Sitjandi tónleikar, högg á kerfið og tengivirki datt út

Orðlof

Ríður rækjum

Óskar Guðmundsson í fiskbúðinni Hafberg hefur næmt eyra fyrir mismælum fréttamanna og viðmælenda þeirra. 

Fréttamaður: „Ertu með reið svör á höndum?“ Ráðherrann: „Já, ég er með reið svör á höndum.“ – 

Annar fréttamaður (að sögn Óskars fisksala): „Nú ert þú einn af forsetum handhafavaldsins.“ – 

Mismæli af þessu tagi flokkast undir spúnerisma, en orðið er dregið af nafni Williams A. Spooner (1844-1930), prests og skólamanns í Oxford. 

Meðal frægustu mismæla Spooners voru lokaorðin í ræðu til heiðurs Viktoríu drottningu: „Three cheers for our queer old dean!“ (dear old queen). 

Þekkt íslensk dæmi um spúnerisma eru þvagferlegur (þverfaglegur), rauð dolla (dauð rolla) og ríður rækjum (ræður ríkjum). 

Tungutak, Baldur Hafsstað, blaðsíða 26 í Morgunblaðinu 14.12.2019.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Eins og maður sér á götum Reykjavíkurborgar núna þá eru mjög fáir á ferðinni og ég held að við veðrum að taka það úr því að fólk er augljóslega að fara að þessum fyrirmælum, þau hafa náð til fólks og það eru miklu færri á ferðinni. “

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Þetta er óskiljanleg málsgrein. Hún er höfð eftir viðmælanda en blaðmennirnir, þeir eru tveir skrifaðir fyrir fréttinni, gera enga tilraun til að lagfæra orðalagið, skrifa bara orðrétt upp eftir viðmælandinum og eru ekki gagnrýnir á það sem hann segir.

Vinsælt virðist að segja að einhver „mæti á staðinn“ en hafi ekki komið.

Blaðamennirnir vita tönglast á „einhverju“ þegar hæglega er hægt að sleppa orðinu eða nota önnur. Hvað er „einhver veggklæðning“? Er átt við tegund veggklæðingar, staðsetninguna eða annað. Hvað er átt við með „einhverjar tilkynningar“.

Þetta telst skemmd frétt enda hroðvirknislega unnin. 

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Rafmagnstruflun er í gangi landskerfinu á austurlandi öllu og er verið að vinna í að byggja upp kerfið.

Frétt á rarik.is og á vefmiðlum.             

Athugasemd: Líklega er það innanbúðartal þegar sagt er að nú þurfi að „byggja upp kerfið“. Fæstir vita hvað þetta þýðir en geta svo sem giskað á það. Slíkt er ekki nóg. Forráðamenn RARIK eiga að sjá til þess að orðlag í fréttatilkynningum sé á eðlilegri íslensku.

Ég giska á að með tilvitnuðu orðunum sé átt við að verið sé að koma rafmagni á og koma í veg fyrir truflanir. Þá veltir maður því fyrir sér af hverju það er ekki bara sagt svona.

Á mbl.is segir:

Unnið er að því að byggja upp kerfið, sam­kvæmt vefsíðu Rarik.

Misvísandi orðalag dreifist með vefmiðlum og allir þurfa að giska.

Samkvæmt orðanna hljóða merkir það sem verið er að byggja upp einfaldlega það sem sagt er, byggja upp, vinna við uppsetningu, framkvæma. Varla hrundu rafmagnslínur og staurar svo nauðsynlegt sé að byggja upp aðra línu, eina eða fleiri, frá upphafi til enda?

Heiti landshluta eru skrifuð með stórum staf, Austurland, Suðurland, Norðurland vestra og svo framvegis.

Tillaga: Rafmagnstruflanir eru á landskerfinu á Austurlandi og er unnið að því að koma rafmagni aftur á.

3.

„Stærstu sitjandi tónleikar Íslandssögunnar.“

Auglýsing í sjónvarpi.             

Athugasemd: Verið er að auglýsinga tónleika með frægum, útlendum söngvara. Tekið er fram að tónleikarnir eru „sitjandi“ er hér átt við að áhorfendur sitji í sætum, standi ekki. Þetta virðist saklaust og skilst en gengur gegn hefðum í íslensku. 

Enginn talar um ríðandi göngur eða akandi göngur. Gangnamenn fara sumir í göngur á hestum, jafnvel er smalað á ökutækjum þó svo að enn gangi flestir. Ekki er talað um „akandi flug“ þó svo að flestir fari akandi að flugstöð. Auðvitað eru þetta asnaleg dæmi, út í hött, rétt eins og tónleikaauglýsingin.

Tónleikarnir eru hvorki sitjandi né standandi. Hins vegar geta flytjendur staðið og setið að vild en tónleikarnir þó hvorki kallaðir „sitjandi“ eða „standandi“. Orðalagi á við áhorfendur sem ekkert leggja þeir til, eru „bara“ áhorfendur, hlustendur.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Stöðvarnar sem Landsvirkjun seldi 2014 hafi hvorug komið að notum nú.“

Frétt á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 16.12.2019.             

Athugasemd: Þarna hefði verið rétt að nota viðtengingarhátt þátíðar, það er hefðu. Í fréttinni er fjallað um rafstöðvar sem Landsvirkun seldi og hvort að þær hefðu getað komið að notum í vonda veðrinu í síðustu viku.

Viðtengingarháttur nútíðar beygist svona í fleirtölu:

Við höfum, þið hafið, þeir/þær/þau hafi

Viðtengingarháttur þátíðar beygist svona í fleirtölu: 

Við hefðum, þið hefðuð og þeir/þær/þau hefðu.

Af þessu má sjá að viðtengingarháttur nútíðar gengur ekki.

Tillaga: Stöðvarnar sem Landsvirkjun seldi 2014 hefðu hvorug komið að notum nú.

5.

„Það vantaði hnappinn svo ég klippti gatið í burtu.“

Myndasögur á blaðsíðu 23 í Morgunblaðinu 16.12.2019.             

Athugasemd: Frá barnsaldri hef ég lesið myndasögur Moggans og annarra fjölmiðla. Barna á milli voru þær stundum kallaðar skrípó en orðið heyrist varla í dag. Stundum eru þær oft bráðfyndnar sem og myndaskrýtlurnar (heyrist varla lengur). Hermann kom ekki vel út í dag. Berum saman tilvitnuðu orðin og tillöguna hér að neðan.

Aukafrumlagið „það“ er oftast óþarft en er engu að síður hrottalega ofnotað svo stíll stórskaðast í mörgum fréttum fjölmiðla og víðar.

Afar mikilvægt er að vanda orðaval. Myndasögurnar og grínmyndirnar eru hreinlega ekkert grín. Þær hafa uppeldislegt gildi fyrir fólk á öllum aldri.

Tillaga: Hnappinn vantaði svo ég klippti gatið í burtu.

6.

„Högg kom á kerfið þegar tengi­virki datt út.“

Frétt á mbl.is.              

Athugasemd: Í fréttinni er verið að tala um raforkukerfið fyrir norðan og að „högg“ hafi komið á það. Ég veit hvað högg er en skil ekki orðið í þessu samhengi. Skil ekki heldur hvað gerist þegar „tengivirki datt út“.

Þetta er ábyggilega orðalag sem aðeins innvígðir skilja en við hin, blaðamenn meðtaldir, höldum að við skiljum orðalagið því orðin eru kunnugleg og þar að auki er svo algengt að svona sé tekið til orða.

Einna helst held ég að tröll hafi komist í rafmagnslínurnar og veitt því högg með slæmum afleiðingum. Mér hefur þó verið sagt að tröll séu ekki til en er samt ekki alveg viss. Af hverju skyldu tröll ekki vera til rétt eins og jólasveinar, huldufólk, álfar og sjóræningjar?

Tillaga: Engin tillaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nýjasta orðalagið er "að endurheimta líkin" og hefur verið notað blaðafrásögn af leit að fólkinu, sem grófst í ösku í eldgosi nýlega.

Maður bíður eftir því að reynt verði að endurvinna líkin.  

Ómar Ragnarsson, 17.12.2019 kl. 23:14

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Ja, nú eru rauð dýr gáð.

Halldór Egill Guðnason, 18.12.2019 kl. 06:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband