Kona kvænist, ísbjörn sem mætti og bátur sem hvolfdist ekki

Orðlof

Hríðum

Þetta atviksorð er gleymt í nútímamáli, en að fornu merkti það oft, iðulega eins og fram kemur í Íslendinga sögu. Þar segir um vígamenn tvo að þeir voru „stundum í Hvammi en hríðum að stað“ (Sturlunga saga I 82). Orðanotkun er eins og síðar í sama riti. 

Snorri Sturluson átti löngum í átökum. 

„Snorri kveðst illa trúa Sunnlendingum, „en þó mun ég suður fara fyrst og síðan og skipa til búa minn,“ sagði hann, „og fara þá vestur og þá „hríðum á Hólum en stundum í Saurbæ““ (I 439).

Í ONP eru dæmi um orðið og eitt í OH frá fyrri hluta 19. aldar. Sjá hríð.

Geymdur og gleymdur orðaforði, Sölvi Sveinsson, blaðsíða 175.

Viðbót: Hríðum gæti svo ágætlega komið í stað hins ofnotaða atviksorðs ítrekað sérstaklega ef skrifendur þráast við að nota orð eins og oft, aftur, enn og aftur, endurtekið, sífellt og svo framvegis.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Marta Lovísa, sem var kvænt Ara frá árunum 2002 til 2016 …“

Frétt á frettabladid.is.                 

Athugasemd: Sá fær falleinkunn sem segir að kona „kvænt“ karli.

Í Málfarsbankanum segir einfaldlega:

Sögnin kvænast merkir: giftast konu. Konur giftast mönnum en kvænast þeim ekki.

Í framhaldi af þessu er ekki úr vegi að vitna til Vísindavefsins, þar segir svo skemmtilega:

Í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar er vísað frá sögninni kvænast í sögnina að kvongast (1989:530) giftast, fá sér konu. 

Sú sögn er leidd af nafnorðinu kvon (eldra kván) í merkingunni kona, eiginkona. 

Samkynhneigðar konur geta því vel kvænst. Þar gengur kona að eigi konu.

Þetta læra þeir sem hafa lesið bækur af áhuga en ekki eintómri skyldurækni. Aðrir eiga það til að klúðra fréttaskrifum og skemma fréttir.

Tillaga: Marta Lovísa, sem var gift Ara frá árunum 2002 til 2016 …

2.

Klessti sport­bíl­inn, klædd­ur sem snjó­karl.“

Frétt á frettabladid.is.                 

Athugasemd: Líklega má telja það meðmæli með leikskólum landsins að löngu síðar er blaðamanninum enn tamt að nota orðalagið sem hann lærði þar. 

Stundum tala fullorðnir óskiljanlega, nota orð eins og árekstur, rekast á, beygla, skemma og álíka þegar verið er að lýsa því þegar bíll rekst á eitthvað. 

Blaðamaðurinn sem enn varðveitir barnið í sér talar um að einhver hafi „klesst“ bílinn. Öðrum finnst þetta líka barnalegt orð og ekki lýsandi um það sem gerðist. Svo sætt og „dúllulegt“ að lesa svona í fjölmiðli sem vill láta taka sig alvarlega.

Tillaga: Skemmdi sportbílinn, klæddur sem snjókarl.

3.

„Sami ísbjörn og mætti í Longyearbyen á Svalbarða mætti aftur í morgun.“

Frétt á frettabladid.is.                 

Athugasemd: Þetta er hörmulega illa skrifuð frétt. Í henni eru nástöður, orðaval er sums staðar rangt og blaðamaðurinn hefur í þokkabót ekki nennt að lesa skrifin yfir fyrir birtingu og það sem verst er, ritstjórum blaðsins virðist alveg sama.

Ísbjörn „mætir“ ekki í bæinn. Hann kemur. Sögnin að mæta hefur meðal annars þessa merkingu samkvæmt málið.is:

hitta, koma til móts við, koma á fund eða e-n stað,…

Í fréttinni segir:

Hann sagði við til­efnið að það væri sjald­gæft að birnir færu svo langt inn í bæinn líkt og þessi. 

Þetta er illskiljanlegt. „Hann sagði við tilefnið …“ Við hvern var hann að tala? „Sjaldgæft að birnir færu svo langt inn í bæinn …“, blaðamaðurinn er að tala við mann sem er í bænum og þá á við að segja að sjaldgæft sé að birnir komi svo langt inn í hann.

Svo skrifar blaðamaðurinn og hefur eftir viðmælanda sínum:

En það er bara myrkur og þar eru ljósa­staurarnir í fyrsta skiptið …

Þetta er algjörlega óskiljanlegt. Lesandinn skilur ekki skrifin og draga má í efa að blaðamaðurinn geri það.

Þeir eru eitt­hvað lítið mannaðir núna út af jóla­fríi, svo þeir hafa verið að nýta allan mann­skapinn til að ýta honum út úr bænum, sömu leið og hann er að koma, sem er reyndar sett spurningar­merki við þar sem hann er að koma aftur og aftur,…

Afsakið nástöðuna hjá mér, en þetta er illskiljanleg málsgrein, flókin, alltof löng og … tómt bull. Hafi þetta verið orðalag viðmælandans er það verkefni blaðamannsins að færa til betri vegar. Blaðamaðurinn á ekki að dreifa bulli.

Og loks er það þetta sem seint verður talið til gullkorna:

Þetta er víst ungur björn. Yfir­leitt sjást þeir mjög snemma en af því að það er þessi jóla­tími að þá er ekki eins mikið af fólki.

Já, það er „jólatími“. Nei, ekki jól heldur „þessi jólatími“ sem líklega er allt annað en hinn „jólatíminn“. Og þá er ekki mikið af fólki.“ Sá átt við fjölda fólks í bænum af hverju er það ekki sagt?

Vera má að aumingja blaðamaðurinn geri það sem hann getur. Ábyrgðin er hins vegar ritstjóra Fréttablaðsins. Ráða þeir blaðamenn eftir útliti, skóstærð, hárlit, hæð eða einhverju álíka sem engu máli skiptir? Í stuttu máli þurfa blaðmenn að vera læsir og skrifandi, hafa þekkingu í samfélagsmálum, skilning á íslensku máli, geta sannarlega skrifað og skynsemi og greint á milli aðalatriða og aukaatriða. 

Tillaga: Engin tillaga. 

4.

„Kapparnir kláruðu verkið á þrettán dögum en róið var allan sólarhringinn svo báturinn hvolfdist ekki í köldum sjónum.“

Frétt á visir.is.                  

Athugasemd: Eflaust má kalla siglingu „verk“ en sá sem er betur að sér í íslensku máli hefði talað um siglingu. 

Sögnin að hvolfa stýrir þágufalli, það þýðir að ekki má segja að „báturinn“ hvolfdi, heldur bátnum hvolfdi. 

Þessu til viðbótar er að sögnin á að vera í þátíð, hvolfdi. Eða þá með hjálparsögninni að hafa; svo bátnum hefði ekki hvolft.

Í fréttinni segir:

Árabáturinn sem þeir reru er um níu metrar á lengd og lár þannig að kaldur sjór gekk yfir mennina allan tímann. 

Sögnin að róa er réru í þátíð í fleirtölu eða reru, hvort tveggja er til. Báturinn getur ekki verið „lár“ þó undir honum sé lár (merkir sjór). Hér ætlar blaðamaðurinn ábyggilega að segja að báturinn sé lágur. Hvers konar bátur er það? Eftir myndinni að dæma virðist sem að borðin miðskips séu lág, þófturnar eru í sömu hæð og borðin.

Ekki er rangt að kalla bátinn árabát en hver skyldi vera munurinn á árabát og róðrarbát?

Á málið.is segir um árabát:

bátur sem eingöngu er knúinn áfram með árum

Í huga flestra er árabátur gamaldags trébátur sem notaður var til veiða. Slíkum báti er róið af einum eða fleirum. Forðum voru stærra bátar kallaðir skip. Þá var talað um tvíæring, feræring, sexæring, áttæring, tíæring og jafnvel tólfæring. Orðin eru mynduð af fjölda ára

Á málið.is segir:

æra, s. róa, leggja út árar. Af ár ... Af sama toga, leitt af ár, er lo. ærður búinn árum.

Á Wikipedia segir um báta sem nefndir voru tvíæringar eða stærri:

Heitið segir til um fjölda þófturúma en þarf ekki að passa við raunverulegan fjölda ára. Talað er um fjórróinn, sexróinn, áttróinn o.s.frv. bát sem þá segir til um fjölda ára.

Róðrarbátur er keppnisbátur og getur verið úr tré, áli eða plasti. Líkur benda til að báturinn sem frá segir í fréttinni hafi verið róðrarbátur, hugsanlega úr plasti.

Í fréttinni segir:

Fiann skrifar á heimasíðu sinni að hann hafi ákveðið að leggja í þessa ferð í apríl 2017 og fyrsti áhafnarmeðlimurinn var fundinn í september 2017.

Af þessu má ráða að áhöfnin hafi týnst og sá fyrsti fundist aftur í september. Nei, varla. Blaðamaðurinn skrifar bara texta sem ekki skilst.

Í Málfarsbankanum segir: 

Fremur en að nota orðið „áhafnarmeðlimur“ ætti að nota: skipverji, einn úr áhöfninni, flugverji. Flugverjar skiptast í flugliða (starfa í stjórnklefa) og þjónustuliða.

Fleira mætti gagnrýna í þessari frétt. Hún er skemmd og fréttavefnum ekki til sóma.

Tillaga: Kapparnir luku siglingunni á þrettán dögum. Þeir réru allan sólarhringinn svo báturinn hvolfdi ekki í köldum sjónum.

5.

„Stakk fólk kerfisbundið.“

Frétt kl. 19 á ruv.is 29.12.2019.                 

Athugasemd: Hvað er átt við. Glæpamaður stingur fólk kerfisbundið …

Orðabókin segir að orðið merki reglubundinn háttur, skipulagður máti eða eitthvað með ákveðnu kerfi

Þrátt fyrir skýringuna í orðabókinni er ég eiginlega engu nær.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

„15 manns lentu í hóp­slysi í Bisk­upstung­un­um.“

Fyrirsögn á mbl.is                 

Athugasemd: Þegar fjöldi fólks lendir í slysi þá er það hópslys. Einn maður getur ekki lent í hópslysi.

Sjaldnast fer vel á því að nota ákveðinn greini með sérnöfnum og örnefnum.

Tillaga: 15 manns lentu í slysi í Bikupstungum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband