Versla leikmenn, magn snjós og tölustafir í byrjun setningar

Orðlof

Villur vegar

Lýsingarorðið villur (vill, villt) hefur sömu merkinu og lýsingarorðið villtur. Hann fer villur vegar. Þeir fara villir vegar. Hún fer vill vegar. 

Ekki: „þeir fara villur vegar“, „hún fer villur vegar“ enda er það ekki nafnorðið villa sem hér um ræðir.

Málfarsbankinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Þetta eru leikmenn sem hann gæti verslað.“

Fyrirsögn á dv.is.               

Athugasemd: Blaðamaðurinn veit ekki muninn á að kaupa og versla. Það er miður.

Á málið.is segir:

Versla, sagnorð: kaupa og selja, eiga í viðskiptum

hann fór til útlanda til að versla
hún verslar oft fyrir gamla foreldra sína
versla við <kaupmanninn>
versla með <timbur>

Enginn verslar mjólk. Þarna vantar forsetninguna með, versla með mjólk, það merkir þá að selja mjólk.

Væri ég í mannaráðningum fyrir fjölmiðil myndi ég láta alla umsækjendur um starf blaðamanns taka próf. Í því væri ein spurningin þessi: Hvar er hægt að versla áfengi? Öll svör eru röng nema hjá þeim sem finnur að orðalaginu.

Sami blaðamaður skrifaði þetta í dv.is fyrir stuttu: 

Þetta eru leikmenn sem hann gæti verslað.

Hér er önnur sönnun fyrir því að blaðamaðurinn skilur ekki muninn á að kaupa og versla. Verra er, starfsfélagar hans vita það ekki heldur, nema því aðeins að þeir lesi ekki DV. 

Tillaga: Þetta eru leikmenn sem hann gæti keypt.

2.

„Mun fleiri kalla eftir hjálp.“

Forsíðufyrirsögn í Morgunblaðinu 24.10.2019.                

Athugasemd: Í stað þess að óska eftir, biðja um, krefjast, vilja, heimta,  langa og álíka orð er uppáhald blaðamanna enska orðalagið „to call for“ og það er þýtt kalla eftir. Hér er ekki verið að amast við því að orðalagið sé enskt heldur afleiðingunum.

Nú er almennt kallað eftir rannsókn, mótmælum, verkföllum, styrkjum, aðstoð, hjálp og svo framvegis í stað þess að nota nákvæmara orðalag sem hæfir hverju tilviki.

Í frétt Morgunblaðsins segir frá því sem kallað er sjálfsvígssímtöl, það er fólk hringir í hjálparsíma Rauða krossins og er að leita sér hjálpar vegna þungra hugsana. Enginn kallar. Lausnarorðið er að fólk vill leita sér hjálpar, það er óskar eftir hjálp, biður um aðstoð.

Sá sem kallar hann hrópar, hækkar röddina. Það er hin einfalda merking orðsins. Útilokað er að útvatna það og láta sem orðalagið geti komið í stað fjölda ágætra orða sem skýra frásögnina hverju sinni. 

Hér er verið að einfalda tungumálið, fletja það út rétt eins og þegar sagt er „dingla“ þegar dyrabjöllu er hringt, „klessa“ þegar bíll ekur á annan jafnvel á gangandi mann, Sjaldnast er sá sem grunaður er um lögbrot settur í fangelsi heldur „vistaður í fangaklefa“, leikmenn fótboltaliðs eru kallaðir „lærisveinar“ þjálfarans og sá sem verður fyrir árás er kallaður „brotaþoli“. Allt þetta kemur úr fjölmiðlum og þúsund önnur dæmi má nefna.

Orðafátækt mun ábyggilega gera út af við íslenskt mál ef ekki kæmu til aðrar og hraðvirkari aðferðir. 

Tillaga: Mun fleiri biðja um hjálp.

3.

 Á höfuðborgarsvæðinu féllu fyrstu snjókorn vetrarins til jarðar í nótt þó ekki hafi magnið verið mikið.“

Frétt á mbl.is.               

Athugasemd: Þetta er frekar kjánalegt. Yfirleitt er talað um lítinn eða mikinn snjó. Þegar sagt er að kyngt hafi niður snjó veit lesandinn að hann er mikill. Stundum er miðað við mannsfótinn, hnédjúpur snjór bendir til að mikið hafi snjóað.

Vonlaust er að tala um „magn snjós“ þegar hann er nýfallinn. Þannig skrifar enginn … Jú, að vísu. Á Vísi stóð þetta einu sinni, sjá hér:

Snjó­koma og strekk­ing­ur er á Fimm­vörðuhálsi og nokkuð magn af ný­fölln­um snjó.

Þetta var nú ekki til fyrirmyndar frekar en orðalagið í vefútgáfu Moggans.

Á haustin snjóar í fjöll en ekki mikið svona fyrst í stað. Þá er sagt að það gráni í þau.

Eignarfall orðsins snjór vefst fyrir mörgum. Orðið beygist svona:

Snjór, um snjó, frá snjó, til snjós/snjóvar/snjóar.

Einnig er til orðið snær sem hefur svipaða merkingu og snjór. Snær er þó eintöluorð og beygist svona:

Snær, um snæ, frá snæ/snævi, til snæs/snævar.

Varast ber að blanda saman fallbeygingu þessara orða, snjór og snær saman. Ég viðurkenni að stundum hefur mér orðið það á að tala um mikinn snjó og í eignarfallinu „snævar“ sem rangt.

Snær lifir enn góðu lífi í íslensku máli. Landið er snævi þakið er stundum sagt. Enginn segir „snjó þakið“ þó það sé líklega ekki rangt. Hitt hljómar „bara“ betur.

Snjókorn falla … Hvert falla þau? Þyngdarlögmálið sér fyrir því. Þarf að taka það fram að þau falli til jarðar?

Tillaga: Á höfuðborgarsvæðinu féllu fyrstu snjókorn vetrarins í nótt þó ekki hafi þau verið mörg.

4.

 26 ára kona frá Úkraínu hefur verið ákærð fyrir að hafa starfað á kaffihúsinu Hlöðunni á Hvammstanga án þess að hafa til þess tilskilið atvinnuleyfi.“

Frétt á visir.is.                

Athugasemd: Jafnvel alvanir blaðamenn gera villur eins og við hin. Afar sjaldan byrja skrifarar setningu á tölustöfum. Íslenskukennarar mæla á móti því, svo gera enskukennarar, kennarar í blaðamennsku, skapandi skrifum og svo framvegis.

Af hverju? Vegna þess að tölustafur er annað tákn er skrifstafur. Á heilbrigðissviði Háskólans á Akureyri eru leiðbeiningar um ritgerðaskrif og þar stendur:

Ef setning hefst á tölustaf er hún skrifuð með bókstöfum. Dæmi: Tíu prósent einstaklinga …

Mjög auðvelt er að komast hjá því að byrja setningu á tölustöfum, annað hvort með því að umskrifa eða nota bókstafi.

Hvað kemur annars aldur konunnar í fréttinni málinu við?

Tillaga: Kona frá Úkraínu hefur verið ákærð fyrir að hafa starfað á kaffihúsinu Hlöðunni á Hvammstanga án þess að hafa til þess tilskilið atvinnuleyfi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband