Púkk, samkomulag við sjálfan sig og brot reisna
26.6.2019 | 10:32
Orðlof og annað
Tunga um tönn eða höfuð
Einhverjum vefst tunga um tönn, einhverjum verður ógreitt um svör, verður svarafátt [ ] Orðatiltækið er kunnugt frá fyrri hluta 19. aldar:
Honum má sjálfum ekki vefjast tuga um tennur.
Sennilega er að fyrirmyndin sé hið forna orðatiltæki einhverjum vefst tunga um höfuð, það er tungan (lausmælgi) verður einhverjum að bana.
Mergur málsins, Jón G. Friðjónsson, blaðsíða 661 (hér örlítið breytt).
Mannsins tunga verður honum oft að falli (Síraksbók 5, 15, Gamla testamentið)) [ ]
Svipaðan boðskap er víða að finna í fornu máli, til dæmis Hávamálum: tunga er höfuð bani, sbr. Einnig Njáls sögu:
gæti hann, að honum vefjist eigi tungan um höfuð
í merkingunni verði honum að bana.
Tunga er hér tákn þess sem talað er, orða eða ummæla manns, og hugsunin er sú að orð manna geti orði þeim að falli eða bana. Ekki er líklegt að orðskviðurinn eigi rætur sínar í Síraksbók, gegn því mæla fornmálsdæmin, en svipaða hugsun er að finna í Matteusarguðspjalli:
Af orðum þínum skaltu réttlátur verða, og af orðum þínum muntu meiddur verða
[ ] sbr. einnig:
Gæt þú vandlega tungu þinnar því að það er virkta ráð fyrir því að tunga þín má sæma þig og tunga þín má dæma þig.
Rætur málsins, Jón G. Friðjónsson, blaðsíðu 325 (hér örlítið breytt).
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Finnur hefur vissulega gert mistök eins og ungra varnarmanna er von og vísa en
Frétt á á blaðsíðu 10 í sporti Fréttablaðsins 25.6.2019.
Athugasemd: Með því að segja einhver geri eins og hans er eða var von og vísa er átt við að aðrir eigi vísa von frá honum. Orðalagið er jákvætt, þvert á merkinguna í fréttinni.
Í bókinni Mergur málsins segir orðtakið:
þess er að vænta að einhver geri eitthvað (jákvætt) að venju. [ ] Vísa virðist merkja ´venja´, samanber svo sem vísa og vani hefur verið til [ ]
Engin vonar að ungir varnarmenn geri mistök en þeir eiga það hins vegar til ekki síður en aðrir leikmenn. Hér er von lykilorðið.
Um annan leikmann segir í sömu grein:
Bjarki Steinn var einn mest ógnandi leikmaður Skagaliðsins
Hér hefði verið einfaldara að segja
Bjarki Steinn ógnaði mótherjum sínum meir en aðrir leikmenn Skagaliðsins
Betur færi hins vegar á því að segja að leikmaðurinn hafi sókndjarfur og erfður fyrir andstæðinga liðsins en að hann hafi verið ógnandi. Hér er orðið ekki gegnsætt. Ég man til dæmis eftir leikmanni sem var svo mikill tuddi að sumir fengu margir sár og marbletti eftir fótboltaleik gegn honum. Er ekki slíkur leikamaður ógnandi?
Um annan leikmann segir í grein Fréttablaðsins að hann hafi verið rulluspilari. Skilur einhver það orð? Ennfremur segir svo:
Hann hefur svo brotið sér leið inn í byrjunarliðið
Þetta er ekki rangt orðalag en óvenjulegt. Engu líkar en hann hafi komist í liðið á ólöglegan hátt eða með frekju. Skárra væri að segja að hann hafi komist í byrjunarliðið vegna góðrar frammistöðu sinnar.
Um annan segir:
Þá hefur hann lagt þrjú mörk í púkkið hjá Fylkisliðinu
Um nafnorðið púkk segir á malid.is:
púkk h. (19. öld) sérstakt spil. To. úr d. puk [ ]
Sem sagt, tökuorð úr dönsku en hefur lifað hér frá á 19. öld þrátt fyrir að fáir þekki spilið núorðið. Hefði ekki verið einfaldara að orða þetta á þann veg að leikmaðurinn hafi skorað þrjú mörk fyrir liði. Punktur.
Tillaga: Finnur hefur vissulega gert mistök sem ekki er óalgengt hjá ungum varnarmönnum, en
2.
Ég gerði samkomulag við sjálfan mig; ég ætla að tolla í tíu tíma. Ég ætla ekki að gefast upp.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Eðli máls vegna er ekki hægt að gera samkomulag við sjálfan sig. Minnst tvo þarf til að gera samkomulag. Auvðitað gerðist ekkert annað en að maðurinn ákvað að gera þetta. Einfaldara er það nú ekki.
Svona kjánatal er líkt því sem oft sést í fjölmiðlum: að standa með sjálfum sér. Það er gjörsamlega útilokað vegna þess að hver maður stendur einn, enginn einn er tveir.
Svo er það annað mál að flestir geta auðveldlega farið hjá sér ...
Tillaga: Ég ákvað að tolla í tíu tíma. Ég ætla ekki að gefast upp.
3.
Alls eiga 21 borg á Indlandi það á hættu að missa allt grunnvatn fyrir 2020
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Þetta er ábyggilega fljótfærnisvilla en mjög slæmt að láta hana birtast.
Einn í tölunni tuttugu og einn er auðsjáanlega eintöluorð og því á tuttugu og ein borg í vanda. Hærri tala en einn er í fleirtölu. Væru borgirnar tuttugu og tvær eða fleiri eiga (ættu) þær í sama vanda.
Fjölmiðlar mega ekki birta villur. Til þess eru villuleitarforrit í tölvum blaðamanna. Þær eru þó heimskar sem þýðir að blaðmenn verða að lesa fréttir sína yfir fyrir birtingu. Tölvuforrit eru samt varsöm, engin gerði athugasemd gera þótt þarna stæði Tuttugu og tvær borg eða álíka rétt skrifað bull.
Betur fer á því að skrifa tölur með bókstöfum en tölustöfum, að minnsta kosti lágar tölur.
Stafsetninga- og málfarsvillur í fjölmiðlum er grafalvarlegt mál, svipað og skemmdur matur. Hvort tveggja hefur afar slæmar afleiðingar.
Tillaga: Alls á tuttugu og ein borg á Indlandi það á hættu að missa allt grunnvatn fyrir árið 2020
4.
fyrir meiriháttar skattalagabrot vegna reksturs ferðaskrifstofufyrirtækisins Ævintýrareisna.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hér er nafnið Ævintýrareisur rangt fallbeygt, raunar vitlaust skrifað því reisna er ekki til í neinu eignarfalli nafnorðsins.
Reisn er nafnorð í kvenkyni og er eintöluorð, er ekki til í fleirtölu.
Orðið reisur er fallbeygt svona í fleirtölu: reisur, reisur, reisum, reisa. Orðið er tökuorð úr dönsku, sama og rejse, ferðast. Ekki verra fyrir það en er núorðið afar lítið notað í íslensku.
Sama beygingarvilla er í frétt hjá mbl.is. Ég fletti því upp dómnum hjá Héraðsdómi Reykjaness og komst að því að hin ranga fallbeyging er ekki í honum.
Þegar ég er í vafa um fallbeygingu orða leita ég á malid.is og þar fæst alltaf svar á vef sem nefnist Beygingarlýsing íslensks nútímamáls. Inn á þennan vef ættu blaðamenn að fara oft á dag séu þeir í vafa um beygingu. Lykilspurningin er þó þessi: Hvað eiga þeir að gera sem aldrei eru í vafa um fall nafnorða en skrifa þau samt vitlaust?
Tillaga: fyrir meiriháttar skattalagabrot vegna reksturs ferðaskrifstofufyrirtækisins Ævintýrareisa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.