Rútan endaði á þakinu, liggur undir grun fyrir morð og Bandaríkjamenn sigra innrásina

Orðlof

Strjúgur

Strjúgsstaðir heitir bær í Langadal í A-Hún. „Upp undan bænum er Strjúgsskarðið. Eftir P0002106 bþví rennur lækur, sem kallaður er Strjúgsá.“ Örnefnin Strjúgshólma, Strjúgshjalla, Strjúgsgil, Strjúgsfoss, Strjúgshaug, Strjúgstjörn og Strjúgsnibbu er þar líka að finna …

Á það var minnst að strjúgur hafi haft merkinguna hroki. En orðið getur samkvæmt orðabókum merkt ýmislegt fleira. Til dæmis getur strjúgur verið matur sem búinn er til úr dýra- eða fiskabeinum með því að leggja þau í súr. Einnig getur orðið merkt reiði og staðbundið getur það staðið fyrir kalsavind.

Athyglisvert er að í öllum tilfellunum tengjast örnefni með strjúg-ám eða lækjum með einum eða öðrum hætti: Strjúgsár eru þrjár talsins, Strjúgshylur einn og um Strjúgsgil rennur Strjúgsgilslækur. 

Hugsanlegt er að í strjúgi sé varðveitt orð sem merkt hefur upphaflega eitthvað í líkingu við streyma eða renna og upphaflega sé Strjúgur árheiti.

Örnefnasafn Árnastofnunar, sjá hér. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Rútan valt og endaði á þakinu.

Frétt á ruv.is kl. 15:00, 12.01.2020.             

Athugasemd: Á hvaða þaki lenti rútan? Nei, hún endaði á hvolfi, valt. Sögnin að velta er sjaldan notuð. Í fréttum lendir allt eða endar á hvolfi. 

Hins vegar getur maður dottið og lent á bakinu, jafnvel endað á bakinu, en það er dálítið annað jafnvel þó bak og þak rími. Fjölbreytni í orðavali skaðar ekki í fréttaskrifum.

Tillaga: Rútan valt og endaði á hvolfi.

2.

„Íslendingur liggur undir grun fyrir morð.“

Undirfyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins 13.1.2020.

Athugasemd: Nokkur mundur er á ofangreindri fyrirsögn og tillögunni hér fyrir neðan.

Orðalagið „liggur undir grun“ er ekki rangt en ógott. Ótrúlegt er að blaðamaðurinn skuli ekki hafa notað sögnina að gruna í stað nafnorðsins grunur. Ástæðan er nafnorðavæðing sem algeng er meðal yngri blaðamanna, sérstaklega þeirra sem hafa ekki stundað lestur frá unga aldri, orðaforði þeirra er rýr.

Almennt er sagt að einhver sér grunaður um eitthvað, ekki fyrir. Sá sem skrifar er greinilega óvanur.

Tillaga: Íslendingur grunaður um morð.

3.

„Óttast hið versta í yfir­vofandi eld­gosi á Filipps­eyjum.“

Fyrirsögn á frettabladid.is. 

Athugasemd: Eldgos sem þegar er byrjað er ekki lengur yfirvofandi. Orðið merkir það sem er í vændum, vofir yfir.

Í fréttinni segir frá Taal eldfjallinu sem er í stöðuvatni á stærstu eyju Filipseyja, Lúson. Aska streymir upp úr gígnum en búist er við því að hraun taki að renna innan skamms.

Blaðamaðurinn er ekki sterkur í jarðfræðinni. Hann segir:

Við höfum greint hraun­kviku, sem enn er djúpt í jarð­veginum og hefur ekki náð upp á yfir­borðið.

Hér áttar blaðamaðurinn sig ekki á því að jarðvegur er allt annað en jarðskorpa. Kartöflur geta vaxið í jarðveginum en ólíklegt er að þar sé kvika enda myndi hann brenna væri svo. Miðað við jarðskorpuna er jarðvegur afskaplega þunnur. Yfirleitt er talað um kviku í iðrum jarðar en hraun á yfirborði.

Á Vísindavefnum segir:

Ysti hluti jarðarinnar kallast jarðskorpa. Þykkt hennar er á bilinu 6-40 km, eftir stöðum á jörðinni. Meðalþykkt hennar er um 17 km sem er um það bil 0,2% af geisla (radíus) jarðar sem er 6370 km.

Þegar þannig háttar að gígur eldfjallsins er í stöðuvatni eru miklar líkur á að gosið sé fyrst í stað öskugos, þá hefur vatn komist í snertingu við kvikuna. Um leið er hætta á gufusprengingum. Eftir að gígurinn kemst upp úr vatnsyfirborðinu tekur hraun að renna. 

Blaðamaðurinn hefði átt að leita til íslenskra jarðvísindamanna um upplýsingar en ekki láta nægja að þýða hugsunarlaust grein úr erlendum vefmiðli.

Tillaga: Óttast hið versta í eld­gosinu á Filipps­eyjum.

4.

„Hvenær sigra Bandaríkjamenn innrásina í Írak og Afganistan?“

Grein í frettabladid.is. 

Athugasemd: Þetta er meinleg villa. Seint mun innrásaliðið sigra innrásina, skiptir engu máli hvers lenskt það er. Það segir sig sjálft. Sama á við keppni. Íslenska handboltalandsliðið mun til dæmis aldrei sigra Evrópukeppnina en vonir standa til að það sigri í keppninni.

Hins vegar getur innrásarlið sigrað heimamenn þó mörg dæmi séu um hið gagnstæða. Nefna má innrás Ítala í Grikkland 1940 en þeir höfðu ekki erindi sem erfiði og hrökkluðust til baka.

Tillaga: Hvenær sigra Bandaríkjamenn í Írak og Afganistan?

5.

„Ný vending í máli Auðar.“

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Til ef kvenmannsnafnið Auður. Einnig er til karlmannsnafnið Auðar. Á þessum tveimur nöfnum er grundvallarmunur. Auðar beygist svona:

Auðar, um Auðar, frá Auðari, til Auðars.

Nafnið Auður beygist svona:

Auður, um Auði, frá Auði, til Auðar.

Í fréttinni er rætt um mann sem ber listamannsnafnið Auður. Ekki er ljóst hvort að um sé að ræða kvenmanns- eða karlsmannsnafnið. Sé fyrrnefnda nafnið notað er fyrirsögnin rétt. Ef ekki á að skrifa Auðars.

Tillaga: Engin tillaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband