Bætti við sig 1,2% atkvæða en fékk 56% þingsæta
13.12.2019 | 09:51
Íhaldsflokkurinn í Bretlandi bætti aðeins við sig 1,2% atkvæða í þingkosningunum í gær en fékk engu að síðu 56% þingsæta. Hins vegar tapaði Verkamannaflokkurinn miklu, 7,8%, missti 59 þingsæti.
Athyglisverðast er þó að kosningaþáttakan var aðeins 67,3%. Þáttakan í Alþingiskosningunum árið 2017 var 81,2% og þótti lítil.
Því miður virðast íslenskir fjölmiðlar ekki gera bresku kosningunum nægileg skil. Hvergi sjást myndrænar niðurstöður þeirra líkt og sjá má á bbc.com.
Grundvallarmunur er á kosningum í Bretlandi og á Íslandi og víðar. Þar er kosið í einmenningskjördæmum og keppikeflið er aðeins að fá meirihluta atkvæða í hverju og einu. Íhaldsflokkurinn fékk 43,6% atkvæða á landinu öllu en engu að síður 364 þingsæti af 650, mikinn meirihluta. Minna en helmingur landsmanna kaus flokkinn en engu að síður er hann sigurvegari.
Einmenningskjördæmin eru þess eðlis að atkvæði þeirra flokka sem fá ekki meirihluta skipta engu máli. Þau gagnast ekki á landsvísu.
Auðvitað má deila um hvort þetta sé sanngjarnt en Bretar vilja ekki breyta fyrirkomulaginu. Mikill meirihluti telur það sanngjarnt. Þó margir haldi því fram að einmenningskjördæmi séu ekki lýðræðisleg þá er það lýðræðisleg ákvörðun að halda kosningafyrirkomulaginu óbreyttu.
Myndin er af BBC og sýnir úrslitin í stórum dráttum.
Niðurstaðan er því sú að Íhaldsmenn munu fara að vilja þjóðarinnar og afgreiða brottför landsins úr Evrópusambandinu. Bresk stjórnmál hafa síðustu þrjú árin hafa verið hræðileg, niðurlægjandi fyrir Breta sem hafa oftsinnis gengið með betlistaf í hendi fyrir hina háu herra í Brussel og grátbeðið um betri samning og frestun á gildistöku.
Nú virðist runnin upp betri tíð í Bretlandi og raunar líka í Evrópusambandinu, því þar er ný forusta að taka við völdum. Ég spái því að á næstu árum munu samband Breta og ESB batna að mun, því hvorugt getur verið án hins, bæði efnahagslega og stjórnmálalega. Mér sýnist að hinn nýi forsætisráðherra geti orðið farsælli en margir telja eða vona.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.