Gleðileg jól til ..., barn brjóstfætt og mjúkustu eldhúsrúllurnar

Orðlof

Einhverjir

„Þetta voru einhverjar 5 milljónir; það komu einhverjir 30 manns; samtals urðu þetta einhver 13 ár; þetta voru einhverjir tugir tonna.“ 

Áhrif frá enskunni: some. 

Í rauninni eru þetta einar 5 milljónir, einir 30 manns, ein 13 ár - þ.e.a.s. um það bil. En tugirnir eru bara tugir.

Málið, á blaðsíðu 25 í Morgunblaðinu 24.12.2019. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Gleðileg jól til ykkar allra.“

Algeng kveðja um jól og áramót.                

Athugasemd: Forsetningunni til er hér algjörlega ofaukið. Gleðileg jól er kveðja sem dugar. 

Ekki segja:

Gleðileg jól til ykkar.

Segjum frekar:

Gleðileg jól.

Eða:

Óskum ykkur öllum gleðilegra jóla.

Kveðjur eru þess eðlis að þær rata yfirleitt til þeirra sem sendandinn ætlast til að taki við þeim. Aðrir misskilja þær sjaldnast.

Fallegt er að heilsast með því að segja:

Góðan dag.

Ekki síður er fallegt að kveðjast með því að segja:

Góðan dag.

Við heilsumst og kveðjumst með því að segja gleðileg jól. Ekki flækja málið. Heilsum og kveðjum með því að segja góðan dag. Þessi tvö orð duga þegar við hittumst og einnig þegar við förum. Í fyrstu kann kveðjan að vera dálítið ókunnugleg en hún venst yndislega vel og er margfalt betri en að segja „eigðu góðan dag“.

Tillaga: Gleðileg jól.

2.

„Lögreglan á Suðurlandi vill koma því á framfæri að lokun hefur verið sett á Dyrhólahey á meðan leit stendur yfir í og við eynna. Umferð verður hleypt á eynna um leið og leit lýkur í dag.“

Frétt frá lögreglunni á Facebook.                

Athugasemd: Ég hef sagt það áður og endurtek það hér, lögreglan er varla skrifandi. Tilvitnunin hér fyrir ofan sannar það. Til skammar er að löggan skuli ekki hafa innan sinna raða þokkalega ritfært fólk og hneyksli að hún skuli birta þennan texta.

Svo upptekin er löggan af stofnanastílnum að hún „setur lokun á Dyrhólahey“ í stað þess að loka henni. Nafnið þar að auki rangt skrifað í ofangreindum texta. Margir hafa komið upp á eyjuna eða ætti ég að segja „heyjuna“?

Svo er sagt að lokunin sé á meðan „leit stendur yfir í og við eyunna“ í stað þess að segja á einfalda máta að lokað verði meðan leitað er. Í þokkabót verður „umferð hleypt á eynna“ í stað þess að vegurinn verði opnuð aftur.

Loks er það fallbeygingin sem virðist flækjast fyrir löggunni. Rangt er að segja á meðan „leit stendur yfir í og við eynna“. Þarna á að standa eyjuna, nota skal þolfall með greini. Þetta orð „eynna“ er ekki til

Eintala: eyja, um eyju, frá eyju til eyju. 

Eintala með greini: eyjan, um eyjuna, frá eyjunni til eyjunnar.

Í annarri færslu á Facbook segir löggan: 

Leitað var fram á kvöld í gærkvöld

Kvöld, kvöld ... Þetta er nástaða. Af hverju er þetta ekki orða svona?:

Leitað var fram á gærkvöldið.

Svona tvítekningar eru ekki óalgengar hjá löggunni og raunar víðar. Kallast nástaða.

Tillaga: Lögreglan á Suðurlandi vill koma því á framfæri að Dyrhólaey hefur verið lokað meðan leitað er. Hún verður opnuð um leið og leit lýkur í dag.

3.

„Lög­regl­an seg­ir frá því að kon­an hafi verið með ungt barn sitt í bif­reiðinni og var að brjóst­fæða barnið er lög­regla kom á vett­vang.“

Frétt á mbl.is.                 

Athugasemd: Eitt er að gefa barni brjóst og annað að brjóstfæða. Hið fyrra merkir að móðir gefur barni næringu úr brjósti sínu. Hið síðara merkir … tja, ég hef ekki grænan grun. 

Líklega er þetta talsmáti þeirra sem hafa þekkingu sína úr enskum bíómyndum eða sjónvarpsþáttum frekar en menntun í íslensku máli eða lestri íslenskra bóka. Á útlenskunni er sagt „breastfeed“ og er þá barni gefið brjóst. Þó hægt sé að þýða orðið nær bókstaflega hefur merking þess á íslensku ekki þá sömu og á ensku.

Þar að auki er málsgreinin illa skrifuð. Konan var með barn og var að brjóstfæða barnið. Hefur blaðamaðurinn enga tilfinningu fyrir þessari leiðinlegu nástöðu. Og var knýjandi nauðsyn til að koma þessu ofnotaða lögguorði „vettvangur“ inn í fréttina?

Tillaga: Lög­regl­an segir að þegar hún kom að bílnum hafi kon­an verið að gefa ungu barni sínu brjóst.

4.

„Kastaðist út úr bíl sínum eftir alvarlegt umferðarslys.“

Frétt á visir.is.                  

Athugasemd: Ekki er ein báran stök, er stundum sagt þegar áföllin koma í röðum. Maður getur sannarlega vorkennt manninum. Fyrst lendir hann í umferðaslysi og að því loknu kastast maðurinn út úr bíl sínum. Þetta og ekkert annað gerðist samkvæmt tilvitnaðri setningu.

Auðvitað eru þetta ekki tveir atburðir. Maðurinn kastaðist út úr bílnum í slysinu. Slíkt gerist stundum.

Blaðamaðurinn er bara fljótfær, reynir að hespa skrifunum af enda er ekkert bitastætt í þeim, skrifar raunar fréttina upp eftir frétt á ruv.is sem er álíka fátækleg en skár skrifuð. Þar segir þó ekkert um að maðurinn hafi kastast út úr bílnum eftir slysið. Það er bara uppspuni blaðamanns DV.

Tillaga: Kastaðist út úr bíl sínum í alvarlegu umferðarslysi.

5.

„Betri en margar af frammistöðum Gylfa Þór Sigurðssonar, sem hefur skilað liðinu inn á tvö stórmót.“

Frétt á dv.is.                   

Athugasemd: Málsgreinin er illskiljanleg. Frammistaða er nafnorð sem ekki er til í fleirtölu. Hins vegar getur fólk staðið eins og því sýnist og það hefur margvíslegar stöður. Hér er átt við að frammistaða er ekki til fleirtölu en nafnorðið staða er það.

Til þess að vita þarf blaðamaður að hafa einhverja grunnþekkingu. Hér er því haldið fram að löggan geti varla skrifað villulausan texta. Sumir íþróttablaðamenn eru lítið skárri.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

„Jafn­vel mjúk­ustu eld­húsrúll­urn­ar eru ekki að fara koma í staðinn fyr­ir …“

Frétt á mbl.is.                   

Athugasemd: Öll fréttin er illa skrifuð og enginn hjálpar hinum unga blaðamanni, leiðréttir og lagar skrif hans.

Fréttin byrjar svona:

Það er svo hand­hægt að grípa í eld­húsrúll­una og þurrka upp allskyns óhöpp og nota við þrif. En þó að rúll­an sé auðveld­asti kost­ur þá er hún ekki alltaf besti kost­ur­inn. Hér eru fimm atriði þar sem eldhúsrúll­an ætti ekki að koma við sögu.

Þetta er ekki vel skrifað. „Handhægtgrípa til“ er of mikið, annað hvort dugar. Í einni og sömu setningunni er nástaða, kostur nefndur tvisvar. 

Í þremur tilvitnuðu málsgreinunum kemur orðið eldhúsrúlla eða rúlla þrisvar fyrir. Það er of mikið.

Þetta væri betra:

Þó eldhúsrúllan sé góð hentar hún ekki alltaf. Í þessum tilvikum ætti ekki að nota hana:

Margt skilst ekki. Í fréttinni er talað um „skothelt vopn“, „uppsafnað ryk“ og skyndilega er lesandinn ávarpaður sem „þú“ en óljóst hvort það sé ég eða aðrir.

Mikið væri nú gott ef byrjendur í blaðamennsku og skrifum fengju lágmarks tilsögn á Mogganum. Skemmdar fréttir bitna á lesendum. Er öllum sama þarna innan dyra?

Tillaga: Jafnvel mýkstu eldhúsrúllurnar koma ekki í staðinn fyrir …

7.

„Við erum að leita að góðum leikmenn allan tímann …“

Frétt á dv.is.                   

Athugasemd: Fljótfærnin getur verið slæm eins og ofangreind málsgrein sýnir. Blaðamaðurinn gleymir að fallbeygja nafnorðið leikmenn ætti að vera í þágufalli, leikmönnum. 

Hvað merkir viðbótin „allan tímann“? Þetta er haft eftir þjálfara Manchester United og svo kemur bara punktur. Ekkert meir um „allan tímann“. Vefst fyrir blaðamanni að þýða „all the time“?

Frekar illa skrifuð frétt og ómerkileg.

Tillaga: Við erum alltaf að leita að góðum leikmönnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband