Lá liggjandi, gera út af við útsýni og sækjast eftir örlögum

Orðlof

Nákvæmlega

Atviksorðið nákvæmlega hefur fram til þessa verið notað sem ákvæðisorð með sagnorðum eða öðrum atviksorðum, t.d.: Klukkan er nákvæmlega átta; Mér er nákvæmlega sama þótt hann komi ekki og Eitthvað er nákvæmlega eins og eitthvað annað.

Umsjónarmaður hefur veitt því athygli að í talmáli er nákvæmlega í tíma og ótíma notað eitt sér í merkingunni ´einmitt´, t.d.: Þeir [´drengirnir´] verða að sækja meira. Nákvæmlega! (3.9.07). Skyldi hér gæta áhrifa frá ensku exactly?

Morgunblaðið, Íslenskt mál, Jón G. Friðjónsson 114. þáttur. 3.11.2007.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Ei­rík­ur Tóm­as­dótt­ir, formaður hæfis­nefnd­ar, …

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Fljótfærnin er alveg hræðileg. Eiríkur Tómasson, þekktur lögmaður og formaður hæfisnefndar, er sagður Tómasdóttir. Svona finnst ekki með villuleitarforriti og allt bendir því til að enginn hafi lesið fréttina yfir, allir að flýta sér í kaffi. 

Fréttin birtist kl. 14:30 þann 24.7.2019. Nákvæmlega sólarhring síðar var ekki búið að leiðrétta hana. Eiríkur er enn sagður dóttir föður síns. 

Í hverju felast störf blaðamanna, ritstjórnarfulltrúa og ritstjórar á Mogganum ef enginn þeirra les vefsíðuna? Fyrir vikið fá villur að standa langtímum saman. Traust á fjölmiðli veltur talsvert á útliti, stafsetningu, málfari og ekki síst meðferð frétta og fréttaskýringum.

TillagaEi­rík­ur Tómasson, formaður hæfis­nefnd­ar, …

2.

„Sjúkraliðar ásamt lögreglu voru að hlúa að manni sem lá liggjandi á umferðareyjunni eftir slysið.“

Frétt á dv.is.      

Athugasemd: Óvíst er hvort blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina sé fljótfær eða óvanur skriftum. Hvort tveggja er slæmt en alltof algengt. Hvernig stendur á því að útgefandi og ritstjóri gera ekki neinar kröfur til blaðamanna? Geta allir sem kunna á tölvu orðið blaðamenn?

Tillaga: Sjúkraliðar og lögregla hlúðu að manni sem á umferðareyju eftir slysið.

3.

„Framkvæmdirnar myndu gera út af við útsýni íbúanna til Empire State byggingarinnar.“

Frétt á dv.is.       

Athugasemd: Líklega á blaðamaðurinn við að framkvæmdirnar loka fyrir útsýnið, það muni hverfa. Orðalagið að gera út af við hefur nokkrar merkingar, til dæmis að drepa í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Samanber þetta: Leikritið var svo leiðinlegt að það var að gera út af við mig.

Í tilvitnuninni úr fréttinni er orðalagið að gera út af við notað nokkuð kæruleysislega vegna þess að hægt er að orða hugsunina miklu betur.

Fréttin er þar að auki ónákvæm. Fyrirsögnin er þessi:

Greiða milljónir fyrir loftið yfir húsi nágrannans.

Vera má að þetta megi til sanns vegar færa en loft getur þýtt svo margt. Til dæmis andrúmsloft, efsta hæð í húsi eða ris, loftflötur í húsi (öndvert við gólf), vitleysa eða fánýti, mont, rýmið fyrir ofan jörðu, tóm og fleira.

Einnig segir í fréttinni:

Íbúarnir sem um ræðir búa í gömlu pakkhúsi …

Fleiri og fleiri blaðamenn skjóta alltof oft inn þessu þarflausa orðalagi „sem um ræðir“. Það skiptir engu fyrir lesandann, hefur hins vegar slæm áhrif á stílinn. 

Loks er það þetta hnoð:

Íbúarnir í pakkhúsinu buðu því eiganda hins hússins að kaupa loftið fyrir ofan húsið svo hann gæti ekki byggt neitt þar. Tilboðið var upp á 11 milljónir dollara og var samþykkt.

Þetta er nú meiri vitleysan og leiðinleg nástaða í þokkabót. Hér er tillaga:

Eigendur pakkhússins samþykktu ellefu milljón króna tilboð gegn því að þeir byggðu ekki aðra hæð.

Þetta er mun skárra og skilst betur. Þó verður að geta þess að DV getir út á furðulegar fyrirsagnir til að fá lestur. Á ensku er þetta kallað „click bait“ og vísar til músarsmells, það er að lesendur smelli á forvitnilega fyrirsögn til að fá að lesa meira. Svona músargildrur eru algengar í erlendum slúðurfjölmiðlum.

Á Urban dictionary segir:

The "bait" comes in many shapes and sizes, but it is usually intentionally misleading and/or crassly provocative. Clicking will inevitably cause disappointment. Clickbait is usually created for money. Er þetta ekki alveg rétt?

Við þetta er engu að bæta.

Tillaga: Framkvæmdirnar myndu loka fyrir útsýni íbúanna til Empire State byggingarinnar.

4.

„Óttast að sonur sinn sækist eftir skelfilegum örlögum.“

Fyrirsögn á visir.is.        

Athugasemd: Enginn talar svona. Hvað merkir orðið örlög? Líklega það sem fyrirfram er ákveðið eða eins og segir í orðabókinni, sköp, forlög, endalok. 

Fæstir sjá örlög sín fyrir, endalokin og enginn sækist eftir örlögum. Þau einfaldlega verða, gerast í fyllingu tímans.

Í sjálfu sér er ekki rangt að orða það þannig að einhver sækist eftir ákveðnum örlögum, en þannig er ekki talað. 

Stundum eru örlögin persónugerð: Örlögin virtust ekki hafa ætlað honum að flytja aftur heim í sveitina eins og dæmið hljóðar á malid.is.

Grímur Thomsen orti um Heimi þann sem flutti Áslaugu dóttur Sigurðar Fáfnisbana og Brynhildar Buðladóttur sem frá segir í Völsungasögu. Hann gerði hörpu og faldi Áslaugu í henni. Þetta fallega erindi er kvæðinu sem nefnist Heimir:

Örlaganornin afréð má
allt hennar göfga kyn,
og svo er komið, að hún á
mig einan fyrir vin.

Örlaganornirnar í norrænu goðafræðinni heita Urður, Verðandi og Skuld og merkja fortíð, nútíð og framtíð. Þær spinna öllum mönnum örlög, spá fyrir um lífshlaup. Sjá til dæmis nánar á Vísindavefnum.

Í grísk/rómversku goðafræðinnar voru líka örlaganornir en höfðu ekki alveg sömu verkefni en þær norrænu. Klóþú spann þráð lífsins. Kakkesis mældi lengd þráðsins. Atropos skar á lífsþráð þegar tími var kominn fyrir hvern og einn.

Hér er ekki úr vegi að nefna Örlagasymfóníuna („Schicksals“ á þýsku) stórkostlegu eftir Beethoven sem er þekktasta tónverk sem um getur. Óendanlega fögur og mikilfengleg tónlist. 

Tillaga: Óttast að sonur hans láti lífið á skelfilegan hátt.

Smælki

Nafnorðavæðing

Vegavinnuflokkur sýndi skjót viðbrögð.“ Fréttir í Ríkisútvarpinu kl. 18, 24.7.2019.

Tillaga: Vegavinnuflokkur brást skjótt við.

Sagnorð í framtíð

Veitur leggja nýja lögn neðanjarðar, undir Elliðaárdal og kvíslar Elliðaánna.“ Fréttir á visir.is. 

Athugasemd: Ekki er verið að vinna verkið heldur er ætlunin að ráðast í það.

Tillaga: Veitur munu leggja nýja lögn neðanjarðar … (ætlar að leggja …)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband