Hraði á vettvangi, bát rekur í land og piltbarn
19.12.2019 | 09:54
Orðlof
Heypokaloðmullan
Árni Johnsen, alþingismaður, fékk ávítur í ræðustóli Alþingis í nótt fyrir orðanotkun þegar hann flutti ræðu um Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar. Árni sagðist nota íslenskt mál en enga heypokaloðmullu.
Árni sagði m.a. í ræðunni, að ekki væri ótilhlýðilegt að bera saman raunsögur úr veruleikanum til að sýna fram á vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Þannig hefði í Meðallandi, fyrir 100 árum, strandað frönsk skúta og 20 sjómönnum var bjargað og dreift á bæi í Meðallandi. Einn sjómaðurinn fór á bæ þar sem voru hjón en ekki aðrir íbúar. Þar var eitt rúm, hjónarúm, og sjómanninum var í virðingarskyni boðið að sofa á milli þeirra hjóna.
Það leið ekki á löngu þar til sjómaðurinn fór að snúa sér að húsfreyjunni og gekk það fyrir sig eins og efni standa til án athugasemda frá eiginmanni sem bylti sér þó allmikið. Þar kom, að konan snýr sér að bónda sínum og segir: Segðu manninum að hætta. Þá svaraði bóndi: Ég, ég tala ekki útlensku.
Þetta er nákvæmlega það sama, virðulegi forseti, sem ríkisstjórn Íslands er að bjóða Íslendingum uppá í dag. Hún er að láta erlendar þjóðir riðlast á Íslendingum, riðlast á sjálfstæði Íslendinga, og belgja sig út..."
Nú tók Árni Þór Sigurðsson, forseti Alþingis, í taumana og bað þingmanninn að gæta orða sinna. Árni svaraði og sagðist tala íslenskt mál, hispurslaust en ekki heypokaloðmullu.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Leyfður hámarkshraði á vettvangi er 90 kílómetrar á klukkustund við bestu aðstæður.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Þetta gengur ekki alveg upp. Hvernig getur verið hámarkshraði á vettvangi? Vettvangur er ofnotað orð og afleiðingin er sú að það er oft rangt notað.
Vettvangur er staðurinn þar sem slysið varð. Hvergi er hámarkshraði á vettvangi (athugið að þetta er eintöluorð, ekki til í fleirtölu). Vettvangur getur varla verið allur Suðurlandsvegurinn og þaðan af síður allt Suðurland, Ísland eða Evrópa.
Á málið.is segir:
Vettvangur, véttvang(u)r, víttvangur k. staður þar sem e-ð gerist, atburðasvið, mótstaður. Af vétt- bardagi, víg og vangur völlur. Upphafl. merk. vígvöllur, staður þar sem barist er.
Suðurlandsvegur er ekki vettvangur heldur aðeins lítið brot af honum, slysstaðurinn.
Tillaga: Leyfilegur hámarkshraði þar sem slysið varð er 90 km.
2.
Bát og skútu rak í land í óveðrinu.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Öllum getur nú orðið á mistök en flestum ætti þó að vera ljóst að báta rekur ekki í land, ekki heldur skútur.
Almennt er talað um að fley reki á land og þá stranda þau. Rekaviður berst á land, jafnvel getur hann rekið á land.
Tillaga: Bát og skútu rak á land í óveðrinu.
3.
Mesti afli sem landaður hefur verið á einu ári.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Stundum hefur maður talsverðar áhyggjur af málfarinu í Mogganum. Þessi fyrirsögn dregur ekki úr þeim.
Yfirleitt er talað um að afla sé landað. Mjög óalgengt er að orða það þannig að hann sé landaður.
Hér er talað um mestan afla sem útgerðin hefur fengið á einum ári með skipum sínum.
Þetta má orða á marga vegu en allra síst eins og segir í fyrirsögninni.
Tillaga: Mesti afli sem fengist hefur verið á einu ári.
4.
Komdu við í búðinni okkar eða sérpantaðu og sóttu.
Auglýsing á blaðsíðu 27 í Morgunblaðinu 19.12.2019.
Athugasemd: Auglýsandinn ávarpar lesandann, notar sögnina að koma í boðhætti; komdu. Upphaf setningarinnar er í lagi en svo bregst honum bogalistin: Hann notar sögnina að sækja í þátíð fleirtölu; sóttu.
Þetta gengur ekki upp er ferlega slæm villa í laglegri auglýsingu.
Tillaga: Komdu við í búðinni okkar eða sérpantaðu og sæktu.
5.
Boðflennur grunaðar um að hafa drepið brúðgumann fyrir utan.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Til eru blaðamenn sem kunna ekki að búa til almennilegar fyrirsagnir og telst það nokkuð slæm fötlun. Þessi fyrirsögn er illa samin.
Hvað er þetta fyrir utan? Jú, af fréttinni má ráða að maðurinn hafi verið drepinn fyrir utan salinn þar sem brúðkaupsveislan var haldin.
Þetta er ein af þessum ómerkilegu fréttum sem nýliðar í blaðmennsku eru þvingaðir til að þýða úr erlendum vefmiðlum. Fréttagildið er ekkert fyrir íslenska lesendur, höfða aðeins til einhverrar lágkúru. Greinilegt er að sé einhver ritstjórnarfulltrúi eða ritstjóri Vísis með fréttanef hafa þeir verið víðsfjarri þegar ákveðið var að birta fréttina. Eða þá að fréttnefið hafi ekki verið tryggilega fast í andliti þeirra.
Tillaga: Boðflennur drápu brúðgumann að tilefnislausu.
6.
Holdtekjan (þegar hið skapandi orð Guðs varð hold í piltbarninu í jötunni í Betlehem) þýðir að öll jörðin er heilög
Grein á blaðsíðu 56 í Morgunblaðinu 19.12.2019.
Athugasemd: Ég minnist þess ekki að hafa áður séð orðið piltbarn. Það finnst ekki í gömlu orðabókinni minni en þar segir þó:
Piltur: Ungur karlmaður, strákur, nemandi, vinnumaður.
Ungbarn getur verið drengur eða stúlka. Þegar rætt er um barnið í jötunni í Betlehem vita allir hver það er. Það var drengur sem síðar varð piltur og loks fullvaxta maður. Annað mætti ræða í tilvitnuðum texta sem er svona frekar upphafinn og illskiljanlegur.
Tillaga: Engin tillaga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.