ekki vel. Málsgreinar eru langar og flóknar og stundum er ekkert samhengi í þeim. Skortur á punktum er átakanlegur og stíllinn sundurlaus.

Í fréttinni segir:

Ef FDP hefði ekki viljað koma sín­um manni til valda eft­ir þess­ari leið, hefði hann hafnað kjör­inu um leið og það kom fram, og CDU hefði sömu­leiðis dregið at­kvæði sín til baka um leið og í ljós kom í hvaða fé­lags­skap flokk­ur­inn væri kom­inn.

Ég skil ekki þessa málsgrein. Hef feitletrað að sem er óljóst.

Hér er önnur tilvitnun í fréttina:

Ramelow sósí­alisti hef­ur verið sam­bands­lands­for­seti í Thür­ingen frá því 2014 við ánægju meiri­hluta íbúa en nú var ráðgert að steypa hon­um af stóli – CDU og FDP neituðu að vinna með hon­um, og sam­starf með SPD hefði ekki dugað.

Hér er sagt að maðurinn hafi verið forseti „við ánægju“ meirihluta íbúa. Gæti verið að blaðamaðurinn eigi við að hann hafi notið stuðnings meirihluta íbúa eða flestir hafi verið ánægðir með störf hans?

Hætti meirihluti þings að styðja forseta er ekki verið „að steypa honum af stóli“. Blaðamaðurinn misskilur orðalagið. Lýðræðisleg kosning steypir ekki forseta af stóli. Hins vegar hefur komið fyrir að her hafi steypt forseta af stóli og þá er það gert með valdi.

Í fréttinni segir:

Flokk­ur­inn er í meiri hátt­ar krísu, hef­ur tapað miklu fylgi meðal ann­ars til AfD og þarf að fóta sig í nýju um­hverfi.

Engin tilraun er gerð til að skýra niðurlag málsgreinarinnar. Er flokkurinn kominn í önnur verkefni, til dæmis gatnahreinsun?

Hér er önnur málsgrein, illskiljanleg:

Aðdrag­and­inn að þessu var sá að frá sam­bands­lands­kosn­ing­um í vet­ur hef­ur reynst Bodo Ramelow úr Sósí­al­ista­flokkn­um (Die Lin­ke) ómögu­legt að mynda stjórn, enda reru hægri­menn að því öll­um árum að svo yrði ekki.

Eftirfarandi hefði verið mun skárra:

Frá sam­bands­lands­kosn­ing­um í vet­ur hef­ur Bodo Ramelow úr Sósí­al­ista­flokkn­um (Die Lin­ke) ekki tekist að mynda stjórn enda börðust hægri­menn gegn honum.

Gera má athugasemdir við fjölmargt annað í fréttinni. Niðurstaðan er sú að blaðamaðurinn er ekki vel skrifandi og fær greinilega enga aðstoð frá samstarfsmönnum eða yfirmönnum. Fréttin er stórskemmd og ekki lesendum bjóðandi. Áhugamönnum í þýsk stjórnmál er aftur á móti bent á vel skrifaða grein eftir Hjörleif Guttormsson á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 11.2.2020.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Hún hefur verið að gera rosa flotta tónlist í mjög mörg ár …“

Frétt á ruv.is.               

Athugasemd: Tónskáld semja tónlist. Útilokað er að segja að þau „geri tónlist“. Blaðamönnum ber að lagfæra orðalag eins og þetta. Sé það ekki gert fær vitleysan vængi og dreifist meðal okkar sem eigum það til að ruglast auðveldlega. Við verðum þá „gerendur“; „gerum tónlist“, „gerum söng“, „gerum sögur“ og „gerum upplestur“.

Sama er með rithöfunda, þeir skrifa og semja.

Svo má alveg íhuga hvað „rosa flott tónlist“. Mér finnst þetta afar kjánalegt orðalag.

Tillaga: Hún hefur verið að semja frábæra tónlist í mjög mörg ár …

3.

„Eminem kom óvænt upp úr gólfinu á Óskarnum og tók eitt sitt þekktasta lag.“

Fyrirsögn á visir.is.                

Athugasemd: Varla hefur nokkur komið upp úr gólfi frá því selurinn í Eyrbyggju kom upp úr eldgrófinni (hlóðunum) forðum daga.

Margir vita að hlerar eru á gólfi leiksviða og koma þar stundum upp skemmtikraftar öllum að óvörum. Lesendur Vísis vita þó ekki hvernig söngvarinn Eminem birtist því blaðamaðurinn blaðrar svo mikið:

Í fréttinni er hann sagður:

  1. Hafa komið upp úr gólfinu
  2. Stolið senunni
  3. Birst á sviðinu
  4. Stigið á sviðið

Að hætti óvandaðra blaðamanna les höfundurinn ekki skrifin yfir eða ber ekki skynbragð á það sem hann skrifar. Hann lætur allt flakka og ber enga virðingu fyrir lesendum. Verst er þó að  ritstjórninni virðist alveg sama þó skemmdar fréttir séu bornar á borð fyrir lesendur.

Hvort er þágufallið Óskarnum eða Óskarinum?

Í Eyrbyggju segir:

Það var tíðinda að Fróðá það sama kveld, er Þóroddur hafði heiman farið, að máleldar voru gervir og er menn komu fram sáu þeir að selshöfuð kom upp úr eldgrófinni. Heimakona ein kom fyrst fram og sá þessi tíðindi. Hún tók lurk einn er lá í dyrunum og laust í höfuð selnum. Hann gekk upp við höggið og gægðist upp á ársalinn Þórgunnu. Þá gekk til húskarl og barði selinn. Gekk hann upp við hvert högg þar til að hann kom upp yfir hreifana, þá féll húskarl í óvit. Urðu þá allir óttafullir þeir er við voru.

Þá hljóp til sveinninn Kjartan og tók upp mikla járndrepsleggju og laust í höfuð selnum og varð það högg mikið en hann skók höfuðið og litaðist um. Lét Kjartan þá fara hvert að öðru en selurinn gekk þá niður við sem hann ræki hæl. Hann barði þar til að selurinn gekk svo niður að hann landi saman gólfið fyrir ofan höfuð honum og svo fór jafnan um veturinn að allir fyrirburðir óttuðust mest Kjartan.

Blaðamaðurinn á þó allt betra skilið en selurinn.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

Ítrekaðar vega­lok­an­ir.“

Fyrirsögn á mbl.is.                

Athugasemd: Fjórtán sinnum í vetur hefur veginum um Súðavíkurhlíð verið lokað og blaðamaðurinn kallar þetta „ítrekaðar veglokanir“.

Blaðamaðurinn er vís til að halda því fram að markheppin leikmaður hafi „ítrekað“ skorað mörk. Hann gæti allt eins haldið því fram að einhver sem hann þekkir bursti tennurnar „ítrekað“ á morgnanna. Vera má að blaðamaðurinn hafi „ítrekað“ skrifað frétt í Moggann á síðustu vikum.

Margir misnota atviksorðið „ítrekað“ nær daglega. Hóf er á öllu best en misnotkun er alltaf slæm. Orðið ætti fyrst og fremst að nota sparlega, þegar eitthvað hefur stundum gerst aftur.

Ekki skilja útundan ágæt orð eins og oft, stundum, margoft, endurtekið, aftur, aftur og aftur, og álíka sem stundum er hægt að nota og eru skýrari en upptuggan „ítrekað“.

Líklega er ítrekað dregið af því að reka aftur til dæmis erindi. Þá er „ít“ hugsanlega herðandi forskeyti. Í íslenskri orðsifjabók á málið.is er sagt að það sé frá 17. öld og merki að endurtaka eða ámálga. Orðið er rakið til þýsku.

Tillaga: Veginum margoft lokað.

5.

„Ég var svo hljóðlát að ég heyrði eig­in and­ar­drátt.“

Frétt á mbl.is.                 

Athugasemd: Þessi orð eru höfð eftir stúlku sem var nærri hermanninum sem myrti tuttugu og níu manns í Thailandi fyrir skömmu.

Á myndbandi segir stúlkan frá reynslu sinni og meðal annars þetta:

I was so quiet I could hear my breath.

Blaðamaðurinn þýðir enska orðið „guiet“ sem hljóðlát og er það ágætt þó ég velti hér vöngum yfir þýðingunni. Hljóðlátur er haft um þá sem ekki gefa frá sér mikið hljóð eins og segir í orðabókinni.

Fólk getur vissulega verið hljóðlátt en einnig vélar og tæki. Til dæmis heyrist yfirleitt ekkert í Makkanum mínum og ég veit að allir rafmagnsbílar eru miklu hljóðlátari en metanbíllinn minn.

Hér er ég eiginlega búinn að mála mig út í horn í umfjöllun minni um þýðinguna. Finnst hún ekki alveg passa en get vart komið með aðra tillögu með viti. Má vera að stúlkan hafi haft hljótt, verið algjörlega kyrr, ekki bært á sér og svo framvegis. Sumir segjast hafa ekki bært á sig og þannig heyrt eigin hjartslátt.

Niðurstaðan er þó þessi að kunnugleg ensk orð er stundum ekki hægt að þýða beint á íslensku. Ekki er nóg að orðalagið skiljist.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

„Maður er einhvern veginn alltaf að spila við liðin í deildinni …“

Frétt á ruv.is.                 

Athugasemd: Þessi orð eru höfð eftir leikmanni efstu deildar kvenna í handbolta. Ekki er hægt að skilja þau og enn síður hægt að skilja fréttamanninn sem skrifar orðrétt eftir viðmælanda sínum en gerir enga tilraun til að lagfæra það sem hann segir.

Í upphafi fréttarinnar segir þessi viðmælandi:

Ég átti nú von á þessu, við spilum við þær [í Olísdeildinni] á laugardeginum fyrir, þannig að það eru ótrúlegar tilviljanir í þessu.

Ekki er þetta nú vel orðað og blaðamaðurinn reynir ekki að lagfæra eins og honum ber.

Eftirfarandi er líklega skárra og nær því sem viðmælandinn á við:

Ég átti nú von á þessu. Við munum spila við þær [í Olísdeildinni] laugardeginum á undan. Tilviljanirnar eru oft ótrúlegar.

Auðvitað er skýrara að tala um leik sem verður áður, tvisvar í sömu vikunni eða laugardeginum á undan. Svo er það þetta eilífa „þannig að …“ sem er orðið ansi leiðgjarnt sem hefur breyst í einhvers konar „hikorð“ eða málalengingu.

Í fréttinni er þetta haft eftir öðrum viðmælanda:

Fram er fyrirstaðan núna og auðvitað ætlum við að komast í gegnum það.

Komast í gegnum hvað? Fyrirstaða er nafnorð í kvenkyni og því þarf að „komast í gegnum hana“.

Er annars ekki málfarsráðunautur starfandi í Ríkisútvarpinu? Hann þyrfti að ræða við íþróttafréttamennina og benda þeim á að „ríkjandi“ Íslandsmeistari eða bikarmeistari er ekki til. Valur getur til dæmis ekki verið bæði „ríkjandi“ Íslandsmeistari og Íslandsmeistari. Er það nokkuð?

Tillaga: Engin tillaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband