Afstöður gegn afstöðum, heildareign og kaka inniheldur leynihinnihaldsefni
11.11.2019 | 10:06
Orðlof
Hvor og annar
Orðin hvor og annar eiga ekki að beygjast saman. Orðið hvor á að standa í sama falli og gerandinn (venjulega í nefnifalli) en annar stendur nær aldrei í nefnifalli.
- Þeir ásökuðu hvor annan (ekki: hvorn annan ).
- Þeir horfðu hvor á annan (ekki: á hvorn annan).
- Þeir ógnuðu hvor öðrum (ekki: hvorum öðrum).
- Þeir stálu hvor frá öðrum (ekki: frá hvorum öðrum).
- Þeir söknuðu hvor annars (ekki: hvors annars).
- Þeir óku hvor til annars (ekki: til hvors annars).
- Þeir girntust eigur hvor annars (ekki: hvors annars).
- Þær stríddu hvor annarri (ekki: hvorri annarri).
Þetta fer ekki á milli mála í föstum orðasamböndum.
- Þeir töluðu hvor í kapp við annan.
- Þeir ultu hvor um annan þveran.
Hvor og annar eru í fleirtölu ef þau vísa til orða í fleirtölu eða til fleirtöluorða.
- Íslendingar og Grænlendingar hjálpa hvorir öðrum.
Stundum er gerandinn ekki í nefnifalli, þá fylgir hvor gerandanum eigi að síður.
- Siggu og Gunnu dreymir hvora aðra.
- Siggu og Gunnu þykir vænt hvorri um aðra.
- Sagan fjallaði um róg frambjóðendanna tveggja hvors um annan.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Eftir upplestur frá höfundi mætast gestir til að ræða kaflann, en í fyrsta þættinum eru það Saga Garðarsdóttir og Jóhann Kristófer Stefánsson sem taka fyrir afstöður gegn afstöðum, innrás tækninnar í einkalífið og ábyrgðartilfinninguna sem fylgir því að taka símtal.
Frétt í Fréttablaðinu 9.11.2019
Athugasemd: Langar málsgreinar verða oftast ruglingslegar og svo er hér. Út í hött er að segja að gestir mætist. Þeir hittast, koma saman.
Afstaða er ekki til í fleirtölu. Blaðamaðurinn hefur enga tilfinningu fyrir málinu.
Hvað merkir að taka fyrir afstöður gegn afstöðum. Lesandinn skilur þetta ekki enda er þetta bara innantómt orðagjálfur, bull.
Lokaorðin hljóta að vera grín. Hvaða ábyrgðartilfinning fylgir því að svara í síma? Þetta hljómar eins og félagsfræðileg stúdía sem gerð var á áttunda áratug síðustu aldar í Svíþjóð.
Fréttin er stutt kynning a hljóðvarpsþætti. Umfjöllun blaðamannsins er ekki til þess fallin að vekja áhuga. Þvert á móti.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Til sölu heildareigin að Lynghálsi
Auglýsing á ótölusettri blaðsíðu í Fréttablaðinu 9.11.2019
Athugasemd: Hvað er heildareign. Gæti verið að öll eignin væri til sölu? Sé svo, af hverju er það ekki sagt? Heildareign er bara rugl.
Í auglýsingunni segir:
Um er að ræða steinsteypt atvinnuhúsnæði, sem er í dag notað sem prentsmiðja, byggt árið 1981 og 2001.
Eitt af vinsælasta orðalaginu hjá blaðamönnum og fleirum er þetta um að ræða Langoftast má sleppa orðalaginu enda gagnslaust. Ofmælt er að steinsteypt atvinnuhúsnæði sé notað sem prentsmiðja. Betur fer á því að segja:
Atvinnuhúsnæðið er steinsteypt, byggt árið 1981 og 2001. Í því er núna prentsmiðja.
Auglýsing er illa skrifuð og í henni eru málfarsvillur. Hún er ekki fasteignasölunni til sóma.
Tillaga: Til sölu er öll eignin Lyngháls
3.
Singles Day er stærsti netverslunardagur ársins
Myndatexti í kynningarblaði Fréttablaðsins 9.11.2019
Athugasemd: Hvað er Singles Day? Blaðamaðurinn gerir enga tilraun til að þýða þetta og við sem skiljum ekki norsku vitum ekkert?
Margir blaðamenn hugsa ekkert um íslenskt mál, umgangast það af algjöru virðingarleysi og leyfa sér að nota ensk orð án þess að setja þau í gæsalappir. Eflaust segja margir að þetta sé algjört smáatriði. Aftur á móti er líklegt að fjöldi vafasamra smáatriði geti gert útaf við tungumálið.
Í fréttinni er talað um skoðanakönnum sem var framkvæmd í Kína. Menn framkvæma núna allan andskotann, eru fyrir löngu hættir að gera skoðanakannanir eða kanna hug neytenda í Kína eða annars staðar. Staðlað orðfæri blaðamanna er staðreynd.
Blaðamaðurinn talar um yfirstandandi deilur Kína og Bandaríkjanna. Þegar þeim er lokið verður eflaust talað um óyfirstandandi deildur. Mér finnst ofaukið að tala um yfirstandandi nóg að tala um deilur. Stundum fer betur á því að tala um ágreining, þrætur, togstreitu og stundum baráttu. Enska orðið conflict merki ekki alltaf deilur. Blaðamenn þurfa að hafa samhengið í huga og fjölbreytni í orðavali.
Tillaga: Dagur einhleypra er stærsti netverslunardagur ársins
4.
Dagar eintómra fimm-stjörnu dóma voru ekki runnir upp svo að ritdómarar leyfðu sér hreinskiptni í báðar áttir.
Pistillinn Bakþankar í Fréttablaðinu 9.11.2019.
Athugasemd: Sjaldnast þarf að lesa lengi til að átta sig á því hvort höfundurinn hafi tungumálið á valdi sínu. Óttar Guðmundsson skrifar reglulega Bakþanka í Fréttablaðinu. Hann skrifar afar gott mál, gjörsamlega villulaust. Stíllinn er lágstemmdur en áhrifaríkur og fróðlegur.
Mikið óskaplega væri gaman ef til væru fleiri góðir stílistar í íslenskum fjölmiðlum, fólk sem kann að orða hugsun sína. Sumir þurfa bara að vanda sig, láta af hroðvirkninni.
Við hliðina á Bankþönkum stendur í auglýsingu:
Það er jólastemning alla helgina
Og:
Það eru skemmtilegir viðburðir um alla verslun.
Eftir að hafa lesið sér til ánægju pistil Óttars hvarfla augun að auglýsingunni frá IKEA og við liggur að maður fari að gráta.
Tillaga: Engin tillaga.
5.
Spáð hraustlegum stormi í dag.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Nei, sko, varð mér að orðið þegar ég sá fyrirsögnina. Þarna er talað um storm, hraustlega storm, ekki vind. Snöfurmannleg fyrirsögn.
Svo las ég fréttina og í henni er vindur hitt og vindur þetta. Þó má blaðamaðurinn eiga það að í síðustu málsgreininni segir hann að á þriðjudaginn muni lægja. Aðrir og illa upplýsir blaðamenn hefðu sagt að vindur minnki.
Á vefnum Íslenskt orðanet er þetta:
- storminum er í logn slegið
- veðrið gengur til hægðar
- veðrið hægir
- veðrið, storminn lygnir
- veðrið; storminn lægir
- veðrið, vindurinn dettur niður
- vindinn hægir
- vindinn kyrrir
- vindurinn slotar
Af þessu leiðir að margir og fjölbreyttir kostir eru í boði þegar koma þarf orðum að því er vindinn lægir. Óþarfi að segja að vindurinn hættir þegar lygnir, veðrið gengur til hægðar, storminn lægir eða honum slotar.
Tillaga: Engin tillaga.
6.
Nýjar kosningar gerðu lítið til þess að höggva á hnútinn.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Blaðmaðurinn persónugerir kosningar með orðalaginu og lætur sem þær hafi sjálfstæðan vilja. Svo er ekki. Blaðamenn verða að finna orðlag sem hæfir.
Í Íslenskri nútímamálsorðabók segir:
höggva á hnútinn: losa um erfiða stöðu með ákvörðun
Kosningar höggva ekki á hnútinn. Í Mergurinn málsins segir:
Líkingin er trúlega sótt í söguna af Alexander mikla, þ.e. Þegar hann hjó á hinn óleysanlega Gordíonshnút. Að baki afbrigðinu leysa hnútinn gæti þó legið annað og minni. Í fornu máli koma fyrir orðasamböndin ríða/binda e-m hnút, leggja fyrir e-n þraut og leysa knút, leysa þraut og kann líkingin að vera af því dregin.
Á vefnum frettabladid.is segir hins vegar:
Engin skýr niðurstaða þingkosninga á Spáni.
Þetta er mun betri og skýrari fyrirsögn og sannast með þessu að varhugavert er að nota málshætti og orðtök í fréttum nema blaðamenn séu þeim mun betur að sér í íslensku máli.
Jónas Kristjánsson segir á vef sínum og er orðunum beint til blaðamanna:
Þú þarft að neyða þig til að skrifa stuttar málsgreinar. Þá hefur þú ekki pláss fyrir froðuna, orðtökin, klisjurnar og endurtekningarnar, sem þú mundir annars setja inn. Þessi regla hjálpar þér að fylgja öðrum reglum. Hún spúlar froðunni úr texta þínum.
Ungir blaðamenn ættu ætti að fara yfir námskeið Jónasar heitins. Hugsanlega eiga þeir þá skilið starfsheitið blaðamaður.
Tillaga: Engin skýr niðurstaða þingkosninga á Spáni.
7.
Já, ég veit alveg að framundan er áhættusamt ferðalag.
Frétt á blaðasíðu 10 í Morgunblaðinu 11.11.2019.
Athugasemd: Þetta er ekki beinlínis rangt. Hver er munurinn á áhættusömu ferðalagi og hættulegu ferðalagi? Líklega er munurinn sáralítill. Margt er engu að síður áhættusamt. Nefna má fjárfestingar, kaup á skuldabréfum eða hlutabréfum. Annað er að klifa fjöll því sum þeirra eru beinlínis hættuleg.
Séu þetta orð viðmælandans í fréttinni hefði blaðamaðurinn átt að lagfæra þau vegna þess að sá fyrrnefndi ætlar að klíf eitt hættulegasta fjall í heimi.
Tillaga: Já, ég veit að framundan er hættulegt ferðalag.
8.
Kökurnar mínar innihalda leyniinnihaldsefni.
Morgunblaðið, dægradvöl á blaðsíðu 23, 11.11.2019
Athugasemd: Er ég las þessi orð innihalda leyniinnihaldsefni hló ég upphátt enda stóð þetta í skrípó, það er myndasögum Moggans. Fer vel á því að hlægja við lesturinn.
Í gamla daga voru byrjendur látnir vinna við að þýða myndasögurnar. Ekki þótti við hæfi að virðulegir blaðamenn ynnu í skítverkunum. Þær voru engu að síður vel þýddar, minnir mig.
Þar sem skopskyn mitt er ekki gott veit ég ekki hvort það var með ráðum gert að nota rassböguna innihalda leyniinnihaldsefni. Í það minnsta hló ég og fólkið í kringum mig. Er þá ekki tilganginum náð? Jú, ábyggilega. Vandinn er hins vegar að ekki skilja allir að orðlagið er tóm vitleysa.
Tillaga: Engin tillaga.
9.
Frumkvöðull að baki fyrirhugaðri byggingu Aldin Biodome við Stekkjarbakka
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hvað þýðir eiginlega Aldin Biodom. Ég skil ekki spænsku. Hitt veit ég að glerhvelfinguna á að reisa við í Elliðaárdalnum, skammt frá Stekkjarbakka í Reykjavík eins og þarna kemur fram. Sæti ég í borgarstjórn myndi ég umsvifalaust greiða atkvæði gegn byggingunni þó ekki væri annað en nafnið.
Svona, svona. Þetta er enska og í orðabókinni segir:
A dome-shaped artificial structure enclosing one or more self-contained ecosystems or living environments.
Ja hérna. Mikið skrambi er þetta fallegt. Auðvitað styð bygginguna þegar svona háfleyg lýsing er til á henni, og það á útlensku.
Að vísu er nánari lýsing í fréttinni:
Um er að ræða 4.500 fermetra niðurgrafnar gróðurhvelfingar þar sem verður fjölbreytt vistkerfi sem býður upp á nærandi upplifun, ræktunar- og verslunarrými, græna vinnuaðstöðu, aðstöðu fyrir jóga og fleira.
Og lýsingin á íslensku er jafn háfleyg og á ensku. Velti því þó fyrir mér hvort ekki megi finna annað friðlýst svæði fyrir bíódómið. Sé það fyrir mér við Öxarárfoss í ónefndum þjóðgarði.
Tillaga: Engin tillaga.
10.
Prófessorinn fannst með handleggina ofan í bakpoka.
Fyrirsögn á frettabladid.is.
Athugasemd: Hversu oft hefur maður ekki verið með hendurnar jafnvel allan handlegginn ofan í bakpokanum. Venjulegast finnst það neðst sem leitað er að. Sjaldgæfara er þó að vera með báða handleggina ofan í pokanum, þó það komi nú fyrir. Ég veit um náunga sem var með fótleggi í bakpokanum, notaði hann sem svefnpoka.
Fyrirsögnin vakti enga sérstaka athygli mína. Datt einna helst í hug að prófessorinn hafi verið að gramsa í annarra manna bakpoka. Svo las ég fréttina en skildi fátt.
Á vef BBC sem virðist vera heimildin er þetta fyrirsögnin:
Russia professor admits murder after woman´s arms found in bag.
Er þetta nú ekki skýrari og betri fyrirsögn? Raunar er frétt BBC mun lengri og ítarlegri. Íslenska fréttin er hins vegar yfirborðsleg.
Tillaga: Rússi með konuhandleggi í poka viðurkennir morð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.